17.10.1967
Efri deild: 4. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í C-deild Alþingistíðinda. (2341)

9. mál, kjarasamningar apótekara og lyfjafræðinga

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér hér að segja nokkur orð um þetta mál, þar sem ég geri varla ráð fyrir því, að það komi aftur á dagskrá hv. d., því að það er eins og með fleiri brbl. af svipuðu tagi, að þau eru útbúin með þeim hætti, að það þurfi ekki að reyna á það, hvort þau hafi yfirleitt meiri hl. hér á hv. Alþ., eins og þó er gert ráð fyrir í stjórnarskránni að sé sannreynt.

Það má segja, að það sé ekki nein sérstök nýlunda, að svona mál séu hér á ferðinni, því að hæstv. núverandi ríkisstj. hefur sett um það bil 30 slík brbl. á valdaferli sínum eða ein 4 eða 5 á ári að meðaltali á þeim 7 árum, sem hún hefur verið við völd, og eins og mönnum er líka kunnugt, hefur slík lagasetning, slík útgáfa brbl., beinzt öðrum fremur að ýmiss konar sérfræðimenntuðum mönnum í landinu, eins og læknum og verkfræðingum t.d., og að mínu viti til stórtjóns fyrir þjóðina, sérstaklega þar sem hefur verið um að ræða menn með alþjóðlega menntun, sem ekki hafa verið bundnir við landið sjálft um sölu á sinni menntun og sinni hæfni og hafa þess vegna leitað í stórum stíl út úr landinu. Ég tel, að þessi brbl. um bann við verkföllum, sérstaklega þessara manna, hafi reynzt stórskaðleg, þó að ekki sé tekin sú hlið málsins, sem að mannréttindum snýr, heldur eingöngu sú hliðin, sem snýr að hagsmunum þjóðarinnar. Og ég held líka, að þegar öllu er á botninn hvolft, hafi lagasetning af þessu tagi alls ekki orðið til þess að hindra kauphækkanir þessara stétta, því að þær hafa síðar og með öðrum hætti náð sínum málum fram, eins og glöggt er af dæminu um læknana, sem hafa fengið meiri kauphækkanir og kjarabætur en nokkur önnur stétt í landinu, þrátt fyrir þær tilraunir, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft í frammi til þess að standa á þeirra kjörum. (Gripið fram í). Nei, að vísu ekki með brbl., en hliðstæðum afskiptum. Ég vil taka það fram, að í því, sem ég vildi annars segja sérstaklega um þetta mál, sem hér um ræðir, felst enginn dómur um þær kröfur, sem lyfjafræðingar hafa sett fram. Ég er ekki kunnugur kjörum þeirrar stéttar og treysti mér engan dóm að leggja á það, hvort kröfurnar út af fyrir sig hafa verið réttmætar eða óréttmætar miðað við aðrar launastéttir í landinu, ég leiði alveg hjá mér að dæma um það. En hitt dylst engum, sem les forsendurnar fyrir þessum l., að þær eru vægast sagt mjög hæpnar. Í grg. fyrir brbl. segir á bls. 2 á þskj., sem hér liggur frammi: „Kann því, áður en varir, að skapast hættuástand, sem ekki verður við unað“. Hér er því sem sagt alls ekki slegið föstu, að neitt hættuástand hafi skapazt af verkfalli lyfjafræðinganna, heldur eingöngu sagt, að það kunni að skapast síðar. Þetta orðalag er ekki bara eintekið, heldur tvítekið, því að síðar segir: „Með því að brýna nauðsyn ber til, að bægt verði frá því neyðarástandi fyrir almenning, er skapast kann af þessum sökum, og með hliðsjón af framkvæmd þeirrar verðstöðvunarheimildar, sem l. nr. 86 23. des. 1966 gera ráð fyrir.“ Hér er sem sagt tvívegis óbeint sagt það, sem mun vera rétt, að það hafi ekkert vandræðaástand verið fyrir hendi, þegar l. voru sett, og forsendurnar að því leyti rangar.

