14.11.1967
Neðri deild: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (2298)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Meginefni þess frv., sem hér liggur nú fyrir til 2. umr., er það, sem fram kemur í I. kafla frv., en þar er gert ráð fyrir því að breyta þeim reglum, sem í gildi hafa verið nú um nokkurt skeið varðandi útreikning á kaupi eftir vísitölu, þ.e.a.s. að umsamið kaup í landinu skuli gjarnan breytast í réttu hlutfalli við breytingar á verðlagi. Í þessu frv. er að því stefnt að raska þessum megingrundvelli, sem í gildi hefur verið, og nú er gert ráð fyrir því, að allmiklar verðlagshækkanir, sem eiga að ganga yfir og menn vita um að muni ganga yfir, eigi ekki að koma fram í kaupgjaldsvísitölu. Launþegar í landinu eiga ekki að fá þessar verðhækkanir bættar. Þetta er meginkjarni þessa frv., sem hér liggur fyrir.

En þetta frv. er hins vegar í nánu sambandi við þær efnahagsráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur boðað að undanförnu og sérstaklega komu fram í grg. hennar með fjárlagafrv. Í grg. fyrir þessu frv. skýrir ríkisstj. frá því, að telja megi, að þær verðhækkanir, sem vitað sé um að muni ganga yfir á næstunni vegna þessara efnahagsráðstafana ríkisstj., muni hækka verðlag í landinu sem nemi um 7½%, miðað við þá vísitölu, sem mælt hefur verið eftir fram til þessa. Ríkisstj. gerir sem sagt ráð fyrir því í sínum till., að kaupmáttur launa verði lækkaður samkv. þessu frv. sem nemur a. m. k. 7½%.

Það er enginn vafi á því, eins og hér hefur komið fram í umr. áður, að það má búast við því, að sú kaupskerðing, sem yrði samkv. þessu frv., yrði nokkru meiri en sem nemur 7½% hjá þorranum t.d. af verkafólki í landinu eða öllum þeim, sem búa við eitthvað lægri tekjur en meðaltekjur. Það stafar af því, að þær verðhækkanir, sem hér er um að ræða, eru þess eðlis, að þær koma til með að hvíla þyngst á þeim, sem nota meginhlutann af útgjöldum sinum til nauðsynlegra hluta, eins og t. d, til þess að kaupa sér matvæli eða verða að greiða þá nefskatta, sem hver og einn er skyldugur að greiða, en þeir eru jafnháir á þann tekjulága og þann tekjuháa. Útgjöldin mundu því verða tiltölulega meiri samkv. þessum verðhækkunum á t.d. fjölskyldu, sem hefur aðeins 180 þús. kr. kaup eða 200 þús. kr. kaup, heldur en á fjölskyldu, sem hefði t.d. 400 þús. kr. kaup. Það er því mjög hætt við því, að bein kjaraskerðing samkv. þessu frv. yrði fyrir flest alþýðufólk í landinu mun meiri en sem nemur 7½%. Ég bygg, að það mundi verða nær því að tala um kjaraskerðingu, sem næmi a. m. k. 10–12% en 7½% hjá því fólki, því að því er nú þannig varið, að till. ríkisstj. miða alveg sérstaklega að því að breyta verðlagi á þeim vörum, sem á þennan hátt hafa mest að segja fyrir venjulegt heimili.

Þessar till. um jafnmikla tilfærslu og hér er um að ræða eru auðvitað rökstuddar af ríkisstj. Hún verður skiljanlega að koma með sín rök fyrir því, hvernig stendur á því, að hún grípur til slíkra till. sem þessara. Og þá kemur í ljós, að það, sem ríkisstj. hefur helzt fram að færa, er það, að atvinnuvegir landsins, einkum og sérstaklega útflutningsatvinnuvegirnir, hafi nú orðið fyrir miklu áfalli, bæði vegna minnkandi afla og eins vegna verðfalls á útflutningsvörum landsmanna. Maður skyldi því halda, að þær ráðstafanir, sem hér er um að fæða, beindust að því að bæta þeim upp tjónið, sem hafa orðið fyrir því. En þó að ríkisstj. noti þetta sem röksemdir fyrir því, að nú þurfi að skerða kaupmátt launa í landinu, verður hún þó að játa, að hún ætlar ekki að nota þá fjárhæð, sem hún ætlar að afla sér, í þeim tilgangi að bæta afkomu þeirra atvinnuvega í landinu, sem orðið hafa sannanlega fyrir allmiklum áföllum. Ríkisstj. tekur beinlínis fram í grg. sinni fyrir þessu frv., að ekki sé gert ráð fyrir því, að neitt af þeim tekjum, sem hér er um að ræða, eigi að renna til aukins stuðnings við þá atvinnuvegi, sem hér hafa orðið fyrir nokkru áfalli.

Það þarf svo ekki heldur að minnast á það, að hér er ekki heldur um það að ræða, að það eigi að nota þá fjárhæð, sem hér er um að ræða, til þess að veita því fólki stuðning, sem líka hefur orðið fyrir miklu tekjutapi vegna þess, hvernig gengið hefur með okkar útflutningsframleiðslu. Nei, það kemur mjög skýrt fram hjá ríkisstj., að sú fjárhæð, sem hún sækist eftir að fá, á að renna í ríkissjóð til þess að standa þar undir þeim útgjöldum, sem ríkissjóður hafði áður fengið tekjustofna til að standa undir. Og þá kemur líka í ljós, að gert er ráð fyrir því, að útgjöld ríkissjóðs eigi á næsta ári að vera mun hærri en þau hafa nokkurn tíma áður verið. Það er sem sagt ekki meiningin að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Þó að það eigi að draga stórkostlega úr tekjum heimilanna í landinu, þá segir hæstv. fjmrh., að hann þurfi á meiri tekjum að halda, hann ætli að eyða meiru á næsta ári en hann gerði á árinu í fyrra og árinu í ár. Þar er ekki um það að ræða, að hann sjái nokkurn einasta möguleika á því að færa niður nokkur útgjöld. Hér er því um það að ræða, að ríkisstj. metur kringumstæður þannig, að nú sé hægt að leggja á þjóðina nýja skatta eingöngu til þess að auka við tekjur ríkissjóðs, án þess að hér sé um það að ræða, að hagur þeirra verði bættur, sem hafa sannanlega orðið fyrir áföllum. Og þegar ríkisstj. er um það spurð, hvað hún hugsi sér að gera í vandamálum atvinnuveganna, verst hún allra frétta og segir, að það liggi ekki enn þá fyrir, hvort það þurfi að koma til aukastuðnings eða ekki eða hvað mikill sá stuðningur þurfi þá að vera.

