18.10.1967
Neðri deild: 5. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (2288)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þeir endurtaka það hér, hæstv. ráðherrar, að þeir bjóði stjórnarandstöðunni, innan þings og utan, til viðræðna um þær till., sem ríkisstj. hefur nú lagt fram í efnahagsmálum, og þeir undirstrika það mjög, að ríkisstj. sé öll af vilja gerð til þess að vilja fallast á breytingar á þessum tillögum, ef stjórnarandstaðan eða fulltrúar frá almannasamtökum í landinu vildu benda henni á einhver hagfelldari úrræði en þau, sem hún hefur gert tillögur um. Svo þegar umræður eiga að hefjast á milli ríkisstj. og stjórnarandstöðunnar um þessi mál, þá fáum við ræðu eins og þá, sem hér var verið að ljúka við að flytja af hæstv. dómsmrh., sem er furðulegt karp fram og til baka um hluti, sem gerðust fyrir 10 árum, útúrsnúningur og ranghverfingur þar á hlutum. Þetta er nú eiginlega ekki aðgengilegt, að ætla að hefja efnislegar umræður við ríkisstj. um þær tillögur, sem hún hefur nú lagt fyrir í efnahagsmálum, ef ræða á málin á þessum grundvelli.

Ræða sú, sem hæstv. dómsmrh. flutti hér, gæti auðvitað gefið tilefni til þess að tala hér langt mál um það, hvað var að gerast í efnahagsmálum þjóðarinnar á árunum 1957 og 1958, og það þyrfti mikið að leiðrétta af því, sem hann sagði hér um það, sem þá gerðist, bæði varðandi lagasetningu og þó alveg sérstaklega viðvíkjandi þeim brbl., sem hann gerði hér að talsverðu umtalsefni, um stöðvun á verðlagi og kaupgjaldi, sem gerð var haustið 1956. Ég skal ekki fara langt út í það að þræta við hæstv. ráðh. um þessi mál, það hefur í rauninni afskaplega lítið gildi, það hefur verið gert svo oft áður. Ég vil aðeins minna á, að það, sem þá var gert í þessum efnum, var gert með fullu samkomulagi við verkalýðssamtökin í landinu og gert á þeim grundvelli, að þau höfðu sannfært sig um, að það, sem þá var verið að gera í þessum efnum, gat ekki skaðað þau á neinn hátt eða meðlimi þeirra. Þetta liggur ótvírætt fyrir. Það er því allsendis ósambærilegt við það, sem hæstv. ríkisstj. er að gera nú, þegar hún flytur hér tillögur um það að skerða umsamið kaup, að hnekkja þeim grundvallarreglum, sem um hefur verið samið í kaupgjaldssamningum, og lækka kaup með lögum, enda hefur ríkisstj. auðvitað veitt því athygli, að nú fær hún svo að segja einróma mótmæli frá forustumönnum verkalýðssamtakanna í landinu gegn þessum fyrirætlunum og það skiptir í rauninni engu máli, hvort forustumenn í verkalýðssamtökunum eru stuðningsmenn ríkisstj. og hafa verið það fram til þessa eða í andstæðingaflokki, allir mótmæla þeir þessum fyrirhuguðu ráðstöfunum í efnahagsmálum. Þetta hefur ekki getað farið fram hjá hæstv. ríkisstj. En þrátt fyrir öll þessi einkennilegu ræðuhöld langar mig samt til þess að gera tilraun til að fá hæstv. ráðh. til þess að ræða við mig um nokkur þau atriði varðandi þær efnahagsmálatill., sem hér liggja fyrir, sem ég tel að skipti hér alveg höfuðmáli.

Þeir byrja, ráðh., gjarnan á því, eins og hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. líka, á því að útlista það með mörgum orðum, hvað hafi komið fyrir þjóðarbúskap Íslendinga nú að undanförnu. Það er bent á það, að verðfall hafi orðið mikið á útfluttum frosnum fiskafurðum, og það er rétt, það hefur orðið talsvert mikið. Það er bent á, að það hafi orðið allmikið verðfall á bræðslusíldarafurðum, og tölur eru jafnvel nefndar í þessum efnum, tölur, sem eiga auðvitað lítið skylt við það, sem er hið rétta í málinu, en eigi að síður liggur það fyrir, að mikið verðfall hefur orðið á útfluttum bræðslusíldarafurðum. Hæstv. dómsmrh. nefndi hér t.d., að verðfallið væri svo ískyggilegt, að verð á lýsi hefði fallið úr 9100 kr. á tonn niður í 3960 kr. á tonn. Ég get fullvissað hæstv. ráðh. um, að það tímabil hefur aldrei komið fyrir, að framleiðendur á þessum vörum á Íslandi hafi búið við þetta verðlag, sem hann nefndi, — yfir nokkuð það tímabil, sem teljandi er. Þessar tölur eru því auðvitað mjög villandi. Sem betur fer, lítur ekki einu sinni dæmið þannig út í dag, að við Íslendingar séum að framleiða lýsi, sem muni verða selt, þegar litið er á heildina, fyrir þetta lágmarksverð, sem hér var nefnt. Hér er aðeins verið að grípa tölur, sem eru í námunda við það allra hæsta, sem við höfum fyrr og síðar selt, þessa vöru á út úr landinu, að vísu örlítið magn, en fjarri því að vera nokkurt meðaltal, og grípa síðan aðra tölu, sem er nokkuð nærri því að vera það lægsta verð, sem við höfum nokkurn tíma fengið fyrir lítinn slatta fluttan út af þessari vöru, en gefur vitanlega ekki neina rétta mynd af því, hvaða verðbreytingar hafa orðið fyrir framleiðsluna á heilu ári eða einhverjum eðlilegum starfstíma. Ég nefni þetta ekki til þess að draga á neinn hátt úr því, að verðfallið, sem gengið hefur yfir á okkar þýðingarmiklum útflutningsvörum, er mjög tilfinnanlegt, það er mjög mikið og þeir aðilar, sem standa að framleiðslu á þessum vörum, hafa auðvitað orðið fyrir miklu áfalli vegna þessa verðfalls: Það er því í rauninni enginn ágreiningur á milli mín og hæstv. ráðh. um, að það hafa steðjað erfiðleikar og steðja erfiðleikar að okkar útflutningsatvinnuvegum vegna verðfalls, sem gengið hefur yfir á framleiðsluvörum útflutningsatvinnuveganna, og það er alveg óþarfi af þeim að gera meira úr þessu verðfalli en raunverulega er, það er nóg samt. Það er líka rétt, sem hæstv. dómsmrh. minntist hér, á, að það er þungbært auðvitað fyrir framleiðendur, að aðalskreiðarmarkaður okkar hefur lokazt nú um tíma, þó að ég búist nú við því, að flestir, sem þar þekkja til, búist við, að það greiðist úr þeim hlutum, áður en langt um líður. En vitanlega veldur þetta útflutningsatvinnuvegunum erfiðleikum.

