18.01.1968
Neðri deild: 51. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (2321)

90. mál, heilbrigðiseftirlit

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Það hefur valdið nokkrum áhyggjum á undanförnum árum, hvað á það skortir mikið, að til væri í landinu nægjanlega almennt og samræmt heilbrigðiseftirlit, og sums staðar hafa sveitarfélög haft forgöngu um að koma þessum hlutum mjög vel fyrir hjá sér, en annars staðar er á því brotalöm, og mjög mikil, og það má reyndar teljast eðlilegt miðað við það, hversu aðstæður og kringumstæður eru misjafnar í landi okkar. Þetta mál var sérstaklega til umræðu í dómsmrn. á s.l. vetri, og upp úr því var það svo, að ég skipaði nefnd þann 10. marz, þriggja manna, til þess að endurskoða l. nr. 35 1940 um heilbrigðisnefndir og heilbrigðissamþykktir og gera till. eftir því, sem þurfa þykir til nýskipunar, sem stuðli að því að tryggja raunhæfa og hagkvæma framkvæmd heilbrigðiseftirlitsins á þessu sviði. Í þessari n. áttu sæti 4 menn, Benedikt Tómasson læknir sem skólalæknir og starfsmaður hjá landlækni, fulltrúi hans, sem var skipaður formaður n., og héraðslæknirinn í Hafnarfirði, Grímur Jónsson, bæjarfógetinn í Kópavogi, Sigurgeir Jónsson og Þórhallur Halldórsson framkvstj. heilbrigðiseftirlitsins í Reykjavík. N. tók þegar til starfa og vann mjög ötullega að þessu máli, og sé ég alveg sérstaka ástæðu til þess að láta í ljós þakklæti til n., hversu vel hún hefur unnið að mínum dómi að þessu máli á skjótum tíma til þess að gera, en þann 29. nóvember s.l. sendi n. ráðun. till. sínar í frv.-formi, og það eru þær till., sem hér liggja fyrir í þessu frv. til l. um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Hér er um nokkuð veigamikinn lagabálk að ræða, ef frv. yrði að l., en gerð er grein fyrir helztu nýmælum frv., sem fram koma í grg., á bls. 6, og vildi ég aðeins leyfa mér að fara yfir það með leyfi hæstv. forseta.

En það er í fyrsta lagi, að heilbrigðisnefnd skal vera í hverju sveitarfélagi landsins, og sveitarfélögum er heimilt að sameinast um heilbrigðisnefnd með vissum takmörkunum. Í öðru lagi skal heilbrigðisnefnd öll kosin af sveitarstjórn. Það er, skylda lögreglustjóra og héraðslækna til setu í n. eru felldar niður. 3. Ákvæði er um vald heilbrigðisnefndar til stöðvunar á starfrækslu eða notkun hluta. 4. Héraðslæknir er gerður faglegur ráðunautur heilbrigðisnefndar. 5. Heimila má héraðsdýralækni að sitja heilbrigðisnefndarfund og 6. Kaupstaðir með 10 þús. íbúum eða fleiri skulu ráða sér sérmenntaða heilbrigðisfulltrúa í fullu starfi, 1 eða fleiri eftir íbúafjölda. Í kauptúnum með 800 íbúum eða fleiri skal ráða heilbrigðisfulltrúa, en undirbúningsmenntun og starfstími er ótiltekinn. Sveitarfélögum er heimilað með vissum takmörkunum að sameinast um heilbrigðisfulltrúa. Heilbrigðisnefndir annast undir umsjón héraðslæknis heilbrigðiseftirlit, þar sem ekki er heilbrigðisfulltrúi. 7. Komið skal á fót nýrri stofnun, Heilbrigðiseftirliti ríkisins, er hefur undir stjórn landlæknis yfirumsjón með heilbrigðiseftirlitinu í landinu. Hún tekur einnig að sér yfireftirlit samkv. l. nr. 24 1936 um eftirlit með matvælum og öðrum neyzlu- og nauðsynjavörum. Í staðinn er felld niður heimild til laga til að fela yfirumsjónina sérstökum kunnáttumönnum, eins og þar stendur. Samkv. því verður starf sérstaks mjólkureftirlitsmanns lagt niður. Stofnunin tekur einnig að sér eftirlit með gisti- og veitingastöðum samkv. l. nr. 53 1963, og starf sérstaks eftirlitsmanns verður því lagt niður á því sviði. 8. Ráðh. setur heilbrigðisreglugerð fyrir allt landið. Þó er sveitarfélögum heimilað að fá settar sérstakar heilbrigðissamþykktir sem viðauka með tilteknum takmörkunum. 9. Heilbrigðiseftirlit ríkisins er málamiðlunaraðili, ef ágreiningur verður milli sveitarstjórnar og heilbrigðisnefndar, en ráðh. fengið úrskurðarvald. 10. Ráðh. er heimilað að gefa út fyrirmæli samkv. till. landlæknis um brýna heilbrigðisráðstöfun, ef heilbrigðisnefnd fæst ekki til þess að láta málið til sín taka eða kemur því ekki fram. 11. Heilbrigðiseftirliti ríkisins er heimilað að stöðva starfrækslu eða notkun í brýnni nauðsyn og ef málið þolir enga bið. Heilbrigðisnefnd má skjóta slíkri ráðstöfun til úrskurðar ráðh. 12. Úrskurðaraðili er settur, ef ágreiningur verður milli heilbrigðisnefndar og annars aðila, sem fer með sams konar eftirlit. 13. Rannsóknastofnun ríkisins er gert skylt að annast rannsóknir á sýnishornum og 14. Viðurlög við brotum eru þyngd.

