16.10.1967
Neðri deild: 3. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í C-deild Alþingistíðinda. (2281)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Ef hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, væri kaupfélagsstjóri, en ekki leiðtogi stjórnarandstöðuflokks, og ef velta þess kaupfélags, sem hann stýrði, hefði í fyrra verið 60 millj. kr., en mundi í ár lækka niður í 45 millj. kr., mundi þá kaupfélagsstjórinn ekki telja ástæðu til neinna sérstakra viðbragða? Mundi hann ekki telja ástæðu til þess að grípa í taumana? Ég dreg það ekki í efa, að Eysteinn Jónsson mundi vera mjög samvizkusamur kaupfélagsstjóri, og þess vegna dreg ég ekki heldur í efa, að hann mundi auðvitað telja slík umskipti, slíka stórbreytingu á rekstraraðstöðu kaupfélagsins, ástæðu til þess að endurskoða allan rekstrargrundvöll þess.

Ef hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, væri forstjóri bæjarútgerðar, en ekki fyrsti frambjóðandi flokksins í höfuðstað landsins, og ef velta bæjarútgerðarinnar hefði í fyrra verið 60 millj., en félli í ár niður í 45 millj., mundi hann þá í raun og veru ekki telja ástæðu til nokkurra aðgerða? Ég efast ekki um, að hv. þm. Magnús Kjartansson mundi verða harðduglegur atvinnurekandi eins og formaður þingflokks hans, og þess vegna efast ég ekki heldur um, að hann mundi sannarlega telja ástæðu til róttækra aðgerða vegna slíkra gagngerðra umskipta. En þetta er það einmitt, sem hefur verið að gerast í sjávarútvegi Íslendinga frá því í fyrra og til ársins í ár. Það, sem þar hefur verið að gerast, er aðeins í hundraðfalt stærri stíl en tölurnar, sem ég nefndi.

Útflutningsverðmæti íslenzks sjávarútvegs var í fyrra um það bil 6000 millj. kr. Varlegar áætlanir, skynsamlegar áætlanir benda til þess, að það muni í ár verða 4500 millj. kr., m. ö. o.: veita íslenzks sjávarútvegs, tekjur íslenzks sjávarútvegs muni í ár verða um 1500 millj. kr. lægri en þær voru í fyrra. Þarf nokkurn skynsaman og ábyrgan mann að undra, að þeir, sem ábyrgð bera á stjórn landsins, telji ástæðu til að grípa til gagngerðra ráðstafana? Ríkisstj. vill hegða sér eins og hún er viss um, að Eysteinn Jónsson mundi hegða sér sem kaupfélagsstjóri og Magnús Kjartansson eða Lúðvík Jósefsson sem forstjóri bæjarútgerðar, og grípa strax eða eins fljótt og unnt er til nauðsynlegra ráðstafana.

Ég veit líka, að þeir hv. þm. Eysteinn Jónsson og Magnús Kjartansson eru mjög forsjálir og ábyrgir heimilisfeður. Ef ég nefni aðeins sem reikningsdæmi til þess að taka jafna og þægilega tölu, að þeir hafi í fyrra haft 300 þús. kr. í árstekjur, en svo lækki þessar tekjur í ár um 12–15 þús. kr., þ. e. meira en 1000 kr. á mánuði, mundu þeir í raun og veru halda útgjöldum sínum óbreyttum? Mundu þeir þá safna skuldum? Mundu þeir sem heimilisfeður vilja lifa um efni fram? Það mikið þykist ég þekkja til þeirra, að þessu leyfi ég mér að svara neitandi. Þeir mundu ekki í einkalífi sínu kjósa sér það hlutskipti, velja þá braut. En þetta er einmitt það, sem hefur gerzt í þjóðarbúskap Íslendinga. Þetta er það, sem gerzt hefur á Íslandi og snertir alla Íslendinga, alla einstaklinga íslenzks þjóðfélags. Allt bendir til þess, að kaupmáttur þjóðartekna muni í ár verða a.m.k. 4–5% minni en hann var í fyrra. Tekjur allra einstaklinga þjóðfélagsins munu í ár verða 4–5% minni en þær voru í fyrra, því miður, en þetta eru staðreyndir. Og þær hljóta að snerta hvern einasta einstakling í landinu.

