12.02.1968
Neðri deild: 60. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í C-deild Alþingistíðinda. (2463)

119. mál, Fiskiðja ríkisins

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fyrir allmörgum árum var hafin bygging verksmiðju á Siglufirði, þar sem sjóða skyldi og leggja niður síldarafurðir. Ákvörðun um byggingu þessarar verksmiðju var tekin af Alþ. og ætlunin var, að þessi fyrsta verksmiðja á þessu sviði í eigu ríkisins yrði nokkurs konar tilraunaverksmiðja, er gæti tekið að sér nauðsynlegt forystuhlutverk í þessari iðngrein. Nú að 8 árum liðnum er þessi verksmiðja enn ekki fullbyggð og vantar allmikið á, að hún geti gegnt því hlutverki, sem henni var ætlað. Á ýmsu hefur gengið í rekstri þessa fyrirtækis, og oft hefur hún staðið langtímum saman verkefnalaus. En í seinni tíð hefur þó framleiðslan loksins farið ört vaxandi, og mun heildarveltan á s.l. ári hafa numið 10—15 millj. kr. eða eitthvað þar um bil. Ég held, að óhætt sé að segja, að stuðningur ríkisvaldsins við þennan rekstur hafi stundum verið dálítið hikandi og ástæðan til þess, hve seint hefur gengið að koma verksmiðjunni á fót, er fyrst og fremst fjárskortur. Það er sem sagt ekki nóg að byggja verksmiðju. Það þarf líka að afla markaða, og það verður ekki gert nema til þess sé kostað nokkru fé. Ég hef aldrei verið í vafa um, að ríkisvaldið fór inn á rétta braut, þegar það ákvað að reisa slíka verksmiðju í niðurlagningariðnaði.

Eins og ég hef oft áður rætt um hér á Alþ., eru Íslendingar langt á eftir nágrannaþjóðum sínum í fullvinnslu matvæla úr sjávarafurðum. Þessi iðngrein hefur nánast staðið í stað hér á Íslandi á undanförnum áratugum, þótt aflamagnið hafi stóraukizt. Ég hef talið og tel enn, að ríkisvaldið geti ekki horft á það aðgerðalaust, að svo hægt gangi að byggja upp þessa mikilvægu iðngrein. Þess vegna hef ég verið að vona, að bygging þessarar verksmiðju yrði upphaf að markvissri viðleitni ríkisvaldsins til að skipuleggja og skapa skilyrði fyrir stóraukinni fullvinnslu afurða úr sjó. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er flutt með sama sjónarmið í huga.

Í frv. er gert ráð fyrir, að niðurlagningarverksmiðjan á Siglufirði verði fullbyggð og búin þeim tækjum, sem þar eiga að vera, svo að verksmiðjan geti starfað með eðlilegum hætti og gegnt því hlutverki, sem Alþ. ætlaði henni í upphafi. En frv. gerir einnig ráð fyrir, að áfram sé haldið á sömu braut. Með 1. gr. frv. er lagt til, að stofnað verði sjálfstætt ríkisfyrirtæki, sem beri nafnið „Fiskiðja ríkisins“ og starfi undir sérstakri stjórn, sem Alþ. kjósi. Þetta nýja fyrirtæki, sem mundi strax í upphafi taka við niðurlagningarverksmiðjunni á Siglufirði, tæki síðan að sér það hlutverk að hafa forystu um tilraunastarfsemi við frystingu, niðursuðu, niðurlagningu og hvers konar fullvinnslu matvæla úr síld og öðrum fisktegundum í samvinnu við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Fiskiðjan mundi einnig miðla reynslu og þekkingu til annarra framleiðenda á þessu sviði, og yrði þá að því stefnt, eins og gert er ráð fyrir í 2. gr. frv., að yrði sett á stofn sérstök rannsóknardeild, sem hefði með höndum vísindalegar athuganir í niðurlagningar- og niðursuðutækni.

Í 2. gr. frv. er einnig gert ráð fyrir, að Fiskiðja ríkisins hafi forystu um öflun markaða erlendis. Ég hef oft rætt um þessa hlið málsins hér á Alþ., og ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það. Markaðsöflun á þessu sviði hefur verið algerlega í molum. Úr þessu þarf að bæta, og ég tel algerlega óvíst, að það verði gert á annan hátt en þann, að ríkisvaldið taki beinlínis forystuna. Þá er gert ráð fyrir því í 2. gr. frv., að fiskiðjan beiti sér fyrir myndun sölusamtaka, sem annist sölu á fullunnum fisktegundum í ýmsum tegundum umbúða og undir einu íslenzku vörumerki. Í þessari 2. gr. er einnig minnzt á fræðslumál fiskiðnaðarins, en þau eru vissulega í miklum ólestri, eins og flestum er kunnugt. Nú háttar þannig til, að sá, sem ætlar að hafa af því atvinnu að skafa hár af höfði manna og vöngum, verður fyrst að sitja á skólabekk í 4 ár, en sá, sem ætlar að taka að sér að stjórna síldarverksmiðju, sem framleiðir verðmæti í þjóðarbúið fyrir hundruð millj, kr., þarf enga sérstaka menntun, ekki nokkra.

