18.01.1968
Neðri deild: 51. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í C-deild Alþingistíðinda. (2421)

80. mál, söluskattur

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 2. þm. Reykn. að flytja hér frv. til l. um breyt. á l. nr. 10 22. marz 1960 um söluskatt. Brtt. eru í tveimur gr., 1. gr. er um það, að undanþegnar söluskatti séu auk nýmjólkur, sem var undanþegin söluskatti, unnar mjólkurvörur, alls konar kjötvörur og fiskafurðir, nema um veitingasölu sé að ræða. Breytingin er fólgin í því, að við gr. bætist: Unnar mjólkurvörur, alls konar kjötvörur og fiskafurðir.

Árið 1960 var söluskattur lagður á allar mjólkurvörur nema nýmjólk, og allar kjötvörur. Söluskattur þessi er nú 7½%. Allt þetta tímabil hefur ríkið greitt vörur þessar niður meira og minna. Það virðist því vera dálítið skopleg ráðstöfun að skattleggja vörur á þennan hátt, en verja jafnhliða hærri upphæðum til að greiða þá sömu vöru niður. Ríkissjóður getur ekkert hagnazt við slíka tilhögun, en henni fylgja ýmsir ókostir. Í fyrsta lagi aukin og nytjalaus vinna fyrir þá, sem verzla með þessar vörur, við það að reikna út söluskattsupphæðirnar. Í öðru lagi, ólíklegt er, að söluskatturinn innheimtist að fullu frekar en af öðrum vörum. Það má vel vera, að eftirlit hafi verið aukið við innheimtu söluskatts, en í þessu tilfelli er áreiðanlega víst, að hann innheimtist ekki að öllu leyti. Ennfremur bætist þar við freisting manna að verzla utan við eða selja sína vöru utan við verzlanirnar. Ég veit t.d. um ýmsa, sem framleiða fuglakjöt, svínakjöt og hrossakjöt, að það er selt beint frá framleiðandanum til neytendanna, og einmitt söluskatturinn á drjúgan þátt í, að menn freistast til að gera þetta.

Ég get t.d. minnzt á folaldakjötið eða trippakjötið, sem við seljum töluvert mikið af í því kjördæmi, þar sem ég er. Það er sennilega einna mest framleiðslan þar. Þá er það þannig nú, að bændurnir fá ekki nema 16–17 kr. fyrir kg. miðað við áætlað verð, þannig að fyrir folald, sem vegur 70 kg, sem er algengast, fá bændur ca. 1000 kr. Þetta fá bændurnir í áætluðu verði, þegar búið er að draga frá sláturkostnað, kjötpoka og annað slíkt. En í smásölu er þetta selt hér beinlaus biti sennilega frá 100–150 kr., en kjötsalar hafa sagt mér, að þegar búið er að salta það ofan í tunnur, sem þeir geta ekki selt beint í steikur, selja þeir það á ca. 40 kr. Bóndinn fær núna samkv. áætluðu verði 16–17 kr. fyrir kg. Vera má, að það verði einhverjar uppbætur, en sannleikurinn er sá, að í þessu efni er dreifingarkostnaðurinn orðinn það mikill, því að það hefur ekkert eftirlit verið með þessu og ekki verið ákveðið neitt hámarksverð, að ég get hugsað mér, að meðaltalssmásöluverð á folalda- og trippakjöti sé um 50 kr. á kg., ef það er selt í smásölu út úr búð. Og miðað við það er kjöt af folaldi, sem vegur 70 kg, selt í smásölu á 3500 kr. Söluskattur af því, 7½%, er hátt á 3. hundrað kr., þannig að miðað við það verð, sem bóndinn fær, sem er óvenju lágt, vegna þess að smásöludreifingin er búin að skaða framleiðendurna. Hún hefur verið of dýr, fer svona ca. 20–25% af þeim peningum, sem bóndinn fær, bara í söluskatt. En miðað við lambakjöt, sem er nú greitt niður allmikið, fer svona 80 kr. af hverjum lambsskrokk í söluskatt.