Nú sér það auðvitað hvert mannsbarn, að þannig er orðið ástatt í atvinnulífi landsmanna, að ef ekki á illa að fara, verður að koma þar til breytt stjórnarstefna atvinnuvegunum til stuðnings eða aukinn stuðningur, því að annars er alveg fyrirsjáanlegt, að atvinna í landinu stórkostlega dregst saman og þá auðvitað bresta tekjur ríkissjóðs líka, ef á að sýna atvinnuvegunum algert skilningsleysi. Hér er því, eins og sagt hefur verið, ekki tekið raunhæfum tökum á þeim vandamálum, sem fyrir liggja. Aðalvandamálið er um það, hvernig á að leysa vandamál atvinnulífsins í landinu. Og þá er auðvitað komið að því, sem hæstv. forsrh. margendurtók hér í ræðu sinni fyrir þessu máli við 1. umr. Hann sagði, að það væri auðvitað höfuðnauðsyn, ef hægt ætti að vera að leysa mikil vandamál, að gera sér grein fyrir því, í hverju vandinn lægi og hvernig stæði á erfiðleikunum. En það er einmitt þetta, sem ég álít að hæstv. ríkisstj. fáist ekki til eða hafi ekki fengizt til að vilja gera sér grein fyrir fram til þessa.

Vandi atvinnuveganna er tvenns konar eða hann stafar hér af tveimur meginástæðum. Annars vegar er um að kenna þeirri stjórnarstefnu, sem hér hefur verið haldið uppi og er enn haldið uppi gagnvart atvinnulífinu í landinu, sem leggur þungar byrðar á atvinnulífið. Hins vegar er svo um það að ræða, að nokkrar greinar atvinnulífsins hafa orðið fyrir áfalli vegna breyttra ytri viðskiptaskilyrða. Það er þessi vandi, sem þarf að fást við.

Ég vil í þessu sambandi minna á nokkur atriði enn einu sinni um þennan raunverulega vanda, sem við er að fást í efnahagslífi þjóðarinnar. Við Alþb.-menn höfum bent á það nokkrum sinnum, að sú stefna í peningamálum, sem haldið hefur verið uppi, sé atvinnulífi landsmanna óhagstæð. Hér er haldið uppi vaxtapólitík, sem þýðir útgjöld fyrir þá, sem þurfa að taka fé að láni, í langflestum tilfellum hjá sjávarútveginum er hér um að ræða vexti, sem nema 9–10%, og í allmörgum tilfellum þurfa sjávarútvegsfyrirtæki að greiða 12% vexti, en það er vegna ákvæðanna um dráttarvexti, er mjög mörg útgerðarfyrirtæki verða nú að greiða svo að segja allt árið, dráttarvexti af aðallánum sínum við sína viðskiptaaðila. Þessi vaxtapólitík leggur óhæfilegar byrðar á framleiðsluatvinnuvegi og skapar okkar útflutningsatvinnuvegum miklu þyngri skilyrði en samkeppnisaðilar okkar hafa hér í nálægum löndum. Á það hefur verið bent, að t.d. í Noregi er mjög algengt, að vextir til útgerðarinnar eða fyrirtækja, sem starfa í beinu sambandi við útgerðina þar, séu frá 33/4% til 5½%, eða vextirnir eru hér fyllilega helmingi hærri. En hvað þýðir að minnast á þetta við hæstv ríkisstj., að hér eigi að verða breyting á, þegar þyngir í hjá atvinnuvegunum? Það virðist ekki þýða neitt. Þetta er hér endurtekið ár eftir ár af okkur í stjórnarandatöðunni, að á þessu þurfi að verða breyting. En ríkisstj. fæst ekki til að gera þessa breytingu, hún heldur sér í sína gömlu, röngu stefnu.

Þá höfum við einnig bent á, að það var eitt meginatriðið í stefnu viðreisnarinnar í upphafi að breyta lánafyrirkomulaginu til atvinnuveganna, þ.e.a.s. að lán, sem höfðu verið um margra ára skeið, til 20 ára, stofnlán til nýrra fiskiskipa, voru færð með lögum niður í 15 ár, og stofnlán, sem höfðu verið til 15 ára, voru færð niður í 12 ár. Á þennan hátt er verið að íþyngja atvinnuvegunum með afborganir af lánum, gera útgjöldin á ári hverju mun meiri en eðlilegt er. Leiðréttingar í þessum efnum hafa ekki fengizt enn. Hið sama er að segja um rekstrarlán til atvinnuveganna. Þau eru öldungis of lítil, það vita allir, sem til þekkja, og þau há eðlilegum rekstri mjög verulega. En ríkisstj. heldur sér fast í sínar gömlu formúlur í þessum efnum og veldur því atvinnuvegum okkar erfiðleikum. Hér hjá okkur gilda alveg óeðlilega há útflutningsgjöld. Hár skattur er lagður á útflutningsframleiðslu, algjörlega ósambærilegur við það, sem hann er í nálægum löndum. Þótt á það hafi verið bent ár eftir ár, að það sé sjálfsagt að lækka þessi útflutningsgjöld og breyta því vátryggingarfyrirkomulagi, sem haldið hefur verið hér við í mörg ár, og það sé álit allra þeirra, sem þekkja til um vátryggingarmál, að það kerfi, sem er haldið uppi með þessum útflutningsskatti, sé mjög óhagstætt og fjárfrekt og það eigi að breyta því, fæst ríkisstj. ekki til að breyta þessu heldur.

