18.10.1967
Neðri deild: 5. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (2289)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar hæstv. dómsmrh. var að tala hér í dag, var mér ekki vel ljóst, hvaða mál væri á dagskrá, hélt á tímabili, að þetta væru heilbrigðismál. En síðar virtist mér málflutningur hans benda til þess, að nú væru hafnar almennar stjórnmálaumr., svonefndar eldhúsdagsumr., en þá hefði náttúrlega samkv. gamalli venju átt að útvarpa umr. frá fundinum.

Hæstv. ráðh. kvaðst vona, að umr. hér um þetta mál yrðu til þess að gera mönnum auðveldara að glöggva sig á efni stjfrv., en ég held, að það verði alls ekki sagt um hans löngu ræðu, að hún hafi miðað í þá áttina.

Hæstv. viðskmrh. talaði hér í gær. Hann sagði, að þegar menn töluðu mikið um það, að lækkun á niðurgreiðslum á vöruverði væri kjaraskerðing, ættu þeir að hafa það í huga, að í fyrra hefðu niðurgreiðslurnar verið auknar og þá hefðu menn fengið kjarabætur. við þetta er það að athuga, að eftir að niðurgreiðslurnar voru auknar í fyrra, fengu launamenn minni vísitöluuppbót á sín laun vegna þess að niðurgreiðslur voru auknar. Hins vegar horfir málið núna svo við, að þó að niðurgreiðslurnar séu minnkaðar og vöruverðið hækki, fá menn ekki auknar verðlagsuppbætur eða vísitöluuppbætur á sín laun. Ég fæ því ekki skilið þessa röksemdafærslu hæstv. viðskmrh.

Frv., sem hér liggur fyrir og flutt er af hæstv. ríkisstj., nefnist um efnahagsaðgerðir. Oft hafa slík mál áður verið nefnd ráðstafanir. Þetta nýja nafn er e. t. v. ekkert lakara. Það er ekki víst, að þetta frv. valdi sérstökum spjöllum á íslenzku máli, en sé svo, er það líklega það eina, sem hægt er að telja því til gildis.

Frv. er í sex köflum og greinafjöldinn 31. Hér kennir margra grasa, en ekki eru það skraut- eða nytjajurtir. Einn kaflinn er um breytingu á ýmissi skattheimtu. Þar segir m.a., að margfalda skuli fasteignamat, áður en eignarskattur er reiknaður. Út af þessu vil ég spyrja hæstv. ríkisstj., hvenær megi vænta þess, að lokið verði við framkvæmd fasteignamatsins, sem unnið hefur verið að undanfarin ár, svo að það geti tekið gildi. Virðist vera seinagangur á þessu.

Ríkisstj. hefur gripið til þess ráðs að lækka mjög niðurgreiðslur á vöruverði og veldur þetta verðhækkunum á nauðsynjum almennings, svo sem mjólk og kjöti. Gera má ráð fyrir, að húsmæðrum hér í borginni og víðar hafi brugðið í brún, þegar þær komu í mjólkurbúðir morgun einn í vikunni sem leið og urðu að borga miklu hærra verð en áður fyrir mjólkina, vegna þess að búið var að stórlækka niðurgreiðslur á þeirri vöru.

Það eru fleiri drykkjarvöruverzlanir hér í höfuðborginni heldur en mjólkurbúðir samsölunnar. Ríkið rekur hér vínverzlun, og það opinbera hefur borgað niður verð á áfengi. En þær niðurgreiðslur hafa verið takmarkaðar við fáa af viðskiptamönnum verzlunarinnar. Það eru aðeins nokkrir fyrirmenn, aðallega ráðherrar og forsetar, sem hafa notið þeirra fríðinda að fá þar vín með niðurgreiddu verði. Ekkert hefur heyrzt um það, að þessar niðurgreiðslur hafi verið afnumdar eða lækkaðar. Ég geri ekki ráð fyrir þess vegna, að það hafi verið gert. Trúlega hefði stjórnin látið þess getið, ef hún hefði lækkað eða fellt niður niðurgreiðslur á víninu, um leið og hún lækkaði þær á mjólkinni. Í stað þess má gera ráð fyrir, að auknar verði niðurgreiðslur á víninu. Útsöluverð á áfengi hefur nýlega verið hækkað. Ekki mun það stafa af verðhækkun vörunnar erlendis, heldur í því skyni gert að afla ríkissjóði meiri tekna af vínsölunni. En séu þær reglur óbreyttar, sem gilt hafa um viðskipti ráðh. og forseta við áfengisverzlunina, sem ég geri ráð fyrir, mun niðurgreiðsla á áfenginu til þeirra aukin sem verðhækkuninni nemur, svo að þeir verði ekki fyrir skakkaföllum í því sambandi.

Oft hafa verið gerðar tilraunir hér á Alþ. til þess að láta fyrirmennina borga sama verð og aðrir landsmenn borga fyrir áfengi en það hefur ekki tekizt, vegna þess að þm. hafa staðið vörð um stjórnarherrana og staupin þeirra.

Ég held, að það hefði verið skynsamlegt að fella niður niðurgreiðslurnar á víninu, áður en farið var að hækka mjólkurverðið með lækkun á niðurgreiðslum. Hæstv. ríkisstj. virðist meta þetta á annan hátt. Myndin, sem hér blasir við augum manna, er þessi: Mjög er dregið úr niðurgreiðslu á verði mjólkur, svo að menn verða að borga allmiklu hærra verð en áður fyrir þá nauðsynjavöru, og þyngst leggst sú verðhækkun á fjölmennustu heimilin alveg án tillits til greiðslugetu þeirra. En á sama tíma fá nokkrir fyrirmenn í þjóðfélaginu áfengi hjá ríkisverzlun með niðurgreiddu verði, og sennilega er nú verið að auka þær niðurgreiðslur.

Hvernig lízt mönnum á þessa smámynd af stjórnarfarinu? Ef ráðh. og forsetar eiga mjög óþægilegt með að borga sinn drykk með peningum úr eigin vösum, svo að hið opinbera þurfi að hlaupa þar undir bagga, held ég að réttara væri að gefa þeim lýsi heldur en áfengi. Ég veit, að störf ráðh. eru erfið, og gera má ráð fyrir, að alþingisforsetar hafi einnig nokkrar áhyggjur af þeim örðugleikum, sem nú steðja að þjóðinni. Þessir menn hafa því sennilega þörf fyrir góða hressingu á morgnana, þegar þeir rísa á fætur, áður en þeir taka til starfa. Og þá væri vissulega hollara fyrir þá að fá lýsissopa heldur en sumar aðrar drykkjartegundir.

Það er talið, að verðfall á lýsi eigi verulegan þátt í vanda sjávarútvegsins. Það er nú aðallega talað um síldarlýsi að vísu, en ég get vel búizt við, að það eigi við um fleiri lýsistegundir. En úr því að þessi vara hefur fallið mjög í verði, ætti ekki að vera tilfinnanlegur útgjaldaliður fyrir ríkissjóð, þó að hann gæfi ráðherrum og forsetum lýsisspón á morgnana og jafnvel á kvöldin líka. Lýsið er sjálfsagt langtum ódýrara en áfengið, og verði sú breyting gerð, sem ég hef hér rætt um, mundi það tvennt vinnast að bæta fjárhag ríkissjóðs og líkamlega heilbrigði stjórnarherranna. Og aðgerðir, sem miða að þessu tvennu, hljóta að teljast góðar.

Þingnefndin, sem fær frv. til athugunar, ætti að íhuga þetta.