Nú væri þetta kannske allt í lagi, ef þetta væri ekki hreinn kjánaháttur, fyrst að innheimta söluskattinn og svo að endurgreiða hann með hærri niðurgreiðslum, því að það er ákveðið verð, sem bóndinn á að fá. Og þið þurfið ekki að ímynda ykkur það, jafnvel þó að við gerum ráð fyrir, að það sé ekki mjög mikið dregið undan hjá kjötsölunum, og ef til vill haft eitthvert eftirlit með því frekar en ýmsum öðrum vörum, að þetta topp innheimtist. Þetta er því ekkert nema hreinn kjánaskapur með vörur, sem ríkið greiðir svo niður meira og minna bæði í niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum. Þetta er ekkert nema aukin vinna. Verzlanirnar þurfa meira rekstrarfé, vegna þess að þær þurfa að greiða söluskattinn. Ég get vel hugsað mér, að það mætti lækka dreifingarkostnaðinn um 1–2% hjá kjötsölunum, ef þeir væru losaðir við þessa vinnu og þá ábyrgð, sem fylgir innheimtunni á þessum háa skatti. En ég get ekki séð neitt unnið við að leggja skatt á kjötvörurnar og endurgreiða hann svo og mikið meira.

Það getur alltaf komið fyrir, að það verði einhver mistök á lagasmíð, og það er ekkert sérstakt við það að athuga með lög, sem sett eru á, eins og t.d. um söluskattinn, sem settur var á rétt allar vörur, þó að það komi í ljós, að hagkvæmt sé að undanþiggja einhverjar vörur síðar, sem ekki er gert í byrjun. En aðalatriðið er, að það sé gert, ef hagkvæmt er að gera það og það sé gert í tíma.

Það er ljóst, að ef smásöludreifingin á hrossakjöti verður eins og hefur verið þetta ár, eru framleiðendur neyddir til þess að hætta að leggja sitt hrossakjöt inn í verzlanirnar, og hætta að nota það dreifingarkerfi, sem nú er. Við erum algerlega tilneyddir að reyna að fara að slátra hrossunum sjálfir og selja kjötið beint til neytendanna, og það er óhagkvæmt að ýmsu leyti, m.a. minni vöruvöndun og hreint neyðarúrræði að þurfa þess, enda bannað í l., en það getur skeð, að það verði að brjóta þessi lög, eins og menn brjóta togveiðilöggjöfina hér sunnanlands. Það er útilokað að eiga hross upp á það að hafa dreifingarkerfið eins og það er í dag, þennan háa söluskatt og þessa háu álagningu. Það er útilokað, ef ekki verður nein breyting gerð á í þessu efni viðvíkjandi dreifingarkostnaði á þessari kjöttegund og söluskattinum, sem leggst beint á framleiðendurna og neytandann, því að það eru ekki neinar niðurgreiðslur á folaldakjöti, sem mest er verzlað með utan við verzlanirnar, einmitt af því að söluskattur er lagður á. Ég álít hagkvæmt að taka þetta til athugunar nú, því að nú eru líkur til, vegna gengisbreytingar, að vöruverð hækki, þrátt fyrir það þó að allt verði gert, sem unnt er til þess að halda vöruverðinu niðri með lægri álagningu og ég efast ekkert um, að það verði reynt til að vísitalan hækki ekki, þá verður það aldrei hægt til fulls, og það er því sérstaklega tímabært nú að reyna að gera þessar höfuðneyzluvörur eins og kjöt og fisk sem ódýrastar, og ríkissjóður vinnur þetta algerlega upp, ef hægt er að halda vísitölunni eitthvað niðri með því að lækka þessa skatta.

Viðvíkjandi fiskinum eru þeir gallar, sem fylgja því að leggja söluskatt á fisk í aðalatriðum þessir: Allmargir borgarar fá fiskinn frá fyrstu hendi og þurfa ekki að kaupa hann gegnum smásölu, en aðstaða manna er misjöfn til þess að geta þetta, þeim mun minni sem bæirnir eru stærri og það veldur því, að þarna búa menn við dálitið misjöfn kjör. Ég er ekki að telja það eftir, þó að sumir geti fengið fiskinn beint frá fyrstu hendi, fengið hann ódýrari, það er langt frá því. En þetta er þannig í okkar þjóðfélagi, að menn hafa misjafna aðstöðu til þess að kaupa beint frá sjómanninum. Og í öðru lagi, söluskattur á fiski veldur tilfinnanlegri hækkun á almennri neyzluvöru og hækkar þá framfærsluvísitöluna. Það á sinn þátt í að hækka starfslaun hjá ríki og atvinnurekendum. Á það má ennfremur benda, að sérstök ástæða er til að draga sem mest úr hækkun neyzluvara vegna gengislækkunarinnar.