En hvernig stendur á því, að hæstv. ríkisstj, er sérstaklega að telja þetta fram, um erfiðleika útflutningsatvinnuveganna, og ræða jöfnum höndum um minni aflafeng á síldveiðum og þorskveiðum og lægra verðlag á framleiðsluvörunum, — hvers vegna er ríkisstj. að telja þetta sérstaklega fram í sambandi við þær till., sem hún er nú að gera í efnahagsmálum? Rétt eftir að hæstv. forsrh. hafði talið allt þetta upp, sagði hann í framsöguræðu sinni fyrir því efnahagsmálafrv., sem hér er á dagskrá, að engin rök lægju enn fyrir um það, að nauðsynlegt væri að veita atvinnuvegunum meiri stuðning en þeir njóta nú í dag. Þetta sagði hæstv. forsrh. í sinni ræðu, og það er greinilega fram tekið hér í efnahagsmálatill. ríkisstj., að það sé alls ekki gert ráð fyrir því, að einn einasti eyrir af þeirri fjáröflun, sem hér er verið að leggja grunninn að, upp á 750 millj. kr., eigi að renna til stuðnings þeim atvinnuvegum, sem orðið hafa fyrir miklu áfalli, bæði vegna minni afla og lækkandi verðlags á erlendum mörkuðum. En fyrst efnahagsmálatill. ríkisstj. fjalla alls ekki um það að veita útflutningsatvinnuvegunum meiri stuðning en þeir hafa notið, hvers vegna þá allur þessi lestur um áfall útflutningsatvinnuveganna? Sannleikur málsins er sá, að það er mín skoðun og okkar Alþb.- manna, að meginvandamálið, sem nú er að glíma við í efnahagsmálum þjóðarinnar, sé einmitt sá mikli vandi, sem hefur verið að ágerast að undanförnu og náði auðvitað hámarki núna, þegar verðfallið verður mest á útflutningsvörunum, það sé vandamál útflutningsatvinnuveganna. En ríkisstj. gerir hér engar till. um að leysa þessi vandamál, heldur gerir ríkisstj. hér till. um, að það þurfi að afla ríkissjóði tekna til viðbótar við það, sem hann hefur áður haft, uppá 750 millj. kr. á ári. Hvað hefur gerzt hjá ríkissjóði? Hefur ríkissjóður tapað einhverjum tekjum fram til dagsins í dag? Nei, hann hefur ekki tapað þeim. Ég hygg, að tekjur ríkissjóðs fram til dagsins í dag séu meiri en þær hafa nokkurn tíma áður verið, og það væri rétt, að hæstv. fjmrh. upplýsti þá það, ef það væri ekki rétt, sem ég segði í þessum efnum. Ég veit ekki annað betur en innflutningur til landsins fram til dagsins í dag hafi farið vaxandi og ríkissjóður hefur fengið þær afgreiðslur varðandi sína tekjustofna svo að segja á hverju einasta ári á undanförnum árum, að tekjur hans hafa verið auknar með nýjum tekjustofnum, og síðast var það í ársbyrjun 1966, að þá voru tekjustofnar ríkissjóðs stórlega auknir. Það var bæði létt af ríkissjóði ýmsum útgjöldum, sem hann hafði áður fengið tekjur til að standa undir, og hann fékk einnig nýja tekjustofna. Og hver var síðan útkoman á árinu 1966? Útkoman varð sú, að tekjur ríkissjóðs fóru um 900 millj. kr. fram úr ráðgerðum tekjum á fjárlögum, — um 900 millj. kr. fram úr ráðgerðum tekjum. Tekjuafgangurinn varð auðvitað mikill, og af því gat auðvitað ríkissjóður mjög auðveldlega veitt sjávarútvegi landsins nokkurn stuðning, tiltölulega mjög lítinn stuðning frá því, sem áður hafði verið, borið saman við stórauknar tekjur ríkissjóðs. En ríkisstj. segir, um leið og hún dregur upp myndina af því, að útflutningsatvinnuvegirnir hafi orðið fyrir miklu áfalli, hún segir, að þjóðartekjurnar muni minnka um 4–5%, og það má vel vera. Þá segir ríkisstj.: En þá verða allir landsmenn að herða ólina, þeir verða að taka á sig nokkra kjaraskerðingu, vegna þess að þjóðartekjurnar minnka. Þá væri eðlilegt, að menn byrjuðu á því að spyrja: Á þá ekki ríkissjóður líka að draga eitthvað svolítið úr sínum útgjöldum? Ef þjóðartekjurnar minnka, er þá óeðlilegt, að ríkissjóður spari eitthvað, að hann dragi eitthvað úr sínum miklu útgjöldum? Nei, þvert á móti. Fjárlagafrv., sem liggur fyrir, gerir beinlínis ráð fyrir því, að ríkið eyði meiru en nokkru sinni fyrr, það hækki sín útgjöld án þess að auka stuðninginn við þá atvinnuvegi landsmanna, sem nú eru að komast í þrot. Og því fer alls fjarri, að það sé reynt á nokkurn einasta hátt að draga úr óstjórnlegri eyðslu ríkissjóðs á mörgum sviðum, sem verið hefur. Áfram á eyðslan að haldast, og áfram eiga útgjöldin að hækka. Viðbrögð ríkisstj. sjálfrar eru því þau, að hún segir: Við, fyrir hönd ríkissjóðs, við tökum engan þátt í því að færa niður nein útgjöld. — Hún vill aðeins fá meiri tekjustofna en hún hefur haft áður: En hins vegar gerir ríkisstj. till. um það, að ýmsir landsmenn eigi að taka á sig verulega auknar byrðar.

