13.11.1967
Neðri deild: 16. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í C-deild Alþingistíðinda. (2406)

51. mál, vegalög

Flm. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Það er ekki í fyrsta skipti, sem hæstv. samgmrh. lýsir því yfir, að lítið beri á milli okkar, og er ekki nema gott um það að segja. En samt er það nú svo, að alltaf verður eitthvað til að deila um eða gera það að verkum, að við náum ekki saman. Hæstv. ráðh. hafði orð á því, að ég hefði sagt í minni ræðu hér áðan, að hæstv. ríkisstj. gæti gert mikið í vegamálum, og svo sagði ráðh. ekki meira. En ég bætti því við, ef viljann skorti ekki. Og ég vil endurtaka það, að hæstv. núv. ríkisstj. getur gert meira í vegamálum en aðrar ríkisstj. hafa getað gert, vegna þess að umferðin sjálf er farin að leggja til svo miklar tekjur.

Ég sýndi fram á það, að á s. l. ári voru tekjur, sem ríkissj. hafði af umferðinni, umfram það. sem fór til veganna, hartnær 600 millj. kr. Þessu var ekki til að dreifa á 4., 5. eða 6. tug þessarar aldar, einmitt á þeim árum, þegar vegakerfi landsmanna var teygt út um landsbyggðirnar. Þá hafði ríkissj. ekki þær tekjur af umferðinni, sem hann hefur nú. En vegna þeirra verka, sem þá voru unnin, eru nú þessar tekjur til handa ríkissjóði nú. Og ég get því undirstrikað það, sem ég sagði hér áðan þar um.

Hæstv. ráðh. dró það í efa, að ég hefði farið með rétt mál, er ég vitnaði til þess, að á 4. og 5. tug þessarar aldar og 6., hefði verið varið til vegamála 10 og 12% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Hér hef ég fyrir mér skýrslur, sem m.a. eru gerðar af fyrrv. vegamálastjóra og birtar eru í Fjármálatíðindum 1956, og ég hef fengið upplýsingar um síðar. Hér er því ekki um neinar vafatölur að ræða. Það er hins vegar allt annar reikningur, sem hæstv ráðh. notar, þegar hann gerir upp dæmið frá 1958. Þá tekur hann sig til, hæstv. ráðh., og leggur saman tekjur ríkissj. og útflutningssj. og reiknar prósentuna þar af. Það er álíka reikningsaðferð og tæki ég mig til nú og reiknaði gengisbreytingarnar, sem orðið hafa síðan núv. valdhafar komu í valdastólana og reiknaði útgjöld til vegamála eftir því. Og svo þegar hæstv. ráðh. er að gera upp dæmið um fé til vegamála á þessum árum, er hann hefur stjórnað, bætir hann einnig lánunum við, sem ekki voru þekkt áður en núv. valdhafar komu til. Þegar þeir tóku völd í þessu landi, voru ekki skuldir hjá vegagerðinni vegna þeirra verka, sem þá var búið að vinna, nema einhverjar lítils háttar út á fjárveitingu næsta árs. Nú veit hæstv. ráðh. vel, að það er allt öðru til að dreifa. Nú eru hundruð millj. kr. skuldir hjá vegagerðinni, sem framtíðin þarf að greiða. Það vita það allir, að það eru ekki lagðar nema 10 millj. kr. á ári til hraðbrautanna, en Keflavíkurvegurinn kostaði 275 millj. kr. Sjái svo þeir, sem sjá vilja, þegar þetta er haft í huga, hvort hér er gerður hliðstæður samanburður.

Þá kom hæstv. ráðh. mikið að árinu 1958, sem hann hefur oft gert, og ég hefi nú gert grein fyrir, hvernig það er reiknað, en þá var varið til vegamála af ríkissjóðstekjum um 11%. Þá kom þessi venjulegi þáttur hjá hæstv. ráðh., sem við stjórnarandstæðingar erum farnir að þekkja og gætum sett alltaf fyrir fram, það er þetta: þið talið af ábyrgðarleysi, ykkar till. eru ekkert nema ábyrgðarleysi. Nú vil ég því til svara í sambandi við fjárlagaafgreiðslu, að það munu a.m.k. vera tvö ár, sem við Framsfl.-menn höfum ekki flutt aðrar till. við afgreiðslu fjárl. en þá eina, að hæstv. stjórnarandstæðingar bættu upp og reyndu að halda því fyrirheiti, sem hæstv. samgmrh. gaf í sambandi við afgreiðslu vegal. Við höfum gert ítrekaðar tilraunir til þess, að það væri ekki látið óbætt standa, það fyrirheit, sem hann þá gaf. Þetta hefur ekki tekizt. Þeir hv. samherjar hans hafa ekki metið fyrirheitið það mikið. Þrátt fyrir þessa afstöðu okkar hefur fjárlagafrv. og fjárl. íslenzka ríkisins tekizt að hækka um hartnær 1 milljarð á milli ára, og svo fer enn við þessa fjárlagaafgreiðslu.