Frændur okkar Norðmenn hafa tekið þessi mál ólíkt fastari tökum en við Íslendingar, og þeir starfrækja t.d. sérstakan skóla í niðurlagningariðnaði. Þessi mál þarf sem sagt að taka til athugunar, og þar kemur til greina, hvort ekki sé ástæða til, að stofnaður verði sérstakur skóli á þessu sviði, ellegar haldin séu námskeið með stuttu millibili. Læt ég svo útrætt um sjálft frv., enda hefur verið gerð grein fyrir því áður hér á Alþ.

Eins og komið hefur fram af því, sem ég hef hér sagt, ætla ég ríkisvaldinu allmikinn hlut í uppbyggingu þessarar iðngreinar, niðursuðuiðnaðarins, vegna þess að ég dreg í efa, miðað við þá reynslu, sem fengin er, að niðursuðu- og niðurlagningariðnaður nái sér nokkurn tíma verulega á strik hér á landi, nema ríkisvaldið taki að sér forystuna, a.m.k. í upphafi. En í þessu sambandi er ekki úr vegi að ræða hér almennt um hlutverk ríkisvaldsins í uppbyggingu íslenzkra atvinnuvega.

S.l. miðvikudag urðu talsverðar umr. í sameinuðu þingi um áætlanagerð fyrir Norðurland og atvinnuframkvæmdir þar. Hæstv. fjmrh., Magnús Jónsson, sem því miður er nú ekki hér viðstaddur í dag, gerði grein fyrir væntanlegri framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland og gaf þá yfirlýsingar, sem ég er hræddur um, að mörgum hafi komið talsvert á óvart.

Í fyrsta lagi sagði ráðh., að í Norðurlandsáætlun yrði aðeins fjallað almennt um það, sem gera þyrfti, en þar yrði ekki minnzt á neinar tilteknar framkvæmdir, engin sérstök áform um fyrirtæki, sem yrðu byggð á Norðurlandi, heldur aðeins, eins og hann sagði aftur og aftur, kortlagning vandamálanna.

Í öðru lagi lagði hann á það áherzlu, að ástandið á Norðurlandi stafaði af langvinnu aflaleysi. Hann sagði, að þar væru næg atvinnutæki til að sjá öllu fólki fyrir nægri atvinnu, aðeins ef hráefnið fengist, og þar sem fólkið þar hefði enn ekki gefizt upp á sjávarútvegi og hefði ákveðið að þrauka og bíða þar til betur áraði, væri í rauninni engin þörf þar á nýjum atvinnutækjum.

Það er nú orðinn býsna langur tími, sem atvinnuleysi hefur herjað á Norðurlandi, en ég geri ráð fyrir, að menn skilji, hvaða boðskapur felst í þessum orðum ráðh. Það á sem sagt allt að verða við það sama áfram, það á bara að bíða, þar til meiri fiskur verður í sjónum við Norðurland. Úr því að Norðlendingar vilja áfram fást við sjávarútveg, dugir ekki að láta þá fá eitthvað annað til að hugsa um, því að þá fer allt í óefni, þegar fiskurinn kemur loksins á miðin. Það er vissulega rétt hjá ráðh., að Norðlendingum hefur ekki dottið í hug að hverfa frá sjávarútvegi, en hins vegar hefur þeim dottið í hug, að skynsamlegt gæti verið, að sjávarplássin séu ekki algerlega háð útgerð og fiskiðnaði. Aflaleysi um langt skeið hefur sýnt mönnum og sannað nauðsyn þess, að atvinnugrundvöllur þessara staða sé breikkaður,komið sé upp iðnaði, sem geti veitt nokkra kjölfestu í byggðarlagið og öryggi, þótt það tákni ekki, að menn ætli að hverfa endanlega frá sjávarútvegi. Atvinnulíf hvers staðar hlýtur að verða að hafa nokkurn sveigjanleika. Það dugar ekki að sniða því svo þröngan stakk, að það sé talið nægjanlegt, að allir hafi nóga atvinnu, þegar vel árar og mikið fiskast. Fiskaflinn hlýtur alltaf að vera misjafn. Ef atvinnuleysi skapast í hvert skipti, sem minna aflast, er atvinnulífið ekki rétt upp byggt, ekki nægilega svelgjanlegt, grundvöllurinn ekki nógu breiður.