Ég skal nú víkja nokkrum orðum að þeim af þessum 14 liðum, sem ég tel mikilvægasta af nýmælunum, og það er þá í fyrsta lagi 7. liðurinn um Heilbrigðiseftirlit ríkisins. En um það er ákvæði í 8. gr. frv., sem segir m.a., að ríkið starfræki stofnun, sem nefnist „Heilbrigðiseftirlit ríkisins“. Og Heilbrigðiseftirlit ríkisins hefur undir stjórn landlæknis yfirumsjón með heilbrigðiseftirlitinu í landinu samkv. þessum l., heilbrigðisreglugerð og þeim ákvæðum annarra l. og reglna, er hollustuhætti varða og heilbrigðisnefndum ber að sjá um framkvæmd á. Og það er til ráðuneytis yfirstjórn heilbrigðismála, heilbrigðisnefndum og öðrum opinberum aðilum, er um heilbrigðiseftirlit fjalla. Það skal stuðla að því, að haldið sé uppi skipulegri fræðslu um hreinlætishætti fyrir þá, sem fást við matvæli og aðra neyzluvöru, og ráðh. setur forstöðumanni og heilbrigðisráðunautunum starfsreglur. Svo er gert ráð fyrir því, að Heilbrigðiseftirlitið hafi aðalaðsetur sitt í Reykjavík, en þegar heilbrigðisráðunautum verður fjölgað, eins og heimilað er í l. mgr. 8. gr., er ráðh. heimilt að ákveða einum ráðunaut a.m.k. aðsetur í hverjum hinna þriggja landshluta, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Ekki skulu þó færri en tveir ráðunautar, auk forstöðumannsins, hafa aðsetur í Reykjavík.