Ég hef sannarlega ekki minnstu tilhneigingu til að draga fjöður yfir að það, sem nú er að gerast, hlýtur að gerast, verður óhjákvæmilega að gerast, er nokkur kjaraskerðing hjá öllum almenningi, hjá allri íslenzku þjóðinni, er óhjákvæmileg. Hún er afleiðing þeirra gífurlegu breytinga, sem orðið hafa síðan í fyrra á verðlagi á útflutningsvörum landsmanna, og þeirri aflatregðu, sem því miður hefur átt sér stað á þessu ári. Ég teldi alveg rangt að gera minnstu tilraun til þess að draga fjöður yfir, að þessi breyting er svo mikil og hún hefur verið svo snögg, að óhjákvæmilegt er, að hún snerti hvert einasta heimili á landinu. En þeirri spurningu má þó varpa fram, hvort þessi kjaraskerðing, sem nú er að eiga sér stað, sé óbærileg, hvort kjör íslenzks almennings séu þannig, að hann geti, þó að kjaraskerðingin sé mikil, í raun og veru borið hana og samt sem áður haft sómasamleg eða sæmileg lífskjör á eftir. Til þess að mynda sér skoðun á þessu, rökstudda skoðun, er nauðsynlegt og eina leiðin, sem til þess er fær, er að athuga breytingar á kaupmætti tímakaups einhverra ákveðinna launastétta. Það eru til vandaðir útreikningar á breytingum á kaupmætti tímakaups verkamanna og iðnaðarmanna síðan 1960. Ef kaupmáttur tímakaups verkamanna og iðnaðarmanna 1960 er talinn 100, — það er rétt að láta þess getið, að þær tölur, sem ég nefni um kaupmátt tímakaupsins, eru þannig fundnar, að miðað er við gömlu vísitöluna til áramóta 1967, en nýju vísitöluna á eftir, og er þetta tvímælalaust skynsamlegasta reikningsaðferðin, sem hægt er að hafa, — ef kaupmáttur tímakaups verkamanna og iðnaðarmanna 1960 er talinn 100, þá hafði kaupmáttur tímakaups þessara stétta 1965 hækkað upp í 116, 16% meiri. 1966 hafði kaupmátturinn hækkað upp í 125, var hann 25% meiri en hann var 1960. Og 1. sept. s.l., þ. e. áður en þessar verðhækkanir komu til skjalanna, var kaupmáttur tímakaups verkamanna og iðnaðarmanna kominn upp í 128. 1. sept. s.l. var með öðrum orðum kaupmáttur tímakaups verkamanna og iðnaðarmanna 28% hærri en hann var 1960. Ég er að tala um kaupmátt tímakaupsins. Það er önnur saga, sem gjarnan má líka taka tillit til og ræða um, það er alveg rétt. Eftir að hækkanirnar eru um garð gengnar, allar þær hækkanir, sem ráð er fyrir gert í efnahagsfrv. ríkisstj., lækkar kaupmáttur tímakaups verkamanna og iðnaðarmanna niður í 122.5 stig, það lækkar m. ö. o. um 4–5%. Í gr. frv. er þessi lækkun nákvæmlega talin 4,38%. Það er rétt, ég segi það enn og undirstrika, að það þarf að leggja áherzlu á það, geri enga tilraun til að skjóta mér undan sannleikanum um það efni, að kaupmáttur tímakaupsins lækkar við þessar ráðstafanir um 4–5%. En eftir sem áður er vísitala tímakaups 122,5 miðað við 100 1960. Hún er m. ö. o. 22.5% hærri en hún var 1960. (Gripið fram í). Það er vegið tímakaup. Miðað við árið 1966, árið í fyrra, þá var vísitala tímakaupsins 125, verður hún eftir hækkanirnar aðeins lægri en hún var að meðaltali árið 1968, lífskjörin hjá verkamönnum og iðnaðarmönnum fara aðeins niður fyrir það, sem þau voru 1966. En 1965 var vísitalan 116. Eftir kjaraskerðinguna, eftir hækkanirnar, verður kaupmáttur tímakaupa verkamanna og iðnaðarmanna mun hærri en kaupmátturinn var fyrir 2 árum eða 1965. Ég segi það enn og aftur, að ég geri enga tilraun til þess að gera minna úr þeirri kjaraskerðingu, sem á sér stað, en rétt er og ástæða er til, en vil samt benda á, að eftir kjaraskerðinguna verður kaupmáttur tímakaupsins næstum eins hár og hann var að meðaltali 1966 og mun hærri en hann var 1965. (Gripið fram í.) Nú kann ég ekki að svara þessu, það liggja á borðinu hjá mér tölurnar, en ekki á blaðinu hjá mér. Það er mjög auðvelt að svara því.