En nú er rétt í þessum efnum að virða nokkuð fyrir sér, hvað hefur verið að gerast og hvað er að gerast í þjóðarbúinu, þegar það kemur fyrir, að heildaraflaverðmætið lækkar í verði, aflinn minnkar og verðið lækkar á hverri einingu. Hvað hefur verið að gerast? Jú, ríkisstj. hefur bent á það, að síðasta vetrarvertíð hafi verið óhagstæð, afli hafi þá minnkað um 16%. Það er rétt. Síðasta vetrarvertíð var óhagstæð vegna mjög óhagstæðrar veðráttu. Það er ekki hægt að kenna aflanum þar um sérstaklega, nema síður sé, en það er rétt, heildaraflamagnið reyndist um 16% minna en á vertíðinni á undan. En hvað gerist, þegar aflinn á vetrarvertíð fellur um 16%? Hvað gerist þá? Ekki efast ég um það, að hæstv. ríkisstj. veit um það, að um leið og það gerist, fellur niður kaup sjómannanna, sem vinna á vetrarvertíðinni, um 16%, þeir eru upp á aflahlut. Kaupið þeirra minnkar um 16%. Og hún hlýtur líka að hafa gert sér grein fyrir því, að þeir menn, sem eiga að vinna úr þessum afla í landi, verkafólkið, vinnan hjá því minnkar líka, líklega um 16% eða nærri því. En þá er nokkurn veginn víst, að tekjur þess fólks munu minnka um enn þá meira, vegna þess að þetta kemur þannig út, að yfirvinna verður minni en hún var áður. Þessir aðilar taka því á sig þarna áföll, og þessi framleiðslufyrirtæki, sem þarna eiga hlut að máli, útgerðin, sem hefur orðið fyrir minni afla og óhagstæðari vertíð, hefur minna handa á milli. Hún getur ekki ráðizt í ýmsar þær framkvæmdir, sem hún réðst í áður. Atvinna dregst saman hjá því fólki, sem hefur unnið í þjónustu þessara framleiðslugreina. Það er þetta, sem hefur þegar gerzt. Fjöldi manns hefur þegar tekið þetta á sig og býr nú við miklu minni tekjur á þessu ári en það hafði á árinu á undan. Og hvað er það, sem hefur verið að gerast í þjóðarbúi okkar á þessu ári, þegar síldaraflinn hefur reynzt minni en hann hafði reynzt mestur áður, eins og á árunum 1966 og 1965? Kaup sjómannanna hefur stórum lækkað frá því, sem áður var, bæði vegna þess, að verðið á síldinni er lægra en það var og aflinn minni. Ég hygg, að á mjög mörgum síldveiðiskipum sé ástandið þannig, að sjómennirnir hafa í dag um helmingi minna kaup en þeir höfðu á sama tíma í fyrra. Til eru eflaust skip, þar sem kaupið hefur ekki lækkað alveg svona mikið. En það eru líka til önnur skip, þar sem kaupið hefur fallið enn þá meira niður. Þessir aðilar hafa verið að taka á sig vandann og eru búnir að því. Og hvað er að segja um síldariðnaðinn í landinu, sem hefur orðið að taka á sig þessi miklu áföll af verðfallinu á síldarlýsi og síldarmjöli? Vitanlega er þar um stórfelldan samdrátt að ræða. Tekjur þeirra manna, sem vinna við síldariðnaðinn, hafa stórum lækkað, og afkoma síldariðnaðarfyrirtækja hefur gjörbreytzt. En hvað hefur ríkisstj. gert til þess að bæta úr fyrir þessum þýðingarmiklu starfsgreinum? Hvað hefur hún gert? Ekkert. Hreinlega ekkert. Hún er ekki með neinar till. enn, og hæstv. forsrh. segir það hér beinum orðum, að það liggi ekki rök fyrir því, að það þurfi neitt að gera, frekar en nú sé gert með lögum til stuðnings þessum starfsgreinum. En þó þylur hann hér upp öll áföllin, sem þessi atvinnugrein hefur orðið fyrir. Ég veit vel, að það er nokkur hætta á því, að tekjur ríkissjóðs geti á vissum liðum orðið minni á árinu 1968 vegna lækkandi tekna í þjóðfélaginu, eða hjá mörgum þjóðfélagsþegnum. En ég álít, að þær áætlanir, sem gerðar eru um lækkandi tekjur ríkissjóðs á hinum ýmsu liðum, séu allsendis óraunhæfar, nema ríkisstj. ætli að halda sér við það að gera ekkert í málefnum atvinnuveganna. En þá munu þær áætlanir, sem ríkisstj. gerir í núverandi fjárlagafrv., líka reynast rangar, því að þá eiga tekjur ríkissjóðs eftir að brynja enn meira en gert hefur verið ráð fyrir. Það er því vonlaust með öllu fyrir ríkisstj. að ætla að sannfæra nokkurn mann um það, að till. hennar til sérstakrar tekjuöflunar fyrir ríkissjóð og það í því formi, sem þær till. eru gerðar, séu réttlætanlegar vegna þeirra áfalla, sem útflutningsatvinnuvegir þjóðarinnar hafa orðið fyrir og þeir sérstaklega, sem eru í nánustum tengslum við útflutningsatvinnuvegina. Það er líka alveg augljóst mál, að till. ríkisstj. um stórfelldar nýjar álögur mundu ekki síður koma við þá aðila, sem þegar eru búnir að taka á sig í mjög ríkum mæli kjaraskerðingu vegna efnahagsáfallanna, heldur en aðra landsmenn. Þegar ríkisstj. leggur fram till. um það, að verð á kjöti, mjólk, kartöflum og öðrum landbúnaðarafurðum skuli stórhækka, kemur það vitanlega til með að bitna á t.d. síldveiðisjómönnunum, ekki síður en öðrum í landinu. Þeir verða að borga fæðið sitt sjálfir. Þetta á því að koma sem viðbótarálag á fórnir þeirra. Og það er meira að segja þannig, að allmikið af þeim álögum, sem ríkisstj. nú gerir till. um, kemur til með að leggjast af talsverðum þunga á þau atvinnufyrirtæki landsmanna, sem nú eru að komast í þrot. Í ýmsum tilfellum verður útgerðin í landinu t.d. að greiða fæðiskostnað, vegna sinna starfsmanna. Hún þarf því að borga þar enn þá hærri reikning en áður. Við skulum t.d. taka fiskiðnaðinn í landinu, frystihúsin í landinu, sem nú þurfa á sérstökum stuðningi að halda. Hér er verið að gera ráð fyrir því að stórhækka á þessum fyrirtækjum eignarskatt, með því að það á að tólffalda fasteignamatið á öllum þeirra eignum. Auðvitað mundi slík skattlagning íþyngja þessum fyrirtækjum enn frá því, sem orðið er. Og hverjir koma til með að greiða stórhækkuð símagjöld, útvarpsgjöld o.s.frv.? Að vísu næstum allir einstaklingar í landinu, en einnig þau fyrirtæki, sem nú eiga við mesta erfiðleika að stríða. En það er greinilegt, að ríkisstj. hirðir ekki um það. Hennar takmark er aðeins eitt í þessum efnum, og það er: Ríkissjóður þarf á meiri tekjum að halda. Það er sem sagt gamla sagan upp og upp aftur, sem hér hefur verið að gerast á undanförnum árum, sífelldar till., svo að segja á hverju einasta ári, um það, að ríkissjóður þurfi á nýjum tekjustofnum að halda, m.a. vegna þess, að ríkisstj. er ekki til viðtals um það að skera niður ríkisútgjöldin að neinu leyti, — ekki að neinu leyti. Ég veit, að þegar minnzt er á það að skera niður ríkisútgjöldin, þá koma hæstv. ráðh. og spyrja: Viljið þið láta lækka skólakostnað? Viljið þið láta lækka kostnað ríkisins af tryggingamálum í landinu? En slíkar spurningar eru í rauninni alveg út í hött.