Það er í þessum efnum, sem ég hef nú nefnt, sem þarf að breyta um stefnu. En svo þarf vitanlega ekki síður að breyta um stefnu í þeirri meginpólitík ríkisstj., sem fram hefur komið í verðlagsmálum í landinu. En stefna ríkisstj. í verðlagsmálum hefur leitt til þess, að verðlag hér innanlands hefur hækkað miklu meira en í nálægum löndum, en það hefur skiljanlega valdið okkar atvinnuvegum miklum rekstrarerfiðleikum og beinlínis leitt til þess, að ekki hefur verið hægt að halda uppi framleiðslu í sumum greinum. En ríkisstj. hefur haldið sér við það, allt fram til þess að hún greip til verðstöðvunarinnar, sem á aðeins að vera bráðabirgðafyrirkomulag, að hún hefur leyft hér frjálsa verðmyndun í landinu, en hún hefur sannanlega leitt til stórfelldrar álagningarhækkunar og stórkostlegrar hækkunar á milliliðakostnaði í landinu. Um þetta liggja fyrir alveg ótvíræðar tölur, og ég skal víkja að því nánar síðar. En þrátt fyrir það, að ríkisstj. viti, hvað hefur verið að gerast í þessum efnum í landinu á undanförnum árum, heldur hún enn í öllum meginatriðum í þessa úreltu stefnu sina í verðmyndunarmálum. Hún hefur stefnt að því að gera verðlagseftirlit í landinu svo að segja óvirkt með þeim afleiðingum, sem við þekkjum. Svipað er að segja um stefnu stjórnarinnar í fjárfestingarmálum. Hún veit, að það stefnuleysi, sem þar hefur ríkt, hefur orðið atvinnuvegum landsmanna mjög þungbært. Allt of mikið af fjármagni þjóðarinnar hefur nú farið í fjárfestingu, sem ekki kemur þjóðinni að gagni. Í allt of mörgum tilfellum þekkjum við, að um margra ára tímabil standa fasteignir hálfkláraðar og engum til gagns, en fjármunir hafa verið bundnir í slíkum framkvæmdum vegna skipulagsleysis. Auk þess hefur svo verið ráðizt í margvíslegar framkvæmdir, sem auðvitað eru ekki þjóðhagslega hagstæðar. Skipulagsleysið í fjárfestingarmálum hefur því leitt til þess, að fjármagni þjóðarinnar hefur verið ráðstafað mjög óheppilega og gegn hagsmunum undirstöðuframleiðslunnar í landinu. Ég býst t.d. við því, að mönnum muni þykja það alleinkennilegt að heyra, að tölur, sem Efnahagsstofnunin hefur birt um fjárfestingarframkvæmdir í landinu á undanförnum árum, segja m.a., að á árunum 1962–1966, eða á 5 árum, festi þjóðin í byggingarframkvæmdum á vegum verzlunar- og skrifstofufyrirtækja í landinu álíka mikið fjármagn og á sama tíma var fest í öllum fiskiðnaði landsmanna, þar með talið í sambandi við alla hina miklu síldarvinnsluuppbyggingu, sem átt hefur sér stað á þessum árum. Heildarfjárfestingin í verzlunarhúsum og skrifstofuhúsum á þessu tímabili var 1 milljarður 353 milljónir kr., en í öllum fyrirtækjum varðandi vinnslu sjávarafurða var fjárfestingin 1361 milljón, eða rétt um það bil sama fjárhæðin. En á þessu tímabili gerðist það, að við urðum að byggja okkur upp svo að segja nýjan síldariðnað, jafnt á vegum síldarsöltunar sem á vegum síldarbræðslu, á austurhluta landsins, þar sem slík mannvirki voru nálega engin til áður, en þau höfðu aðallega verið til í öðrum landsfjórðungum. Þetta varð að byggja upp vegna gífurlega mikillar framleiðslu þar, og í þetta hefur því verið eytt talsvert miklu fjármagni, en eigi að síður var eytt eins miklu í það að byggja verzlunar- og skrifstofuhús í landinu á þessu sama tímabili.

Ef litið er t.d. á það fjármagn, sem farið hefur í uppbyggingu fiskiskipaflotans, þess glæsilega flota, sem mikið er nú talað um um þetta leyti, — vissulega hafa verið keypt mörg fiskiskip og góð fiskiskip og afkastamikil, sem hafa sannarlega lagt vel í þjóðarbúið á þessu tímabili, — en fjárhæðin, sem notuð hefur verið til þess að eignast þessi skip, er rétt um það að vera álíka mikil og sú fjárhæð, sem notuð hefur verið á þessum sömu árum til þess að koma upp verzlunar- og skrifstofuhúsum í landinu, ekki meiri en svo.

Auðvitað hefur þetta ekki verið hagkvæmt. Auðvitað hefur hér verið haldið illa á spilum. En það er skipulagsleysið í fjárfestingarmálum, sem hefur leitt þetta af sér, sem veldur allri þjóðarheildinni hér ómældum útgjöldum. En ríkisstj. hefur haldið sér við sína stefnu eða öllu heldur stefnuleysi í þessum efnum og vill ekki frá þessu víkja. Hún heldur sér við það, að áfram skuli gilda hér stefnuleysi í fjárfestingarmálum, stefnuleysi í verðlagsmálum í sambandi við verðlagseftirlit. Hennar eina breytta stefna er þá sú nú, að hún telur, að nú sé tækifæri til þess að ganga enn þá lengra í þá átt að reyna að skerða kaup almennra launþega í landinu. Það er þessi stefna, sem þarf að breyta. Ef henni væri breytt, stjórnarstefnunni í þessum efnum, mundi það vera gífurlegur stuðningur við atvinnuvegi landsmanna. Það kann vel að vera, að það þurfi að koma meira til vegna sérstakra áfalla til stuðnings atvinnuvegunum, en þá er auðvitað sjálfsagt að athuga, hvernig það skuli gert. En sú ríkisstj., sem vill ekki gera sér grein fyrir því, að þetta er vandamál dagsins, leysir í rauninni engan vanda.

Ég sagði fyrr í minni ræðu, að stefna ríkisstj. t.d. í verðlagsmálum hefði verið þjóðinni dýr á undanförnum árum. Ég skal víkja nokkru nánar að þessu máli.

Við vitum, að ríkisstj. hefur beitt sér fyrir því, að fjöldamargar vörutegundir, sem voru háðar verðlagseftirliti, hafa nú verið teknar undan öllu verðlagseftirliti og ákveðið hefur verið, að álagning á þeim væri orðin frjáls. Og hið mikla vöruframboð hefur svo átt að tryggja, að það væri réttlátt verð á þessum vörutegundum. Og þótt mikið hafi verið rætt og ritað um ýmsar breytingar í fjármálalífi þjóðarinnar á undanförnum árum, hefur ekkert fengizt birt opinberlega um það, hvernig hafi farið um verðlagsþróunina í þessum efnum. Því hefur verið haldið leyndu. En í einstaka tilfellum, þegar ríkisstj. hefur þó orðið við því að tala við fulltrúa launþegasamtakanna í landinu, hafa þeir fengið svona takmarkaðar upplýsingar um það, hvað hafi verið að gerast í verðlagsþróuninni. Og ég hef hér í mínum höndum nokkrar upplýsingar, sem fengizt hafa á þennan hátt. Í rauninni er alveg furðulegt, að maður skuli þurfa að vera að pukra með þetta eins og einhver leyniplögg. Árum saman var það svo, að það var opinbert mál, að það var ákveðið með valdboði, að heildsalar máttu leggja tiltekna prósentu á tiltekna vörutegund og smásalar máttu leggja ákveðinn hundraðshluta á sömu vörutegundir. Þetta var ekkert launungamál, og maður getur ekki séð, að það sé nein ástæða til þess að fara með þetta með nokkru pukri. En hvernig hefur þetta svo breytzt, eftir að frelsið tók við? Ég er með hérna svolítið hrafl úr þessum skýrslum, sem ég hef komizt yfir. Ég skal nefna hér nokkur dæmi.