Á annað atriði langar mig til að benda í þessu sambandi, og það er, hver breyting hefur orðið á hlutdeild launþega í þjóðartekjunum á undanförnum árum. Jafnvel þótt kaupmáttur tímakaupsins væri mun hærri eftir kjaraskerðinguna en fyrir 2 árum, hvað þá fyrir 6 árum, þá mætti segja, að kjaraskerðing nú væri ástæðulaus, óeðlileg, jafnvel ranglát, ef launþegar hefðu ekki fengið fulla hlutdeild í aukningu þjóðarteknanna á undanförnum árum eða m. ö. o. launþegar hefðu verið sniðgengnir við skiptingu þjóðarteknanna á undanförnum árum. Þá mætti með miklum rökum, með öllum rétti segja, að ástæðulaust væri núna, að nokkur kjaraskerðing yrði hjá þeim, þá ættu að vera til breið bök, sem gætu borið þann tekjumissi, sem sjávarútvegurinn hefur orðið fyrir á þessu ári. En hverjar eru staðreyndirnar um þetta efni? Það eru til órækar skýrslur, óvefengdar skýrslur um breytingu atvinnu- og ráðstöfunartekna helztu launastétta á árunum 1960–65. Vegna þess, að hér er um vandmeðfarna útreikninga að ræða, ýmis álitamál, hvernig reikna beri, skal ég ekki halda mér við neina ákveðna tölu í þessum efnum, heldur nefna hámark og lágmark, ýmsa möguleika, sem geta komið til greina. Engin aðferð, sem þarna hefur komið til greina, hefur sýnt lægri útkomu, minni hækkun á atvinnu- og ráðstöfunartekjum launastétta en 33%. Sú aðferð, sem sýnir minnsta hækkun á ráðstöfunartekjum og atvinnutekjum helztu launastéttanna, sýnir 33% hækkun á 5 ára tímabilinu 1960–65, sú aðferð, sem sýnir mesta hækkun á þeim, sýnir 44% hækkun. Að meðaltali á ári er þetta frá í lægsta lagi 5.9% í hæsta lagi 7.6% hækkun á ári. Ég skal alveg láta liggja á milli hluta, hvor talan er réttari eða hvar á þessu bili sannleikurinn er. Það skiptir í þessu sambandi, sem ég hér tala um, ekki máli. En raunverulegar þjóðartekjur, — um það er ekki ágreiningur meðal sérfróðra manna, hvernig þær skuli reikna, — þær hafa á þessu sama tímabili aukizt um 32%. Þær jukust á 5 ára tímabilinu 1960–65 um 32%, eða um 5.7% á ári. M. ö. o.: lægsta reikningsaðferðin, sú aðferð, sem gefur launastéttum lægsta tekjuhækkun á þessu tímabili, sýnir örlítið meiri tekjuhækkun en varð á þjóðartekjunum. Sú, sem sýnir mesta tekjuhækkun, sýnir næstum þriðjungi meira eða 12% meiri hækkun á tekjum launastéttanna en urðu á þjóðartekjunum. Þetta tel ég taka af öll tvímæli um það, að launþegar hafa ekki aðeins fengið fulla hlutdeild í vexti þjóðarteknanna á undanförnum árum, heldur nokkru meira en það, hversu miklu meira skal ég ósagt láta.