Ráðh. geta ekki gert sig svo einfalda að reyna að halda því fram, að þegar ríkisútgjöldin eru komin yfir 6 milljarða hjá ríkissjóði og ríkisstofnunum, sé ekki hægt að draga úr þeim kostnaði, þegar þjóðarbúið verður fyrir áföllum, ef vilji er fyrir hendi. Við Alþb.-menn höfum þing eftir þing bent á ýmsa liði, en vitanlega verður það aldrei á færi þeirra, sem ekki hafa hér öll gögn í höndum, að koma með útfærðar till. í öllum greinum um það, hvar eða hvernig skuli spara í öllum ríkisrekstrinum. Ég hef ekki aðstöðu til þess að segja um það, að í tiltekinni stofnun, sem nú er með 100 menn í sinni þjónustu, væri réttmætt að færa það starfslið niður í 90 eða niður í 80. En ég er sannfærður um það, að ef þessi mál eru athuguð á eðlilegan hátt, er hægt að draga úr þessum kostnaði, og það er þörf á að gera það, þegar þannig árar a. m. k. eins og nú. Við höfum, Alþb.-menn, prófað vilja ríkisstj. í þessum efnum í nokkrum smærri atriðum nú á nokkrum þingum, og það hefur alltaf farið á sömu leið. Við höfum t.d. flutt till. um, að það ætti að duga eitt sendiráð á Norðurlöndum í staðinn fyrir þrjú. Við höfum m.a. flutt um það till. vegna þess, að menn úr öllum flokkum hér á Alþ. hafa verið að gefa yfirlýsingu um, að þetta væri eðlilegt. Á þennan hátt má spara nokkrar millj.

En hvernig hefur farið með þessar till. okkar? Þær hafa verið drepnar á hverju einasta þingi. Við höfum bent á, að það sé vitanlega alger óþarfi að halda uppi rándýru sendiráði hjá NATO. Stundum hafa þessi sendiráð verið tvö í einni höfuðborg í Evrópu. En ríkisstj. hefur ekki verið til viðtals um neinn slíkan sparnað. Við höfum bent á, að það nær vitanlega engri átt að eyða í lögreglukostnað á Keflavíkurflugvelli, — þar hljóta okkar menn að vera að passa Kanann, sem þar er, sem átti hins vegar að passa okkur, — eyða um 10 millj. kr. í það á ári. En ríkisstj. er ekki til viðtals um neinar slíkar till. Það væri vitanlega hægt að benda svona á fjöldamarga liði. Ég tel t.d. enga ástæðu til þess að vera að gera ráð fyrir því á fjárl. næsta árs að eyða yfir 30 millj. kr. bara í lóðakaup hérna í miðbænum eða í lendur hér í nágrenni Reykjavíkur. Ég held, að slík kaup hefðu átt að bíða, þar til þá að verðið á síldarafurðunum hefði farið nokkuð upp aftur.

Þannig mætti telja fjölmarga liði í útgjöldum ríkisins, en ríkisstj. hefur ekki verið til viðtals um það að tala þar um neinn sparnað. Þvert á móti eykur hún útgjöldin frá ári til árs.

Við Alþb. menn höfum líka bent á það, að ríkissjóður, ef hann þarf á meiri tekjum að halda, ætti að gera svolítið meira úr þeim tekjustofnum, sem hann hefur samkv. lögum. Það er opinbert leyndarmál, að það eru býsna háar fjárhæðir, sem eru lagðar á landsmenn í formi söluskatts, sem aldrei koma inn í ríkissjóðinn. Á það hefur verið bent í þessum umr., að nú fyrir stuttu var eitt verzlunarfyrirtæki hér í Reykjavík dæmt fyrir það að hafa stolið undan söluskatti umsetningu hjá sér, sem nam 10.2 millj. kr. Og það hefur einnig verið upplýst í þessum umr., að annað fyrirtæki hér í borginni er nú ákært af opinberum aðilum fyrir að hafa stolið á undanförnum árum upphæð, sem nemur rúmum 7 millj. kr. af söluskatti, sem lagður hefur verið á landsmenn. Ríkisstj. gæti ábyggilega drýgt tekjur ríkissjóðs til mikilla muna frá því, sem nú er, ef hún vildi taka á þessum málum t.d. með álíka mikilli festu og hún vill taka á því að leggja álögur á fátækasta fólkið í landinu samkv, þeim till., sem hún flytur nú.

Auk þess höfum við Alþb.-menn bent á það, að ef þarf að grípa til enn aukinna tekjustofna fyrir ríkið, á fremur að velja tekjustofna af þeirri gerð, að hækkaðar séu álögur á óþarfa innflutningi og á lúxuseyðslu, en að hækka verð á mjólk og kjöti. En ríkisstj. vill ekki ræða við okkur um þessi mál. Það eina, sem okkur er boðið upp á, er: Komið þið með 750 millj. til viðbótar í ríkiskassann. — Og þá virðist ekkert annað koma til greina en einhverjir alveg nýir tekjustofnar og helzt álögur, sem fela í sér almenna kauplækkun vinnandi fólks í landinu.

