26.03.1968
Efri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í C-deild Alþingistíðinda. (2365)

162. mál, happdrætti fyrir Ísland

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Efni þess frv., sem hér liggur fyrir, er það að heimila stjórn Happdrættis Háskóla Íslands að gefa út nýjan flokk hlutamiða fyrir happdrættið. Eins og nál. fjhn. á þskj. 422 ber með sér, mælir n. einróma með því, að frv. verði samþ. Ég vildi þó geta þess við framsögu, að borizt hefur erindi frá Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, þar sem frv. þessu er mótmælt, og tel ég rétt að kynna hv. d. þetta erindi, áður en málið verður afgreitt. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Háttvirtu nefndarmenn.

Vakin hefur verið athygli okkar á frv., sem er til athugunar hjá hv. fjhn. Ed. Frv. þetta fjallar um heimild fyrir nýjum flokki, C-flokki, til handa Happdrætti Háskóla Íslands, sem jafngildir, ef samþykkt verður, að Happdrætti Háskóla Íslands hafi heimild til þess að reka þrjú happdrætti. Þar eð við óttumst, að slík lagasetning komi til með að skaða tekjumöguleika Happdrættis D.A.S. og Happdrættis S.Í.B.S. verulega, teljum við okkur skylt að vekja athygli yðar á eftirfarandi staðreyndum:

Þátttakendur í flokkahappdrættum hér á landi eru á að gizka um 30 þús. manns, sem spila í einu, tveimur eða jafnvel öllum þeirra. Ef hleypt yrði 65 þús. miðum til viðbótar inn á þennan takmarkaða markað, er hætta á, að bitizt yrði um sömu viðskiptamennina, og þarf ekki annað en benda á það árferði, sem þjóðin nú býr við, til að sanna þá staðhæfingu, að lítil líkindi séu á, að almenningur festi meira fé í happdrættismiðum en hann gerir nú þegar. Yfirburðir Happdrættis Háskóla Íslands yfir happdrættið okkar og happdrætti S.Í.B.S. eru ótvíræðir vegna þeirrar sérstöðu, er Happdrætti Háskóla Íslands nýtur með einkaleyfi sínu til peningahappdrættis hér á landi. Happdrætti Háskóla Íslands hefur þegar samkv. gildandi l. heimild fyrir útgáfu 65 þús. miða í báðum happdrættum sínum, þ. e. A- og B-flokki. Samt sem áður gefa þeir ekki út nema 60 þús. miða í hvorum flokki. Ætla mætti, að Happdrætti Háskóla Íslands mundi fyrst nota þá heimild, er þeir hafa til að setja inn á sölumarkaðinn 10 þús. ný númer, áður en beðið er um nýtt happdrætti til viðbótar. Auk þess verður að áætla nokkur þús. miða óselda, og er sú áætlun bæði byggð á óseldum miðum hinna happdrættanna og tekjum Happdrættis Háskóla Íslands. Þrátt fyrir það, sem hér greinir, eru árstekjur Happdrættis Háskóla Íslands um 20 millj. kr., sem gætu í ljósi framansagðs aukizt verulega, og virðist það ekki vera svo lítið ársverk fyrir eina stofnun að koma slíkri fjáröflun í lóg, þegar horft er byggingartíma hér á landi, vinnumarkaðinn, þörf Háskólans miðað við annarra þarfir o. fl. Með þessum aths. er ekki verið á neinn hátt að leggja stein í götu eðlilegrar þróunar Háskóla Íslands, en vegna mikillar hættu á rýrðum tekjum happdrættis okkar, ef af samþykkt þessa frv. verður, höfum við gert framangreindar aths. Um leið viljum við benda hv. nm. á eftirtaldar staðreyndir:

Tekjur Happdrættis D.A.S. skiptast nú þannig, að 60% teknanna renna til byggingar Hrafnistu, sem nú er orðið stærsta elliheimili landsins með yfir 370 vistmenn. Þrátt fyrir stöðugar byggingarframkvæmdir á undanförnum árum og mikla skuldasöfnun, er eftirspurn eftir vistplássi þar svo mikil og fer vaxandi, að fjöldi einstaklinga á biðlista hefur ekki farið niður fyrir 200 hin síðari ár. Í byggingarsjóð aldraðs fólks fer síðan 40% teknanna, en samkv. l. á hann að lána til bygginga hentugra íbúða fyrir aldrað fólk. Vegna þeirrar staðreyndar, að nú vantar nauðsynlega 500 ellivistarpláss yfir allt landið, og hópur sá, sem þjóðfélagið þarf að sjá fyrir ellivistarplássum í framtíðinni, fer prósentvís stækkandi, hefur frv. það, sem nú liggur fyrir hv. Nd. um breyt. á l. um byggingarsjóð aldraðs fólks, verið flutt. Ef frv. verður samþ., mun sízt veita af núverandi tekjum Happdrættis D.A.S.

