15.11.1967
Neðri deild: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (2304)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að láta í ljós með örfáum orðum mikla undrun mína á ummælum hv. síðasta ræðumanns um starfsemi og fundarhöld hagráðs. Hann vitnaði í lögin um hagráð með því að lesa úr þeim nokkrar setningar, en ekki þá setningu, sem máli skiptir í því sambandi, sem hann ræddi um, en þar segir í 19. gr. laganna, með leyfi hæstv. forseta: „Efnahagsstofnunin skal leggja fyrir hagráð tvisvar á ári, í apríl og október, yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum, þ. á m. varðandi framleiðslu, fjárfestingu, greiðslujöfnuð, afkomu atvinnuveganna og verðlags- og kaupgjaldsmál: Þetta hefur ávallt verið gert, síðan hagráð tók til starfa. Nú í lok október lagði Efnahagsstofnunin fram ýtarlega skýrslu um öll þau mál, sem gert er ráð fyrir að hún leggi fyrir hagráðið. Og nú fyrir nokkrum dögum var fundur í hagráði til þessa að ræða þessa skýrslu, eins og gert hefur verið ávallt í mánuðinum eftir að Efnahagsstofnuninni ber að leggja skýrsluna fram. (Gripið fram í.) 30. október og var send út þá, hún var send út sama daginn og hún var dagsett. Það tekur væntanlega 2–3 daga, að hún berist í hendur hagráðsmanna. Það hefur verið föst venja, að hagráðsmenn hefðu skýrsluna til athugunar í viku til 10 daga. Hér er um mikið lestrarefni að ræða og algjörlega eðlilegt og ekki gagnrýnt, að fundur sé haldinn um þetta u. þ. b. viku til 10 dögum eftir að skýrslan er lögð fyrir hagráðið. Enn fremur hefur það verið samkomulagsatriði í hagráði frá upphafi, að skýrslurnar skyldu ekki birtar, meðan þær væru til umr. í hagráði sjálfu. Þetta hef ég haldið, að hv. þm. vissi, a. m. k. hefði hann átt að vita það. Hann hefði ekki átt að viðhafa það orðbragð, sem hann viðhafði hér áðan um þetta efni. Fundur hagráðs í þetta skipti er með nákvæmlega sama hætti og hann hefur verið frá stofnun hagráðs, nákvæmlega eins og lög um hagráð gera ráð fyrir. Þess vegna læt ég enn í ljós mikla undrun mína á þm. og ummælum hans, sérstaklega vegna þess, að honum á að vera kunnugt um allt þetta, sem hann fór með rangar staðhæfingar um.