16.10.1967
Neðri deild: 3. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (2283)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Kristján Thorlacius:

Herra forseti. Með þessu frv. og öðrum aðgerðum ríkisstj. eru lagðar á landsmenn 750 millj. kr., og eru álögurnar rökstuddar m.a. með óhagstæðu árferði og verðlækkunum á útflutningsafurðum á þessu ári, og frv. sjálft heitir „Frv. til l. um efnahagsaðgerðir“. En hér er ekki um nýjar efnahagsaðgerðir að ræða, heldur eru landsmenn nú beðnir að taka upp budduna og greiða 750 millj. kr. á ári vegna þeirra aðgerða, sem ákveðnar voru og komu til framkvæmda fyrir tæpu ári. Þessar efnahagsaðgerðir hafa síðan í fyrrahaust verið greiddar af ríkissjóði. Þá strax var vitað og vakin athygli á, að ríkissjóður mundi ekki geta staðið undir þessum aðgerðum áfram, án þess að aflað væri nýrra tekna til þess, þótt ríkisstj. vildi dylja það. Það er því ekki rétt, að sú mikla kjaraskerðing, sem frv. gerir ráð fyrir, orsakist af þeim áföllum, sem íslenzkur þjóðarbúskapur hefur orðið fyrir á þessu ári vegna aflabrests á vetrarvertíð og öðrum áföllum í sjávarútveginum. Það, sem hér er að gerast, er það eitt, að verið er að velta greiðslu á ársgömlum ráðstöfunum af ríkissjóði yfir á almenning. Þurfi nýjar efnahagsráðstafanir vegna áfallanna í sumar, verða þær áreiðanlega gerðar síðar. Það kom líka glöggt fram í ræðu hæstv. forsrh., að hann hefur sterkan fyrirvara um, að svo geti farið, að það frv., sem hér liggur fyrir, og þær ráðstafanir, sem jafnhliða hafa verið gerðar, leysi ekki þá erfiðleika, sem íslenzk efnahagsmál eiga við að etja. Hann sagði, að vel mætti vera, að frekari athugun gerði meiri ráðstafanir nauðsynlegar. Hæstv. forsrh. upplýsti einnig, að viðræður færu fram milli ríkisstj. og fulltrúa Landssambands ísl. útvegsmanna. Það er einnig á allra vitorði, að eftir nokkra daga koma eigendur hraðfrystihúsanna saman á fund, og heyrzt hefur, að forustumenn í samtökum hraðfrystihúseigenda hafi látið það boð út ganga til hraðfrystihúsanna, að fulltrúar á þessum fundi verði við því búnir að taka ákvörðun um stöðvun á rekstri frystihúsanna, ef ekki fáist að þeirra dómi viðhlítandi lausn á rekstrarerfiðleikum frystihúsanna. Ef að vanda lætur, má einnig búast við, að útgerðarmenn stöðvi fiskiskipaflotann. Það hefur ekki farið fram hjá neinum í seinni tíð, að það eru ekki bara verkalýðsfélögin, sem beita verkföllum. Þvert á móti eru það atvinnurekendur, sem beita nú orðið stöðvun atvinnutækjanna til þess að knýja ríkisvaldið inn á sínar kröfur um skiptingu þjóðarteknanna, og finnst mér ríkisstj. vel megi taka það með í reikninginn nú, þegar hún undirbýr till. sínar um ráðstafanir í efnahagsmálum. Hvernig stendur á því, að þessi vandamál eru ekki tekin til athugunar og úrlausnar í einu lagi, þegar fyrir fram er vitað, að meiri vandi en hér er um talað er innan sjónmáls? Ég vil taka undir það, sem hv. 1. þm. Austf. sagði í sinni ræðu, að ríkisstj. á að draga þetta frv. til baka, því að það virðist einungis skapa ný vandamál.

