15.12.1967
Efri deild: 34. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

72. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt vegna ummæla, sem komu fram hér í ræðum frsm. fyrir minnihlutaálutunum, að gefa nokkra skýringu á því, hvernig fór um fund í landbn. þessarar hv. d. í gær. Það er rétt, að það upplýstist að fundi loknum, að 1. þm. Vesturl. (ÁB) var upptekinn við skyldustörf og því ekki mættur á fundinum. Ég hafði tal af honum strax eftir að fundi lauk og bauð honum að sjálfsögðu að boða til nýs fundar um þetta efni, ef hann teldi þess þörf. Hann taldi, að það mundi ekki hafa neina þýðingu, og því var ekki boðað til fundar aftur. Ég óskaði aðeins eftir því að fá tækifæri til þess að skýra þetta fyrir hv. þd., til þess að það lægi ljóst fyrir, að það væri í fullu samkomulagi á milli allra nm., að ekki var boðað til nýs fundar um þetta efni.