Hér eru t.d. vörur, sem hafa verið gefnar alveg frjálsar í álagningu, og það verðlag, sem hér er um að ræða, er miðað við árið 1965. Ég hef ekki skýrslur, sem eru nýrri varðandi þessi mál. En síðustu verðlagsákvæði, sem í gildi voru varðandi þessar vörur, giltu fyrir árið 1960. Hér eru t.d. nefndir nýir ávextir. Þá var ákveðið, að í heildsölu árið 1960 mátti hæst leggja á nýja ávexti 11%, en árið 1965 sýndi reynslan, að meðaltalið var ekki lengur orðið 11% álagning hjá heildsölum, heldur var hún komin upp í 18.9%. Niðursoðnir og þurrkaðir ávextir, hámarksálagning var 7.5%, en á árinu 1965 var hún komin upp í 18.3% bara í heildsölu. Hér eru hreinlætis- og snyrtivörur. Hámarksálagningin var 9.5%, en hún var komin upp í 23.3% bara í heildsölu. Ytri fatnaður karla og unglinga og barna, hámarksálagningin var 8.5%, en árið 1965 var hún komin upp í 15.7% í heildsölu. Ytri fatnaður kvenna, hámarksálagningin var 9.5%, en var komin upp í 14.2% í heildsölu árið 1965. Ýmiss konar annar fatnaður, hámarksálagningin var 9%, en var komin upp í 22.3% árið 1965. Þetta eru nokkur sýnishorn.

Álagningarhækkunin var auðvitað ekki eingöngu í heildsölunni. Þessar sömu vörur fengu svo viðbótarálagningarhækkun líka í smásölunni. T. d. var það svo með nýja ávexti, þar var til viðbótar við heildsöluálagninguna 38% álagning í smásölu, en hún var komin upp í 44.3%. Ytri fatnaður karla og unglinga og barna, þar var hámarksálagningin í smásölu 21%, en var komin upp í 42.8%. Og ytri fatnaður kvenna, þar var álagningu 27%, en var komin upp í 52.6%. Svo að maður taki hér dæmi um byggingarvörur, hefur álagningin hækkað úr 27% upp í 44.7% og í öðru tilfelli úr 27% upp í 43.2% í smásölu. Það fer því ekkert á milli mála, að á þessu tímabili hefur álagningarprósentan bæði í heildsölu og smásölu stórkostlega hækkað. Á þetta hefur hér margsinnis verið bent. Ríkisstj. leggur kollhúfur, vill ekkert í þessum málum gera.

Við þetta bætist svo auðvitað það, sem menn vita, að svo hefur auðvitað innflutningur til landsins og heildarvörusalan í landinu stórkostlega aukizt á þessu tímabili, sem ætti í flestum tilfellum einnig að hafa gefið verzlunarstéttinni auknar tekjur. En auðvitað eru stórauknar framkvæmdir og umsvif á vegum verzlunar- og viðskiptaaðila í landinu á undanförnum árum bein afleiðing af því, að þessir aðilar búa við miklu betri kjör nú en þeir bjuggu við áður fyrr. Afleiðing þessa hefur einnig orðið sú, að verzlunarfyrirtækjum hefur stórfjölgað langt úr hófi fram, sem hefur dregið til sín vinnuafl á óæskilegan hátt frá atvinnuvegum landsins. En það er ekki aðeins þetta, sem hefur verið að gerast, heldur hefur einnig þróunin orðið sú, að í peningamálum hjá ýmsum opinberum aðilum, eins og bönkum, hefur þróunin orðið sú, að lánsfé hefur gengið í miklu ríkara mæli til verzlunarinnar í landinu en til atvinnuveganna, — í miklu ríkara mæli. Samkv. skýrslum, sem gefnar eru út af opinberum aðilum, kemur t.d. í ljós, að á 6 ára tímabilinu frá 1961–1966 höfðu bankaútlán í landinu skipzt þannig á milli nokkurra helztu greina atvinnulífsins, þ.e.a.s. aukin útlán bankakerfisins í landinu, — þar er ekki talað um útlán stofnlánasjóða, heldur hinna almennu banka, allra bankanna, — á þessu tímabili jukust útlánin til sjávarútvegsins hjá bankakerfinu um 850 millj. kr. samkv. skýrslum Seðlabankans. En til verzlunarinnar í landinu jukust útlánin ekki um 850 millj., heldur um 1157 millj. Þróunin hefur einnig verið þessi í ráðstöfun á því fjármagni, sem þjóðin á yfir að ráða, fyrir þá pólitík, sem ríkt hefur í þessum efnum. Það er í þessum efnum, sem við í stjórnarandstöðunni segjum: Í þessum efnum þarf að breyta um pólitík. Það þarf að veita atvinnuvegunum aukinn stuðning, aukið fjármagn, en það þarf hins vegar að gæta að því, að ýmsir milliliðir, sem hafa sérstöðu í efnahagskerfinu, dragi ekki til sín óeðlilegan hlut og þeir haldi ekki þannig á málum, að verðlag í landinu hækki úr hófi fram, sem vitanlega leiðir af sér hækkun á kaupgjaldi á eftir og síðan aukna erfiðleika fyrir útflutningsatvinnuvegi landsins. En það ber sem sagt ekki á því, því miður, enn í dag, að ríkisstj. vilji viðurkenna þessar staðreyndir, sem liggja fyrir, og vilji taka tillit til þeirra í því að breyta um stefnu í grundvallaratriðum.

