18.01.1968
Efri deild: 42. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (2353)

83. mál, stöðvun atvinnurekstrar vegna vanskila opinberra gjalda

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég vil, eins og þeir 2 ræðumenn, sem á undan mér hafa talað í þessu máli, taka það fram, að ég vil sízt hafa á móti því, að gerðar séu ráðstafanir til þess að skil verði á þeim gjöldum, sem gjaldfalla, hvort heldur sem þau gjaldfalla til hins opinbera, ríkisins, bæjar- og sveitarfélaga eða þau tilheyra einstaklingunum sjálfum. Með þessu frv. er farið ofan í slóð, sem áður er mörkuð t.d. í sambandi við innheimtu á söluskatti, eins og hér hefur líka verið minnzt á, og er ráðandi í fleiri atriðum. Hér er um að ræða að heimila með sérstökum l. stöðvun atvinnurekstrar hjá þeim atvinnurekendum, sem ekki hafa skilað hluta af kaupi starfsmanna sinna, þeim hluta, sem þeir skv. l. hafa dregið af útborguðu kaupi upp í opinber gjöld. Ég vildi hins vegar beina því til þeirrar n., sem um þetta mál fjallar, hvort ekki sé ástæða til þess að athuga þetta mál á dálítið víðara grundvelli og láta ákvæðið ná einnig til hluta kaupsins, sem viðkomandi starfsmanni á sjálfum að hafa verið greiddur en ekki hefur verið greiddur í öllum tilfellum. Ég held, að ég muni það rétt, að í vinnulöggjöfinni sé það hreinlega tekið fram, að ekki sé heimilt að stöðva atvinnurekstur, þ.e.a.s. að gera verkfall, hjá fyrirtæki, þó það sé orðið skuldugt starfsmönnum sínum, heldur eigi þar að gilda aðrar innheimtuaðferðir.

Á tímum eins og þessum, þegar vanskil virðast fara nokkuð í vöxt, kannske af ástæðum, sem erfitt er við að eiga, álít ég, að það sé vart hægt að gefa einum aðila rétt til að stöðva fyrirtæki, sem skuldugt er orðið, nema því aðeins að gefa öllum þeim aðilum, sem viðkomandi fyrirtæki er greinilega í skuld við, sama rétt. Bæjarfélög, sveitarfélög, ríkissjóður, þessir aðilar þurfa að hafa einhverja tryggingu fyrir því, að hægt sé að innheimta þetta. En alveg hið sama, og ekki hvað sízt, gildir þetta um heimilin sjálf, sem eiga að fá vinnulaunin til að hafa sér að lífsuppeldi. Þess vegna tel ég, að það sé alveg tímabært að endurskoða það atriði vinnulöggjafarinnar, og það mætti allt eins gera það með því að tengja það þessum nýju lögum og gefa einnig þeim verkalýðsfélögum, sem í hlut eiga gagnvart þeim fyrirtækjum, sem ekki hafa greitt almenn vinnulaun, heimild til rekstrarstöðvunar eða til að boða verkfall, ef ekki eru gerð skil. Þetta vildi ég láta koma sérstaklega fram, að ég tel óeðlilegt að láta þetta lagaákvæði einungis ná til þess hluta vinnulaunanna, sem á að fara upp í greiðslu opinberra gjalda, en skilja eftir með lagabanni gegn rekstrarstöðvun hinn hluta launanna, sem á að fara til lífsuppeldis þeirra heimila, sem byggja lífsafkomu sína á vinnulaunum.