Rökstuðningur ríkisstj. fyrir hinum nýju og þungbæru álögum á landsmenn er því fullkomin blekking, og veit hvert mannsbarn, hvernig á þessu stendur. Hér er á ferðinni hefðbundinn feluleikur núverandi stjórnarflokka í sambandi við undirbúning alþingiskosninga. Ríkisstj. hefur ákveðið, að lækka skuli niðurgreiðslur á helztu neyzluvörum landsmanna niður í það, sem var í ágústmánuði 1966. Þetta á að valda 410 millj. kr. lækkun á niðurgreiðslum úr ríkissjóði. Það var ekki beðið með að lækka niðurgreiðslur, þangað til það frv., sem hér liggur fyrir, yrði rætt og afgreitt hér á Alþ., heldur er þetta þegar komið til framkvæmda og margar af helztu neyzluvörum almennings hafa nú þegar stórhækkað í verði. Iðgjöld til almannatrygginganna verða hækkuð um 63 millj. kr. á ári. Það er rétt að vekja athygli á því, að eitt af því, sem lagt var bann við að hækkaði í fyrrahaust með hinni svokölluðu verðstöðvun, voru gjöld til almannatrygginganna. Almannatryggingarnar töldu sig verða að fá hækkun gjaldanna í fyrra um rúmlega 50 millj., og auðvitað verða þeir peningar einhvers staðar teknir, ef ekki annars staðar, þá úr varasjóði almannatrygginganna, og þá verður lagt á menn til að safna nýjum varasjóði, þótt síðar verði. Þess vegna er hér vissulega leikinn sami blekkingaleikurinn og í öðrum þáttum þessa máls. Hækkun daggjalda á sjúkrahúsum og hækkun sjúkrasamlagsiðgjalda á að nema 40 millj. kr. á ári. Um þetta er svipað að segja og tryggingaiðgjöldin. Ríkissjóður tók á sig óhjákvæmilega hækkun daggjalda á sjúkrahúsum í nokkra mánuði fyrir og eftir kosningar, en nú telur ríkisstj. óhætt að færa þessar hækkanir yfir á almenning. Nú á að leggja söluskatt á póst- og símagjöld og sjónvarps- og útvarpsafnotagjöld, og er þetta áætlað 40 millj. kr. og tekjuafgangur Pósts og síma á að verða 20 millj. Samtals nema þessar nýju álögur 60 millj. Tóbak og áfengi hefur þegar verið hækkað um 13%, og er áætlað, að sú hækkun nemi í auknum ríkistekjum um 60 millj. kr. Fasteignamat verður tólffaldað í kaupstöðum og í sveitum sexfaldað til álagningar eignarskatts, og á sú aukning að verða 62 millj. kr. Leggja skal nýjan skatt á farmiða til útlanda, er nemi 3000 kr. á hvern farmiða, og eru tekjur af því áætlaðar 60 millj. kr. Nýr vísitölugrundvöllur verður tekinn upp 1. marz 1968 samkv. frv., en þær verðhækkanir, sem frv. gerir ráð fyrir, og þær hækkanir, sem stafa af hækkuðu vöruverði í sambandi við lækkun á niðurgreiðslum úr ríkissjóði, verða ekki reiknaðar í hina nýju vísitölu, heldur eiga þessar hækkanir allar að bitna á almenningi sem hrein kjaraskerðing. Ríkisstj. er raunar svo hreinskilin að segja mönnum þetta, enda reiknar hún með, að 4 ár séu til næstu alþingiskosninga og óhætt sé að treysta því, að hinir reiðu kjósendur verði þá búnir að gleyma meðferðinni á sér nú og þeim svikum og skollaleik, sem leikinn var í sambandi við kjaramálin við síðustu alþingiskosningar og leikinn hefur verið við undanfarandi alþingiskosningar raunar tvennar áður. Samkv. útreikningi í grg. frv. mun verðlag hækka vegna þessara aðgerða um rúml. 7.5% miðað við núgildandi framfærsluvísitölu. Hækkun á vísitölu vöru og þjónustu mun hins vegar verða 1/5 meiri. Og þetta er sú kjaraskerðing, sem almenningur á að taka á sig bótalaust. Mest af þeim 750 millj., sem þannig er hellt yfir þjóðina, mun koma fram í auknum framfærslukostnaði hvers einstaklings. Auðvitað kemur þetta þyngst niður á þeim, sem lægst hafa launin, og fjölmennustu fjölskyldunum.