Í ljósi framansagðs og í trausti þess, að vandamál aldraðra mæti sama skilningi og ætíð áður í sölum hv. Alþingis höfum við leyft okkur að láta í ljósi álit okkar varðandi áðurnefnt frv. um auknar heimildir til handa Happdrætti Háskóla Íslands.

Virðingarfyllst,

f. h. stjórnar Happdrættis D.A.S.

Baldvin Jónsson,

framkvæmdastjóri.“

Eins og ég sagði áðan, taldi ég skylt að kynna hv. d. þetta erindi, og það hygg ég, að sé ekki álitamál út af fyrir sig, að bæði þessi önnur happdrætti, sem hér er um að ræða; D.A.S. og S.Í.B.S., eru á vegum stofnana, sem gegna mikilvægum hlutverkum í þágu mannúðarmála, þannig að þau eru alls góðs makleg. Samt sem áður hefur nú alltaf verið litið svo á hér á hv. Alþ., að ekki væri ástæða til þess vegna hagsmuna þessara aðila að neita Happdrætti Háskóla Íslands um það að auka hlutamiða sína, þegar fram á slíkt hefur verið farið, og mín skoðun er sú, að vandamál þessara aðila verði að leysa eftir einhverjum öðrum leiðum, þó að ég sé ekki reiðubúinn að benda á slíkar leiðir að svo stöddu. Og það er tvennt í þessu erindi, sem ég nú hef lesið upp, sem ég vil leyfa mér að gera aths. við. Það er í fyrsta lagi þetta, að ekki sé ástæða til þess að bæta við nýjum flokki, vegna þess að allir happdrættismiðarnir, sem Háskólahappdrættið hefur nú heimild til að gefa út, hafi ekki enn þá verið seldir. Ég vefengi út af fyrir sig ekki, að þetta muni vera rétt, en á það má benda, að happdrættismiðar selja sig ekki sjálfir og sú samkeppni, sem önnur happdrætti kunna að eiga við að etja af hálfu Háskólahappdrættisins, verður auðvitað komin undir því, hve margir miðar eru seldir hverju sinni, en ekki hinu, hversu marga miða er heimild fyrir að gefa út.

Í öðru lagi vildi ég leyfa mér að benda á það, að ég held nú, að stjórn þessara happdrætta, eða stjórn D.A.S., — mér vitanlega hefur ekki borizt erindi frá S.Í.B.S. — ofmeti þá samkeppni, sem um sé að ræða frá Happdrætti Háskóla Íslands, því að á því má vekja athygli, að það er út frá nokkuð mismunandi hvötum, ef svo mætti segja, að ég held, sem fólk annars vegar tekur þátt í Happdrætti Háskóla Íslands og hins vegar í þeim happdrættum öðrum, sem hér er um að tala. Þó að Happdrætti Háskóla Íslands gegni vissulega mjög þörfu hlutverki eða því að afla fjár til byggingarframkvæmda á vegum Háskólans, hygg ég, að það sé nú ekki fyrst og fremst til þess að styrkja slíkar framkvæmdir, sem menn kaupa þar happdrættismiða, enda er almenningi jafnan ekki kunnugt um það, til hverra ákveðinna framkvæmda þessum peningum verði varið, heldur sé hér fyrst og fremst um hreint happdrætti að ræða, þannig að það sé í þeim tilgangi að fá vinninga, sem menn taki þátt í því happdrætti. Aftur á móti hvað snertir Happdrætti D.A.S. og S.Í.B.S., þá má í ríkara mæli líta á það fé, sem kemur inn á vegum þeirra happdrætta sem samskotafé. Þessi happdrætti geta ekki boðið upp á eins miklar vinningslíkur eins og Happdrætti Háskóla Íslands, en á hinn bóginn er hér um að ræða góð málefni, sem margir munu vilja styrkja, þannig að ég hygg eða tel, að þessi happdrætti séu meira hliðstæð ýmsum happdrættum, sem rekin eru á vegum annarra góðgerðastofnana og t.d. þeim happdrættum, sem öðru hverju er stofnað til á vegum okkar ágætu stjórnmálaflokka, en eins og hv. þdm. mun öllum kunnugt um, þá stofna stjórnmálaflokkarnir við og við til happdrætta, þar sem vinningarnir eru að jafnaði einn, tveir eða þrír bílar. En ég hygg, að ástæðan til þess, að fólk kaupi þá happdrættismiða sé ekki sú, að menn geri sér vonir um að hreppa þessa bíla, því að líkurnar á því eru svo sáralitlar fyrir hvern einstakan, heldur til þess að styðja góða hugsjónabaráttu, þannig að hér er ekki um sambærilega hluti að ræða, en hitt er alveg rétt, að minnkandi tekjur almennings vegna hins erfiða árferðis, sem nú er, bitnar vafalaust á rekstri happdrætta eins og öðru, en það á auðvitað jafnt við um Háskólahappdrættið og þau önnur happdrætti, sem hér er um að ræða.

Ég sé svo ekki, herra forseti, ástæðu til þess að orðlengja þetta meira, en till. fjhn. er sú, að þetta frv. verði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir.