02.11.1967
Neðri deild: 12. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í C-deild Alþingistíðinda. (2394)

37. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Guðmundur H. Garðarsson) :

Herra forseti. Fyrir Alþ. liggur erindi, dags. 24. okt. s.l., frá Landssambandi lífeyrissjóða, þar sem þess er óskað, að lögum um húsnæðismálastjórn sé breytt á þann veg, sem framlögð till. um breyt. á l. nr. 19 frá 10. maí 1965, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, gerir ráð fyrir. Því hef ég leyft mér að flytja það frv., sem hér liggur fyrir. Í bréfi Landssambandsins til Alþ. varðandi þetta mál segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á aðalfundi Landssambands lífeyrissjóða, sem haldinn var 12. apríl s.l., var samþ. svohljóðandi till.:

Aðalfundur Landssambands lífeyrissjóða haldinn í Reykjavík 12. apríl 1967 samþykkir að fela stjórn samtakanna að óska eftir því við hv. Alþ.,l. um húsnæðismálastjórn verði breytt á þann veg, að stofnunin geti ekki útilokað lífeyrissjóðsfélaga frá möguleikum til fullra lána úr almenna veðlánakerfinu vegna þátttöku þeirra í lífeyrissjóðnum.

Með skírskotun til ofangreindrar samþykktar leyfir stjórn Landssambands lífeyrissjóða sér hér með að fara þess á leit við hið háa Alþ., að bætt verði við e-lið 7. gr. l. nr. 19 frá 1965, um Húsnæðismálastofnun ríkisins nýjum málslið, er hljóði svo:

„Lán til sjóðsfélaga úr lífeyrissjóðum, sem stofnaðir eru með l. eða viðurkenndir af fjmrn., skulu þó í engu skerða rétt hlutaðeigandi til lána úr Byggingarsjóði ríkisins“.“

Enn fremur segir í bréfi Landssambands lífeyrissjóða til Alþingis:

„Á það skal bent, að margir lífeyrissjóðir hafa verið stofnaðir með þeim hætti, að í stað beinna kauphækkana hafa ákvæði um lífeyrisréttindi verið tekin í kjarasamninga, og enginn vafi leikur á, að hinn öri vöxtur lífeyrissjóða undanfarin ár á að verulegu leyti rót sína að rekja til þarfa sjóðsfélaga fyrir lánsfé til bygginga eða kaupa á eigin íbúðum. Það er því hæpin ráðstöfun að gera að engu eða draga stórlega úr þeim ávinningi, sem stofnun lífeyrissjóða hefur haft í för með sér að þessu leyti með lánareglum hins almenna veðlánakerfis.“

Þetta sjónarmið kemur líka fram í lagasetningu Alþingis, þ. e. félagar eins lífeyrissjóðs, lífeyrissjóðs togarasjómanna og undirmanna á farskipum njóta samkvæmt l. fullra lánaréttinda hjá hinu almenna veðlánakerfi, án tillits til lífeyrissjóðslána, sbr. 2. mgr. 8 gr. l. nr. 78 frá 1962. Að lokum skal tekið fram, að þótt hér sé fyrst og fremst um að ræða hagsmunamál félaga lífeyrissjóðanna, skiptir það lífeyrissjóðina sjálfa einnig miklu, einkum sjóði með frjálsri þátttöku. Verði framhald á þeirri þróun mála, sem átt hefur sér stað í þessu efni að undanförnu, má við því búast, að sá veigamikli sparnaður, sem felst í starfsemi lífeyrissjóðanna, dragist saman eða aukist a.m.k. mun minna en ella. Í bréfi þessu kemur fram, að þegnunum er mismunað gagnvart hugsanlegum og jöfnum möguleikum til lána úr hinu almenna veðlánakerfi ríkisins. Slík mismunun, sem hér á sér stað, hefur þegar haft og mun hafa í enn ríkara mæli en orðið er mjög óheppileg áhrif á uppbyggingu og vaxtamöguleika hinna svonefndu frjálsu lífeyrissjóða, ef ekkert verður að gert og lífeyrissjóðsfélögum tryggður sami réttur til lána úr almenna veðlánakerfinu og öðrum. Með frjálsum lífeyrissjóðum er átt við lífeyrissjóði þeirra stéttarfélaga eða atvinnugreina, þar sem viðkomandi starfsmanni er frjálst, hvort hann gerist aðili að lífeyrissjóði eða eigi, gagnstætt því, sem er hjá hinu opinbera, þar sem starfræktir eru lögboðnir lífeyrissjóðir, sem sérhver opinber starfsmaður verður að vera þátttakandi í. Vegna hinna takmörkuðu lánamöguleika, sem ríkt hafa hér á landi, hafa lífeyrissjóðirnir jafnan gegnt tvíþættu hlutverki, þ.e.a.s. annars vegar tryggingarhlutverkinu með tilliti til lífeyris á gamalsaldri og hins vegar hafa þeir gegnt veigamiklu hlutverki sem lánasjóðir fyrir þá, sem eru aðilar að viðkomandi sjóðum.