Já, ég geri þá hlé á máli mínu eftir ósk hæstv. forseta. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði fyrr í minni ræðu rætt hér nokkur atriði þessa máls, og sérstaklega það, að mér sýnist, að með þeim till., sem ríkisstj. hefur boðað í efnahagsmálum nú, snerti hún í rauninni harla lítið við aðalvandamálinu, sem nú blasir við í okkar efnahagsmálum, en það er að gera till., sem mættu leiða til þess að tryggja rekstur okkar aðalatvinnuvega og halda þannig uppi fullri framleiðslu í landinu og fullri atvinnu. Till. ríkisstj. fjalla í rauninni ekki um þetta efni, heldur um fjárhagsafkomu ríkissjóðs í þrengri merkingu. Ég tek það fram, að ég hef ekki aðstöðu til þess að leggja neinn fullnaðardóm á það, hvort þörf er á því að leggja ríkissjóði til nýja tekjustofna frá því, sem nú er. Það kann að vera, að það sé þörf á því, ef það þykir nauðsynlegt að reikna með því, að þeir tekjustofnar, sem ríkissjóður hefur aðallega byggt á til þessa, bregðist mjög tilfinnanlega á árinu 1968 vegna samdráttar í atvinnulífi landsins. En ég held, að það, sem þarna skiptir alveg höfuðmáli, sé, að gerðar verði nægilega öflugar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir þennan samdrátt í atvinnulífinu. Það er ekkert um það að villast, að vissar greinar útflutningsframleiðslunnar hafa hér orðið fyrir miklu áfalli og þeim greinum verður að koma til aðstoðar. En sem sagt, till. ríkisstj., fjalla ekki um þetta atriði.

Í þeim umr., sem hér hafa farið fram, hefur mér fundizt einnig þess gæta allt of mikið í málflutningi, einkum frá hálfu ríkisstj., að talað sé um þau vandamál, sem við er að glíma, með allt of almennum og óljósum orðum. Það hefur t.d. mikið verið talað um þjóðarbúið og þjóðartekjurnar og þjóðina, og vegna þess að talið er líklegt, að tekjur þjóðarbúsins lækki nokkuð á árinu 1967, á yfirstandandi ári, frá því, sem þær hafa hæstar orðið áður, vilja menn draga þá ályktun, að nú eigi allir landsmenn eða, eins og sagt er, þjóðin að lækka sín lífskjör sem þessum heildartekjumismun nemur. Þetta má til sanns vegar færa. En þá þurfa menn bara að hafa það í huga, að þjóðin í þessu tilfelli er engin ein persóna: Þjóðin í þessu tilfelli samanstendur auðvitað af mismunandi atvinnustéttum, margvíslegum atvinnurekstri og mörgum stofnunum í landinu. Þjóðartekjurnar skiptast á milli þessara aðila, og því fer vitanlega víðs fjarri, að þeim sé skipt nákvæmlega jafnt á hvert nef. Það getur því vel farið svo, og þannig hefur þetta einmitt farið, eins og ég hef verið að leiða athygli að, að þó að þjóðartekjurnar falli frá því, sem þær hafa hæstar orðið, um jafnvel 4–5%, getur þetta áfall dreifzt mjög mismunandi niður á einstaklingana í þjóðfélaginu. Og það er enginn vafi á því, að þessi tekjuminnkun hvílir á einstaklingum þjóðfélagsins núna mjög misjafnlega. Auðvitað er því eðlilegt, að nokkurt tillit sé tekið til þess, ef þarf að dreifa byrðum, hvernig ástatt er hjá hinum ýmsu aðilum í þjóðfélaginu. Ég er t.d. ekki í neinum vafa um, að það er ekkert, sem kallar á það þrátt fyrir þau áföll, sem þjóðarbúskapurinn hefur orðið fyrir, að ráðstafanir séu gerðar til þess að lækka umsamið tímakaup verkamanna eða umsamið dagvinnukaup þeirra. Ráðstafanir, sem fara í þá átt, efast ég ekkert um, að eru rangar og fá ekki staðizt í framkvæmd. Ég álít hins vegar, að það séu ýmsir aðilar í þjóðfélaginu, sem vel geti tekið á sig byrðar frá því, sem verið hefur, a. m. k. um stuttan tíma. En till. þær, sem ríkisstj. leggur fram og miða að því að eiga að afla ríkissjóði aukinna tekna, miða greinilega að því að leggja álögurnar á vinnandi almenning í landinu og mundu ábyggilega dreifast þannig, að álögurnar hvíldu með langmestum þunga á hinum tekjulægstu.

Það er alveg augljóst mál, að samkv. till. ríkisstj. er ekki gert ráð fyrir því, að ýmsir veigamiklir aðilar í þjóðfélaginu taki hér á sig neinar byrðar. Ég vil t.d. nefna kaupsýslustéttina yfirleitt, t.d. innflytjendur, heildsala. Þeir búa við þau miklu réttindi að mega ákveða álagninguna á vörum sínum svo að segja sjálfir. Og þrátt fyrir verðstöðvun er þeim málum komið þannig fyrir, þrátt fyrir verðstöðvun nú á tímabili, að ef t.d. verður lækkun á verði erlendis fá kaupsýslumenn rétt samkv: lögum til þess að hækka sína álagningu, ef þeir vilja. Ég þykist vita, að á það muni verða bent, að það sé líklegt, að kaupsýslumenn fái kannske eitthvað minna á árinu 1968 fyrir sín störf, vegna þess að þá muni verða einhver samdráttur í umsetningu þeirra. En þá er ekki ófróðlegt að benda á það, hverju ríkisstj. hefur svarað því, þegar á það hefur verið bent á undanförnum árum, að kaupsýslustéttin í landinu, hafi m, a. verið að stórauka tekjur sínar með vaxandi innflutningi og aukinni umsetningu. Hverju hefur því verið svarað þá af hálfu stjórnarflokkanna? Jú, því hefur verið haldið fram, það þarf alls ekki að vera, að kaupsýslustéttin hafi fengið neitt meira fyrir verk sín, þó að umsetningin hafi vaxið, vegna þess að hún hefur þá þurft að auka við sig starfsfólki og borga meira í starfslaun og haft meiri kostnað við það. — Ef þessi röksemd hefur verið rétt og ef það hefur verið rétt að halda þessu fram, fram til þessa, mundi auðvitað af þessu leiða það, að þó að það yrði nokkur samdráttur í umsetningu í landinu og minni innflutningur, mundu kaupsýslumenn yfirleitt bregðast þannig við, að þeir mundu segja upp sínu starfsfólki, þeir mundu fækka starfsmönnum, velta af sér vandanum, en gætu eftir sem áður haldið öllum sínum gróða. Ég held, að kaupsýslumenn hafi alla aðstöðu til þess eftir sem áður að tryggja sér álíka mikinn hluta af þjóðartekjunum og þeir hafa náð til sín á síðustu árum, þrátt fyrir þær till., sem ríkisstj. gerir nú um lausn á efnahagsmálum. Ég held því, að það megi slá því föstu, að till. ríkisstj. muni að sáralitlu leyti skerða hag þessara milliliða, og þannig er þessu einnig farið um marga aðra milliliði, sem vitað er að hafa tekið til sín á undanförnum árum stóran hluta af þjóðartekjunum. Þeir hafa alla aðstöðu til þess að gera það áfram í ekki minni mæli en var, og það eru því engar líkur til þess, að þær álögur, sem ríkisstj. nú hyggst leggja á þjóðina, komi til með að hvíla á þessum aðilum. Til þess að þeir hefðu verið látnir borga nokkurn hluta af þessum kostnaði, hefðu þurft að koma fram aðrar tillögur.