Ég stórefa það, að ríkissjóður tapi við að fella niður söluskatt á kjöti og kjötvörum, vegna þess að hann getur lækkað niðurgreiðslurnar jafnmikið, og eitthvað tapast í leiðinni, þannig að þann söluskatt, sem hann hefur upp úr hrossakjöti og eitthvað örlitið upp úr svínakjöti og fuglakjöti, sem selt er að mestu beint til neytenda og er ekki borgaður neinn söluskattur af, vinnur hann upp á því, sem tapast í leiðinni við innheimtuna á söluskattinum, þannig að það er ekkert tjón fyrir ríkið að fella niður söluskattinn af kjötinu. Af fiski dreg ég í efa, að sé nokkurt tjón, vegna þess að lækkun fiskverðsins á dálítinn þátt í að halda niðri vísitölunni, og þess vegna hygg ég, að ríkissjóður tapi engu á því. Svo er það orðið þannig nú með fiskinn, að í smásölunni er hann orðinn svo dýr, að fólk gerir allt, sem það getur til þess að kaupa hann beint frá bátunum. Skilyrði fólks til þess að geta það hafa batnað við það, að nú eru komnar frystikistur, sem fólkið getur geymt í fiskinn. Þetta munar miklu á verði. Í smásölu í verzlununum er fiskur seldur á 25–26 kr. kg. Sjómaðurinn fær 6–7 kr. fyrir hann slægðan, þannig að þetta er allt að því fjórfalt verð. Og söluskatturinn á sinn þátt í því að hækka þetta. Það er ógerlegt fyrir fisksala að keppa við þá, sem geta selt hann milliliðalaust. Söluskattur á 25 kr. er allt að því 2 kr. Það á sinn þátt í því að hækka fiskverðið, þannig að ef þessi hái dreifingarkostnaður heldur áfram og söluskattur ofan á það, fara menn að gera allt sem þeir geta, til þess að fara í þá staði, sem fisksins er aflað og kaupa beint, og er ekkert vit í öðru en gera það. En það verður ekki reiknað út í vísitöluna. Það kemur ekki ríkissjóði til góða, þannig að ég er sannfærður um, að þó að ríkisstj. gangist inn á það að fella söluskatt niður af fiski, þá er það ekki tjón fyrir ríkissjóð.

Vitanlega er ekki nema eðlilegt, þegar að fólki þrengir með tekjur, að það geri allt, sem unnt er til þess að kaupa vöruna á sem hagkvæmustu verði og ekki nema sjálfsagt að það geri það. Þess vegna er þessi skattálagning hrein vitleysa, og á að afnema hana. Þetta er tvímælalaust hagkvæmt fyrir framleiðendurna.

Sá söluskattur, sem borgaður er af því kjöti, sem ekki er um niðurgreiðslur að ræða á, er tekinn beint af framleiðendunum, en þetta auðveldar verzlunarfyrirtækjum bænda dreifingarkostnaðinn og gerir hann þess vegna minni. Okkur þykir dreifingarkostnaðurinn mikill hér á landi, en það er misskilningur, að hann sé meiri en annars staðar. Ég hygg, að dreifingarkostnaður hér sé lítill miðað við það, sem gerist hjá öðrum þjóðum, og e. t. v. eru ýmsar ástæður, sem því valda. En ég efa það ekki, að sölufélög bændanna hafa átt sinn þátt í að gera hann minni og er vel, að það er. En jafnvel þótt við höfum minni dreifingarkostnað af mjólk og kjötvörum en ýmsar aðrar þjóðir, réttlætir það ekki, að við gerum ekki allt, sem unnt er, til að halda þessum kostnaði niðri, því að það er hagnaður fyrir bæði framleiðandann og neytandann.

Breytingin á 2. gr. er um það, að iðgjaldagreiðslur af fiskiskipum falli niður. Þegar við lögðum þetta frv. fram, lá ekki fyrir neitt um, að þetta yrði gert, en við afgreiðslu fjárl. kom það fram, að ríkisstj. ætlaði að gera þetta, og síðar hefur það verið endurtekið. Frv. um þetta veit ég ekki til að sé komið fram. Vafalaust leggur ríkisstj. slíkt frv. fram, því að ég geri ekki ráð fyrir, að hún noti það frv., sem við komum með. Við eigum því yfirleitt ekki að venjast í stjórnarandstöðunni, þó að við komum nú með eitthvað, sem vit er í, sem við Jón Skaftason gerum ævinlega, að það sé samþ., en það gerir út af fyrir sig ekkert til, og við erum ekkert sárir yfir því. Aðalatriðið er, að það, sem rangt er, sé lagfært, og ég er þakklátur ríkisstj. fyrir að vera loksins búin að sjá, að þessi skattur er vitleysa, og ætla að afnema hann.