Það er á allra vitorði, að stefna ríkisstj. á undanförnum árum hefur leikið atvinnuvegi þjóðarinnar svo grátt, að alvarlegur samdráttur er þegar orðinn í fjölmennum og þýðingarmiklum atvinnugreinum, og þó að áberandi atvinnuleysi sé ekki enn orðið hér á Suðurlandi, er það staðreynd, sem menn verða að horfast í augu við, að yfirvinna hefur stórlega dregizt saman og hjá fjölda fólks alveg fallið niður, auk þess sem aðrir fjölskyldumeðlimir en heimilisfyrirvinnan hafa undanfarið átt erfiðara með að fá vinnu til að afla fjölskyldunni aukinna tekna en á undanförnum árum. Þess vegna verða fleiri og fleiri að treysta á dagvinnulaunin ein saman. Þannig liggja fyrir upplýsingar um það frá Félagi járniðnaðarmanna, að tekjur járniðnaðarmanna hafi á s.l. ári minnkað um 25–30% vegna samdráttar í járniðnaðinum.

Hverjar eru svo tekjur manna samkv. kjarasamningum fyrir dagvinnu eina saman, sem þannig á að rýra, eins og nú er komið fram? Ég tel rétt að nefna um þetta nokkur dæmi.

Samkv. 2. taxta Dagsbrúnar er mánaðarkaupið í byrjun 8951 kr. með verðlagsuppbót, sem hækkar eftir 2 ár upp í 9399. Samkv. kjarasamningum Iðju eru byrjunarlaun 8546 á mánuði og hækka eftir 1 ár upp í 9137. Samkv. kjarasamningum rafvirkja hafa þeir byrjunarlaun 10178 kr. á mánuði, sem hækkar á 10 árum upp í 11881 kr. Hliðstæðir starfsmenn hjá ríkinu hafa laun sem hér segir:

Starfsmenn í 5. launaflokki 7995 kr. í byrjun, sem hækkar á 15 árum upp í 9862 kr. á mánuði. Og starfsmenn við iðjustörf í 4. launaflokki, byrjunarlaun 7683 kr., sem hækka á 15 árum í 9495 kr. Iðnaðarmenn samkv. 10. launaflokki: byrjun 9392 á mánuði og eftir 15 ár 11429 kr. Maður, sem vinnur samkv. 2. taxta Dagsbrúnar, hámarkslaunum, hefur í árslaun tæpar 113 þús. kr. miðað við dagvinnu. Hafi hann fyrir fjögurra manna fjölskyldu að sjá, eins og er reiknað með í vísitölufjölskyldunni, má reikna með því og ég tel það varlega reiknað, að 12 þús. kr. af tekjum hans fari til þess að greiða þær verðlagshækkanir og skattahækkanir, sem ríkisstj. leggur nú á menn. Þá verða eftir hjá þessari fjölskyldu 100 þús. kr. Framfærsluvísitalan í september, sem reiknuð er, áður en þessar verðlagshækkanir verða og þessar kjararýrnanir, 7.53%, gerir ráð fyrir, að neyzla fjögurra manna fjölskyldu sé 129162 kr. á ári. Má þar við bæta, að í þeirri vísitölu er reiknað með húsnæðiskostnaði 15351 kr. á ári fyrir fjögurra manna fjölskyldu, en húsnæðisliðurinn í núgildandi vísitölu gerir það raunar að verkum, að menn hljóta að gagnrýna þessa vísitölu mjög. En nú gerir frv. um efnahagsaðgerðir, sem hér liggur fyrir, ráð fyrir því, að tekinn verði upp nýr vísitölugrundvöllur og að sú vísitala gangi í gildi 1. marz n. k., þegar búið er að koma þeirri kjaraskerðingu á, sem nú er áformuð. Í grg. frv. í sambandi við hinn nýja vísitölugrundvöll er rætt um mikla breytingu, sem orðið hafi á neyzlu manna á árunum 1954–1965. Auðvitað hefur neyzla manna breytzt á svo mörgum árum og menn hafa getað leyft sér meira með því að vinna óhóflegan vinnutíma. En heldur ríkisstj., að neyzluvenjur manna verði hinar sömu eftir þessa kjaraskerðingu og þær voru fyrir? E. t. v. fækka hæstv. ráðh. ekki ferðum sínum til útlanda, en það er áreiðanlegt, að allur þorri annarra landsmanna verður að neita sér jafnvel um brýnustu lífsnauðsynjar og mun alls ekki verða mjög stór viðskiptavinur ríkissjóðs í sambandi við farmiðaskatt, því miður. Ég er ekki einn af þeim, sem telja það vera neina goðgá, þótt launþegar landsins geti veitt sér það að ferðast til annarra landa í fríum sínum til þess að afla sér fróðleiks og ánægju. Ég tel þeim peningum alls ekki illa varið, sem notaðir eru til ferðalaga, og það eigi hreint ekki að vera forréttindi ráðh. og efnamanna að ferðast og sjá sig um í heiminum. Sannleikurinn er sá, að með þessum farmiðaskatti eru lagðar óhóflegar hömlur á frelsi manna og þessum hömlum er ekki beitt gegn þeim efnameiri, heldur hinum, sem af litlum efnum ferðast, og það ætti ríkisstj. að hafa gert sér ljóst, að ekki eru allar ferðir skemmtiferðir til útlanda. Erindi manna til útlanda eru mörg og þar á meðal eru ferðir námsmanna og sjúklinga milli landa. Og margt fleira mætti telja.

