18.10.1967
Neðri deild: 5. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (2293)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Forsrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Vegna síðustu ummæla hv. 1. þm. Austf. vil ég einungis leggja áherzlu á það, að mestu máli skiptir, að óumdeilanlegt er, að á síðustu árum, þ.e.a.s. frá árslokum 1959 þangað til nú, hafa lífskjör almennings á Íslandi a. m. k. batnað um þriðjung og nálgast í mörgum tilfellum, að þau hafi batnað um helming. Ef menn miða verðlag nú við það, sem var í upphafi þessa tímabils á útflutningsvörum landsmanna, og segja: Vandinn er enginn, þarf ekki að vera neinn, vegna þess að verðlagið nú eftir þessar gífurlegu lækkanir er þó ekki lægra en var, — þá verða menn að líta á þá kostnaðarhækkun, sem atvinnuvegirnir hafa orðið fyrir við þennan lífskjarabata og hækkanir á verðlagi. Arðurinn af auknum afla og hagkvæmni hefur runnið til almennings jafnóðum. Einmitt þess vegna er óhjákvæmilegt, að skerðingin bitni á öllum almenningi. Fram hjá því komumst við ekki, hvort sem við viljum eða viljum ekki. Þetta er óhagganleg staðreynd, sem ekki verður með neinu móti umflúin.

Hv. 6. þm. Reykv. var eitthvað sár við mig, eins og raunar kom fram í blaði hans í morgun, út af ummælum, sem hann taldi að ég hefði beint til sín hér í gær. Hann minnti mig þá á sögu af bónda, sem kærði til yfirvalds og sagðist hafa verið úti í haga með hund sinn, þá hefðu menn komið þar að og einn hefði hrópað: Skjótið þið helvítis hundinn, og hann átti við mig, sagði bóndinn. Hv. þm. tók til sín ummæli, sem ekki voru sérstaklega af mér tilfærð upp á hann, sumpart var ég raunar að vitna í hans eigin ummæli. En það gleður mig, að hann skuli skilja sína eigin skömm og taka það til sín, sem hans framkoma hér í gær átti skilið. Annað er það, að það var allt annar bragur yfir ræðu hans í dag. Hann hafði tekið sér til lærdóms þær umr., sem hér urðu. Hann reyndi að vísu enn að klóra í bakkann með það, að ég hefði á einhvern hátt brugðizt júnísamkomulaginu, og vitnaði því til styrktar í ummæli hv. 2. landsk. þm., Eðvarðs Sigurðssonar, sem einmitt staðfesti í einu og öllu það, sem ég hafði sagt, og sagðist vel muna eftir mínum fyrirvörum, áður en samningurinn var undirritaður, og yfirlýsingunni, sem ég gaf á Alþingi, þegar frv. var lagt fram, um, að verðtryggingin væri ekki skuldbindandi fyrir ríkisstj., nema þetta eina samningstímabil. Þetta er óhnekkjanlegt með öllu.

Hitt er svo allt annað mál, að hv. 2. landsk. þm. færði að því alveg fullgild rök, að vitanlega hefðu verkalýðsfélögin samið öðruvísi á undanförnum árum, ef verðtryggingin hefði ekki verið fyrir hendi. Þetta er viðurkennt af mér og hefur aldrei verið vefengt, og það er einnig óvefengjanlegt, að verðtryggingin er forsenda þeirra samninga, sem gerðir hafa verið, að svo miklu leyti sem nokkrir samningar eru fyrir höndum milli vinnuveitenda og verkalýðsfélaga. En það er þá einnig rétt að minna á það í þessu sambandi, að frá því í okt. 1966 eru langflestir samningar lausir milli vinnuveitenda og verkalýðsfélaganna, vegna þess að sumarið 1966 fengust verkalýðsfélögin ekki vegna óvissu, sem þau töldu vera fram undan, til þess að semja nema fram til 1. okt. og fengu þá almenna grunnkaupshækkun, a. m. k. Dagsbrúnarfélagið hér í Reykjavík, þar sem lágmarkið var 3½%. Það er einnig rétt að minna á það, að ríkisstj. var með réttu eða röngu ekki neinn aðili að þessum samningum og aðvaraði gegn gerð þeirra, vegna þess að hún taldi, að eftir atvikum væri slík samningsgerð, a. m. k. til svo skamms tíma, ekki hyggileg. Aðilar töldu engu að síður rétt að gera þá samninga. Ég hef aldrei ásakað þá eftir á fyrir það. Ég skildi ofurvel aðstöðu þeirra. En ríkisstj. kom þar hvergi við sögu nema með sinni aðvörun. Og það er enn til áherzlu þess, að samningsleg skuldbinding um verðtryggingu af hálfu ríkisstj. er auðvitað því frekar úr sögunni, í fyrsta lagi, þegar því er lýst yfir, að hún gildi einungis eitt ár, í öðru lagi, að hún gildi einungis, á meðan grunnkaup er óbreytt, og þegar síðan er farið að semja einungis til fjögurra mánaða, að vísu að 2 árum liðnum, og loksins eftir að allir samningar eru lausir á milli verkalýðsfélaga og vinnuveitenda. Hvernig er þá hægt að tala um, að það sé samningsrof, að aðili, sem hafði fyrir fram lýst yfir því, að hans skuldbinding í þessu efni stæði hvort eð er ekki nema um eitt ár, og það ár var liðið 5. júní 1965, og gerði aðra fyrirvara, að halda því fram, að hann einn væri bundinn, eftir að allir aðrir eru lausir við allar sínar skuldbindingar og engir samningar eru fyrir höndum? Nei, ásakanir um brigðmælgi og svik, þegar þannig stendur á, eru auðvitað gersamlega út í bláinn og fá ekki með neinu móti staðizt.