Ég ræddi um þetta hér í vetur einhvern tíma, hvað þetta væri fáránlegur skattur, því að það er þannig, að með þessum skatti er óheppnin skattlögð, því að það eru allt að því tvöfalt hærri iðgjöld af fiskiskipum, sem hafa orðið fyrir óhöppum en hinum, sem ekki hafa orðið fyrir neinum óhöppum, þannig að hjá þeim, sem hafa orðið fyrir óhöppum, eru iðgjöldin komin allt upp í 10% af matsverði skipanna. Það er beinlínis verið að skattleggja óhöppin og slíkt er fáránleg löggjöf, og það er furðulegt að í 8 ár hefur ríkisstj. notað það skattkerfi að skattleggja óhöpp manna. En loksins eftir 8 ára vitlausa skattalöggjöf, hvað þetta snertir, sér hún að sér. Og það er raunar ekki af því, að hæstv. ríkisstj. hafi séð að sér, heldur af því að tryggingafélögin voru komin í það mikil vandræði. Þetta átti m.a. þátt í því, að þeir, sem urðu fyrir mestu óhöppunum, urðu að borga hæstu iðgjöldin, og þeir þurftu að borga tryggingafélögunum mikið fé umfram það, sem kemur úr þessum sameiginlega sjóði og voru farnir að skulda þeim mikið, svo að þetta átti sinn þátt í að þrengja svo að tryggingafélögunum, að við höfum engar tjónabætur getað innheimt s.l. ár, og jafnvel ekki þar á undan heldur. Tryggingafélögin eru fjárvana. Úr þessu á nú eitthvað að rætast. Ég er út af fyrir sig þakklátur fyrir það. Ég skal ekki fjölyrða mikið um þetta atriði, af því að ég geri ráð fyrir, að ríkisstj. standi við þá yfirlýsingu sína, að þetta gjald verði fellt niður.

Við fórum ekki inn á fleiri atriði viðvíkjandi söluskattinum. En mér þykir rétt þar fyrir að benda á eitt atriði enn, sem viturlegt væri að breyta viðvíkjandi söluskattinum. Annars er söluskatturinn vandræðaskattur, og hefur leitt marga góða stuðningsmenn ríkisstj. í freistni, jafnvel svo að þeir verða að fara í tugthúsið fyrir hann, og er satt að segja hálfilla með verzlunarstéttina farið að leiða hana þannig í freistni og fangelsa þá og sekta. Svo loksins, þegar þeir eru búnir að yfirstíga þessi mestu ár freistninnar, er hert svo að þeim með álagningu, að smásalarnir segjast flosna upp, ef því heldur áfram. En hvað um það. Það kemur mér nú ekki nema takmarkað við.

En það er eitt atriði enn, sem væri viturlegt að afnema söluskatt á, og það er vinna á bílaviðgerðarverkstæðum, vegna þess að það eru ekki nema þau verkstæði, sem hafa bókhald í lagi, sem borga réttan söluskatt. Það er geysilega mikið um það, að alls konar smáverkstæði komist hjá því að borga söluskatt, og þar með telja menn ekki rétt fram sínar tekjur. Sá söluskattur innheimtist illa og ranglátlega, sem er lagður á bílaviðgerðarverkstæði, og þar að auki er hann í meðallagi sanngjarn, vegna þess að bílarnir eru skattlagðir svo óhóflega, að það nær í raun og veru engri átt. Það vilja allir eiga bíl í landi, þar sem hestarnir eru að mestu horfnir, t.d. úr sveitunum. Það er aðallega orðið sport, hestaeignin, og við höfum engin önnur tæki til að ferðast með en bíla, og þá er þetta ekki orðinn neinn lúxus að eiga bíl. Það er í raun og veru nauðsyn fyrir hvert heimili.

Ég er ekki að segja, að það sé þörf á því fyrir alla unglinga, sem eru að reyna að kaupa bíla. En það má segja, að það sé allt að því nauðsynlegt fyrir hvert heimili að eiga bíl, og þá er það dálítið vafasamt að bæta svona ofan á öll innflutningsgjöld; benzínskatt og allt slíkt, 7½% söluskatti á alla viðgerðarþjónustu, sem er fulldýr fyrir. Og þetta er þung byrði fyrir mörg heimili, bæði í sveit og í kauptúnunum, og satt að segja, þó að við höfum ekki tekið þetta inn í þetta frv., vildi ég benda ríkisstj. á það í leiðinni, því að við vitum að það er nú ekki hægt að koma neinu fram nema ríkisstj. vilji það, hvort það væri nú ekki athugandi að létta þessum skatti af bileigendum, sem maður getur sagt, að snerti auðvitað allar stéttir.