16.10.1967
Neðri deild: 3. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (2285)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Höfuðefni þess frv., sem hér er nú til umr., eru nýjar álögur, sem nema 750–800 millj. kr. Það má eiginlega segja, að nú séu kosningavíxlar viðreisnarinnar fallnir. Þetta var fyrirsjáanlegt í vor, og þetta sögðum við stjórnarandstæðingar þá að mundi koma, en þá var annað hljóðið í stjórnarherbúðunum en nú er.

Hæstv. fjmrh. var að enda við að segja, að það væri ekki umdeild þessi tala, sem hér er talað um, 750 millj. kr. Ég verð nú að segja það, að ég hef hvergi séð sundurliðun á því, hvernig þessi áætlun er byggð upp. Út af fyrir sig hef ég þó ekki aðstöðu til að deila um sjálfa töluna. Stærsti hluti þessara aðgerða er afnám á niðurgreiðslum á nauðsynjavörum almennings og er talinn nema 410 millj. kr. á ársgrundvelli. Hér er um að ræða allar brýnustu nauðþurftirnar: mjólk, kjöt, kartöflur, og þetta á að gerast án allra bóta, fólk á að taka á sig þær byrðar, sem þessu nemur. Eins og er margbúið að taka fram hér, kemur þetta harðast niður á láglaunafólki og barnafjölskyldunum, vegna þess að þetta fólk notar langstærsta hluta tekna sinna til að kaupa þessar brýnustu nauðsynjar. Ég vil segja það strax, að ég tel, að með þessu sé rofinn grundvöllur allra kjarasamninga. Skv. gildandi lögum og samningum ætti fólk að fá 8% kauphækkun til að mæta þeim verðhækkunum, sem þessar ráðstafanir fela í sér. Hér er um að ræða eins vel frágengna hluti í þeim efnum og hægt er að hafa. Af þessu leiðir, að ég hlýt að líta svo á, að þessar ráðstafanir séu í rauninni stríðsyfirlýsing gagnvart verkalýðshreyfingunni, sem hún hljóti að svara á sínum tíma. Afleiðingin hlýtur að verða nýr ófriður á vinnumarkaðinum, nýtt ófriðartímabil. Ég held, að það sé eins gott fyrir ráðamenn þjóðarinnar að hafa þetta í huga, eins og sú aðvörun, sem hæstv. forsrh. gaf hér í gær, að ef samningsaðilar á vinnumarkaðinum ætluðu að nota sér samningsfrelsið, yrðu þeir að hafa í huga afleiðingar þess. Á sama hátt mundi ég vilja segja, að hæstv. ráðh. ættu einnig að hafa þetta í huga nú. Það má segja, að þessar ráðstafanir séu því sárari einmitt fyrir láglaunafólkið og raunar alla launþega vegna þess, að þær koma til viðbótar og í kjölfar minnkandi tekna, sem orðið hafa hjá vinnandi fólki á þessu ári vegna samdráttar í atvinnulífinu. Það er kannske ekki mjög gott að mæla þetta nákvæmlega, a. m. k. ekki enn sem komið er, og þetta er mismunandi nokkuð eftir starfsgreinum og landshlutum. En við vitum það mætavel, að meira að segja hér í Reykjavík, á suðvesturhorninu, þar sem atvinna hefur verið langjöfnust og mest á undanförnum árum, lifðum við það þó á s.l. vetri, að menn voru atvinnulausir. Og atvinnuástandið fram eftir þessu ári var þannig, að mjög erfiðlega gekk t.d. skólafólki að fá sér vinnu fram eftir sumrinu. Það bar einnig á þessu nú síðsumars, en má segja, að örlítið hafi breytzt aftur í augnablikinu, þannig að aukin eftirspurn hefur verið eftir vinnuaflinu.