Þetta eru þær gleggstu og beztu tölur, sem í þessu efni eru til, og þær tala skýru máli. Um það má svo á hinn bóginn auðvitað deila, hvort rétt hafi verið á undanförnum árum að deila allri aukningu þjóðarteknanna út á meðal þjóðarinnar, út á meðal allra launastétta, eins og gert hefur verið, en láta ekki sjóði safnast fyrir hjá atvinnufyrirtækjum af hinni miklu aukningu þjóðarteknanna. En á það vil ég benda, að ef framkvæmdin hefði ekki orðið þessi, hefði orðið mikil óánægja, sérstaklega hjá verkalýðshreyfingunni og samtökum launamanna yfir höfuð að tala. Og sízt situr það auðvitað á hv. stjórnarandstæðingum að deila á ríkisstj. fyrir það, að þessari stefnu skuli hafa verið fylgt. Hún er einmitt í fullkomnu samræmi við það, sem þeir sjálfir telja nú, að hefði átt að gera. En tvennt verður ekki gert fyrir sömu peningana. Tvennt verður ekki gert við sama tekjuaukann. Annaðhvort lendir hann í vasa launþeganna sem auknar tekjur þeirra eða þá að hann lendir í vasa atvinnufyrirtækja sem auknir sjóðir þeirra. Fyrri kosturinn hefur verið valinn hér á landi. Hinum gífurlega tekjuauka þjóðarbúsins á undanförnum 6–7 árum hefur verið varið þannig, að hann hefur komið fram sem tekjuauki launastéttanna, eins og tölurnar, sem ég nefndi, sýndu. Þess vegna hefur hann ekki getað komið fram sem auknir sjóðir atvinnufyrirtækja. Þess vegna eru ekki til þau breiðu bök, sem nú er kallað, eftir til þess að leggja byrðarnar á vegna tekjumissis sjávarútvegsins. Þess vegna stendur íslenzkur atvinnurekstur og þá sérstaklega íslenzkir útflutningsatvinnuvegir ekki svo vel að vígi, að þeir geti tekið á sínar herðar þann tekjumissi, sem verðfallið og aflatregðan hefur haft í för með sér.

Ríkisstj. gerir það sannarlega ekki að gamni sínu að leggja jafnþungbærar álögur á þjóðina og gert er og verið er að gera um þessar mundir. Hún gerir sér algerlega ljóst, að öllum almenningi er þetta ekki léttbært. En áður en ríkisstj. tók þessar ákvarðanir fyrir sitt leyti, hafði hún athugað mjög gaumgæfilega og mjög vandlega allar hugsanlegar leiðir til þess að reyna að ráða fram úr þeim vanda, sem við er að etja á þessu stigi málsins, sem sagt að tryggja það, að ekki verði 750 millj. kr. halli á ríkisbúskapnum á næsta ári. Það komu sannarlega ýmsar leiðir til greina í þessu efni og koma enn, — leiðir, sem ríkisstj. athugaði mjög vandlega og þrautræddi við stuðningsflokka sína á hinu háa Alþingi.

Fyrsta leiðin, sem hefði getað komið til greina og sannarlega var hugsað mjög rækilega um, var að hækka söluskattinn. Það hefði auðvitað verið hægt að jafna allan væntanlegan halla á ríkisbúskapnum á næsta ári eingöngu með þeirri einföldu ráðstöfun að hækka söluskattinn sem því svarar. Ástæðan til þess, að ríkisstj. valdi þann kost ekki, var sú, að afleiðing þess hefði orðið almenn verðhækkun í landinu á svo að segja hverju einasta verðlagi, sem til er. Þær skipta tugþúsundum verðupphæðirnar, sem mundi þurfa að breyta, ef söluskatturinn væri hækkaður, og það er ekki á mannlegu valdi að koma í veg fyrir, þegar slík hækkun á tugþúsundum verðupphæða verður, að tryggja, að aldrei verði meiri verðhækkun en söluskattshækkunin ein gaf nákvæmlega tilefni til. Við sem erum kunnugir meðferð verðlagsmálanna, vitum vel, að hjá verðlagsnefnd hafa vikum, mánuðum, kannske árum saman legið beiðnir um ýmsar verðhækkanir, sem ekki hefur verið talin ástæða til að sinna. Ef söluskattur hækkaði verulega, mundu allar slíkar gamlar óskir, gamlar kröfur verða teknar upp að nýju, og erfitt að standa gegn þeim, og jafnvel þó að þeim yrði neitað, er erfitt að tryggja, að þeir, sem verðið ákveða, taki sér ekki það bessaleyfi að hækka verðið meira en söluskatturinn gæfi tilefni til. Ef söluskatturinn er hins vegar óbreyttur og meginstefnan er sú, að verðlag almennt í landinu skuli vera óbreytt, þó að það þurfi að hækka á ákveðnum, afmörkuðum tegundum vöru og þjónustu, vita menn, hvert verðið var, þegar það hefur verið óbreytt í langan tíma, og geta sjálfir fylgzt með því, að verðið hækki ekki. Við óttuðumst sem sagt, að í kjölfar mikilla hækkana á söluskattinum mundi fylgja almenn verðhækkunaralda, sem mundi ná yfir allt efnahagskerfið og jafnvel vara í marga mánuði, með því mundi verðbólguhjólið fara að snúast aftur. Þetta vildum við forðast. Töldum við sérstaklega launþegum mikils vert, að komið yrði í veg fyrir þetta.