Ríkisstj. heldur sér svo mjög við það, eins og menn þekkja, þegar þessi mál eru rædd, að hún segir í sífellu: Ja, hinir flokkarnir hafa engar till., við erum þeir einu, sem höfum till. — Þetta segir hún vegna þess, að í hennar augum er t.d. í þeim vandamálum, sem nú er við að glíma, ekkert till. annað en það að koma með 750 millj. kr. og leggja þær í ríkiskassann. En það er bara ekki það vandamál, sem við er að glíma. Þegar við í stjórnarandstöðunni bendum á þessi atriði, sem ég hef hér gert að umtalsefni, er verið að benda á till. um það, hvernig eigi að haga stefnunni á annan veg, á þann veg, sem gæti komið efnahagslífi þjóðarinnar að gagni. Í þeim viðræðum, sem fram hafa farið nú að undanförnu, á milli fulltrúa launastéttanna í landinu og ríkisstj. um till. ríkisstj. til þess að afla ríkissjóði nýrra tekna, sem nema 750 millj. kr., bentu fulltrúar launastéttanna á ýmis ráð til þess að leysa þann vanda, sem um væri að ræða. Þeir bentu m.a. á það, eins og við hér í stjórnarandstöðunni höfðum gert áður, að þann vanda, sem um væri að ræða hjá ríkissjóði, — sem vitanlega er mjög erfitt fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að gera okkur fulla grein fyrir, því að við höfum ekki haft aðstöðu til að fylgjast þar með innri málum, — er vitanlega hægt að leysa á þann hátt að leitast við að færa nokkuð niður ýmis útgjöld hjá ríkissjóði, en þar hafa útgjöldin farið síhækkandi á undanförnum árum nú í langan tíma.

Við Alþb.-menn höfum á hverju þingi nú í mörg ár flutt nokkrar till. um lækkun á ýmsum útgjaldaliðum fjárl. við höfum tekið það fram, þegar við höfum flutt þessar till., að við vildum nota þessar till. sem prófstein á það, hvort ríkisstj. væri til viðtals um það að reyna að halda útgjöldum ríkissjóðs nokkuð í skefjum. En þessar till. okkar hafa ekki fengið hér neinar undirtektir. Við höfum t.d. talið, að það væri algerlega óþarft að eyða í kringum 10 millj. kr. á ári í það að halda uppi lögregluliði á Keflavíkurflugvelli. Við álítum, að húsbændurnir á því heimili geti kostað þetta sjálfir, en við þurfum ekki að vera að útvega þar lögreglu til þess að passa þá, sem áttu í rauninni að passa okkur, að okkur var sagt. En við höfum ekki fengið neinar undirtektir undir þetta. Íslenzka ríkið er alltaf látið borga þennan kostnað, og hann hækkar frá ári til árs. Við höfum lagt fram till. á hverju ári nú í nokkur ár um það að sameina sendiráð Íslands á Norðurlöndum, þar sem flestir viðurkenna að mundi hæglega duga okkur að halda uppi einu myndarlegu sendiráði, og á sínum tíma komu fram viðurkenningar, ég held frá mönnum úr öllum flokkum, á því, að þetta væri vel tiltækilegt. En þó að við höfum flutt um þetta till. og á þennan hátt mætti spara nokkrar millj. kr. eða milljónatugi, sér hæstv. fjmrh. sér aldrei færi að verða við svona sparnaði. Það er engin leið til. Þess í stað bæta menn nú við einu nýju sendiráði enn, hjá NATO, og á nú þar að auka við kostnaðinn stórlega frá því, sem áður var. Við höfum einnig bent á það, að það sýnist vera alveg ástæðulaust núna, einmitt þegar þrengir að hjá ríkissjóði, að gera þá ráð fyrir því, að það þurfi að afla sérstakra tekna í ríkissjóð til þess að standa undir lóða- og eignakaupum hér í Reykjavíkurborg eða hér úti í Viðey, sem nema líklega í kringum 30 millj. kr. á einu ári. Auðvitað mættu þessar greiðslur bíða. Það er ekki bein nauðsyn á því að leggja álögur á landsmenn til þess að ná í tekjur í þessu skyni.

Svona mætti auðvitað nefna fjöldamargt annað. Á því leikur auðvitað heldur enginn vafi, að þegar útgjöld ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja eru komin í rúmlega 6000 millj. kr. á ári, rúmlega 6 milljarða, væri enginn vandi að færa niður útgjöldin um 100–200 millj. kr., án þess að nokkuð þyrfti um koll að detta, ef það væri vilji fyrir hendi til þess að taka þannig á málunum. Það er enginn vafi á því, að það mætti draga úr starfsliði í mörgum greinum, þar sem það skilar harla litlum árangri í ríkisbúskapnum. En sem sagt, það tekst heldur illa til með sparnaðinn. Í þeim fáu tilfellum, sem ríkisstj. hefur boðað það, að hún ætlaði sér að spara, eins og t.d. þegar hún kom á nýju fyrirkomulagi í sambandi við álagningu tekju- og eignarskatts, hefur það farið svo, að kostnaður við hið nýja skipulag hefur orðið margfalt meiri en gamli kostnaðurinn var. En þó að bæði við í stjórnarandstöðunni og fulltrúar launasamtakanna hafi farið fram á það, að ríkisstj. reyndi að draga úr vanda ríkissjóðs á þann hátt að spara nokkuð útgjöld á fjárl., hefur ríkisstj. hrist höfuðið við öllum slíkum till. og ekki fengizt til viðtals um það.

Þá er einnig á það að benda, að á fjárl. ríkisins eru allmiklar fjárhæðir til ýmissa beinna stofnframkvæmda, og eftir því sem hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir í framsögu sinni fyrir fjárlagafrv,. gat hann þess meira að segja, að nú væri gert ráð fyrir því að kosta nokkrar slíkar stofnframkvæmdir á vegum ríkisins af árlegum tekjum ríkissjóðs, þó að þær hefðu áður verið kostaðar af lánsfé. En vitanlega þýðir slíkt það í framkvæmdinni, að það er verið að auka á vanda ríkissjóðs, því að vel er hægt að halda þannig á málum, sérstaklega þegar þrengir að með fjárhag, þá er hægt að halda þannig á málum að vinna að ýmsum byggingarframkvæmdum fyrir lánsfé, en ætlast ekki til þess, að beinar árlegar tekjur komi inn í ríkiskassann til þess að standa undir slíkum framkvæmdum. En ríkisstj. hefur ekki heldur fengizt til þess að ræða um þessa leið.

Þá höfum við í stjórnarandstöðunni bent ríkisstj. á það, að það megi ábyggilega drýgja tekjur ríkissjóðs verulega frá því, sem verið hefur, á þann hátt að breyta um fyrirkomulag á innheimtu á söluskatti og tekju- og eignarskatti. Það fer ekkert á milli mála, að það er skotið undan mjög verulegum fjárfúlgum af álögðum söluskatti, — söluskatti, sem fyrirtæki eru búin að leggja á landsmenn og landsmenn eru búnir að borga, en aldrei kemur í ríkissjóð. Ýmis dæmi liggja fyrir til sönnunar þessu, en ríkisstj. telur þó ekki fært að breyta þessum innheimtureglum á þann hátt, að hægt sé að áætla, að innkomið fé fyrir söluskatt og fyrir tekju- og eignarskatt sé áætlað eitthvað dálítið hærra en er gert í því frv. til fjárl., sem fyrir liggur nú.