Ég hef áður bent á það, að ríkisstj. gerir ekki ráð fyrir því, að ríkissjóður sem slíkur taki hér neinn þátt í. Þvert á móti gerir ríkisstj. ráð fyrir því, að heildareyðsla ríkissjóðs verði meiri en nokkru sinni áður. Nú hefði í rauninni ekki verið óeðlilegt að leggja til, að heildarútgjöld ríkissjóðs og ríkisstofnana hefðu t.d. verið færð niður af þessum ástæðum um sama hundraðshluta og talið er, að þjóðartekjurnar muni minnka um, eða t.d. um 5%. En væri það gert, mætti draga úr útgjöldum ríkisins og ríkisstofnana um hvorki meira né minna en 300 millj. kr. En þegar vandinn snýr að ríkisstj. sjálfri, vill hún bægja vandanum frá sér og segja: Ríkissjóður getur ekkert á sig tekið, við getum ekkert í þessum efnum. — En hún virðist reikna með því, að t.d. verkafólk í landinu, sjómenn og annað vinnandi fólk geti tekið á sig allan vandann í sambandi við fjárhagsvandamál ríkissjóðs og þar að auki þá miklu tekjuskerðingu, sem þessir aðilar hafa orðið fyrir alveg óumdeilanlega í sambandi við samdrátt í atvinnulífi landsmanna. Það er því ekki hægt að afgreiða þetta mál á þann tiltölulega einfalda hátt að segja: þjóðartekjurnar munu minnka um 4–5%. Hver maður í landinu verður að skerða sínar tekjur sem því nemur. — Það verður vitanlega, eins og ég hef sagt, að meta það á eðlilegan hátt, hvernig er aðstaða hinna ýmsu aðila í þjóðfélaginu til þess að taka á sig byrðar, hvernig er staðan fyrir, og svo verður vitanlega einnig að meta það, hvernig þær byrðar dreifast samkv. þeim till., sem fyrir liggja, að öllum líkindum, og þá held ég, að það sé enginn vafi á því, að þau gjöld, sem ríkisstj. hugsar sér að leggja nú á, mundu að miklum meiri hl. koma til með að hvíla á herðum launafólks í landinu.

Þessar almennu vangaveltur um þjóðartekjur og um þjóðina minna mig dálítið á það, þegar einn snjall maður af hálfu ríkisstj. tók sér það fyrir hendur fyrir nokkrum árum að sanna mönnum það, að allmiklar álögur, sem þá var verið að leggja á þjóðina í formi nýrra skatta á ýmsum sviðum, væru engar álögur og hér væri í rauninni um rangnefni að ræða. Auðvitað komu álögurnar þannig út, að þetta verkaði sem skattur á ýmsa borgara í landinu og þeir áttu að greiða miklu meira til ríkisins en áður. En þessi ágæti maður í stjórnarliðinu sneri dæminu þannig við, að hann sagði: Það á að ráðstafa öllum þessum tekjum til annarra þjóðfélagsþegna. Þar með er þetta millifærsla og engar álögur. — Þetta er vitanlega ætlað að villa um fyrir mönnum um hið eiginlega eðli málsins, og hið sama er í öllu þessu tali um það, að þjóðartekjurnar minnki, eins og hér hefur verið nefnt, og það skapi síðan röksemdir fyrir því, að allir þjóðfélagsþegnar taki á sig kauplækkun, sem þessu nemur.

Ég skal, eins og ég sagði hér í upphafi míns máls, ekki hefja hér neina þrætu við hæstv. ráðh. um það, hvað hefur verið gert af hinum ýmsu stjórnum á undanförnum árum í efnahagsmálum, það hefur í rauninni ekkert upp á sig í þessum efnum. En hitt vildi ég fá þá til þess að ræða hér um, eins og ég minntist á í upphafi míns máls, hvernig þeir hugsa sér að leysa þau stærstu og mestu vandamál, sem við eigum við að glíma í okkar efnahagsmálum og snerta afkomu útflutningsatvinnuveganna, sem hafa orðið fyrir þeim áföllum, sem hér hefur verið lýst. Ég tel, að það þurfi að gera ráðstafanir til þess að leysa vanda atvinnuveganna, m.a. með því að breyta í grundvallaratriðum um stefnu í efnahagsmálum frá því, sem verið hefur. Það er mín skoðun, að það sé ekki hægt að víkja sér undan því, að það þurfi að taka upp strangt verðlagseftirlit í landinu, og á þann hátt eigi að reyna að koma í veg fyrir það, að verðlag innanlands hækki meira en svo, að sá atvinnurekstur landsmanna, sem verður að keppa á erlendum vettvangi, hafi samkeppnisaðstöðu. Ríkisstj. hefur hins vegar haldið uppi allt annarri stefnu í þessum málum. Hún hefur haldið því fram, að verðlagningarákvæði ættu að vera sem minnst í gildi. Afleiðingin af þessari stefnu hefur orðið sú, að m.a. þegar framleiðsla hefur orðið mikil í landinu, tekjur hafa orðið miklar, hefur auðvitað orðið mikil eftirspurn á vörum og þjónustu í landinu á mörgum sviðum, og það hefur ekki verið auðvelt að fullnægja þessari eftirspurn í öllum greinum, sbr. húsnæði o. fl. En þá hefur einmitt eftirlitsleysið í sambandi við verðlagningarmálin innanlands leitt til þess óhjákvæmilega, að verðlagið innanlands hefur gengið úr skorðum og hækkað langt umfram það, sem atvinnuvegir landsins fá staðizt til lengdar. Því er þetta eitt grundvallaratriðið, sem þarf að taka upp í efnahagsmálum landsins. Annað grundvallaratriði, sem líka þarf að taka upp, er að ríkisvaldið verður að taka í sínar hendur stjórn á innflutningsmálum, á ráðstöfun á gjaldeyri þjóðarinnar og á fjárfestingarmálum. Það nær auðvitað engri átt að láta það viðgangast undir orðinu frelsi, að við séum að eyða tugum og hundruðum og jafnvel þúsundum milljóna í óþarfan innflutning, á sama tíma og gjaldeyristekjur þjóðarinnar bregðast að nokkru leyti. Og það nær auðvitað engri átt, að fjármunir þjóðarinnar séu notaðir þannig, að þeir séu festir í ýmsum framkvæmdum, sem ýmist eru ónauðsynlegar eða verða um alllangan tíma á því stigi, að þær geta ekki komið þjóðarbúskapnum að neinu gagni. Það á ekki að verja fjármunum þjóðarinnar á þennan hátt. Það kostar of mikið. Þessu þarf að breyta. Hér er einnig um grundvallaratriði að ræða, sem ríkisstj. hefur ekki viljað fallast á. Hún hefur viljað hafa sinn hátt á, og því höfum við búið við það skipulagsleysi, sem allir þekkja.

