18.01.1968
Efri deild: 42. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í C-deild Alþingistíðinda. (2354)

83. mál, stöðvun atvinnurekstrar vegna vanskila opinberra gjalda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er nú kannske ekki mikið tilefni til þess að orðlengja frekar um þetta mál.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. kom hér með ýmsar hugleiðingar, sem ég út af fyrir sig vil ekki mótmæla. Þetta frv. gefur vafalaust eins og mörg önnur mál tilefni til ýmissa umþenkinga á víðari grundvelli um ýmis vandamál, sem má segja, að séu tengd því máli, sem flutt er í það og það skiptið. En ég verð þó að láta í ljós þá skoðun mína, sem ég held, að sé ekki hægt að mótmæla, að hér sé um nokkuð sérstætt mál að ræða, svipað ákvæðunum um söluskatt eins og ég gat um áðan. Hér er um það að ræða, að það er aðili, sem tekur í sínar hendur skv. umboði fjármuni fyrir þriðja aðila og skilar ekki því fé. Því hefur verið slegið föstu, eins og ég sagði áðan, í dómi einmitt varðandi skil á útsvörum eða opinberum gjöldum starfsmanns, að hér sé um refsiverðan verknað að ræða. Almenn skuldakrafa getur haft sínar afleiðingar, og að sjálfsögðu eiga menn að standa í skilum með allar sínar skuldbindingar eins gagnvart einkaaðilum og öðrum, en þar hefur þó aldrei verið litið svo á, að þar væri um refsiverðan verknað að ræða, þó að menn stæðu ekki í skilum. Menn fá sína dóma um, að þeir skuli borga, og það getur kostað aðför og annað slíkt. En hér er því slegið föstu beinlínis og getur ekki farið á milli mála, að bæði varðandi vanskil á söluskatti og vanskil á gjöldum starfsmanna, sem eiga að renna til þess opinbera, er um að ræða refsiverðan verknað og misferli með annarra fé, þannig að ég held, að það sé ekki hægt að blanda þessu beinlínis saman við önnur atriði, svo sem hugleiðingar um það, hvaða viðurlög séu við því, að maður borgi ekki víxil í banka, og innheimtu ýmissa annarra gjalda. Þetta er alveg rétt, að auðvitað má endalaust bollaleggja um það, hvort það séu of strangar kröfur gerðar eða einhver mismunun í því á milli opinberra aðila og einkaaðila. Það vita nú hins vegar allir hv. þm., að hvort sem það er rétt eða rangt, þá hefur það opinbera yfirleitt, bæði ríki og sveitarfélög, fengið nokkuð víðtækari heimild í þessu efni en í einkaviðskiptalífinu tíðkast. Þannig er það á ótalmörgum sviðum. Ég skal ekkert segja um þá skoðun, sem kom fram hjá hd. 6. þm. Sunnl., hvort ástæða væri til að veita slík viðurlög við því, að það séu ekki greidd vinnulaun. Það er í rauninni á nokkuð svipuðum hugsunarhætti byggt og hv. 3, þm. Norðurl. v. vék að almennt um kröfur á hendur fyrirtækjum eða aðila, sem ekki standa í skilum. Hvað langt á að ganga í þeim efnum, skal ég ekki láta í ljós neina skoðun um hér. Það er vafalaust eitthvert ósamræmi í því, og ég hef auðvitað síður en svo á móti því, að því sé kippt í lag. En það eina, sem mér finnst, að hér geti komið til álita í sambandi við þetta mál, er atriði, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. vék að, og það er, hvort fyrirtækin ættu ekki sanngirniskröfu á einhverri innheimtuþóknun. Það er annað atriði, sem ég tel ekkert á móti, að sé athugað. Þetta hefur komið á dagskrá einnig í sambandi við söluskattinn, en ekki orðið raunhæft þar enn, vegna þess m.a., að veittur hefur verið alllangur frestur til að skila söluskatti, og fyrirtækin hafa vitanlega að meira eða minna leyti haft þennan söluskatt í sinni veltu sér til hægðarauka, þótt þau hafi orðið að vera við því búin að standa skil á honum, þegar þar að hefur komið. Og það skal fúslega játað, og er það mál enda í athugun, þótt það komi ekki beint þessu við, að það getur verið ástæða til að breyta innheimtuaðferðum söluskatts, vegna þess að þær innheimtuaðferðir, sem nú eru tíðkaðar, þ. e. að gjalddaginn er fjórum sinnum á ári, veldur ákaflega miklum erfiðleikum á ýmsan hátt í þjóðfélaginu, sérstaklega í bankakerfinu, vegna þess að í kringum þessa fjóra gjalddaga verður mikil röskun á bankakerfinu, sem gefur auga leið í rauninni, þegar greiddar eru kannske á einum til tveimur dögum inn til ríkisins um 200 millj. kr. eða yfir það, þannig að það er eðlilegt, að það hafi sín slæmu áhrif. Og ég álít, að það geti vel komið til athugunar, sem hv. þm. minntist á, að minnsta kosti er snertir söluskattinn, hvort eðlilegt sé að greiða einhverja þóknun fyrir hann, ef inn á þá braut yrði farið, að það yrði farið að skila honum jafnóðum. Það er að minnsta kosti mál, sem ég tel vel þess virði, að sé skoðað og geti verið réttlætiskrafa í því. Mér finnst þess vegna vel geta komið til álita í sambandi við þetta mál, sem hér er, að það vakni sú spurning, og hef ég síður en svo á móti því, að hv. n. athugi það. Ég vil hins vegar mælast til þess við n., að hún ræði það mál við Samband ísl. sveitarfélaga eða stjórn þess, áður en ákvörðun yrði um það tekin, hvort sanngjarnt væri að taka upp einhverja þóknun fyrir það að stunda innheimtustarfsemi eins og þessa, þegar jafnframt eru lagðar þessar þungu kvaðir á fyrirtækin, að þeim er gert, að viðlögðum þessum aðgerðum, skylt að skila þessum gjöldum. En ég held þó — miðað við það, sem fyrir liggur, þ. e. að staðfest er orðið, að menn geta orðið fyrir hlutfallslega mjög þungum refsidómi fyrir að skila ekki þessum gjöldum — að það sé æskilegast fyrir fyrirtækin sjálf einmitt, að þessu sé komið í það horf, eins og hér er lagt til, til þess að slík ósköp vofi ekki yfir. Það kann auðvitað að virðast svo sem þetta skapi hættu á, að það raski atvinnurekstri og geti jafnvel leitt til stöðvunar hans. En ég held þó ekki, að það sé mjög hættulegt, vegna þess að vitanlega hlýtur viðkomandi sveitarstjórn, sem er aðili að þessu máli, að gera sér grein fyrir því, áður en hún notar þessa heimild, hvort þetta mundi leiða af sér alvarlega röskun atvinnulífs eða hreina stöðvun viðkomandi fyrirtækis, og mér þykir ákaflega ólíklegt, að heimildinni yrði beitt, ei slík alvara væri yfirvofandi.