Í sambandi við meðferð þessa máls vil ég gagnrýna það, að upplýsingar um nýja vísitölugrundvöllinn skuli ekki fylgja þessu frv. Ég tel það óhjákvæmilegt, til þess að alþm. geti áttað sig á þessu máli, að þeim gefist kostur á að kynna sér þennan nýja grundvöll og þá ekki síður þá skýrslu, sem hefur verið gerð um hina nýju neyzlurannsókn. Sjálfur hef ég fengið í hendur frá hagstofunni upplýsingar um hinn nýja vísitölugrundvöll, en hagstofan sá sér hins vegar ekki fært að afhenda mér skýrsluna um neyzlurannsóknina. Ég vil beina því til hæstv. ríkisstj., að hún sjái um, að alþm. fái í hendur bæði nýja vísitölugrundvöllinn og skýrsluna um neyzlurannsóknina, og þá ekki síður, að hún sjái til þess, að skýrslan um neyzlurannsóknina verði birt almenningi. Það er þeim mun nauðsynlegra, að hin nýja neyzlurannsókn verði birt opinberlega, sem nú er breytt um form á vísitölunni. Eins og kunnugt er, eru í núgildandi framfærsluvísitölu einstakir kostnaðarliðir birtir í krónutölum, og þannig liggja bæði grundvöllurinn og breytingarnar á einstökum liðum fyrir opinberlega í krónum. Í þeirri till., sem mér var fengin í hendur af hagstofunni, er ekki gert ráð fyrir að birta neinar krónutölur, heldur einungis hvern kostnaðarlið vísitölunnar í hundraðshlutum framvegis. En samkv. upplýsingum, sem ég fékk hjá hagstofunni í dag, er gert ráð fyrir í þeim till., sem nú liggja fyrir um vísitölugrundvöllinn, að neyzla vísitölufjölskyldunnar sé 235 þús. kr. á ári. Mega menn þá sjá væntanlega, hverjum erfiðleikum það muni valda fyrir þær fjölskyldur, sem ekki hafa eftir þessar ráðstafanir nema 100 þús. kr. úr að spila til lífsframfæris á ári. Í nýja vísitölugrundvellinum er gert ráð fyrir, að húsnæðisliður vísitölunnar vegi 16.21%, en í núgildandi framfærsluvísitölu gildir hann 10.69%. Samkv. þessu og þeim tölum, sem ég nefndi áðan um heildarneyzlu vísitölufjölskyldunnar, ætti húsnæðiskostnaður í nýja vísitölugrundvellinum að verða kr. 38093.50.