Þegar að þessu marki væri komið, mundu vera aðalmenn Heilbrigðiseftirlitsins forstöðumaðurinn með tveimur aðstoðarmönnum eða tveimur ráðun. hér í Reykjavík, en í landshlutunum, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi, gætu þá verið sérstakir heilbrigðisráðunautar, sem tilheyrðu þessu Heilbrigðiseftirliti. Auðsjáanlega er tilgangurinn með þessu að fá eina yfirstjórn allra þessara mála um samræmdar og samstæðar reglur um heilbrigðiseftirlitið og framkvæmd þess um gjörvallt landið. Og þetta er sá liður, sem menn kannske reka augun í út frá því sjónarmiði, hvort ekki verði einhver heilmikill kostnaður af því að koma upp slíkri nýrri stofnun, eins og jafnan er að spurt, þegar slík nýmæli eru á ferðinni, og fyrir því er gerð grein á bls. 20 í grg., en um það segir, að stofnun Heilbrigðiseftirlitsins sé eina nýmæli frv., sem veldur ríkissjóði auknum útgjöldum. N. gerir svo nánar grein fyrir því, en telur, að ekki sé hægt á þessu stigi að ætla kostnaðinn nákvæmlega, en með hliðsjón af því, að rekstrarkostnaður mjólkureftirlitsins og veitingahúsaeftirlitsins er áætlaður samtals tæplega 930 þús. kr. í frv. til fjárl. fyrir árið 1968, en það er gert ráð fyrir að leggja þetta undir Heilbrigðiseftirlitið, þá ætti heildarreksturskostnaður heilbrigðiseftirlitsins varla að fara fram úr 1½ millj. kr., eða um 500–600 þús. kr. viðbót, og það er nú nánar gerð grein fyrir því að áliti n., á hverju hún byggir þessar niðurstöður sínar og það má sjálfsagt taka því með nokkrum fyrirvara, og óhjákvæmilegt er að efna til nokkurs kostnaðarauka, þegar um slík nýmæli er að ræða og yfirgripsmikla löggjöf, eins og hér um ræðir. En við, án þess að ég vilji fara nánar út í það, þekkjum það öll, hversu þessum málum er víða ábótavant, og gæti skipazt til betri vegar, ef á þeim væri samræmd heildarstjórn og samræmdar reglur, sem farið væri eftir.

Þá er annað nýmæli af þeim, sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á, en það er ákvæði 9. gr. og 10. gr., að ráðh. setur með ráði landlæknis heilbrigðisreglugerð, og gildir hún fyrir öll sveitarfélög landsins, eftir því sem við getur átt. Og þar er einnig ákvæði um, að heimilt sé að setja sérstakar heilbrigðissamþykktir, er gilda fyrir einstök sveitarfélög, og loks er í 10. gr. talið upp í 23 liðum, hvað skuli vera hin almennu ákvæði slíkra heilbrigðisreglugerða, og skal ég ekki tefja tímann á að fara nánar út í það. En um það, sem mönnum kynni að sýnast vafasamt, að sett verði ein heilbrigðissamþykkt fyrir allt landið, segir í grg. fyrir 9. gr. Í gr. er það nýmæli, að ein heilbrigðisreglugerð skuli gilda fyrir allt landið, og komi hún í stað núgildandi heilbrigðissamþykkta einstakra sveitarfélaga. Vera má, að ótrúlegt þyki í fljótu bragði, að þetta sé unnt sökum ólíkra staðhátta í kaupstað, þorpi og sveit. En málið leysist á þann einfalda hátt í langflestum tilfellum, að landsreglugerðin gildir fyrir hvern stað eftir því, sem við getur átt. Það er aðeins að svo miklu leyti, sem þar er til sú starfræksla, stofnun eða notkun, sem um er fjallað í reglugerðinni, og í sveitum gildir hún augljóslega að mjög litlu leyti. Þetta eru skýringar n. á þessu ákvæði.

Það hefur auðvitað verið mikil brotalöm á því, að heilbrigðissamþykktir væru í hverju sveitarfélagi. Það er talið, að nú muni gilda heilbrigðissamþykktir fyrir 56 sveitarfélög, en þær voru settar á fyrir löngu margar hverjar, og hefur að jafnaði farið lítil eða engin endurskoðun fram á þeim. Það kemur fram, að af þessum 56 sveitarfélögum, sem hafa heilbrigðissamþykktir, eru þessar samþykktir frá eftirtöldum áratugum: frá 1900–1910 eru 18 af þeim, frá 1911–1920 eru 5, frá 1921–1930 eru 5, frá 1931–1940 eru 5, frá 1941–1950 eru 3, frá 1951–1960 eru 11 og eftir 1960 eru 9. Og af þessu kemur það fram, að það eru aðeins 20 af þessum 56 samþykktum, sem samdar eru eða endursamdar eftir 1950. En hérna er um að ræða 56 sveitarfélög með heilbrigðissamþykktir, en ég hygg, að tala sveitarfélaganna í landinu sé nú á 3. hundrað. Líklega nálægt 230.

