12.02.1968
Neðri deild: 60. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í C-deild Alþingistíðinda. (2337)

128. mál, vatnalög

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Hinn 24. febr. 1967 skipaði ég þá Hallgrím Dalberg deildarstjóra, Magnús E. Guðjónsson framkvstj. Sambands ísl. sveitarfélaga og Sigurð Jóhannsson vegamálastjóra í n. til þess að athuga og gera nauðsynlegar lagabreytingar til að tryggja verndun grunnvatns og vatnsbóla gegn hvers konar mengun. Frv. það, sem hér er lagt fram, er eins og framangreind n. gekk frá því og skilaði mér í desembermánuði s.l.

Tilefni þessarar nefndarskipunar var m.a. áskorun frá Sambandi ísl. sveitarfélaga hinn 3. nóv. 1966 og áskorun sama efnis frá samvinnunefnd um skipulag Reykjavíkur og nágrennis frá 7. febr. 1967 um að láta endurskoða gildandi lagaákvæði um verndun vatnsbóla fyrir mengun. Áskoranir þessar um endurskoðun gildandi l. um verndun vatnsbóla eru fram komnar vegna þess, að á síðari árum hefur öflun á nothæfu neyzluvatni fyrir stækkandi kaupstaði og kauptún mætt vaxandi erfiðleikum. Mjög víða er neyzluvatns aflað með virkjun í ám og lækjum, og er þar oftast um yfirborðsvatn að ræða, sem auðveldlega mengast af völdum búpenings, sem leikur lausum hala um vatnasvæðin. Vinnsla grunnvatns með borunum hefur aukizt nokkuð hin síðari ár, m.a. vegna hættunnar á mengun á yfirborðsvatni. Reykjavík og Hafnarfjörður hafa lengst af haft aðgang að uppsprettulindum, sem teljast mega að mestu hreint grunnvatn, en það eru Gvendarbrunnar og Kaldárbotnar. Athuganir hafa þó leitt í ljós, að við vissar aðstæður getur verið mikil hætta á mengun grunnvatns ekki síður en yfirborðsvatns, t.d. ef olía, benzín, áburður og hvers konar eiturefni önnur berast í grunnvatnið. Er olíumengun hér langhættulegust, því að komist hún í grunnvatnið, getur hún borizt með því langar leiðir og það reynzt nánast, praktískt tekið, ómögulegt að losna við hana, og undir öllum kringumstæðum getur í slíku tilfelli vatnsból orðið ónothæft svo að mánuðum skiptir, enda ekki að undra, þegar það er haft í huga, að 1 lítri af olíu getur eyðilagt 1 millj. lítra af vatni.

Árið 1964 var á vegum samvinnunefndar um skipulagsmál Reykjavíkur og nágrennis skipuð sérstök vatnsbólanefnd til athugunar á framtíðarvatnsþörf höfuðborgarsvæðisins, og áttu sæti í henni fulltrúar frá öllum sveitarfélögum á svæðinu frá Kjalarnesi til Hafnarfjarðar. Nefndin réð Jón Jónsson jarðfræðing sér til ráðuneytis, og í janúar 1965 lá fyrir grg. hans um verndun grunnvatns, sem fylgir frv. þessu sem fskj. Í framhaldi af þessum rannsóknum Jóns Jónssonar var vatnsbólanefnd falið að gera till. um nauðsynlega friðun á höfuðborgarsvæðinu svonefnda með tilliti til verndunar vatnsbóla þá. Till. þessar um friðun lagði vatnsbólanefnd fyrir samvinnunefnd um svæðisskipulag Reykjavíkur og nágrennis í janúar 1967, og samþykkti hún þær í júnímánuði s.l., og hafa þær síðan verið staðfestar af hlutaðeigandi sveitarstjórnum og birtar almenningi. Þar sem mjög vafasamt var talið, að hægt væri að framkvæma þær friðunarráðstafanir, sem svæðisskipulagsnefnd Reykjavíkur og nágrennis hafði samþykkt með stoð í IX. kafla vatnalaga frá 1923, fór samvinnunefndin fram á það við félmrn., að l. yrðu endurskoðuð með tilliti til þess.