Við hinu var svo kannske ekki að búast, að ríkisstj. vildi á það fallast, að ef síðar þyrfti að afla ríkissjóði enn frekari tekna, yrði frekar valin sú leið að skattleggja innflutning á óþarfavörum en að velja þar til brýnustu lífsnauðsynjar, eins og stjórnin hefur gert. Hún hefur mjög haldið fast í þá pólitík sína að hafa allan innflutning og síðan verðmyndunina sem allra frjálsasta og hefur því verið á móti öllum leiðum til að afla fjár með því að skattleggja eyðslu eða óþarfavarning meira en annað.

Það er enginn vafi á því, að það vandamál, sem við er að glíma hjá ríkissjóði, væri hægt að leysa eftir öðrum leiðum en þeim, sem gert er ráð fyrir í till. ríkisstj. Og það er heldur enginn vafi á því, að það væri hægt að mæta mjög kröfum útflutningsframleiðslunnar í landinu með því að taka upp breytta stjórnarstefnu. Og þá væri líka líklegt, að hægt væri að komast yfir þau tímabundnu vandamál, sem við stöndum frammi fyrir nú varðandi okkar útflutningsframleiðslu.

En það er ekki annað að sjá en hæstv. ríkisstj. ætli þrátt fyrir allt það, sem á undan er gengið, að halda sér fást við sínar till. Nú leggur hún áherzlu á það að drífa þetta frv. í gegn í þinginu og gera það að lögum, þó að það liggi fyrir, að samtök launafólksins í landinu hafi tilkynnt ríkisstj., að þau muni ekki þola slíka lagasetningu sem þessa, þá muni þau grípa til síns samtakamáttar og knýja fram launahækkun, sem þessari verðlagshækkun nemur. En hvað hugsar ríkisstj. sér þá að gera, þegar verkalýðssamtökin í landinu svara slíku frv. sem þessu með kauphækkun? Ríkisstj. veit, að valdið er launþegasamtakanna í þessum efnum. Hún veit, að þau geta hæglega hækkað kaupið sem þessum álögum nemur, og þau hafa ákveðið að gera það. Hún segir þá, að frv. verði gert að lögum. Verkalýðssamtökin hækka kaupið með verkföllum. Hvað hefur ríkisstj. leyst? Hvernig mundi þá fara um rekstur okkar atvinnuvega, þar sem vandinn er æðimikill fyrir? Jú, það gæti verið, að ríkisstj. gæti huggað sig við það að segja: Ja, ég hef alltaf fengið mínar 750 millj. kr. í ríkissjóð, þó að atvinnuvegirnir verði síðan að standa undir hærra kaupgjaldi, — og hennar hugsun nái ekki lengra en svo, að hún sætti sig við það að fá þennan tekjuauka í ríkiskassann. En getur það verið, að ríkisstj. hafi ekki gert sér grein fyrir áframhaldinu, hvað hlýtur að gerast á eftir? Jú, það mátti lesa það hérna um daginn, að ef svona færi, þá gripi ríkisstj. bara til gengislækkunar. Já, segjum það, það er eins líklegt, að þá kæmi gengislækkun næst á eftir. En ef sú gengislækkun yrði framkvæmd á eitthvað líkan hátt og gengislækkanir hafa verið framkvæmdar að undanförnu, þá býst ég við því, að ríkisstj. gerði enn ráðstafanir til þess að skerða eitthvað launakjör launastéttanna í landinu með gengislækkuninni, að binda kaupið á einn eða annan hátt, leyfa því ekki að hækka til samræmis við verðhækkanir, sem fylgdu í kjölfar gengislækkunarinnar. Og hvað mundi gerast þá? Verkalýðssamtökin mundu ábyggilega einnig svara þeirri kjaraskerðingu á sama hátt. Hvað leysir ríkisstj. undir þessum kringumstæðum? Ekkert. Hún aðeins lemur hausnum við steininn, hún leysir engan vanda. Það, sem ríkisstj. þarf að gera sér grein fyrir í þessum efnum, er, að alveg sérstaklega eins og nú er ástatt í okkar efnahagsmálum, þá verða þessi vandamál ekki leyst nema í fullu samráði og samstarfi við launastéttirnar í landinu. Núverandi ríkisstj. hefur ekkert afl og enga getu til þess að koma fram kjaraskerðingaráformum sínum gegn vilja launþegasamtakanna í landinu. Hún ræður ekki við þessi mál. Hún getur auðvitað með því að þráast valdið þjóðarbúskapnum miklu tjóni. En hún á vitanlega að viðurkenna staðreyndir í þessum efnum og haga sér samkvæmt því. Og þá eru menn komnir að þeim meginkjarna, að þessi mál verða ekki leyst, aðalvandamálin verða ekki leyst nema með því að taka hér upp nýja stjórnarstefnu. Gamla stjórnarstefnan hefur gengið sér til húðar, hún fær ekki staðizt, eins og nú er komið. Sannleikurinn er sá, að þessi gamla og ranga stjórnarstefna gat druslazt áfram, á meðan ytri aðstæður í efnahagslífi þjóðarinnar voru sérstaklega hagstæðar, á meðan aflinn hélt áfram að vaxa mikið frá ári til árs og meðan útflutningsverðið á okkar afurðum hækkaði gífurlega frá ári til árs. Þá stóðu atvinnuvegirnir það af sér, þó að stjórnarstefnan væri þeim óhagstæð. Þá jafnvel þoldu okkar atvinnuvegir að borga 10% vexti, þá þoldu þeir að búa hér við verri lánskjör en hliðstæðir atvinnuvegir í öðrum löndum, þá þoldu þeir meiri verðhækkun hér innanlands og tilsvarandi auðvitað meiri kauphækkun hér innanlands en þekktist í okkar samkeppnislöndum. Þá gátu atvinnuvegirnir borið þetta. Að vísu báru þeir það þannig, að þeir báru sig illa. En um leið og þessu tímabili er lokið, þegar jafnvel aflinn minnkar nokkuð, þó að hann sé mjög góður, — því að við skulum gera okkur grein fyrir því, að árið í ár er eitt af allra mestu aflaárum, sem við höfum þekkt, þar eru aðeins toppárin eins og 1965 og 1966 betri, og við skulum líka gera okkur grein fyrir því, að þegar litið er á heildina, þá er verðið á okkar útflutningsafurðum ekki vont, það er gott, það er rétt, að það er mjög lélegt á bræðslusíldarafurðum, en meira að segja verðið, sem við búum við á frosnum fiski, verður að teljast gott í dag, en það er auðvitað ekki eins gott og það var á árinu 1965, þegar það fór upp í algjört hámark, — en þá kemur það í ljós, að þegar á reynir á þennan hátt, þegar þyngir nokkuð í hjá atvinnuvegunum, þá standast þeir ekki stjórnarstefnuna, þá stenzt hún ekki lengur. Þetta er kjarni málsins, sem stjórnarvöld landsins verða að viðurkenna, því fyrr því betra.