Þá vil ég vekja sérstaka athygli á ákvæðum 7. gr., en það er lagafyrirmæli um það, hvar skuli vera heilbrigðisfulltrúar, og það er þá fyrst og fremst í kaupstöðum yfir 10 þús. íbúa, þar sem eiga að vera heilbrigðisfulltrúar, sem eru sérmenntaðir í heilbrigðiseftirliti, einn eða fleiri eftir íbúafjölda, þó þannig, að það komi að jafnaði ekki fleiri en 15–16 þús. íbúar á einn og sama fulltrúa. Í hverjum kaupstað með færri en 10 þús. íbúum og í hverjum kauptúnshreppi, þar sem 800 manns eða fleiri eru búsettir í kauptúninu, skal ráða heilbrigðisfulltrúa. Það eru ekki gerð ákvæði um sérstaka menntun hans í starfi. Á öðrum stöðum skal ekki ráða heilbrigðisfulltrúa, nema þegar sveitarstjórn ákveður, og er það þá á valdi hennar að fengnum till. heilbrigðisnefndar. Og svo er þarna ákvæði um heimild sveitarfélaganna, sem ég gæti vel hugsað mér, að yrði nokkuð notuð, að gera samning með sér um að sameinast um heilbrigðisfulltrúa, en þó ekki þannig, að það komi að jafnaði fleiri, eins og áður segir, en 15–16 þús. íbúar á einn og sama fulltrúa. Þetta held ég, að séu hin merkustu af nýmælunum, þessi þrjú, sem ég hef nú gert sérstaka grein fyrir.

Ég leyfi mér svo að vekja athygli á, að í grg. og fskj. er mjög góðar upplýsingar að fá fyrir þær þn., sem um málið fjalla. Í II. kaflanum, á bls. 7, er gerð rækileg grein fyrir núverandi skipan heilbrigðiseftirlitsins, og í III, kaflanum, sem er nánast viðbótargrg. við 10. gr. frv., er yfirlit yfir þá margþættu löggjöf, sem varðar heilbrigðiseftirlit í landinu á einu eða öðru sviði. Í IV. kaflanum, á bls. 12, er svo almennt yfirlit þessara mála, en loks fylgir til frekari glöggvunar og til þess að auðvelda starf þn. sérstök skrá sem fskj. um löggjöf, og þar er annars vegar upptalning á þeim stöðum, þar sem heilbrigðissamþykktir eru, og hins vegar skrá yfir hina margháttuðu löggjöf í landinu, sem snerta kann þetta frv. eða heilbrigðissamþykktir, sem settar yrðu samkv. þessu frv. Mér er alveg fyllilega ljóst, að hér er um slíkan lagabálk að ræða og það mörg nýmæli, að það mun þurfa verulega athugun innan þingsins, og e. t. v. koma einnig fram aths. í þessu máli utan þings, áður en hægt er að búast við því, að málið verði leitt til lykta á þessu þingi. Ég hef þess vegna sett ákvæði í 19. gr., að lög þessi öðlist gildi 1. janúar 1969 með það fyrir augum, að enda þótt ekki tækist að ljúka afgreiðslu þessa máls á þessu þingi, mundi þó sú meðferð, sem það fær nú, og vil ég leggja áherzlu á það, geta flýtt fyrir afgreiðslu málsins við endurflutning á næsta þingi, sérstaklega ef undirtektir yfirleitt eru sæmilegar eða góðar, að það ætti þá að vera hægt að afgreiða málið á fyrri hluta þess þings, þannig að gildistaka gæti komið til greina um áramótin 1968–1969.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessu máli verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.