15.11.1967
Neðri deild: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (2309)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Þegar lagt var fram þskj. með brtt. frá meiri hl. fjhn. þessarar hv. deildar, láðist að koma þar með brtt., sem fjallaði um verðstöðvun á tímabilinu frá 1. nóv. til gildistöku frv. þessa, sem hér er fjallað um, ef að lögum verður. Ég leyfi mér því að flytja hér skriflega brtt., sem er samhljóða grein í verðstöðvunarlögunum frá því í fyrra. Á eftir 10. gr. komi ný gr., svo hljóðandi :

„Nú hefur á tímabilinu frá 1. nóv. 1967 og þar til lög þessi öðlast gildi verið ákveðin verðhækkun á vöru eða seldri þjónustu, sem fer í bága við ákvörðun ríkisstj. á grundvelli heimildar skv. 9. gr., og er þá slík verðhækkun ógild og hlutaðeigandi seljandi er skyldur að lækka verðið í það, sem það var 1. nóv. 1967.“

Ég vil nota tækifærið hér og aðeins leiðrétta eða skýra það, sem ég sagði í ræðu minni í gær varðandi það, sem hv. 4. þm. Austf. kom síðar inn á, þ.e.a.s. kaupmátt tímakaupsins. Ég sagði í ræðu minni, að hann hefði aukizt um 28% frá því 1960, en hv. þm. kom hér með fréttabréf kjararannsóknanefndar og las þar upp tölur, sem hefði mátt skilja þannig, að það, sem ég fór með, hefði verið rangt og þær tölur, sem hann las upp, mundu víkja þeim, sem ég hélt fram. Hv. þm. las alveg rétt upp þær tölur, sem standa í þessu fréttabréfi. Var það grunnvísitalan miðuð við 100 1959. Hann las aðeins upp kaupmátt tímakaupsins í almennri vinnu. Hann lét hins vegar ólesnar upp tölur frá hafnarvinnu, en þar kemur í ljós, miðað við það, sem hann las upp, að miðað við vísitöluna 100 1959 er 12.5% hækkun. Vísitalan á þessu ári, 1967, fyrsta ársfjórðungi er 112.5. Ef hins vegar er tekin vísitala kaupmáttar almennrar hafnarvinnu frá 1960 í þessari skýrslu, sem þá er 91.2, þá reiknast mér til, að hér sé um að ræða 23 eða 24% hækkun. Sé svo líka tekið með í reikninginn það, sem hér stendur, að þessi útreikningur sé án orlofs, þá er það ekki langt frá þeirri tölu, sem ég hélt fram í ræðu minni í gær. Mínar tölur byggðust að sjálfsögðu á því sjónarmiði, sem ég þar flutti, þ.e.a.s. þróun mála frá því 1960 eða frá þeim tíma, sem núverandi efnahagsstefna var upp tekin.

Í hagráðsskýrslu frá því í maí er skýrsla um kaupmátt tímakaupsins, og það er grundvallað á tölunni 100 1960.

Ég hef athugað framhald þeirra talna, útreiknað á sama hátt, þar er tekin inn orlofshækkun og yfirleitt allir þeir þættir í sambandi við tímakaupið, sem hægt er að reikna til tekna þeim aðila, sem það fær. Þá er meðalhækkun hjá verkamönnum, iðnverkamönnum og iðnaðarmönnum 27.9%, þ.e.a.s. 28. Hefði ég í gær áttað mig á því í mínum ræðuflutningi, að kvenhyllin væri kannske það, sem þá gilti, hefði ég átt að lesa upp tölur, sem eru hagstæðari í þessum málum, en það er um iðnverkakonur, en þær hafa fengið hækkaðan kaupmátt síns tímakaups um 60%. Meðalhækkun allra þessara aðila er 31.7%, miðað við grunntöluna 100 1960. Tölur þessar eru byggðar á skýrslu frá Efnahagsstofnuninni í vor sem leið og tölum reiknuðum út í framhaldi af því á sama hátt.