Fyrir hina frjálsu sjóði, þar sem menn ráða því, hvort þeir eru sjóðfélagar eða eigi, hefur það haft mjög mikla þýðingu, sérstaklega gagnvart yngri starfsmönnum, að lífeyrissjóðirnir hafa getað veitt ungu fólki lán til íbúðakaupa eða íbúðabygginga. Hefur þetta verið mörgum manninum hvöt til þess að ganga í þessa sjóði og hefja þar með þann æskilega sparnað, sem hér um ræðir, jafnframt því, sem viðkomandi hefur greitt til jafns við aðra skatta og skyldur vegna sameiginlegra opinberra sjóða, eins og t.d. Byggingarsjóðs ríkisins. Það má því segja, að af hálfu þeirra, sem eru í frjálsum lífeyrissjóðum, sé um að ræða viðbótarálag eða hluta af kaupi, sem viðkomandi stéttarfélag hefur samið um, og er það því algert viðbótarátak af hans hálfu að vera þátttakandi í slíkum lífeyrissjóði, Þátttaka í lífeyrissjóði ætti því ekki að hafa nein áhrif á jafna möguleika lífeyrissjóðsfélaga til lána úr hinu almenna veðlánakerfi, nema síður sé. En síðustu árin hefur raunin því miður orðið önnur, því að í þeim efnum hafa lífeyrissjóðsfélagar verið settir skör lægra en aðrir þjóðfélagsþegnar gagnvart hugsanlegum lánsmöguleikum úr hinu almenna veðlánakerfi, þannig að það hefur verið spursmál fyrir ungt fólk, og ekki hvað sízt með tilliti til þess, að rætt hefur verið um að stofna almennan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, hvort það borgaði sig að vera í lífeyrissjóði eða láta semja við viðkomandi vinnuveitanda um það, að það framlag, sem ella gengi til lífeyrissjóðs, skyldi frekar ganga inn á sérreikning viðkomandi í banka. Aðstöðumunurinn á því, sem skapast við það, hvort um er að ræða greiðslu í lífeyrissjóð eða greiðslu 3 banka, felst í því, að sé greitt inn á bankareikning, hefur viðkomandi möguleika á fullum lánum úr hinu almenna veðlánakerfi, en sé greitt inn á nafn viðkomanda í lífeyrissjóð, hefur hann haft takmarkaða möguleika til slíkra lána og hefur enn að vissu marki, eins og nánar mun verða rakið.