Frsm. meiri hl. fjhn. gerði hér grein fyrir brtt., sem ríkisstj. leggur til að gera á frv. Mér finnst, að þær brtt. séu alveg lýsandi dæmi um það, hvað ríkisstj. er sein til að skilja þann vanda, sem við er að glíma. Hún virðist vera búin að átta sig á því, að þjóðin tekur illa till. hennar um kjaraskerðingu upp á 7½% eða meira. Hún er búin að átta sig á því, og þá vill hún milda þetta örlítið. Og hvað er það, sem á að gera? Jú, það er það, að í staðinn fyrir að í fyrri tillögunum var gert ráð fyrir því, að launafólk skyldi bera verðhækkanirnar bótalaust, sem talið var að mundi nema í kringum 7½% kauplækkun, en þá kemur ríkisstj. með brtt. sína og segir: Við skulum nú ekki hafa það alveg svona, heldur skulum við breyta því örlítið, og þá þannig: Launafólk skal bera kjaraskerðingu, nákvæmlega jafnmikla og áður var lagt til, 7½% fyrstu 6 mánuðina eða þar um bil, en næstu 6 mánuði þar á eftir skal kjaraskerðingin nema 1% minna, eða þá ef maður heldur sig við þarna 7½%, þá á það að vera 6½%. Og svo næstu 6 mánuði þar á eftir á þetta að vera 5½%, miðað við núverandi vísitölu. Nú sjá vitanlega allir, að á þessu er sáralítill munur og á upphaflegu till., því að það var þó a. m. k. sagt, þegar upphaflegu till. voru settar fram, að þessi kauplækkun upp á 7½% væri auðvitað fyrst og fremst hugsuð sem bráðabirgðakauplækkun, sem breyttar aðstæður gætu haft áhrif á. En þarna hugsar hún sér það, að kauplækkun standi a. m. k. yfir í 1½ ár í öllum aðalatriðum og algjörlega fyrstu 6 mánuðina. Hér er sem sagt um mjög smávægilega breytingu að ræða, mjög smávægilega.

En ríkisstj. bætir hér nokkru við. Hún leggur nú til, að fjölskyldubætur hækki um 5% með öðru barni og fleirum í fjölskyldu. Það mun nema hækkun í kringum 180 kr. eða svo á barn á ári, — 180 kr. á barn á ári. Það er ekkert smáræði. Enda þótti ríkisstj. vissara að taka það einnig fram, að þessi upphæð, það skyldi fara svo sérstaklega með hana, þegar væri farið að reikna út skatta og útsvör hjá þessu fólki, sem fengi þessar 180 kr., að það ætti ekki að reikna útsvar eða skatta á þessar 180 kr., það skyldi vera undanþegið útsvars- og tekjuskattsálagningu. Og þá höfðu menn það. Þeir hlutu nú að gera eitthvað úr þessu.

ríkisstj., sem heldur, að þetta hafi einhver áhrif á launþega í landinu, svona kákbreytingar eins og þessar eru, hefur ekki skilið það, hvað hér er um alvarlegt mál af hálfu launþega að ræða og mikilvægt mál í sambandi við afkomu þeirra. Þessar breytingar eru vitanlega sáralítils virði, og það virðist vera, að hæstv. ríkisstj. eigi býsna langt í land að komast alla leið til botns í þessu vandamáli og skilja það, að hún á að breyta hér til um þessar till. sínar, þannig að hún taki þær alveg til baka og leiti annarra ráða.

Eins og frv. er og gert er ráð fyrir því, að það verði samþ., með þessum brtt. meiri hl., er auðvitað alls ekki víst, að sú kjaraskerðing, sem hér yrði um að ræða, yrði bundin við þessi 7½% eða þær verðhækkanir einar, sem upp hafa verið taldar til þessa. Hér er gert ráð fyrir því, að á tilteknu tímabili skuli allar þær verðhækkanir, sem fram koma á því tímabili, falla fyrir utan kaupgjaldsvísitölu. Hér getur vitanlega verið um að ræða aðrar verðhækkanir til viðbótar. Það er t.d. ekki ósennilegt, að einhverjar þær ráðstafanir verði gerðar til stuðnings útflutningsatvinnuvegunum á tímabilinu fram undir áramót, sem geti leitt af sér einhverjar verðlagshækkanir. En þá mundu þær einnig eiga að ganga þannig yfir, að launþegar fengju ekki bætur út á þær verðhækkanir.