Það er furðudjarft af ríkisstj. að koma nú fram með þessar ráðstafanir. Þó þarf enginn að furða sig á þessu í sjálfu sér, því að núv. ríkisstj. virðist aldrei hafa séð aðra lausn á vanda efnahagsmálanna en þá að leggja byrðarnar á almenning, en hlífa hinum efnameiri. Ill var hennar fyrsta ganga í kjaramálum, og það virðist ætla að sannast, að erfitt verði fyrir stjórnarflokkana að hverfa frá þeirri röngu stefnu, sem þeir hafa fylgt. Samt var eins og eitthvað rofaði til hjá ríkisstj. um skilning á þessum málum gagnvart verkalýðshreyfingunni á árinu 1964. Sá skilningsauki kom auðvitað ekki til af öðru en því, að ráðh. sáu, að verkalýðshreyfingin var of sterk til þess, að hægt væri fyrir ríkisvaldið að knésetja hana. Skilningsaukinn var hins vegar ekki meiri en svo, að aldrei hefur afstaða ríkisstj. verið verri en einmitt það sama ár gagnvart þeim stéttum, sem ekki hafa verkfallsrétt, þegar opinberum starfsmönnum var með lögleysum og ofbeldi synjað um þann rétt, sem þeir áttu lögum samkv. til kjarabóta. Í upphafi stjórnartímabilsins gerði núv. ríkisstj. þá miklu skekkju að framkvæma tvær stórfelldar gengislækkanir og afnema um leið rétt launþega til verðlagsuppbóta á laun sín. Það var raunar of seint séð, en samt sá hæstv. forsrh. það sjálfur 4 árum seinna, að þarna var ekki hyggilega að farið og kunni ekki góðri lukku að stýra að knýja í gegn efnahagsráðstafanir, stórfellda kjaraskerðingu gegn vilja alls þorra landsmanna og gegn ákveðinni andstöðu launþegasamtakanna. Slíkar aðfarir verða ekki þau bjargráð, sem þeim kann að vera ætlað að verða. Þetta viðurkenndi hæstv. forsrh., þegar rætt var um frv. til l. um verðtryggingu launa haustið 1964. Hann sagði þá, með leyfi hæstv. forseta:

„Að því er ég hygg er það óumdeilanlegt, að við vanda efnahagsmálanna verður ekki ráðið, nema skilningur alls almennings á bæði orsökum og úrræðum sé fyrir hendi. Ég veit ekki um neitt málefni, sem síður stoði að löggjafinn einn, Alþ. og ríkisstj., taki ákvarðanir um, ef þær styðjast ekki við glöggan skilning alls almennings á nauðsyn þeirra aðgerða, sem hverju sinni eru ákveðnar.“

Þessi ummæli hæstv. forsrh. eru rétt, og hann hefði átt að rifja þau vel upp í huga sér, áður en ríkisstj. greip til þeirra úrræða, sem hér eru komin fram í frv.-formi.

Ég þykist vita, að í þessum umr. verður sunginn sami söngurinn og oft áður, að vandi sá, sem nú er við að etja í efnahagsmálum, sé að kenna of háu kaupgjaldi og kröfuhörku launþegasamtakanna. Sannleikurinn er hins vegar sá, að síðan núv. ríkisstj. kom til valda og fór að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar, hefur hún séð til þess, að verðlagið hefur sífellt hækkað meira en kaupgjaldið. Það eru ekki launþegasamtökin, sem bera ábyrgð á því, að verðbólgan hefur magnazt ár frá ári, heldur er þar um að kenna rangri stjórnarstefnu, sem stjórnarflokkarnir hafa fylgt þau tvö kjörtímabil, sem þeir hafa setið að völdum.

Undanfarin ár hefur verið mikið góðæri hér á landi og þjóðartekjurnar vaxið meira en dæmi eru til í sögu þjóðarinnar þangað til á síðasta ári, er vöxtur þjóðarteknanna minnkaði allverulega. Ef allt hefði verið með felldu um stefnu ríkisstj. og framkvæmd hennar á undanförnum árum, hefði átt að verða hér stórfelld aukning á kaupmætti tímakaupsins. En í þessu efni hefur orðið sú öfugþróun, að þrátt fyrir óvenjulegt góðæri, metafla ár eftir ár og síhækkandi verðlag á útflutningsafurðum landsmanna allt fram á síðasta ár hefur kaupmáttur tímakaups verkamanna í almennri vinnu ekkert aukizt frá því 1. marz 1959. Á hinum Norðurlöndunum hefur þróunin gengið í þá átt, að kaupmáttur launa hefur sífellt farið vaxandi og hagur almennings batnað, og þó hafa þessi lönd einnig átt við efnahagsvandamál að fást eins og hér.

