18.10.1967
Efri deild: 5. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í C-deild Alþingistíðinda. (2346)

12. mál, lausn deilu stýrimanna, vélstjóra og loftskeytamanna á farskipum og eigenda farskipa

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Við framsóknarmenn erum að stefnu til andvígir þeim hætti á lausn kjaradeilu, sem þetta frv. hefur ákvæði um, þ.e.a.s. með brbl. og gerðardómi. Við teljum, að reynsla sé fengin fyrir því hér á landi, að slík aðferð hafi almennt illa gefizt. Við teljum, að núverandi ríkisstj. hafi gert talsvert að því, svo að ekki sé fastara að orði kveðið, að gefa út brbl. í kaupdeilum þess efnis, að þeim skyldi til lykta ráðið með gerðardómi. Það er gengið að okkar dómi of nærri hinum frjálsa samningsrétti vinnuaðila, sem vitaskuld er mjög dýrmætur réttur. Enn fremur er hætta á því, þegar farið er að tíðka slíkar starfsaðferðir, að annar aðili í deilu fari gjarnan að reikna með því, að farið verði að með þessum hætti, og verði fyrir þá sök tregari til eðlilegra samningsviðræðna en annars yrði. Enn fremur kemur það til, sem bar á góma hér í gær, í þessari hv. deild um mál, sem var svipaðs eðlis, að afleiðingar af slíkum gerðardómum hafa reynzt hafa í för með sér talsverða hættu, þegar vissir sérfræðingar eiga í hlut, sem eiga greiða götu til starfs annars staðar.

Að sjálfsögðu skal það viðurkennt, að það séu hugsanleg þau tilvik, að ekki sé verjandi annað en almannavaldið skerist í leikinn. En slíkt á að mínum dómi ekki að eiga sér stað nema í afar fágætum undantekningartilfellum.

Þetta vildi ég láta koma fram almennt um afstöðu Framsfl. til þessara mála á þessu stigi við 1. umr. þessa máls. En af því, sem ég hef hér sagt, leiðir, að við framsóknarmenn munum ekki greiða atkv. með þessum brbl. Að öðru leyti ætla ég ekki á þessu stigi að fara að ræða sérstaklega um þessi brbl., hvorki um þær kröfur, sem í þeim voru gerðar — og þar af leiðandi alls ekki að leggja neinn dóm á þær — né heldur um þá aðferð, sem við var höfð til þess að leysa þessa deilu, en eins og hæstv. ráðh. gerði grein fyrir, var komið svo, að nokkur von átti að vera til þess, að endar næðust saman í þessari deilu, að mér skilst án þess að grípa þyrfti til þessara aðgerða. En eins og ég sagði, ætla ég ekki að ræða sérstaklega um það á þessu stigi. Frv. fer til n., og það gefst þá tækifæri til þess að kynna sér einstök atriði í sambandi við málið nánar, og gefst þá færi á að ræða þau nánar við 2. umr. málsins.