Önnur aðferð, sem hægt hefði verið að grípa til að einhverju eða öllu leyti, hefði auðvitað verið sú að lækka mjög verulega nokkra stærstu rekstrarliði fjárlaganna. Allir vita, að stærstu rekstrarliðir fjárlaganna eru útgjöld til trygginga og útgjöld til skólamála. Við töldum hvorugt koma til greina. Við vildum ekki skerða bætur trygginganna, við vildum ekki skerða framlög til skólamála, en þetta eru langstærstu rekstrarliðir fjárlaganna. Þriðji stærsti liður fjárlaganna er niðurgreiðslurnar, og niðurstaðan varð sú að lækka þær mjög verulega, um yfir 400 millj. kr. Sú lækkun, sem ráðgerð var, er þó ekki meiri en svo, að niðurgreiðslurnar lækka niður í það, sem þær voru 1. ágúst 1966. Þeir menn, sem núna tala um það sem óbærilega byrði, hversu mikið landbúnaðarvörurnar hækka vegna lækkunar niðurgreiðslnanna, hefðu einhvern tíma átt að nefna það á undanförnum 12 mánuðum, að það væri mikil kjarabót, hversu mikið landbúnaðarvörurnar lækkuðu þá vegna hækkunar niðurgreiðslnanna. Það hef ég aldrei lesið neitt um, hvorki í Tímanum né Þjóðviljanum, og ég hygg, að óhætt sé að leita þar alla daga þess árs, sem liðið er, það muni aldrei finnast neitt orð um það. Það, sem gerist núna, er þó ekki annað en það, að verðið á landbúnaðarvörunum hækkar um nákvæmlega jafnmikið og það lækkaði á undanförnu ári. (Gripið fram í). Breytingin til hækkunar núna er sú sama og breytingin til lækkunar hafði orðið á undanförnum 12 mánuðum. Þó að ég vilji enn undirstrika, að ég geri ekki tilraun til að gera of lítið úr áhrifum þessarar verðhækkunar, er þó rétt að benda á í þessu sambandi, að ef hún væri alveg óbærileg, þá hefði kjarabótin af verðlækkuninni líka átt að vera alveg stórkostleg, — alveg stórkostleg, — en þá þótti hún varla umtalsverð, verðlækkunin, en nú er verðhækkunin, jafnmikil, talin svo að segja alveg óbærileg.