Hér á landi er almennur, samningsbundinn vinnutími 44 klst. á viku, en raunverulegur vinnutími víðast hvar miklu lengri, vegna þess að kaupmáttur dagvinnukaupsins hefur ekki aukizt og launamenn þeir, sem til þess hafa haft aðstöðu og heilsu, hafa unnið miklu lengur viku hverja. En jafnframt því, sem kaupmáttur tímakaups hefur stöðugt farið vaxandi á hinum Norðurlöndunum, er þar nú verið að stytta vikulegan vinnutíma niður í 42½ klst., og sums staðar á vinnuvikan að styttast enn meira í áföngum, niður í 40 klst., og hefur þegar verið samið um það í Finnlandi að vinnutíminn styttist í 40 klst. árið 1970. Þannig er þróunin, þar sem íhaldsstjórnir fara ekki með völd. Af hálfu talsmanna ríkisstj. hefur að undanförnu verið rekinn taumlaus áróður, sem í því er fólginn, að þjóðin hafi lifað um efni fram og verði nú að súpa af því seyðið og þarna sé skýringin á vandamálunum ásamt aflabresti og verðlækkunum á íslenzkum afurðum erlendis. Blöð stjórnarflokkanna hamra á þessum áróðri, og útvarpið hefur í sumar verið notað miskunnarlaust til einhliða pólitísks áróðurs, eins og það sé orðið einkafyrirtæki ríkisstj. Ráðh. eru hlaupandi á milli alls konar funda og þinga, haldandi áróðursræður til þess að koma þeim á framfæri í fréttum útvarpsins.

Hverjir hafa lifað um efni fram í þessu landi? Eru það launamenn og bændur? Halda menn, að verkamenn, bændur, iðnaðarmenn, verzlunarmenn, opinberir starfsmenn hafi haft þann auð handa á milli, að þeir hafi lifað umfram efni þjóðarinnar? Nei, launamenn hafa yfirleitt ekki þrátt fyrir mikil aflabrögð þjóðarinnar getað veitt sér mikið umfram brýnustu lífsnauðsynjar og sumir varla það. Á þessum árum hafa launþegar landsins stritað nótt með degi og með því mörgum tekizt með dugnaði að koma sér upp eigin íbúð fyrir sig og fjölskyldu sína þrátt fyrir lánsfjárskort og okurvexti. Allt þetta fólk hefur lifað við sinn deilda verð og hefur orðið að drýgja tekjur sínar með hóflausri yfirvinnu. Almenningur hefur borgað þunga skatta, og skattarnir hafa orðið miklu þyngri en þurft hefði að vera, af því að slælegt eftirlit hefur verið með framtölum til skatts og undandráttur stórkostlegur. Launþegar færast ekki undan að greiða réttmæta skatta. En það er hart fyrir þá að verða að una því að greiða stórar fjárhæðir árlega vegna undandráttar annarra. Vissulega hefur þjóðin orðið fyrir fjárhagslegum erfiðleikum á síðasta ári og þessu ári. En skyldi það vera nokkuð nýtt, að aflaleysisár komi hér og verðfall verði á einhverju af afurðum okkar um lengri eða skemmri tíma? Ef rétt hefði verið stjórnað á undanförnum aflaárum, þar sem hvert happið hefur komið eftir annað, bæði hvað magn og verð á afurðum snertir, hefði það vissulega ekki þurft að verða erfið glíma að fást við þau vandamál, sem nú eru fyrir hendi.

Ég sagði, að almenningur hefði borgað þunga skatta. En stjórnarvöldin hafa eytt þessum fjármunum illa. Þau hafa sólundað miklum og óvenjulegum þjóðarauði í stjórnleysi og vitleysu.

Hverjar eru framkvæmdir ríkisins á undanförnum árum? Hvar er uppbygging atvinnuveganna á vegi stödd? Hvernig er komið fyrir iðnaðinum? Og hvar fá menn fé í dag, lánsfé, til atvinnufyrirtækjanna? Hvernig er ástandið í vegamálum? Stefna ríkisstj. hefur verið að halda okurvöxtum af lánum jafnt til nauðsynlegs atvinnurekstrar og framkvæmda sem til annars. Og hvernig er svo hagnaði bankanna varið? Stórbyggingar eru reistar fyrir bankastarfsemina, og bankaútibú þjóta upp eins og gorkúlur. Seðlabankinn keypti litla lóð fyrir 10 millj., sem hækkaði allt lóðaverð í bænum upp úr öllu viti. Það kostar kannske ekki mikla fjármuni miðað við heildarútgjöld þjóðarinnar. En óviðkunnanlegt er það, að Seðlabankinn skuli nú gefa út sinn árlega kreppuboðskap úr dýrlegum veizlum, sem haldnar eru nokkrum ráðamönnum.