Ríkisstj. talar stundum um það, þegar rætt er um efnahagsmál, að þróunin á undanförnum árum hafi orðið sú, að launþegar hafi fengið fyllilega sinn hluta af vaxandi þjóðartekjum. Það er auðvitað erfitt, því er ekki að neita, að finna fulla og glögga skýringu á því, hvernig vaxandi þjóðartekjum hefur raunverulega verið ráðstafað á undanförnum árum, og auðvitað er enginn vafi á því, að þjóðartekjunum hefur verið skipt nokkuð misjafnlega á milli hinna einstöku starfshópa í þjóðfélaginu, og því skal ekki neitað, að verkamenn og sjómenn og iðnaðarmenn og annað vinnandi fólk hefur fengið verulega hækkaðar árstekjur á undanförnum árum, mjög verulega hækkaðar árstekjur. Það fer heldur ekkert á milli mála, að þessar hækkuðu tekjur stafa að mjög verulegu leyti af aukinni yfirvinnu og auknu vinnuálagi, því að þegar gerðar hafa verið athuganir á því, hvernig kaupmáttur launa eða tímakaupsins hefur breytzt á undanförnum árum, þ. e. hins umsamda kaups, kemur í ljós, að kaupmáttur tímakaupsins, hins umsamda tímakaups hefur ekki vaxið, svo að teljandi sé, á undanförnum árum. Í riti, sem gefið er út af kjararannsóknanefnd, en að þeirri nefnd standa fulltrúar bæði launþegasamtakanna í landinu og atvinnurekenda, hafa fulltrúar launamanna og fulltrúar atvinnurekenda orðið sammála um sérstakan grundvöll varðandi útreikninga á því, hvernig kaupmáttur tímakaupsins hefur þróazt á undanförnum árum. Og í nýlega útkomnu riti frá þessari kjararannsóknanefnd er einmitt birt tafla um breytinguna á kaupmætti tímakaupsins. Og á bls. 12 í þessu riti segir, að sé kaupmáttur hins almenna tímakaups settur 100 í marzbyrjun 1959, hafi kaupmáttur tímakaupsins breytzt á þennan hátt á árunum á eftir og fram til þessa árs. Sem sagt, kaupmáttur hins almenna tímakaups er talinn 100 1. marz 1959, 1960 er hann talinn 91.2 eða hafði þá lækkað, árið 1961 85,9 eða hafði enn lækkað, árið 1962 84.4 og hafði enn lækkað, árið 1963 85 og hafði þá hækkað lítillega aftur, árið 1964 86.7, árið 1965 93.3 og árið 1966 97.7, og á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs var kaupmátturinn kominn í 100. En kaupmáttur í fiskvinnu hafði hins vegar hækkað örlítið meira og kaupmáttur hins umsamda tímakaups í hafnarvinnu hafði hækkað lítillega meira en þetta. Þessar tölur sýna það, að í góðærinu á undanförnum árum, þegar þjóðartekjurnar hafa stórvaxið, hefur þróunin eigi að síður orðið sú, að kaupmáttur hins umsamda tímakaups hefur hækkað sáralítið og meginhluta þessa tímabils hefur hann legið undir því, sem hann var í marzmánuði 1959. En hitt er svo aftur rétt, að heildartekjurnar hafa vaxið og vaxið verulega, sem stafar, eins og ég segi, m.a. af stórauknu vinnuálagi og auðvitað miklum aflafeng sjómanna, sem hefur hækkað kaup þeirra mikið. En það ber líka að athuga, að sú kauphækkun, sem verkamenn, iðnaðarmenn og sjómenn og um leið bændur landsins, en þeirra kaup er miðað við kaup þessara stétta, — sú kauphækkun, sem þessir aðilar hafa vissulega fengið á undanförnum árum með auknu vinnuálagi og auknum afla, sú kauphækkun er ekki fastumsamin, þannig að hún getur hreyfzt með breytilegu árferði, og það er einmitt það, sem hefur verið að gerast nú á yfirstandandi ári. Þegar afli t.d. síldveiðiskipanna er minni nú í ár en hann var í fyrra, hefur auðvitað aflahlutur sjómannanna á síldveiðunum stórminnkað. Og mér er sagt það af kunnugum mönnum, að það muni láta nærri því, bæði vegna verðlækkunar á síldinni og eins vegna minnkandi aflamagns, að sjómenn almennt séu með helmingi lægra kaup í ár en þeir voru með í fyrra. Þessir aðilar hafa því tekið á sig stórar og miklar byrðar. Svipað er að segja um kaup verkamanna, sem vinna t.d. að fiskframleiðslunni í landinu. Kaup þeirra er stórmiklu minna í ár en það var í fyrra, vegna þess að um samdrátt í atvinnunni er að ræða, og þessi samdráttur er að ganga hér yfir verulega í iðnaðinum líka. Vitanlega er það eina, sem hér er hægt að ganga út frá sem föstu í þessum efnum hjá þessum aðilum, hið umsamda fasta tímakaup og þó því aðeins, að atvinnan sé full.

Það er vitanlega ekkert sanngirnismál að ætla sér að gera ráðstafanir til þess, að kaup, sem hefur sannanlega lækkað á þessu ári, kaup bæði verkamanna og sjómanna hefur lækkað í krónum talið, kaup þeirra verði gert rýrara í framkvæmd með hækkuðu verðlagi í landinu, eins og ríkisstj. gerir ráð fyrir í sínum till. En aðalatriði þessara mála er auðvitað það, sem ég vék að fyrr í minni ræðu, að ekkert vandamál verður leyst með því að reka þetta mál í gegn, sem ríkisstj. gerir nú kröfur um. Hún stendur enn þá frammi fyrir sömu vandamálunum og hún stóð í þingbyrjun, þó að hún knýi þetta frv.í gegn. Ef ekki tekst að fá samkomulag við launþegasamtökin í landinu um aðgerðir í efnahagsmálum, leysist vandinn ekki. Ég er því á þeirri skoðun, að ríkisstj. ætti enn að leggja þetta mál á hilluna og láta það bíða og hún ætti enn að reyna að nota þann tíma, sem hún hefur yfir að ráða, til þess að átta sig betur á eðli vandamálsins og leita eftir eðlilegu samkomulagi um það, sem gera þarf, og þá er það auðvitað fyrst og fremst það, að það þarf að finna ráð til þess að tryggja fulla atvinnu í landinu, tryggja fullan rekstur þeirra atvinnutækja, sem þjóðin á, fulla framleiðslu í landinu, og þetta verður að gerast á þeim grundvelli, að það kaup, sem um hefur verið samið, fái að standa áfram, það verði ekki skert.

Ég hygg, að það hafi komið greinilega fram hjá fulltrúum verkalýðssamtakanna, og það hefur einnig komið fram í umr. á Alþ. hjá okkur, sem erum í stjórnarandstöðu, að allir þessir aðilar eru til viðræðu um það að finna ráð til þess að leysa vandann. En það er rétt, menn geta haft mismunandi skoðanir á því, hvernig eigi að leysa vandann, og þá þarf vitanlega að gefa sér tíma til þess að átta sig á eðli vandans, eins og hæstv. forsrh. sagði í sinni framsöguræðu. Það þarf að átta sig á því, að eðli vandamálsins liggur m.a. í rangri stjórnarstefnu. Og það þarf að breyta um í þeim efnum. Öðruvísi tekst ekki að leysa þennan vanda.

Ég skal nú láta máli mínu lokið að þessu sinni, en vil að lokum beina þeirri áskorun til hæstv. forsrh., að hann sjái og hann viðurkenni það, að að ætla halda áfram á þann hátt, sem ríkisstj. stefnir nú að, leysir ekki vandann. Hann þarf að leita nýrra ráða, ef ekki á að stefna hér í algert öngþveiti.