13.11.1967
Neðri deild: 16. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í C-deild Alþingistíðinda. (2407)

51. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson) :

Herra forseti. Þetta eru nú aðeins örfá orð. Hv. þm. talar um, að það sé fjarstæða að vera bara að bera saman útgjöld ríkissjóðs og útflutningssjóðs árið 1958 og reikna prósentu af því, það sé allt annað. Hann vill aðeins ganga fram hjá því, að þá voru tvenn fjárl., annars vegar útflutningssj. og hins vegar þessi svonefndu fjárl. En þær fjárgreiðslur, sem fóru í gegnum útflutningssj., eru núna í fjárl., og þess vegna er það, að ef við ætlum að fá réttan samanburð á útgjöldum ríkisins 1958 og nú, verðum við að nota bæði fjárl., sem giltu 1958, og útflutningssjóð, af því að þær greiðslur, sem áður fóru gegnum útflutningssjóðinn, fara nú í gegnum fjárl., og þá verður útkoman þessi, að 1958 eru 4.8% til vegamála, en 1966 7.5%, auk þess samanburðar, sem ég áðan las upp.

Hv. þm. segir líka, að það sé ekki sambærilegt nú það, sem ég las upp, vegna þess að áður hafi ekkert verið unnið fyrir lán. Nú hvíla skuldir á vegagerðinni, en þessar skuldir eru aðallega vegna Keflavíkurvegar. Þeim vegi er fyrir löngu lokið. Ég gerði samanburð fyrir árin 1966 og 1967, og þá var sáralítið lánsfé tekið nema þau lán, sem eru boðin heiman að úr hreppunum, en það var líka 1958, þannig að allt þetta staðfestir það, að það er réttur samanburður, sem ég hef tekið og það upp úr opinberum og réttum skýrslum.

Árið 1958, þegar framsóknarmenn voru í stjórn, var varið 8.7 millj. til veganna. Nú er eftir að sjá, hvað fjárl. hafa verið há, ég bara man það ekki. En þm. segir, að þá hafi verið varið 12–14% af útgjöldum fjárl. til veganna, en hér er nú rekstraryfirlitið, það er 221.4 millj., rekstraryfirlitið. Rekstrarafgangur þá er 326 þús., en sé sjóðsyfirlitið tekið, er það 247 millj., og það er bara 12–14% af fjárlagafénu varið á 5. áratugnum til vega.

Ég er hérna með fjárl. frá 1958. Ég lét mér nú bara ekki detta í hug, að fullyrðingar hv. þm. væru svona fjarstæðukenndar. En við höfum heyrt, hvað þm. sagði og hér eru fjárl. Og ef málflutningurinn að öðru leyti er nú svipaður þessu, veit ég nú ekki, hvort það er ástæða til að vera að eyða löngum tíma í að ræða þetta frekar. En á miðvikudaginn mun nú verða hér rætt í Sþ. um tvær þáltill., sem liggja fyrir í vegagerð. Kannske gefst þá tækifæri til þess að tala enn frekar um vegamál. En ég held, að hv. 3. þm. Vesturl. verði nú að fyrirgefa mér og öðrum, þó að við tökum nú ekki allt saman alvarlega, sem hann segir um þessi mál, þegar við höfum í höndunum gögn, sem sýna það, að þetta er alveg fjarstæða, og enn ætla ég að segja það, að ég efast ekkert um einlægan vilja og áhuga þessa hv. þm. um það að bæta vegakerfið í landinu, ég skal meta það. En ég tek það ekki alvarlega, þegar þessi hv. þm. flytur hér frv., skrifar grg. fyrir því í áróðursstíl og segir:

„Það erum við framsóknarmenn, sem höfum haft forgöngu á undanförnum árum og áratugum við vegagerð í landinu. Það er okkar verk, að vegakerfið hefur teygzt um landið. Við höfum haft forystu um þetta og við höfum meiri áhuga en aðrir.“

Það verður að fyrirgefa mér og öðrum hv. þm., þó að við fáum hálfgerða andúð á svona málflutningi.