18.10.1967
Efri deild: 5. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í C-deild Alþingistíðinda. (2345)

12. mál, lausn deilu stýrimanna, vélstjóra og loftskeytamanna á farskipum og eigenda farskipa

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 16. júní s.l. Aðdragandi þessara brbl. er sjálfsagt hv. þdm. nokkuð kunnur og óþarft að rekja hann náið. En hann var sá, að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til sátta í deilu þeirri, sem hér um ræðir, var ekki unnt að ná samningum án þess að til atvinnustöðvunar kæmi, og hófst sú vinnustöðvun 25. maí og stóð til útgáfudags umræddra brbl.

Eftir að til vinnudeilunnar hafði komið. þ.e.a.s. sjálfs verkfallsins, var reynt af ráðuneytisins hálfu að koma á sáttum svo sem frekast var unnt, bæði fyrir milligöngu sáttasemjara og með beinum viðræðum við aðila og milligöngu þar á milli. Þrátt fyrir þessar tilraunir er það í fæstum orðum sagt svo, að ekki tókst samkomulag. Þó eygðu menn þá von alveg fram til útgáfudags þessara brbl., að þarna gætu tekizt sættir, þar sem af hálfu þeirra, sem í vinnustöðvuninni stóðu eða forustumanna þeirra, hafði verið fallizt á málamiðlunartillögu með þeim fyrirvara þó, að félög þeirra samþykktu. Málamiðlunartillaga þessi, sem til var komin upp úr þessum viðræðum, sem þarna áttu sér stað, var samþykkt án breytinga af forustumönnum samtakanna, og vildu þeir mæla með því, hver í sinu félagi, að á hana yrði fallizt. En eigi að síður fór þó svo, þrátt fyrir meðmæli forustumannanna með þessari málamiðlun, sem átti að gilda til loka verðstöðvunartímabilsins, þ.e.a.s. næstu mánaðamóta, þá var þessi till. felld af hlutaðeigandi aðilum, og kom því aldrei til, að unnt væri að leysa vinnudeiluna á þeim grundvelli. Þetta urðu að sjálfsögðu mikil vonbrigði og ekki síður fyrir þá forustumenn þeirra deiluaðila, sem þarna áttu hlut að máli, en eigi að síður var þetta staðreynd.

Þegar þessi málamiðlunartill. hafði verið felld, var ljóst, að á ýmsum stóðum á landinu hafði þrengt verulega að með vörur og sérstaklega þó varðandi rekstur síldveiðiflotans, sem þá var að hefja sinn undirbúning, og síldarverksmiðjanna, sem áttu erfitt með alla aðdrætti, en vegakerfi landsins var ekki komið í svo gott horf, að hægt væri að bjarga þeim nauðsynlegu flutningum, sem þurftu að eiga sér stað, eftir þeim leiðum. Þá tóku rn. og ég þá ákvörðun, að út skyldu gefin þessi brbl., þegar mat hafði farið fram á aðstæðum eins og þær lágu fyrir.

Ég skal ekkert leyna því, að ég hef verið þeirrar skoðunar, að útgáfa slíkra brbl. sé algjört neyðarúrræði sem ekki eigi að grípa til fyrr en í allra síðustu lög, og ég taldi, að þær ástæður væru fyrir hendi hér. Þess vegna tók ég þá ákvörðun í samráði við ríkisstj., að þessi lög skyldu út gefin. Afstaða mín til brbl. yfirleitt að öðru leyti er óbreytt, en mat mitt á þeim ástæðum, sem þarna voru fyrir hendi, var það, að hugsanleg lausn í áframhaldandi samningaviðræðum væri ekki möguleg á næstunni, og hefði þá komið til svo alvarlegs ástands sem ég vildi ekki bera ábyrgð á.

Ég tel ekki þörf á því að rekja í einstökum atriðum þetta frv., það skýrir sig sjálft. Það er meginefni þess, að gerðardómur skuli starfa og hafa skilað áliti, áður en verðstöðvunarlögin ganga úr gildi, og að þær niðurstöður, sem gerðardómur kemst að, skuli gilda frá útgáfudegi þessara brbl.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.