Á árinu 1965 kom í ljós, að sú breyting væri að verða á í útlánastarfsemi Húsnæðismálastofnunar ríkisins, að félagar í lífeyrissjóðum, sem í byggingarstarfsemi stóðu og byggðu innan ramma stofnunarinnar um stærð íbúða og þess háttar, hefðu ekki sömu og jafna möguleika til lána úr húsnæðismálasjóði og aðrir. Félagar í frjálsum lífeyrissjóðum, eins og t.d. lífeyrissjóði verzlunarmanna, sem mun vera stærsti, frjálsi lífeyrissjóður landsmanna með um 2 þús. sjóðsfélaga, höfðu þó fyrr orðið þess varir, að þeir voru settir til hliðar við úthlutun hjá Húsnæðismálastofnuninni. Því var það, að þegar árið 1964 mótmælti Verzlunarmannafélag Reykjavíkur þessum ójöfnuði. Þá var að frumkvæði B.S.R.B. haldinn fundur um þetta mál 23. október 1965, þar sem mættir voru 26 fulltrúar frá ýmsum stéttarfélögum og starfsgreinum víðs vegar að af landinu, þar sem starfræktir voru lífeyrissjóðir eða viðkomandi voru þátttakendur í lífeyrissjóði, svo að segja má, að á þessum fundi hafi fulltrúar meginþorra allra landsmanna, sem aðild eiga að lífeyrissjóðum, verið mættir. Til skýringar skal þess getið, eins og fram kemur í grg. með lagafrv., að starfandi lífeyrissjóðsfélagar munu nú vera um 16 þús. Þar af tilheyrir um helmingur lögboðnum lífeyrissjóðum, en hinn helmingurinn frjálsu sjóðunum, sem standa að Landssambandi lífeyrissjóða. Landssambandið var stofnað árið 1964 í þeim tilgangi að gæta sameiginlegra hagsmuna hinna frjálsu lífeyrissjóða, og formaður þess hefur frá upphafi verið Guðjón Hansen tryggingafræðingur. Í Landssambandinu eru nú 44 lífeyrissjóðir, og var iðgjaldagreiðsla í þá árið 1966 um 120 millj. kr., en heildariðgjöld greidd í alla lífeyrissjóði landsmanna munu á því ári hafa verið tæpar 250 millj. Af þessu má nokkuð marka þýðingu hinna frjálsu lífeyrissjóða.

Tilgangur haustfunda lífeyrissjóðanna árið 1965 var að sameina alla lífeyrissjóðsfélaga gagnvart hinu nýja vandamáli, sem að lífeyrissjóðsfélögum sneri, vegna breyttrar útlánastefnu húsnæðismálastjórnar. Niðurstaða fundarins var í stuttu máli sú, að hann taldi, að sjóðsfélagar hinna ýmsu lífeyrissjóða ættu sama rétt og aðrir þegnar til lána úr hinu almenna veðlánakerfi, svo sem verið hafði, þó að þeir ættu einnig rétt á láni úr sínum lífeyrissjóði. Mótmælti fundurinn fyrirhugaðri réttarskerðingu jafnframt því, sem bent var á eftirfarandi atriði til rökstuðnings í máli lífeyrissjóðsfélaga:

Í fyrsta lagi, lífeyrissjóðir eru raunverulega eign sjóðsfélaga þeirra, þ.e.a.s. tillag vinnukaupenda verður að teljast sem hluti af launum. 2. Eign þeirra í lífeyrissjóði er sparifé, sem safnað er með sérstökum hætti og bundið fast um langt árabil, sem talið er heilbrigt fyrir efnahagskerfið. 3. Lífeyrissjóðirnir hafa flestallir myndazt við samningsgerð um kaup og kjör sjóðsfélaga og þá alltaf verið taldir sem hluti af launahækkun. 4. Sjóðsfélagar lífeyrissjóða greiða á sama hátt og aðrir þjóðfélagsþegnar fé til hins almenna veðlánakerfis, og því eiga þeir ótvíræðan rétt til lána og með sama hætti og aðrir landsmenn. 5. Óhjákvæmilega yrði um kjaraskerðingu að ræða hjá þeim launþegum, sem sviptir yrðu að einhverju umræddum lánarétti.

Kosin var 7 manna n., sem í eru fulltrúar lögboðnu sjóðanna, sem og hinna frjálsu. Skyldi n. vinna að því að tryggja rétt lífeyrissjóðsfélaga, sem hún hefur unnið að síðan, jafnframt því, sem stjórn landsambandsins hefur einnig unnið að þessum málum. Formaður n. er Kristján Sigurðsson lögregluþjónn, sem er formaður Lögreglufélags Reykjavíkur. Frsm. þessa frv. er einn nm. Í upphafi ársins 1966 og síðar átti 7 manna n. nokkra viðræðufundi við hæstv. félmrh., Eggert G. Þorsteinsson, og forráðamenn Húsnæðismálastofnunar ríkisins um lánveitingar húsnæðismálastjórnar og stöðu lífeyrissjóðsfélaga. Í byrjun ársins 1966 náðist óformlegt samkomulag milli þessara aðila, sem fulltrúar lífeyrissjóðanna skildu á þann veg, að lífeyrissjóðsfélagar, sem ættu kost á lánum úr lífeyrissjóði, sem næmi lægri upphæð en kr. 250 þús., skyldu eiga rétt á fullum lánum úr húsnæðismálasjóði, byggðu þeir samkv. reglum, sem Húsnæðismálastofnun ríkisins hefði ákveðið. Þegar þetta var ákveðið, var hámarkslán húsnæðismálasjóðs kr. 280 þús., sem þýddi miðað við 200 þús. kr. lán úr lífeyrissjóði samtals kr. 480 þús. kr. heildarlán, en út frá þeirri upphæð var óformlega samkomulagið gert. Nokkru seinna byrjaði húsnæðismálasjóður að veita svonefnd viðbótarlán að upphæð kr. 75 þús., sem átti að fara til efnalítilla félaga verkalýðshreyfingarinnar. Töldum við, að lífeyrissjóðsfélagar, þ.e.a.s. hinir efnaminni á meðal þeirra, ættu einnig að hafa sama rétt og aðrir á þessu 75 þús. kr. láni, en annað hefur því miður reynzt í framkvæmd.