Hin ástæðan, sem er svo færð fyrir l. er sú, að verðstöðvunarheimildarlög séu í gildi, og reynt að koma því að eða leiða að því líkur, að einmitt vegna verðstöðvunarinnar sé nauðsynlegt að banna verkfallið. Nú minnir mig fastlega, og ég verð þá leiðréttur á því, ef það er ekki rétt hjá mér, að þegar verðstöðvunarlögin voru hér á ferðinni seint á s.l. ári, hafi það verið sérstaklega og skilmerkilega tekið fram af hæstv. forsrh., að það væri síður en svo meiningin með l. að banna kauphækkanir, og enn síður, að það væri meiningin að banna með þeim, að deilumál gætu gengið sinn eðlilega gang. Hitt var tekið fram í þeim boðskap, að atvinnurekendur yrðu að bera það sjálfir, ef þeir semdu um hærra kaup en áður hafði gilt. Ég álít, að hæstv. ráðh., sem hér hafði framsögu fyrir málinu og hefur vafalaust samið grg. fyrir brbl., kunni að hafa haft fullkomnar sannanir fyrir því, að kauphækkun eða kjarabætur til handa lyfjafræðingum væru því aðeins mögulegar, að verðlag á söluvörum apótekanna væri hækkað, en það hefði þá að minnsta kosti verið æskilegt, að fyrir því væru færð miklu skýrari rök en fram hafa komið á opinberum vettvangi, en í þessu felst í raun og veru dómur um það, að svo hafi verið ástatt, en ég verð að segja, að mér finnst þessi dómur vera ákaflega hæpinn, vegna þess að það hefur almennt verið talið — það hefur að minnsta kosti verið álit manna — að rekstur lyfjabúða væri ekki mjög óhagstæður rekstur, og jafnvel hefur það verið talið, að það væri ekki margur atvinnurekstur í landinu, sem væri líklegri til að skila góðum hagnaði, enda sézt það á, því að lyfsalar eru yfirleitt í landinu — er óhætt að segja á meðal allra efnuðustu, ef ekki ríkustu mönnum, sem atvinnurekstur hafa með höndum, og ég tel það því með ólíkindum, að ekki hefði verið mögulegt að ganga eitthvað til móts við lyfjafræðingana án þess til kæmi almennar eða miklar hækkanir á lyfjum. Saga málsins, eins og kom greinilega fram af frásögn hæstv. ráðh., ber það greinilega með sér, að það hefur verið gengið fram af fullkominni hófsemi í allri meðferð málsins af hálfu lyfjafræðinga. Samningunum er sagt upp haustið 1966, og samningar fara í gang, eins og eðlilegt gat talizt í alla staði, og reynt til þrautar að komast að samkomulagi, áður en nokkrar verkfallsaðgerðir eru boðaðar, síðan er boðað verkfall í febr., því er frestað eftir ósk ráðh. fyrir hönd ríkisstj. og sýnd mikil tillitssemi í því, að það eru látnir líða heilir 2 mánuðir frá því að verkfallið er boðað og þangað til það er látið koma endanlega til framkvæmda. Þetta vil ég segja að sé að ganga fram af fullkominni hófsemi í allri meðferð málsins af hendi þeirra samtaka, sem þarna áttu í deilu, og þess vegna ekki ástæða að því leyti til að ganga sérstaklega hart fram gegn þeim með slíkri lagasetningu eins og hér er á ferðinni. Ég las það í blöðum á sínum tíma, þegar þetta verkfall stóð yfir, frá 10. apríl s.l. til 10. maí, að þá hefðu verið veitt öll leyfi og undanþágur skv. lyfsölulögum, en þar eru sérstök ákvæði, ef ég fer rétt með, sem gera ráð fyrir slíkum undanþágum í svona tilfellum, sem eiga einmitt að hindra það, að neyðarástand geti skapast af meðferð kjaramála þessarar stéttar, og mér er ekki kunnugt um annað en öll slík leyfi hafi verið veitt, með þeim árangri, sem kemur raunverulega óbeint fram í grg. með frv., að ekki hafi, þó að verkfallið hafi staðið í heilan mánuð, skapast neitt neyðarástand og það hafi raunverulega ekki verið til nema í hugmyndaheimi þeirra, sem að þessum l. standa. Það er líka athyglisvert, Þegar saga þessa máls er skoðuð, að eftir að málið komst í hendur sáttasemjara, flutti hann till. um það, að settur yrði gerðardómur, hlutlaus gerðardómur, sem dæmdi í deilunni. Nú hefði maður mátt ætla eftir allri venju um hegðun atvinnurekenda, að þeir hefðu gripið fegins hendi við slíkum gerðardómi, því að það hefur nú yfirleitt verið svo í öllum vinnudeilum, Þegar um þann möguleika hefur verið rætt, að vinnuveitendurnir hafa verið manna fúsastir til þess að setja niður deilurnar með slíkum gerðadómi. En það óvenjulega skeði í þessu tilfelli, að aðeins einn lyfsali greiddi gerðardómstill. sáttasemjara atkv. En þetta atriði málsins álít ég vera mjög athyglisvert, og mér sýnist, að það sýni ekki annað heldur en það, að lyfsalar hafi talið sig eiga nokkurn veginn vissan stuðning ríkisstj. einmitt á þann hátt, sem síðar kom fram, þ.e.a.s., að þeir hafi haft fyrirfram grun eða jafnvel vissu um það, að ríkisstj. mundi koma þeim til hjálpar í deilunni með útgáfu þessara brbl. En ef svo hefði ekki verið, þykir mér afar ólíklegt, að þeir hefðu hafnað till. sáttasemjara um gerðardóm. Ég tel, að þetta leiði til þess, að böndin hljóti að berast að hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh., sem fer með þessi mál, að hún og þeir hafi ekki haft algerlega hreint mjöl í pokahorninu að þessu leyti og hafi með beinum eða óbeinum hætti gefið lyfsölum Það í skyn, að þeir myndu stöðva verkfallið á þennan hátt og það hafi verið aðalástæðan fyrir því, að þeir voru ekki samningsfúsari en reynslan sýndi. Ég held, að ef að þetta hefði ekki legið fyrir atvinnurekendum í þessu tilfelli, hefðu verið miklu meiri líkur á því, að deilan hefði leysts með eðlilegum hætti. En ég álít, að böndin berist líka mjög að því, að þessari lagasetningu hafi raunverulega ekki fyrst og fremst verið beint gegn lyfjafræðingum, heldur hafi hún átt að vera fordæmi eða hótun, hvort sem við viljum heldur hafa, gegn öðrum samtökum launamanna um það, að ef þeir hreyfðu sig eitthvað, á meðan hin svokölluðu verðstöðvunarlög væru í gildi, yrði farið eins að og það hafi verið fyrst og fremst sú þýðing, sem ríkisstj. hafi haft með afskiptum sínum af þessu máli, og ég held, að einmitt í ljósi þess verði að skoða þetta mál.