Hæstv. forsrh. sagði í gær, að hér væri ekki aðeins um að ræða álögur á launþega, atvinnurekendur hefðu þegar orðið fyrir búsifjum áður, og sagði síðan það, sem reyndar fleiri hafa hér endurtekið, að launþegar verði nú að taka á sig byrðar og þeir hafi á undanförnum árum fengið aukna hlutdeild í þjóðartekjunum og meiri en áður. Það voru lesnar hér upp tölur áðan, sem ég ætla síðar aðeins að koma að, en af þessu tilefni hjá hæstv. forsrh. vil ég aðeins segja: Hvernig halda menn, að þessar mjög auknu þjóðartekjur séu til komnar? Það er aðallega tvennt, sem áreiðanlega þar ræður mestu. Það er sú mikla framleiðsluaukning, sem hér hefur orðið á síðari árum, annars vegar og mjög góð og hagstæð viðskiptakjör. En halda menn, að svo mikil framleiðsluaukning sem hér hefur orðið verði einvörðungu til á þann hátt, að síldarútvegurinn nær tökum á mjög góðri tækni? Svona einfalt er málið ekki. Þetta er fyrst og fremst vegna þess, að vinnandi fólk í landinu hefur lagt á sig óhemjumikil aukastörf, fyrir þetta hefur fólkið auðvitað fengið sín laun og hærri laun, vegna þess að þetta er unnið á dýrari tíma sólarhringsins en venjuleg störf eru annars unnin. Auðvitað hefur þetta aukið tekjur launafólksins, en það hefur líka staðið undir þeirri gífurlega miklu aukningu á þjóðartekjunum, sem orðið hefur. Þegar nú sjáanlegt er, að þjóðartekjur verða minni vegna verðfalls, vegna minni afla, hefur það auðvitað það í för með sér, og það höfum við þegar orðið varir við, að atvinna verður minni, dregst saman, tekjur verkafólksins verða lægri. Það er þess vegna engan veginn rétt að segja, að atvinnurekendur hafi þegar orðið fyrir búsifjum, einvörðungu þeir. Þetta á ekkert síður við um launafólkið, alls ekkert síður. Svo vitum við einnig, að hér er um byrjun að ræða. Það er í raun og veru verið að taka á máske aðeins litlum hluta þess stóra vandamáls, sem vissulega blasir við, og ekki ætla ég að draga úr því út af fyrir sig, enda sagði hæstv. forsrh. í ræðu sinni í gær, að hann vildi hafa allan fyrirvara um, að frekari ráðstafanir og róttækari þurfi að gera, — sagði að vísu, að enn væru ekki rök fyrir hendi fyrir þeim ráðstöfunum, en bæði hann og aðrir auðvitað sjá, að að þessu kemur, ef áfram stefnir eins og nú horfir. Og síðan er boðað í sömu ræðu, að hæstv. ráðh. séu til viðræðna um samninga eða úrræði við stjórnarandstöðuna, innan þings og utan, eins og það var orðað, og ekki sízt við launþegasamtökin.

Okkur er nú boðið upp á samninga. En athugum ofurlítið, hvað gerzt hefur áður. Þá vil ég fyrst aðeins koma að því, að þegar um er að ræða samninga, gilda ákveðnar grundvallarreglur, sem sumpart eru skrifaðar í viðkomandi samninga eða eru óskrifuð lög, sem samningsaðilar fara eftir. Í þeim samningum, sem verkalýðshreyfingin gerir, eru ævinlega uppsagnarákvæði, fyrirvarar, og í sjálfri meðferð málanna eru lágmarks kurteisisvenjur, megi kannske orða það svo, sem báðir aðilar telja sig skuldbundna af og fara eftir, dytti ekki annað í hug, jafnvel þó að hart sé á tekizt. Nú vita það allir, að ríkisstj. þessa lands hefur verið mjög veigamikill aðili að samningum stéttarfélaganna undanfarin ár, afgerandi aðili, og nú mætti spyrja: Á þessi aðili að vera algerlega undanþeginn þeim leikreglum, sem sjálfsagt er og allir telja að sjálfsagt sé að eigi að vera gildandi í þessum viðskiptum aðilanna á vinnumarkaðinum? Ég tel, að svo ætti ekki að vera. Ég álít, að hún ætti að vera háð þessum reglum og í raun og veru sé allt annað aldeilis fráleitt.

Júnísamkomulagið hefur allmikið komið hér á dagskrá. Með samkomulaginu í júní 1964 var verðtrygging að nýju tekin upp á kaup. Þetta var þríhyrndur samningur, samningur milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj. og atvinnurekendanna. Þetta var bundið í sjálfu samkomulaginu. Það er rétt, sem hér var sagt áðan af hæstv. forsrh., að þetta samkomulag var gert til eins árs. Ég man ósköp vel hans yfirlýsingar, bæði meðan á sjálfum samningunum stóð og eins, sem hann endurtók hér, þegar sjálft frv. kom til meðferðar Alþingis nokkrum mánuðum síðar. Þar var rétt með farið og ég ætla ekki að fara neitt að segja, að hann segi nú annað í þessu efni en hann sagði þá. En athugum eðli júnísamkomulagsins ósköp lítið nánar. Júnísamkomulagið og verðtryggingin á kaupið er alger forsenda og grundvöllur allra samninga, sem síðan hafa verið gerðir. Ef við getum ekki treyst því, að þegar við gerum samning, — við skulum taka samninginn 1965, sem við þá gerðum, við gerum aftur samning 1966, ríkisstj. veit nákvæmlega innihald þess samnings, áður en hann er undirritaður, ef hún hefði talið, að með því væri júnísamkomulagið frá 1964 brotið og úr gildi fallið vegna okkar verknaðar, hefði náttúrlega verið skylda hennar að segja okkur það þá. Engar slíkar athugasemdir komu fram, og aðilar, atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin, gera með sér samninga á grundvelli júnísamkomulagsins. Þetta endurtekur sig nákvæmlega ári síðar, 1966. Hefði júnísamkomulagið og verðtryggingin ekki verið í gildi, hefði ekki komið til mála, að verkalýðshreyfingin hefði samið um það kaup, sem hún samdi um 1965 og 1966, það hefði orðið allt annað. Menn geta talað hér um formsatriði. Það er rétt, júnísamkomulagið er gert til eins árs, en að mínum dómi er það í gildi á þennan hátt enn í dag, enda lögin í fullu gildi. Nú er með þessum lögum grundvöllurinn, sem byggt hefur verið á í samningum síðan 1964, tættur í sundur. Ef ríkisstj. hefði talið, að þessi grundvöllur stæðist ekki lengur, hefði samkv. öllum leikreglum í þessum efnum átt að koma til verkalýðshreyfingarinnar og segja henni það með nægum fyrirvara, í stað þess að kalla okkur á fund sama dag og búið er að framkvæma meginefni þessa frv. — ekki til þess að ræða við okkur hugsanlegar breytingar, heldur til þess að tilkynna okkur orðinn hlut. Þegar svona er að farið, vil ég ekki vera að tala um drengskap og drenglyndi í framkomu við verkalýðshreyfinguna. Það er allt annað og allt önnur lýsingarorð, sem þar ættu við. Síðan getur hæstv. forsrh. talað um ræður manna hér sem útsmogna og neyðarlega illkvittni, þegar þessi mál eru rædd. En ég vil segja það, að þegar þannig hefur verið komið fram við verkalýðshreyfinguna eins og nú er gert, er í raun og veru eftirleikurinn ekki vandasamur, og ef einn samningsaðili, því að það er ríkisstj. tvímælalaust í þessum efnum, sem ég nú hef rætt, telur sig geta upp á eindæmi gert hvað sem er til þess að umturna grundvelli gerðra samninga, getur það náttúrlega ekki verið réttur hans eins, það er útilokað, þá hljóta aðrir aðilar að hafa svipaðan eða sama rétt og telja sig geta beitt honum. Nú er, eins og ég sagði áðan, þegar svona er komið, okkur boðið upp á viðræður og einhvers konar samninga um þessi mál. Það er búið að gera ráðstafanirnar, málið komið á dagskrá hér á þingi, sjálfsagt búið að handjárna allt stjórnarliðið til þess að fylgja því eftir með þeim hraða, sem venjulega er hafður á svona málum hér í þinginu. Það er samningsaðstaðan, sem okkur er boðið upp á. En enda þótt svona sé, mun verkalýðshreyfingin, sem komið hefur fram að mínum dómi sem ábyrgur aðili hér í þjóðfélaginu, samt sem áður áreiðanlega taka til yfirvegunar þetta tilboð, strax og við hófum til þess aðstöðu.

Hér hefur komið einnig á dagskrá nýi vísitölugrundvöllurinn. Það mál er ekki heldur laust við júnísamkomulagið. Það var eitt af ákvæðum júnísamkomulagsins, sem aðilar voru sammála um, að það skyldi í fyrsta lagi safnað gögnum að nýjum vísitölugrundvelli og hann reiknaður út. Það var hins vegar ákveðið líka í þessu samkomulagi, að þessi nýi grundvöllur skyldi ekki vera látinn taka gildi, nema samkomulag væri um það milli samningsaðila. Það stóð hins vegar líka í þessu júnísamkomulagi, það verð ég að játa: „á samningstímabilinu“, sem var eitt ár, hann var reyndar naumast tilbúinn og alls ekki tilbúinn á samningstímabilinu, svo að það var ekki um það að ræða að gera hann gildandi. En síðan hefur oftar en einu sinni verið rætt um þennan grundvöll, menn hafa mikið brotið heilann um hann en það hefur aldrei komið til mála og aldrei hef ég heyrt það af hálfu hæstv. ráðh. og allra sízt hæstv. fjmrh., sem við höfum kannske átt mest viðskiptin við í þessu efni, annað en það þætti sjálfsagt, að um það væri samkomulag, hvort og hvenær þessi grundvöllur ætti að taka gildi. Nú er þetta hins vegar sett fram sem orðin staðreynd, án samráðs við samningsaðila.

Nú ætla ég ekki að fara að deila um þennan grundvöll út af fyrir sig. Það vita auðvitað allir, að neyzlan er allt önnur í dag en hún var á árunum 1953 og 1954, þegar gamli grundvöllurinn var lagður. Að vísu hefur hann á þeim tíma, sem síðan er liðinn, tekið allmiklum breytingum, svo að það er alls ekki rétt að segja, að það sé nákvæmlega sami grundvöllurinn og þá var lagður, neyzluvörur orðnar aðrar og aðrar neyzluvörur nú inni í þeim grundvelli en voru þá. En hvað um það, það er enginn efi á því, að neyzlan er gjörólík núna, og ég teldi, að það væri rétt allra hluta vegna, að við hefðum sem allra, allra réttasta verðlagsvísitölu í landinu. En eins og málum hefur verið háttað, hefur þetta um leið oft verið viðmiðun og beinn mælikvarði á kaupgreiðslubreytingar vegna breytinga á verðlaginu, og þegar maður hugsar um nýjan vísitölugrundvöll í ljósi þess, að hann ætti að mæla verðuppbætur á kaup í samræmi við breytt verðlag, er ekki að furða, þó að menn staldri við og hugsi sig um. Gamli vísitölugrundvöllurinn, útgjaldaupphæðin í þeim grundvelli í dag er tæp 130 þús. kr. Þessi nýi grundvöllur, sem nú er talað um og reyndar þetta frv. gerir ráð fyrir að taki gildi um áramót, er á allt annan veg. Útgjaldaupphæðin í þeim grundvelli er færð til verðlagsins í dag, 246 þús. kr., að frádregnum fjölskyldubótum. Ef maður hefur þetta í huga sem kaupgreiðslumæli, og það er ekki til þess, eins og hæstv. forsrh. sagði hér í gær, að vera að halda einhverju, sem villandi er, ekki vegna þess, það er vegna þeirra áhrifa, sem þetta kynni að hafa fyrir það fólk, sem ég a. m. k. tel mig vera fulltrúa fyrir, þá má spyrja: Er sú neyzla, sem nú er miðuð við kvartmilljón kr. útgjöld, í meira samræmi við kaupgetu þess fólks, sem hefur um 115–120 þús. kr., skulum við segja, fyrir dagvinnu sína, — er það í meira samræmi við getu þess til að kaupa vörur og þjónustu heldur en sú vísitala, sem er með útgjaldaupphæðinni 130 þús. eða mjög nálægt því að vera kannske það sama og tekjur þessa fólks eru? Þetta er vandamál, — og ég ætla ekki að fara að fullyrða það, að sá gamli grundvöllur sé betri, en þetta er vandamál, sem ekki nær nokkurri átt að fleygja frá sér lítt hugsað, heldur verður að skoða það mjög nákvæmlega. Þetta er vandinn, sem við er að eiga í þessu efni.