Öllum þeim, sem kunnugir eru þessum málum, hefur í vaxandi mæli verið ljós nauðsyn þess að gefa verndun vatnsbóla miklu meiri gaum en gert hefur verið til þessa. Þær lágmarkskröfur verður að gera til drykkjarvatns og vatns, sem notað er til þvotta og meðferðar á fiski og öðrum matvælum, að það sé ómengað af lífrænum óhreinindum, þannig að neytendur og notendur eigi ekki á hættu að sýkjast af neyzlu þess eða notkun, og einnig, að vatnið innihaldi ekki nein eitruð eða skaðvænleg efni. Við vitum, að til skamms tíma var víða hér á landi nær eingöngu notaður sjór til þvotta á fiski, áhöldum og húsnæði til fiskframleiðslu, og var hann þá oftast tekinn í fjöruborðinu sem skemmst frá hverju frystihúsi. Þetta hefur sem betur fer breytzt til batnaðar. Ferska vatnið, sem notað er við fiskvinnslu, er yfirleitt neysluvatnið úr vatnsveitu hlutaðeigandi sveitarfélags. Fiskmatsráð og Ferskfiskeftirlitið, sem tók til starfa árið 1960, taldi réttilega að eitt af meginverkefnum, sem sinna þyrfti, væri að afla upplýsinga um vatnið, sem notað væri almennt á fiskvinnslustöðvum og til þvotta í fiskiskipum. Rannsókn þessi var framkvæmd af Guðlaugi Hannessyni gerlafræðingi 1960–1961. Rannsökuð voru 127 vatnsból, og af þeim reyndust 38% góð, 12% gölluð og 50% ónothæf, og má sennilega taka undir með gerlafræðingnum, er hann segir, að þetta séu ískyggilegar tölur, ekki aðeins fyrir fiskiðnaðinn í landinu, heldur einnig fyrir íbúa þeirra bæja og þorpa úti um landið, sem neyta verða drykkjarvatns, sem er óneyzluhæft vegna saurmengunar í einhverri mynd. Í framhaldi af þessum rannsóknum gaf Fiskmat ríkisins út ströng fyrirmæli fyrir um 4 árum síðan um íblöndun klórs í vatn og sjó, notað við vinnslu í hraðfrystihúsum alls staðar, en án tillits til mismunandi gæða vatnsins.

N. sú, sem samdi lagafrv. þetta, kynnti sér rækilega löggjöf í nágrannalöndum okkar um verndun vatnsbóla, en hún er víðast hvar mjög ítarleg. En þar sem aðstæður í þessum löndum eru á margan hátt ólíkar því, sem þekkist hér á landi, og l. þar fjalla mikið um mismunandi aðferðir til hreinsunar á neyzluvatni, taldi n. ekki henta að taka þessa löggjöf sem beina fyrirmynd, heldur að réttara væri að gera nauðsynlegar breytingar á vatnal. frá 1923 til þess að afla lagaheimildar, svo að hægt væri að gera þær ráðstafanir, sem þurfa þykir til að stemma stigu við varhugaverðri mengun vatns og jafnframt til að friðlýsa svæði, svo sem nauðsynlegt þykir, í grennd við vatnsból til þess að koma í veg fyrir hvers konar mengun vatns. Í e-lið 4. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að ráðh. setji reglugerð, þar sem nánar sé kveðið á um ráðstafanir í sambandi við verndun neyzluvatns gegn mengun. N. sú, sem samið hefur frv. þetta, afhenti rn. frv. að slíkri grg. með lagafrv., og hafði n. áður sent bæði frv. heilbrn., Jóni Jónssyni jarðfræðingi, landlækni, Rannsóknarstofu fiskiðnaðarins, skipulagsstjórn og vatnsveitustjórum í Reykjavík til athugunar og umsagnar, og ætti það að auðvelda framgang málsins hér í hv. þd.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að láta þessu frv. fylgja fleiri orð umfram það, sem ég hefi nú þegar sagt, en vísa að öðru leyti til grg. og fskj. með frv. og aths. við einstakar greinar. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.