Ég vil líka minna á mál, þar sem hefur verið talað um ábyrgðarleysi af okkar hendi. Ég vil minna á frv., sem við höfum flutt hér á hv. Alþ., að nýjum hafnarl. Þar var gert ráð fyrir því, að ríkissj. legði meira til hafnarmálanna en áður hafði verið. Þetta var gert af brýnni nauðsyn, vegna þess að þeir, sem stóðu í hafnarframkvæmdunum heima í héruðunum, gátu ekki staðið undir þeim miklu fjárhæðum, sem heimabyggðinni var gert að standa undir samkv. eldri l. Það var ábyrgðarleysi og talað um, að framsóknarmenn sæju ekki fyrir því, hvernig ætti að koma þessum verkum áfram, ef þetta væri tekið af ríkissj. En á síðasta Alþ., skömmu fyrir kosningar, kom slíkt mál fram frá hæstv. ríkisstj. Þá var það ekki ábyrgðarleysi, heldur umhyggja fyrir landsmönnum, og þá var ekki talað um það, að það væri ábyrgðarleysi að sjá ekki fyrir tekjunum. Það er ekki í því frv. séð fyrir þeim tekjum vegna þeirra auknu útgjalda, sem l. gera ráð fyrir. Þetta er hliðstætt.

Hér á s.l. vori, rétt fyrir þingslit, voru sett í gegn ný l. um kostnað skólanna. Þau l. munu hafa í för með sér nokkra útgjaldaaukningu fyrir ríkissj. Það hefði verið kallað ábyrgðarleysi af hendi okkar framsóknarmanna og allra annarra stjórnarandstæðinga, ef við hefðum flutt slíkt frv. án þess að sjá fyrir tekjum. En það var gott mál í höndum ríkisstj. Þannig er þetta, hæstv. ráðh. Þannig er ykkar túlkun á málum, sem síðar meir verða að raunveruleika. Þau eru ábyrgðarlaus, þegar við komum með þau, en þau eru ábyrg, þegar þið berið þau fram. Og þetta þekkjum við, og við þurfum ekki að eyða löngum tíma í að ræða um þetta. Ég endurtek það, að það er verksvið hverrar ríkisstj. á hverjum tíma að finna fé til þeirra verkefna, sem þarf að leysa, og við deildum ekki um það, hæstv. ráðh. og ég, að þörfin á aukinni vegagerð í landinu væri brýn.

En í framhaldi af þessu vil ég leyfa mér að spyrja: Hæstv. ráðh. sagði hér í ræðu sinni áðan, að þetta, sem við værum að flytja frv. um nú og bentum á, að þyrfti að leysa, eins og hraðbrautirnar austur á Hvolsvöll, upp í Borgarnes og svo norður, væri hann að vinna að, en hvernig á að leysa verkefni, ef hvergi á að taka fjármuni til þess? Þó að það verði leyst í fyrstu lotu með lánveitingu, verður að greiða það lán, eins og önnur lán. Þess vegna þýðir ekkert að tala um það, að þessi verkefni séu brýn, það verður að leysa þau, og við leysum þau ekki nema taka einhvers staðar fjármuni til þess. Og eðlilegasta leiðin er sú að nota fjármagnið, sem umferðin sjálf leggur til, og í landi eins og okkar, þar sem vegagerðin er svo mikið brýnt hagsmunamál vegna atvinnu- og viðskiptalífs og menningarlífs þjóðarinnar, verður að snúa sér að því að leysa vegamálin á þennan hátt. Ég er ekkert að efast um, að það verður gert, því að svo gott mál, sem þetta, getur ekki látið standa á sér nema takmarkaðan tíma. Það hlýtur að leysast fyrr en seinna.