Óformlega samkomulagið um 480 þús. kr. hámarkið var virt í framkvæmd til að byrja með. En með hækkun húsnæðismálastjórnarlána síðan þetta samkomulag var gert, hefur hlutur lífeyrissjóðsfélaga verið stöðugt skertur og var svo komið, þegar erindi Landssambands lífeyrissjóða barst Alþ. 24. okt. s.l., að mismunurinn milli heildarlána lífeyrissjóðsfélaga annars vegar og þeirra sem ekki voru í lífeyrissjóði hins vegar, var aðeins kr. 25 þús. Stafaði þetta af því, að hámarkslán frá húsnæðismálasjóði var þá komið upp í 380 þús. kr., og að viðbættu 75 þús. kr. láninu gerði þetta samtals 455 þús. kr. heildarlán frá húsnæðismálasjóði. Ef lífeyrissjóðsfélagar ættu að njóta sama réttar og óformlega samkomulagið gerði ráð fyrir, hefði sameiginlegt hámarkslán, þ.e.a.s. lífeyrissjóðslán að viðbættu húsnæðismálasjóðsláni, átt að vera kr. 655 þús. eða 580 þús. sé 75 þús. kr. viðbótarláninu sleppt. Síðan erindi Landssambands lífeyrissjóða barst Alþ. hefur það gerzt, að húsnæðismálastjórn hefur hækkað hámarkslánsmöguleika lífeyrissjóðsfélaga úr kr. 280 þús. upp í kr. 380 þús. eða í sama hámark og aðrir hafa, en þetta gildir aðeins gagnvart þeim lífeyrissjóðsfélögum, sem fá 200 þús. kr. lán eða lægri í lífeyrissjóði, og þá vantar 75 þús.kr., lánið, sem gert var ráð fyrir, að félagsmenn verkalýðsfélaganna fengju. Nú skal það tekið skýrt fram, að óformlega samkomulagið fullnægir hvergi kröfunni um sama rétt lífeyrissjóðsfélögum til handa um fulla lánsmöguleika úr almenna veðlánakerfinu, þar sem ákveðin skilyrði eru sett um hámarkslán lífeyrissjóðanna til þess að lífeyrissjóðsfélagar geti komið til greina. En það er nú gagnvart lífeyrissjóðunum 200 þús. kr. En þar sem á það var fallizt af 7 manna n. að koma til móts við sjónarmið ríkisvaldsins og húsnæðismálastofnunarinnar, er það notað sem viðmiðun. Þar sem fullt jafnrétti ríkir ekki og umrætt samkomulag hefur ekki verið virt sem skyldi, stefnir þróun sem þessi hinum frjálsu, sjálfstæðu lífeyrissjóðum í mikla hættu. Staðreyndin er því miður sú, að áhugi ungs fólks fyrir þessum sjóðum minnkar, ef þeir draga úr jafn hagstæðum lánamöguleikum og almenna veðlánakerfið býður upp á. Fyrir ungt fólk hefur ellilífeyristryggingin, þótt hún sé góð, ekki mikið aðdráttarafl. Það að eignast íbúð með hagkvæmum lánum virkar miklu sterkar. Í þeim efnum hafa sjóðirnir haft ómetanlega þýðingu og beinlínis ráðið úrslitum fyrir mína kynslóð og þá, sem yngri eru og eru starfandi í atvinnulífinu, um það, hvort við gætum eignast húsnæði eða ekki. En frjálsu lífeyrissjóðirnir hafa ekki aðeins þýðingu fyrir lífeyrissjóðsfélagana, heldur þjóðfélagið í heild, því að hér er um jákvæðan og æskilegan sparnað að ræða, sem gerður er af frjálsum og fúsum vilja, sparnað, sem oft og tíðum kemur atvinnulífinu til góða vegna sjóðmyndana í einkabönkum og fyrirtækjum, sem annars ætti sér ekki stað. Til þess að fyrirbyggja, að þessari heilbrigðu sparifjármyndun verði teflt í hættu vegna ofurvalds opinberrar stofnunar, sem að vísu hefur haft mikla og æskilega þýðingu fyrir framþróun í húsnæðismálum landsmanna, er þetta frv. flutt.