Það mætti kannske á einfaldan hátt nefna sem dæmi um stjórnarfarið, að fyrir alþingishúsið hefur verið keypt hurð, sem kosta mun 700–800 þús. kr., og það lak með henni, og það er ekki hægt að loka henni.

Í ritstjórnargrein í aðalmálgagni ríkisstj., Morgunblaðinu, er mönnum bent á, að þegar þeir vegi og meti aðgerðir ríkisstj. í efnahagsmálum, sé gagnlegt fyrir hvern og einn að spyrja sjálfan sig þessarar spurningar: Hvernig mundi ég bregðast við, ef tekjur mínar stórlækkuðu skyndilega á einu ári? Mundi ég halda áfram sömu eyðslu og áður? Mundi ég lifa um efni fram og safna skuldum? Síðan segir, að auðvitað svari hver og einn þessari spurningu neitandi, auðvitað geri hver einstaklingur, sem stendur frammi fyrir stórlækkun tekna sinna, ráðstafanir til þess að draga úr eyðslu og neita sér um margt, sem menn áður leyfðu sér. Hæstv. viðskmrh. bar fram svipaða spurningu hér áðan til formanna stjórnarandstöðunnar, hvað þeir mundu gera, og þetta eru auðvitað hárrétt svör, sem Morgunblaðið gefur, að auðvitað mundu hyggnir menn reyna að draga eitthvað við sig, en safna ekki skuldum. En við skulum velta þessari spurningu svolítið meira fyrir okkur. Hvað mundi heimilisfaðir gera fyrst undir þessum kringumstæðum? Mundi hann byrja á því að biðja fjölskyldu sína að draga við sig mat og aðrar nauðsynjar? Vafalaust mundu fæstir gera það. Flestir mundu byrja á því að spara í bili eitthvað annað, t.d. selja bílinn sinn, og hætta í bili að halda veizlur t.d. Þannig ættu stjórnarvöldin líka að fara að, áður en þau segja almenningi að þrengja kost sinn svo mjög sem nú er gert.

Mönnum er það ljóst, að þjóðarbúskapurinn hefur orðið fyrir áfalli vegna aflabrests og verðfalls. Og áfallið veldur strax erfiðleikum, af því að illa hefur verið stjórnað og til einhverra ráða þarf að grípa til björgunar. En launþegar sjá enga ástæðu til þess að taka þær byrðar einir á sig. Það, sem gera þarf fyrst, er að breyta um stjórnarstefnu og m.a., að stjórnarvöldin sjái um rétta álagningu og innheimtu þeirra skatta, sem lög standa til að þegnarnir greiði, en á það skortir áreiðanlega mikið nú. Ríkisstj. hefur neitað launamönnum um réttlátan hlut í tekjum góðærisins. Hún hefur sjálf með rangri stefnu komið atvinnuvegunum í kaldakol og gert þá óviðbúna því að mæta aflabresti og erfiðu árferði, sem jafnan þarf að gera ráð fyrir í okkar landi. Hún hefur stöðugt kynt verðbólgueldinn. Ekkert nema mesta góðæri, sem komið hefur yfir þetta land, hefði getað haldið svona ríkisstj. á floti jafnlengi og raun er á orðin. Og engin ríkisstj. hefur orðið almenningi í þessu landi dýrari en þessi. Það er gagnslaust að gera ráð fyrir því, að hún bjargi málum. Það er sjálf stjórnarstefnan, sem þarf að breytast. Þessi og aðrar ríkisstj. þurfa að læra það í eitt skipti fyrir öll, að landinu verður ekki stjórnað af viti án samráðs við launastéttirnar, eins og hæstv. forsrh. raunar var búinn að gera sér ljóst á árinu 1964, þó að hann sé búinn að gleyma því nú.