01.02.1968
Neðri deild: 56. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í C-deild Alþingistíðinda. (2452)

106. mál, smíði fiskiskipa

Flm. (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka þær ágætu undirtektir, sem ég tel, að þetta frv. hafi þegar fengið hér. Ég efast ekkert um það, að það er mjög almennur skilningur meðal alþm. á því, að það sé þörf á því að leysa þessi mál, sem þetta frv. fjallar um. Vissulega getur hér verið um mismunandi leiðir að ræða, hvað telst heppilegast, en ég vænti þess, að öllum sé það ljóst, að þó að þó nokkuð hafi verið gert nú síðari árin til þess að reyna að greiða fyrir einstökum skipasmíðastöðvum, dugar það ekki til. Hér þarf að koma til miklu stærra og meira átak, og þá er aðeins spurningin, hvernig á að reyna að standa að því að leysa þetta stóra vandamál.

Við flm. þessa frv. teljum sem sagt, að bezta leiðin sé að fara þannig að, að ríkisvaldið hafi hér forgöngu um allstórt átak, sem gert verði í einu og á svipuðum grundvelli og áður hefur stundum verið gert, og á það leggjum við áherzlu í þessu frv., en vissulega geta auðvitað fleiri ráð komið til, og það skiptir auðvitað mestu máli, að það sé tekið af fullri alvöru á þessum málum og reynt að finna hina heppilegustu lausn. Ég vil nota sérstakt tækifæri til þess að þakka þær ágætu undirtektir, sem ég tel, að hér hafi komið fram, bæði frá hæstv. forsrh. og frá hv. 3. þm. Sunnl. (Forsrh.: Er ekki eðlilegt, að málið fari til iðnn.?) Ég held nú, að mál af þessari gerð hafi öll farið til fjhn. á sínum tíma. Það hefur alltaf verið litið svo á, að hér væri um svo stórkostlegt fjárhagslegt mál að ræða, hvort ríkið ætti raunverulega að fara í það að efna til framkvæmda, sem sveiflast upp á jafnvel nokkur hundruð millj. kr., og ég held, að það leiki enginn vafi á því, að þau frv., sem hér hafa legið fyrir áður um sama efni, hafi farið til fjhn. Hins vegar legg ég nú ekki neina áherzlu á það að deila um n., en ég bendi aðeins á það, að hliðstæð frv. hafa ábyggilega farið til fjhn. áður.