Þeirrar tilhneigingar gætir stöðugt meir, að opinberar stofnanir eða ráð geta sett þegnunum stólinn fyrir dyrnar og beinlínis aftrað eða dregið úr sjálfstæðri viðleitni borgaranna sér til bjargar. Þróunin í lánamálum húsnæðismálasjóðs og staða lífeyrissjóðsfélaga gagnvart henni er gott dæmi þessa. En hér er ekki um að ræða fámennan hóp borgara, sem hagsmuna eiga að gæta, heldur er um að ræða hagsmuni 16 þús. manns, sem eiga bágt með að una því, að sparnaðarviðleitni þeirra í lífeyrissjóðunum skuli eiga að útiloka þá eða takmarka möguleika þeirra til sama réttar og aðrir fá til lána úr sameiginlegu veðlánakerfi þjóðarinnar, sem allir eiga jafnan rétt til. Það getur verið, að hv. alþm. hafi ekki áttað sig á þessari þróun, sem þjóðfélagsborgararnir verða æ áþreifanlegar varir við. Staða þeirra, sem í sjálfstæðu atvinnulífi standa, hefur um sumt versnað, þótt mikil tækni og efnalegar framfarir hafi átt sér stað á síðustu árum, jafnframt því, sem áhrif alls kyns opinberra stofnana hafa aukizt á sama tíma og staða Alþ. til ákveðinna afskipta af málefnum þegnanna er ekki eins sterk og áður. Tel ég það miður og óttast, að áframhald slíkrar þróunar geti teflt lýðræðinu í hættu og stórlega dregið úr virðingu yngri kynslóðarinnar fyrir þessari mikilvægu stofnun, sem Alþ. er.

Alþm. eru til þess kjörnir að ráða málum þjóðarinnar í heild, ekki aðeins vegna ríkisvaldsins, heldur einnig atvinnulífsins og einstaklinganna, Af hálfu Alþ. hefur þeirrar tilhneigingar því miður gætt í æ ríkari mæli, að hér hafa verið samþ. lög um ýmsar stofnanir, ráð og n., sem ættu að hafa sem sjálfstæðasta stöðu til að fjalla um og ráða gangi mála á viðkomandi sérsviðum. Að afhenda slíkt vald með lögum út úr Alþ. getur verið nauðsynlegt að vissu marki og í vissum undantekningartilfellum, en því ætti að vera sett mun meiri takmörk og mun þrengra svið en nú á sér stað í, því miður, of mörgum tilfellum. Oft heyrist sagt, að hv. alþm. vilji helzt hafa þetta svona, svo að þeir þurfi ekki að standa í því sjálfir með ærinni fyrirhöfn og jafnvel aðgerðum, sem hafa í för með sér óvinsældir. Nokkuð er í þessu hæft, og má virða það mönnum til vorkunnar vegna hinnar lélegu starfsaðstöðu, sem alþm. hafa samanborið við t.d. starfsaðstöðu sérfræðinga ríkisvaldsins. Til þess að sporna við þessari óheillaþróun, að ríkisvaldið, Alþ. og þjóðin í heild verði of háð mati og áætlunum ríkissérfræðinga, stofnana eða sérhagsmunahópa, er mikilvægt, að hv. alþm. fái þá starfsaðstöðu, að þeir geti verið virkari í afskiptum sínum af því, með hvaða hætti megi styrkja sem mest aukið sjálfstæði einstaklinganna og atvinnulífsins jafnframt því, sem ríkisstofnunum og embættismannakerfinu er veitt aukið aðhald. Það er eitt meginhlutverk Alþ. í lýðræðislegu þjóðfélagi að stuðla og hlúa að hinum sjálfstæðu stofnunum þess, þ. e. einstaklingunum, fjölskyldunni og sjálfstæðum atvinnurekstri.