Auk þessara atriða höfum við Alþb.-menn æ ofan í æ bent á fjölmörg atriði, sem mætti gera útflutningsatvinnuvegum þjóðarinnar til stuðnings. En þau atriði eru flest þannig, að þau koma ekki heim og saman við kennisetningar ríkisstj. í efnahagsmálum. Við höfum t.d. bent á, að það sé réttlátt og sjálfsagt að lækka vexti mjög verulega, einkum á lánum til útflutningsframleiðslunnar, frá því, sem nú er. Núna eru vextirnir í framkvæmd 9–10% á lánum til útflutningsframleiðslunnar og í mjög mörgum tilfellum 12%, en þeir vextir koma út í öllum þeim tilfellum, þar sem um vanskil er að ræða, vegna þess að vanskilavextirnir eru 12%. Og skýrsla hefur verið lögð um það m.a. fram hér á Alþ., sem sýnir, að vanskilaskuldir útflutningsframleiðslunnar eru gífurlega miklar og af þeim eru reiknaðir 12% vextir. Það liggur líka fyrir, að t.d. hjá einni okkar aðalsamkeppnisþjóð í sjávarútvegi, Norðmönnum, þar eru vextirnir af þýðingarmestu sjávarútvegslánum á milli 3 og 4%. Um þetta er ekkert hægt að deila, þetta liggur fyrir. En þó að erfiðleikar steðji að okkar útflutningsatvinnuvegum, miklir erfiðleikar, mikið verðfall, jafnvel aflarýrnun, lemur hæstv. ríkisstj. höfðinu við steininn allan tímann og segir: Vextirnir skulu standa. Vextirnir mega ekki lækka. Álögurnar á framleiðsluna mega ekki minnka. — Við álitum, að það sé hægt að ná verulegum árangri strax í þessum efnum, ef hér væri breytt um stefnu.

Við höfum einnig bent á það, að það væri sjálfsagt að lengja stofnlán framleiðsluatvinnuveganna a. m. k. upp í það, sem stofulánatíminn var fyrir viðreisn, en það var eitt af viðreisnarstefnuskráratriðunum að stytta lánstímann á stofnlánum hjá framleiðslufyrirtækjum. En vitanlega þýddi stytting stofnlána meiri afborganir, meiri útgjöld, erfiðari rekstur. En það þýðir ekki að minnast á þessa till. við stjórnarherrana. Þeir halda sig við sínar gömlu kenningar og neita að framkvæma þessa tillögu.

Við höfum einnig bent á, að vitanlega þarf að gera ráðstafanir til þess, að gagnleg framleiðslufyrirtæki, sem m.a. framleiða fyrir erlendan markað, geti fengið eðlileg stofnlán. En það er fjarri því, að þau hafi fengið það. Mjög mörg framleiðslufyrirtæki, sem nú eiga m.a. í miklum fjárhagserfiðleikum, hafa ekki fengið nema lítið brot af stofnkostnaði fyrirtækjanna með eðlilegum stofnlánakjörum. Ráðstafanir í þessa átt mundu strax bæta.

Þá höfum við einnig bent á það, að það sýnist alveg sjálfsagt að fella niður að mestu leyti útflutningsgjöld, sem nú eru á útfluttum afurðum, a. m. k. í þeim tilfellum, þar sem stórkostlegt verðfall hefur orðið á erlendum markaði á þeim vörum. Er nokkurt vit í því að halda enn uppi útflutningsgjöldum t.d. á bræðslusíldarafurðunum, sem hafa fallið svona mikið í verði, — útflutningsgjöldum, sem nema á milli 9 og 10%, þegar allt er talið? Keppinautar okkar í Noregi borga svo til ekkert útflutningsgjald af þessum vörum. Hér er vitanlega verið að íþyngja framleiðslunni alveg úr hófi fram. Ég veit, að því er haldið fram, að talavert mikill hluti af þessu útflutningsgjaldi renni á óbeinan hátt til sjávarútvegsins, m.a. til þess að standa undir ákveðnu vátryggingakerfi fiskibátaflotans og togaranna. Við því er það að segja, að þetta er vátryggingakerfi, sem á engan sinn líka í vitleysu og hvað það er dýrt og óhentugt á allan hátt og enginn tryggingafræðingur fæst til þess að mæla bót og erlendur sérfræðingur, sem leitað var umsagnar hjá, lagði til, að yrði lagt niður hið fyrsta. Það á vitanlega að leggjast niður, og hér á að taka upp nýtt form á, og það er vissulega hægt að afla nauðsynlegra tekna til þess að standa undir þessum útgjöldum í rekstri fiskiskipa með öðrum hætti en slíku útflutningsgjaldi sem þessu. Og það er engin ástæða til þess að halda uppi þessu háa útflutningsgjaldi, eins og nú er gert, einnig á þeim afurðum, þar sem verðið hefur fallið stórkostlega á erlendum markaði, til þess að byggja upp lánasjóði í jafnríkum mæli og nú er gert, því að þótt sjávarútvegurinn hafi á undanförnum árum byggt upp sína lánasjóði, m.a. með skatti af útflutningi, er engin ástæða til þess að halda því áfram einnig þegar svo þrengir að í rekstri sjávarútvegsins sem nú gerir í ýmsum greinum.