Þá er náttúrlega ekki minna atriði, hvenær og hvernig þessi nýi grundvöllur yrði látinn taka gildi, ef menn yrðu sammála um það. Og það sjá náttúrlega allir, að undir þeim kringumstæðum, sem honum er nú ætlað að taka gildi, er það ekki hagkvæmt fyrir verkalýðshreyfinguna. Ég vil aðeins endurtaka það, sem ég sagði hér áðan, að ég tel þetta mjög harða árás á launafólkið og verkalýðshreyfinguna.

Varðandi fullyrðingar um það, að launþegar hafi fengið svo og svo mikla aukna hlutdeild í þjóðartekjunum, kauphækkanirnar hafi orðið slíkar, þá vil ég segja það, að sú skýrsla, sem hæstv. viðskmrh. var hér að lesa upp áðan, sannfærir mig a. m. k. ekki um það. Hér er um að ræða gamlan kunningja, sem kom mikið á dagskrá í fyrravetur í sambandi við skýrslur til hagráðs. Menn muna þá tíma. Það er aðeins tvennt, sem ég vil vekja athygli manna á í sambandi við þær tölur, sem hann nefndi hér áðan, án þess að ég ætli að ræða þær neitt nákvæmlega. Í fyrsta lagi: Þetta er miðað við áramótin 1960. Mér fyndist nú, að hæstv. viðskmrh. hefði átt að fara ofurlítið aftar, hefði átt að byrja, þegar stjórn hans flokks sat að völdum. En ef ég man rétt frá þessum umræðum í vetur, þá held ég, að ef í staðinn fyrir að miða þetta við 1. jan. 1960, þá væri það í upphafi miðað við tímabilið 1. marz 1959, þá sé það um 10 stig, sem munar. Hvers vegna? Vegna þess, að þá var hin mikla kjaraskerðing framkvæmd. Það er náttúrlega hægt að fá fínar tölur út úr þessum hlutum, ef menn fyrst lækka án þess að bæta það á neinn hátt og láta menn hafa það og setja svo töluna á 100, eins og þarna er gert, og láta menn hafa ofurlítið af þessu aftur, sem var tekið, og segja svo: Sjáið þið nú bara, hvað þið hafið fengið mikið! Það er ekki neitt smáræði, sem þið hafið fengið í auknum þjóðartekjum. — Raunverulega er það þetta, sem þessar tölur, sem hér var verið að lesa upp áðan, gera. Í öðru lagi er stytting vinnutímans á árinu 1965 reiknuð sem bein kauphækkun og kaupmáttur tímakaupsins hækkaður sem því nemur. Það er algjörlega villandi að gera þetta á þennan hátt. Atvinnurekendur reikna þetta sem bein útgjöld fyrir sig, og þeirra mat var, að þarna hefði verið um 9% kauphækkun að ræða. Á sama hátt gerir hæstv. viðskmrh. hér. En maður, sem vinnur dagvinnuna eina, og jafnvel þó að hann vinni töluverða yfirvinnu, fær nákvæmlega sama kaup og hann hefði haft áður, en hann er aðeins styttra að vinna fyrir því, hann vinnur aðeins færri klukkutíma. En kaupupphæð hans er nákvæmlega hin sama. Þetta er aðeins tvennt, sem ég vildi benda á núna, og ég hygg, að þegar búið sé að taka tillit til þess hvors tveggja, þá sé kúfurinn farinn af. Og ég efast um, að við hefðum á árinu 1965, a. m. k. ekki í byrjun ársins 1965, staðið jafnfætis því, sem við stóðum í marz 