Íslenzku þjóðinni hefur tekizt að rísa svo hátt sem raun ber vitni, vegna þess að einstaklingarnir hafa haft skilyrði til eigin átaka, sem hefur verið þeim hvatning til meiri afreka, svo sem víða má sjá, t.d. í útgerð, iðnaði, siglingum, flugmálum o. fl. og einnig í því, hversu djarflega margir hafa gengið fram í að eignast eigin íbúð. Þessi ríka viðleitni til eigin átaka hefur gefið íslenzku þjóðfélagi mjög ákveðið og sterkt þjóðareinkenni, sem athygli vekur. Mín kynslóð, þ.e.a.s. sú, sem kemst til vits og þroska eftir síðari heimsstyrjöldina, á fyrirrennurunum mikið að þakka, þar sem þeir hafa gert okkur og þeim, sem yngri eru, kleift að lifa í þessu góða landi í öryggi og velmegun. Möguleikar til menntunar og aukins þroska hafa verið miklir og mun meiri en nokkru sinni fyrr í sögu Íslandsbyggðar. Efnalegur grundvöllur þessa hefur annars vegar byggzt á stefnu sjálfstæðis, óhefts framtaks einstaklingsins á sem flestum sviðum samfara hins vegar ákveðinni félagshyggju, um þýðingarmikil hagsmunamál stétta og atvinnugreina. Það á að gefa næstu kynslóð og kynslóðum sömu og enn meiri tækifæri á grundvelli frjálsræðis. Í þeim efnum á Alþ. að hafa forystuna og frumkvæðið, eftir því sem æskilegt þykir. Það á að sporna við þeirri tilhneigingu, að æ meira vald færist úr hendi Alþ. til ýmissa stofnana, þótt svo þær séu stofnaðar með l. frá hinu háa Alþingi. Hafi þau lög gefið viðkomandi stofnunum þegar of mikið vald, ber að breyta slíkum lögum. Hefja á Alþ. til enn meiri virðingar, skapa því og þm. það góð starfsskilyrði, að þeir geti sjálfir betur unnið að og farið enn nánar ofan í þýðingarmestu mál þjóðarinnar. Yngri kynslóðirnar mega ekki glata virðingu og trausti til Alþ., því að þá er lýðræðinu stefnt í hættu. Nútímaþjóðfélagshættir gera stöðugt meiri kröfur til þeirra einstaklinga, sem hafa forystu í þeim efnum að uppfylla þær kröfur, sem gerðar eru. Leyfi ég mér að halda því fram, að Alþ. hafi orðið aftur úr og að vissu marki fallið fyrir þeirri freistingu að láta þróunina fara fram hjá sér eða vísa vandanum frá sér til ríkisstofnana og alls kyns ráða. Þessa þróun verður að stöðva. Það þarf að breyta störfum Alþ., skapa þm. mun betri starfsskilyrði og styrkja þá í hinu kjörna forystuhlutverki. Sé þetta gert er minni hætta á, að ráðstafanir séu gerðar, sem draga úr hvöt þjóðfélagsþegnanna til sjálfstæðra átaka, sem í því tilfelli, sem hér um ræðir, er í sambandi við jafnan rétt lífeyrissjóðsfélaga á við aðra þegna til fullra lána úr hinu almenna veðlánakerfi. Það er óviðunandi, að einni ríkisstofnun sé falið svo mikið framkvæmdavald, að hún hafi svo til sjálfræði um jafnmikilvægar ákvarðanir, sem snerta þúsundir manna, eins og hér um ræðir. Ég er þess fullviss, að þessi hætta hefur farið fram hjá mörgum alþm., og því hreyfi ég þessu máli.

Nú hefur hv. Alþ. tækifæri til þess að leiðrétta eitt þessara atriða með því að fallast á þessa till. til lagabreytingar, sem ég hef hér lagt fyrir, varðandi stöðu og réttindi lífeyrissjóðsfélaga, þ.e.a.s. 16 þús. manns.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn. Nd.