En það er alveg sama, þó að till. séu um þetta fluttar hér á Alþ. eða á það sé bent. Ríkisstj. bifast ekki, hún hreyfist ekki. Hennar sérfræðingar eru á móti, og við sama ófremdarástandið skal sitja ár eftir ár.

Við höfum líka, Alþb.-menn, bent á það hvað eftir annað, að eitt af þýðingarmestu atriðunum til stuðnings íslenzkum sjávarútvegi er, að ríkisvaldið sjálft hafi forgöngu um það, að togarafloti landsmanna verði byggður upp að nýju. Til þess verða auðvitað tekin erlend lán, eins og jafnan hefur verið gert, þegar togaraflotinn hefur verið endurnýjaður, og það er hægt að fá þessi lán. Það er hægt að gerbreyta íslenzkri togaraútgerð, ef væri einhver forusta af hálfu ríkisvaldsins til þess að gangast fyrir því verki. Það er eina leiðin til þess að bjarga togaraútgerðinni frá því eymdarástandi, sem hún býr við nú í dag, og þetta er ein mikilvirkasta leiðin líka til þess að leysa hið stóra vandamál fiskiðnaðarins í landinu, sem er hráefnaskorturinn. En þó að á þetta hafi verið bent æ ofan í æ á undanförnum árum, hefur ríkisstj. látið þetta eins og vind um eyru þjóta og ekkert gert í málinu.

Ég skal svo einnig benda á það, að fyrir rúmu ári sat hér að störfum sérstök mþn., skipuð mönnum úr öllum flokkum hér á Alþ., sem fjallaði um vandamál hinna smærri vélbáta, og nefndin varð sammála um margvíslegar ráðstafanir, sem mætti gera þessum atvinnurekstri til hagsbóta. Ríkisstj. fékk álit n., en sjálf átti hún meiri hl. þeirra manna, sem í n. voru, sem stuðningsmenn sína, en hún hefur nálega ekkert framkvæmt af þeim till., sem n. gerði, nálega ekkert.

Þessi atriði og mörg fleiri, sem auðvelt væri upp að telja, mætti gera til stuðnings framleiðsluatvinnuvegunum í landinu, en sem sagt, það virðist ekki hafa passað í kramið varðandi stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum. Og síðast en ekki sízt mætti svo benda á það, að þær almennu lánareglur, sem Seðlabankinn hefur ákveðið með samþykki ríkisstj. um rekstrarlán til atvinnuveganna, eru þess eðlis, að þær hljóta að torvelda eðlilegan rekstur góðra fyrirtækja stórlega. Og á þetta er bent á hverju ári af þeim mönnum, sem þekkja til í rekstri þessara framleiðslufyrirtækja, en árangur til úrbóta verður enginn.

Ég álít því, að það sé í rauninni alveg tómt mál fyrir ríkisstj. að halda áfram að klifa á því, bæði hér á Alþ. og í blöðum sínum, að við í stjórnarandstöðunni komum aldrei fram með neinar till., engar till. til þess að leysa vandamál sjávarútvegsins eða atvinnuveganna, engar till. um það, hvernig mætti halda betur á ríkisbúskapnum. Það hafa hér komið fram margar till., sem ríkisstj. hefur ekki viljað ræða við stjórnarandstöðuna. En það, sem óneitanlega hefur þjarmað að okkar útflutningsatvinnuvegum, er hin ranga stefna ríkisstj. í efnahagsmálum. Á meðan svo stóð, að aflinn fór vaxandi hjá sjávarútveginum frá ári til árs og verðlagið á erlendum mörkuðum hækkaði gífurlega frá ári til árs, þoldu atvinnuvegirnir þessa röngu stefnu, þá lifðu þeir þetta af, a. m. k. allir sterkari þættirnir. En þegar á móti blæs, þegar dálítið dregur úr aflanum frá því, sem hann hafði mestur orðið áður, og þegar verulegt verðfall skellur á hjá sumum útflutningsgreinunum, rekst allt í harðan hnút undireins. Það er því fullkomlega rétt, sem við Alþb.-menn höfum sagt. Sá vandi sem nú steðjar að okkar útflutningsatvinnuvegum, er tvíþættur. Hann er annars vegar vegna óhagstæðrar þróunar á erlendum mörkuðum og hins vegar vegna alrangrar stefnu, sem hér hefur verið haldið fram í efnahagsmálum, — stefnu, sem er okkar útflutningsatvinnuvegum sérstaklega óhagstæð.

Ég á sæti í þeirri n., sem kemur til með að fjalla um afgreiðslu þessa frv., og skal því ekki hér við 1. umr. ræða málið öllu lengur, þó að mörg tilefni hafi hér verið gefin til þess, að það yrði rætt á jafnvel enn breiðari grundvelli en gert hefur verið. Ég læt því máli mínu lokið um frv. nú, en vil aðeins segja það að lokum, að ég tel, að þær aðgerðir, sem áformaðar eru með því frv., sem hér er til umr., muni ekki ná tilgangi sínum. Þær leysa engan vanda. Mér sýnist, að miklu líklegra sé, að ef þessar ráðstafanir verði framkvæmdar, muni þær innan skamms auka á vandann, gera vandamálið enn þá stærra en það er. Ég hef enga trú á því, að þó að ríkisstj. mæli svo fyrir í lögum, að það skuli reynt að hafa af láglaunafólki í landinu 7–8% í kaupi, komist ríkisstj. upp með slíkt. Ég held, að íslenzk verkalýðssamtök séu svo sterk,að þau velti þessu af sér og það fari eins með þessa dýrtíðaröldu, sem stjórnin reisir, og aðrar, sem hún hefur horft á rísa hér eða staðið beinlínis fyrir að risu hér, þær skella yfir okkar útflutningsatvinnuvegi fyrr eða síðar og auka á heildarvandamálið, sem þarf að leysa í okkar efnahagsmálum.