Ég vil, eins og ég sagði áðan, aðeins segja það, að ég er andvígur þessari lagasetningu, verkalýðssamtökin hafa lýst sig andvíg henni og við erum andvígir henni Alþb.-menn hér á hv. Alþ. fyrst og fremst vegna þess, að forsendurnar, sem gefnar eru fyrir útgáfu brbl., standast ekki, þegar betur er skoðað. Í öðru lagi vegna þess, að þau samtök, sem hér áttu hlut að máli, gengu fram af fullkominni hófsemi í sínu máli, og í alla staði eins og lög mæla fyrir, og í þriðja lagi, síðast en ekki sízt, vegna þess, að það er skoðun okkar, að sá réttur, sem fólginn er í vinnulöggjöfinni til þess að hafa samtök um sölu eða ekki sölu á vinnuafli, og þau samtök, sem þar eru leyfð að því leyti, sé að þessu leyti óumdeilanlegur og það sé ekki hægt að draga nein mörk þar eftir kauphæð eða öðru slíku, annað hvort er þessi réttur virtur og hafður í gildi eða hann er ekki fyrir hendi. Og ég held, að það verði erfitt fyrir hvaða stjórnarvöld sem er og hvaða aðila í þjóðfélaginu sem er að draga mörk eftir því. Annað hvort er þessi réttur óskerðanlegur eða það er hægt að skerða hann á hverjum sem er. Það er, eins og ég sagði, fyrsta og síðasta ástæðan fyrir því, að við erum algjörlega andvígir þessu frv., og viljum, að það komi strax fram í þessum umr.