Fjórða og síðasta leiðin, sem hægt hefði verið að grípa til, var að hagnýta ýmsa nýja tekjustofna, sem þó yllu ekki almennri verðhækkun í landinu, og þetta var það á hinu leitinu, sem gert er nú skv. stefnu ríkisstj. Það er ákveðin hækkun á áfengi og tóbaki, það eru lögð á ferðagjöld, það er hækkun á eignarskatti og þar fram eftir götunum, sem búið er að lesa og ræða vandlega. M. ö. o.: það, sem gert er, er annars vegar lækkun niðurgreiðslnanna, sem veldur að vísu mikilli verðhækkun, en á mjög takmörkuðu sviði, og hins vegar hagnýting nýrra tekjustofna, sem ekki valda neinni almennri verðhækkun og hrinda því ekki verðbólguhjólinu af stað að nýju. Þetta tvennt er það, sem ríkisstj. hefur viljað gera og leggur til að gert verði. Og ég vil undirstrika, að þetta hefur hún gert að lokinni mjög vandlegri umhugsun. Ef þessar umr. hér og athugun Alþingis kynnu að leiða í ljós, að menn vildu heldur hækkun söluskattsins eða lækkun rekstrargjalda, eins og tryggingargjalda og skólakostnaðar, sem mér þykir afar ósennilegt, er ríkisstj. að sjálfsögðu reiðubúin til viðræðu um þessi efni. Hún vill gjarnan hlusta á allar skynsamlegar till., sem fram kunna að koma um þessi mál. En athugun hennar sjálfrar leiddi til þess, að þetta tvennt, sem ég lýsti, væri skynsamlegasta leiðin.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, undraðist það mjög, að áframhald stjórnarsamvinnu við Sjálfstfl. og þessar ráðstafanir skyldu vera samþykktar samhljóða í miðstjórn Alþfl. En þetta var nú engu að síður svo. Þessar ráðstafanir voru samþ. mótatkvæðalaust, og það er ekki nokkur vafi á því, að ástæðan til þess var sú, að það hafði verið gerð mjög rækileg grein fyrir þeim leiðum, sem til greina kæmu til þess að jafna væntanlegan halla á fjárlögum næsta árs. Það var engin rödd uppi um það, að það væri hægt að reka þjóðarbúskapinn með 750 millj. kr. halla á næsta ári. Ég hef heldur enga till. séð um það frá hæstv. stjórnarandstæðingum, hvernig þetta eigi að koma. Það var skylda okkar, sem erum í forustu Alþfl., að gera miðstjórninni grein fyrir því, hvaða leiðir kæmu til greina. Það gerðum við mjög ýtarlega, og að loknum ýtarlegum umr. og vandlegri athugun komst miðstjórn Alþfl. mótatkvæðalaust að þeirri niðurstöðu, að það, sem ríkisstj. styngi upp á, þ. e. sumpart lækkun niðurgreiðslnanna og sumpart hagnýting nýrra tekjustofna, væri skynsamlegasta leiðin út úr þessum vanda, sem við væri að etja. En ég efast ekki um, að miðstjórn Alþfl. væri það kært að fá til umr. og athugunar till. annarra aðila um aðrar leiðir í þessum efnum. Hún væri jafnfús til að ræða þær till., þær hugmyndir, eins og þær, sem við, ráðh. flokksins, lögðum fyrir hana á sínum tíma og hún féllst að lokinni vandlegri athugun algerlega og mótatkvæðalaust á. Hitt er svo ekki nema mannlegt, að hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni þyki það mjög súrt í broti, að það skuli koma fyrir í öðrum flokki, að afstaða sé tekin í stóru máli mótatkvæðalaust. Mér þykir það ekkert undarlegt, og ég get vel skilið hans persónulegu tilfinningar í því sambandi, eina og ástandið er í Alþb, sem ekki er aðeins tvískipt, heldur a.m.k. þrískipt. Það hefur verið minnt á lýsingar formanns Alþb. á hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni hér fyrir skömmu á hinu háa Alþ., og í morgun gat allur almenningur lesið lýsingu fyrrv. formanns Sósfl., Einars Olgeirssonar, væntanlega rétta lýsingu á Hannibal Valdimarssyni. Það er enginn vandi að fletta upp lýsingum annars hvors eða beggja þessara aðila hvors á öðrum, og þær eru með þeim hætti, að ég get afskaplega vel skilið, að það veki sérstaka athygli hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, þegar Alþfl. gerir einróma ályktun.

Að síðustu vil ég endurtaka, að sú stefna, sem ríkisstj. hefur markað í þessum till. sínum, er mörkuð að mjög vel yfirveguðu ráði. En engu að síður er það svo, að við gerum okkur allir algerlega ljóst, að ekki er víst, að við höfum fundið endanlega púðrið, að ekki er víst, að það, sem við höfum lagt til hér, sé bókstaflega það eina rétta í málinu. Og þess vegna vil ég taka undir þá yfirlýsingu hæstv. forsrh. hér í gær, að að sjálfsögðu er ríkisstj. reiðubúin til þess að ræða við stjórnarandstöðuna og þá alveg sérstaklega við launþegasamtökin í landinu um það, hvort stjórnarandstaðan, hvort launþegasamtökin telja einhverjar aðrar leiðir frekar koma til greina og þá hverjar þær leiðir eru. Hér er um svo alvarleg tímamót að ræða í íslenzkum efnahagsmálum, hér hafa gerzt svo alvarlegir hlutir, að það er sjálfsagt að taka á þeim af fyllstu alvöru og af fyllstu ábyrgðartilfinningu, og það yrði að sjálfsögðu ekkert gert, nema því aðeins að allar leiðir hafi verið þrautkannaðar til þess að gera það, sem þjóðarheildinni er fyrir beztu, og það vill ríkisstj. gera.