Hitt er svo rétt og liggur þegar í því, að samningar eru lausir, að það er viðbúið, að verkalýðshreyfingin noti sitt frelsi til þess að ná öðrum hlunnindum á móti verðtryggingunni, ef hún telur efni standa til þess. Það er alveg ljóst. En verðtrygginguna á ekki heldur að afnema fyrir fullt og allt, ég legg áherzlu á það. Og það á ekki að binda skv. því frv., sem hér liggur fyrir, samningsrétt verkalýðsfélaganna. Þau hafa sinn samningsrétt eftir sem áður, þau geta knúið fram kauphækkanir, ef þau hafa mátt til þess og ef þau telja það rétt. En einmitt þess vegna er mikilsvert, ekki vegna þess, að ríkisstj. hafi gengið á bak nokkrum loforðum, hvorki í heild né ég sem hennar forsrh., heldur vegna efnis málsins, þá er mjög mikilsvert, að það sé reynt að ná samkomulagi við verkalýðsfélögin um þetta mikla vandamál, sem hér er um að ræða.

Og það var einmitt það sérstaklega eftirtektarverða í ræðu hv. 2. landsk. þm., sem skar sig mjög úr ræðum allra annarra hv. stjórnarandstæðinga, ekki einungis það, að hann viðurkenndi, að ég hafði efnislega sagt satt frá um það, sem mig og hv. 6. þm. Reykv., flokksbróður hans, greindi á, þó að hv. 2. landsk. þm. segði, að vegna þess að júnísamkomulagið væri þannig úr sögunni, væru verkalýðsfélögin óbundin, — það er allt annað mál, — að hann lýsti því skýlaust yfir, að hann teldi rétt að reyna samninga milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj. Þetta er sú þýðingarmesta yfirlýsing, sem fram hefur komið í umræðunum af hálfu hv. stjórnarandstæðinga, og er vissulega þess verð, að eftir henni sé tekið. Hv. þm. lýsti því enn fremur yfir, að hann teldi, að hér væri við mjög mikla og alvarlega erfiðleika að etja, sem hann á engan hátt vildi gera lítið úr, gagnstætt því, sem aðrir hv. stjórnarandstæðingar höfðu gert. Og hann sagði loksins það sama, sem ég lagði á höfuðáherzluna af hálfu ríkisstj., að það, sem fyrst og fremst vakir fyrir okkur, er að forðast atvinnuleysi, og hv. þm. sagði einmitt, að það, sem mestu máli skipti og réði úrslitum, væri: Er hægt að koma í veg fyrir atvinnuleysi eða ekki? Það er vegna þess, að við erum sannfærðir um það, að þær till., sem við hér leggjum fram, eru, eins og á stendur, forsenda þess, að fram hjá þessu böli verði komizt, sem ég fagna því, að samkv. þessari yfirlýsingu séu vonir til þess, að samningaviðræður verði reyndar milli ríkisvaldsins og verkalýðshreyfingarinnar. Hitt legg ég áherzlu á, að það var auðvitað ekki hægt fyrir fram að hefja slíkar viðræður vegna þess, hvers eðlis þær ráðstafanir voru, sem óhjákvæmilega þurfti að mati stjórnarinnar að gera og lýstu sér með þeim aðgerðum, sem í þessari viku hafa verið framkvæmdar.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að þræta frekar um það, sem hér hefur verið um deilt. Eins og menn hafa sagt, verður vafalaust að mörgu af því vikið síðar á þinginu. Aðalatriðið er auðvitað þetta, að menn festi sig ekki í gömlum deilum eða annarlegum efnum eins og því, sem við vitum að er æðsta hugsjón Framsfl., a. m. k. hins virðulega formanns hans, að koma núverandi ríkisstj. frá. Þetta getum við skilið. Þetta er lögmætt og eðlilegt hugsjónamál hv. 1. þm. Austf. En þetta skiptir ekki öllu máli né ágreiningur okkar um ótalmörg önnur efni. Aðalatriðið er það nú: Kunnum við að bregðast við mesta áfalli, sem íslenzkt efnahagslíf hefur orðið fyrir frá árinu 1931? Það er það, sem við verðum eftir dæmdir. Ef okkur tekst að leysa þann vanda í sameiningu, opnar það leið fyrir margs konar öðru samstarfi í þjóðfélaginu, það skulum við gera okkur ljóst. En þeir, sem skorast undan að leggja lið að lausn þess vanda og reyna að magna hann, þeir munu einnig dæma sig úr leik, ekki einungis hér á þingi að þessu sinni, heldur um framvindu þjóðmálanna um langt árabil.