Í þessum umr. á miðvikudag hélt ég því fram, að atvinnuástandið á Norðurlandi væri afleiðing af rangri stjórnarstefnu, og ég vil endurtaka það. Atvinnuástandið er eins og það er, vegna þess að ríkisstj. hefur haldið að sér höndum. Það er stefna hennar í samræmi við trúarkenningar hægri manna, að ríkisvaldið eigi að hafa sem minnst afskipti af atvinnumálum. Þess vegna hefur hún lítið gert og þess vegna ætlar hún lítið að gera. Þess vegna segir hæstv. fjmrh., að við Norðurlandsáætlun verði engin áform um tilteknar atvinnuframkvæmdir.

Það er rétt, sem fjmrh. segir, að frumorsök vandamálanna á Norðurlandi er aflaleysi, aflaleysi fyrir Norðurlandi en ekki annars staðar. Ef ríkisstj. hefði haft það á stefnu sinni að útrýma atvinnuleysi, hefði hún auðvitað haft frumkvæði að því að útvega meiri afla af fjarlægum miðum. Hún hafði um margar leiðir að velja. Að vísu hefur ríkisstj., og það skal sem sagt tekið fram, viljað stuðla að síldarflutningum, hún hefur gert það, en þó með hangandi hendi. Það framtak hefur sem sé verið of lítið, og það hófst of seint. En það er í áttina. Það skal viðurkennt. En á sama hátt hefði þurft að gera ráðstafanir til að útvega frystihúsum á Norðurlandi aukið hráefni. Staðir, sem eru hrjáðir af langvinnu atvinnuleysi, eru yfirleitt gersamlega fjárvana og ráða því ekki við fjárfrekar atvinnuframkvæmdir, eins og t.d. stórútgerð. Ég vil halda því fram, að það sé oft og tíðum alveg tilgangslaust að bíða eftir því árum saman, að einkaframtakið hafi frumkvæði í stórfelldri atvinnuuppbyggingu, þegar allt er sokkið í atvinnuleysi, peningaleysi og allsleysi. Þess vegna á ríkisvaldið, og verður, að hafa forystuna, þar sem svo er ástatt, t.d. með hráefnisflutninga, með því að hafa frumkvæði um útgerð stærri báta, með því að koma upp ríkisútgerð togara, sem miðli hráefni víðs vegar um land, þar sem atvinnuástandið er verst, með byggingu niðurlagningarverksmiðja o.s.frv., eins og í þessu frv., sem hér er til umr., felst. Þetta á að gera til þess að unnt sé að fullnýta vinnuafl og aðstöðu á hverjum stað og til þess að vernda hin ýmsu byggðarlög fyrir stöðugum fólksflótta. Til þess að þetta sé unnt, þarf auðvitað fyrirfram að skipuleggja, hvað gera skal og til þess eru einmitt áætlanir eins og Norðurlandsáætlun og aðrar framkvæmdaáætlanir. En þetta vill ríkisstj. ekki gera, eins og ljóslega kom fram hjá hæstv. fjmrh. í seinustu viku. Hún vill ekki og hefur aldrei viljað, gera markvissar ráðstafanir til að útrýma atvinnuleysi á Norðurlandi. Og þess vegna segi ég, og sagði hér í umr. um daginn, stefna hennar er röng.

Ég vil svo nota þetta tækifæri til að minna á það, að í þeim samningum, sem norðlenzku verkalýðsfélögin gerðu við ríkisstj. sumarið 1965, þar sem loforðið um Norðurlandsáætlun var gefið, kemur það skýrt fram, að áætlunin á að fjalla um tilteknar og ákveðnar ráðstafanir í atvinnumálum, hvað sem fjmrh. segir nú, enda segir það sig sjálft. Hvernig er hægt að lofa því, að öllu vinnufæru fólki verði tryggð viðunandi atvinna með gerð áætlunar, eins og gert var í þessu loforði, án þess að einhverjar tilteknar atvinnuframkvæmdir séu hafðar í huga? Það er gersamlega óhugsandi. Skýrslugerð um ástand mála, eins og mér virðist, að fjmrh. stefni að, er auðvitað ágæt og nauðsynleg út af fyrir sig, en það var alls ekki það, sem ríkisstj. lofaði Norðlendingum. Hún lofaði sem sagt raunverulegri framkvæmdaáætlun.

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er dæmi um það, hvernig við Alþb.-menn viljum ráðast á vandann, hvernig við viljum bæta atvinnuástand víða um land og hvernig við viljum skipuleggja stóraukna framleiðslu í atvinnugrein, sem lengi hefur orðið útundan, en á að geta orðið einn af grundvallaratvinnuvegum þjóðarinnar í framtíðinni. Ég veit, að skipulögð vinnubrögð ríkisvaldsins af þessu tagi hafa ekki átt upp á pallborðið hjá ríkisstj. undanfarin ár. En ég vona sem sagt, að hún sjái sig um hönd, og ég vona, að meirihl. Alþ. hafi nægilegt viðsýni til að bera til að skilja mikilvægi þessa máls.

Ég vil svo leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. að lokinni þessari umr.