1959 eða í árslok 1959, — alls ekki jafnfætis því. Það skal ég hins vegar játa, að frá því að við gerðum samkomulagið 1964 og gjörbreytt var um stefnu gagnvart verkalýðshreyfingunni í samningamálum, þá hefur sú kauphækkun, sú lítilfjörlaga kauphækkun, sem síðan hefur verið samið um, grunnkaupshækkanirnar eru ekki miklar, — þá hafa þær nýtzt betur vegna verðtryggingarinnar, og síðan hefur kaupmáttur aukizt. Þetta er rétt, en það en fyrst og fremst á því tímabili, sem það hefur farið fram. Þessu á nú að rifta.

Ég ætla ekki að tefja tímann hér lengur, en aðeins að segja, að það er ákaflega margt, sem nauðsynlegt væri hér að minnast á, og ekki sízt það, hvernig í raun og veru ríkisstj. ætlar að fara að því að tryggja það, sem ég er sammála hæstv. forsrh., að er algert grundvallaratriði, það er að tryggja sjálfa atvinnuna. Um það höfum við lítið fengið að heyra. En mér sýnist, að sú stefna, sem hér er farið inn á, verði ekki til þess og verki ekki til þess. Þetta ásamt því, sem hlyti að koma á eftir, sjálfsagt að sömu leiðum, mundi ég telja, að stuðlaði á margan hátt frekar að samdrætti, áframhaldandi samdrætti í atvinnulífinu, og þar af leiðandi enn minnkandi atvinnu.

Með þessu frv. er ráðizt á garðinn, þar sem hann er lægstur, svo stórmannlegt sem það nú er. Það er krafa okkar í verkalýðshreyfingunni, að áður en þetta verður gert, áður en það kemur til mála, að á slíkt verði hlustað, þá verði að koma við hjá þeim, sem mest hafa. Það er spurt, hvar gróðinn sé. Það er sjálfsagt dálítið erfitt að svara því nákvæmlega. En ef við athugum, á hvern hátt þeir lifa, sem ekki eru með hærri skatta en láglaunafólk, hvað þeir geta veitt sér, þá er ekki nokkur vafi á því, að mikill misbrestur er á, að allt komi fram, sem þeir afla sér. Það er krafa okkar, að það verði tekið á þessum málum, það verði séð um það, að framtöl verði á annan veg en þau hafa verið. Það á að vera hægt, þar sem það augljóslega blasir við. Við vitum ákaflega vel, að skattsvikin eru sennilega ofboðsleg í þessu landi, og færustu menn hafa oft og tíðum nefnt gífurlegar tölur í þessu sambandi, m.a. hæstv. viðskmrh. Á þessu verður að taka, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, og ríkisstj. stendur beinlínis frammi fyrir því, að launafólkið í landinu hlítir ekki svona lögum, meðan það er ekki gert, lögum eins og hér er nú verið að stofna til. Auðvitað þarf ríkissjóður að reyna að ná endunum saman í sínum fjárreiðum. En við skulum hafa í huga, að það eru fleiri sem þurfa að ná endum saman, og það eru ekki sízt alþýðuheimilin í þessu landi, sem eiga sífellt verr með það, og þess vegna er það að mínu viti hreinn ódrengskapur að ráðast einmitt á þá, sem allra sízt geta staðið undir þessum byrðum, eins og gert er með þessu frv.