15.12.1967
Efri deild: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Frsm. 1. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Það var heldur fámennt á þeim fundi landbn., þar sem þetta mál var tekið fyrir, enda var hann haldinn af nokkurri skyndingu, og gáfust heldur minni tækifæri til, að menn bæru þar saman bækur sínar en vert hefði verið. Engu að síður var afgreiðslu í n, komið á þetta frv. í gærkvöld, og var ég þar einn stjórnarandstæðinga á fundi.

Ég geri, eins og fram kemur á þskj. 153, þá í sambandi við breyt. á gengi ísl. kr. brtt. við frv., að í stað þess að Sexmannanefnd er ætlað þar verulegt hlutverk í sambandi við útreikninga á því, hvað hér er um að ræða í fjárupphæðum, hef ég lagt til, að þetta verði falið Hagstofu Íslands, og er það í samræmi við það, að Sexmannanefnd er í mínum huga ekki lengur sá aðili, sem hún var upphaflega hugsuð, og þar af leiðandi væri eðlilegt, að þetta væri framkvæmt af trúverðugu embætti eða trúverðugri stofnun eins og Hagstofu Íslands.

Þá hefur það komið fram í Nd. og hér liggja enn fyrir till. um það, að Framleiðsluráði landbúnaðarins verði falin að verulegu leyti ráðstöfun á því fé, sem hér er um að ræða, gengishagnaði af landbúnaðarvörum. Ég fyrir mitt leyti vil gjarnan taka það fram, að ég tel, að eðlilegt væri, að það kæmi til úrskurðar Alþ., í hverja liði landbúnaðarins á að verja þessu. Þeim tilgangi sé ég ekki, að náð verði með því sérstaklega að fela það framleiðsluráðinu. Landbrn. mundi gera það ella, og tel ég, að nær sé þó, að það sé gert af aðila, sem ber ábyrgð fyrir Alþ., heldur en að Alþ. vísi því til stofnunar eins og Framleiðsluráðs landbúnaðarins, og hef ég því ekki lagt upp úr því að taka mjög undir þær till., sem komið hafa fram um að fela þetta Framleiðsluráði landbúnaðarins. Um þetta eru þær brtt., sem ég hef gert á þskj. 153. Koma þær væntanlega til atkv. hér í d., og tel ég mig hafa gefið á þeim þær skýringar, sem vert er.