05.03.1968
Neðri deild: 69. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í C-deild Alþingistíðinda. (2469)

122. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Það hefur lengi verið einkenni á stjórnmálum hérlendis, að okkur Íslendingum gengur stundum erfiðlega að átta okkur á því, hvar við erum staddir í veröldinni. Menn og flokkar berjast einatt fyrir kenningum og framkvæmdum samkv. erlendum fyrirmyndum, án þess að huga að því, hvort þær eigi við hér á landi. Lög þau, sem samþ. voru um áburðarverksmiðju 1949, eru skýrt dæmi um þessa þjóðfélagslegu blindu. Áburðarverksmiðjumálið hafði þá verið undirbúið um 15 ára skeið, og allan þann tíma hafði verið talið einsætt, að verksmiðjan yrði ríkiseign. Þetta fyrirtæki var svo stórt á okkar mælikvarða, að öllum var ljóst, að þjóðin í heild yrði að standa að því. Frv. var lagt fyrir Alþ. í þeirri mynd, að Áburðarverksmiðjan yrði hreint ríkisfyrirtæki, og þannig var frv. samþ. við fimm umr. Það var ekki fyrr en við 3. umr. í Ed., að bætt er við nýrri lagagr. þess efnis, að rekstur verksmiðjunnar skyldi falinn hlutafélagi, sem einstaklingar ættu að eiga að 2/5 hlutum. Þessi annarlegi viðauki stafaði af því, að Marshallstofnunin ætlaði að ljá fé til framkvæmdanna, og sú stofnun lét þau boð út ganga, að hún hefði takmarkaðan áhuga á ríkisfyrirtækjum, hún vildi helzt einkafyrirtæki eða a.m.k. blandaða eignaraðild. Ekki skal ég ræða þau almennu fræðilegu rök, sem notuð eru til framdráttar slíkri stefnu í öðrum löndum, en á hitt ber að leggja áherzlu, að þegar bandarískir sérfræðingar gerðu till. um slíkt fyrirkomulag hér á landi, hafa þeir að sjálfsögðu ímyndað sér, að á Íslandi væru til einkaaðilar, sem hefðu fjármagn, getu og vilja til þess að rísa undir fyrirtæki eins og Áburðarverksmiðjunni af eigin rammleik. Í auðvaldsríkjum er aðild einstaklinga að fyrirtækjum ekkert gervifyrirkomulag, heldur leggja þeir í raun og veru fram fjármuni og taka á sig ábyrgð og áhættu.

Ástæðulaust er að lá bandarískum sérfræðingum, þótt þeir þekktu ekki aðstæður hér á landi og ímynduðu sér, að hérna væru fjársterkir einstaklingar og fyrirtæki, sem risið gætu undir rekstri áburðarverksmiðju að 2/5 hlutum, en hitt er furðulegt, að meirihl. Alþ. skyldi festa þá firru í lög. Menn þurftu ekki annað en þurrka erlenda kenningaglýju úr augunum og líta í kringum sig til þess að sjá, að slíkir aðilar fyrirfundust hvergi á Íslandi. Áburðarverksmiðjan reyndist kosta 130 millj. kr. og til þess að einkaaðilar stæðu að rekstrinum að 2/5 hlutum, hefði raunverulegt framlag þeirra orðið að vera 52 millj. kr., því aðeins var hægt að segja. að þessi tilhögun væri raunhæf, að þeirri upphæð væri létt af íslenzka ríkinu. En engir íslenzkir einkaaðilar höfðu getu eða vilja til þess að taka á sig slíka byrði. Reynslan átti meira að segja eftir að sanna, að erfitt var að fá einkaaðila til þess að leggja fram þær vesælu 4 millj., sem þurfti til að eignast 2/5 hlutabréfanna í rekstrarfélaginu, til þess þurfti stórfelldan pólitískan eftirrekstur. Forystumenn Framsfl. knúðu Samband ísl. samvinnufélaga og kaupfélög um land allt til þess að leggja fram helming hlutafjárins. Forystumenn Sjálfstfl. knúðu á sama hátt iðnrekendur og heildsala til fjárframlaga, en náðu ekki markinu nema með því að fá Reykjavíkurborg til að leggja fram hálfa millj. Á þennan hátt tókst loks að reyta saman 4 millj., 2 á vegum Framsfl. og 2 á vegum Sjálfstfl., samkv. þeirri pólitísku helmingaskiptareglu, sem var í gildi um þær mundir. Framlag einkaaðila var þannig ekki 52 millj., heldur aðeins 4 millj. og raunar mun meginhlutinn af þeirri upphæð hafa verið tekinn að láni í ríkisbönkunum af almannafé. Ríkið útvegaði hins vegar þær 126 millj., sem á vantaði, með beinum framlögum og lánum með ríkisábyrgð. Þannig var þátttaka einkaaðila aðeins form, en ekki veruleiki. Íslenzkir valdamenn höfðu fellt erlenda hugmynd í lög án þess að skeyta um það, hvort hún væri í nokkru samræmi við íslenzkar aðstæður. En á eftir tóku þeir furðulegu atburðir að gerast, að einkaaðilarnir þóttust vera orðnir eigendur verksmiðjunnar að 2/5 hlutum. Þeir vildu halda því fram, að 4 millj. þeirra hefðu með yfirnáttúrlegum hætti breytzt í 52 millj., og nú, þegar verksmiðjan er metin á 700 millj., þykjast þeir orðnir eigendur að 280 millj. Það er 7000% eignaaukning að krónutölu.

Ástæða er til að benda á, að slík túlkun á ekkert skylt við þau kapítalísku viðhorf, sem upphaflega fólust í stefnu Marshall-stofnunarinnar. Slík auðgunarstarfsemi, án eigin tilverknaðar, mundi vera flokkuð undir saknæman fjárdrátt í Bandaríkjunum ekki síður en annars staðar. Þar er gróðasöfnun því aðeins talin eðlileg, að einkaaðilarnir hafi lagt fram sjálfir fjármuni, vinnu og tekið á sig persónulega áhættu. En sem betur fer er kenningin um, að hlutafélagið eigi Áburðarverksmiðjuna ekki í samræmi við lög. Þegar ákvæðinu um hlutafélagsfyrirkomulagið var hnýtt aftan í l. við lokaafgreiðslu málsins 1949, var aðeins sagt, að Áburðarverksmiðjan skyldi „rekin sem hlutafélag“. Hins vegar var haldið í l. fyrri ákvæðum um fjárhagsskuldbindingar ríkisins og eignaraðild. Í 2. gr. l. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkissjóður leggur fram fé til stofnunar Áburðarverksmiðju samkv. ákvörðun fjárl., og er fé þetta óafturkræft. Ef fjárveitingar samkv. fjárl. hrökkva ekki til stofnkostnaðar verksmiðjunnar, er verksmiðjustjórninni heimilt að taka það fé, sem á vantar, að láni með ábyrgð ríkissjóðs.“

Hér er ríkissjóður skuldbundinn til þess að leggja verksmiðjunni til allt það fé, sem hún þarf, ýmist með óafturkræfum framlögum eða með lánum á ábyrgð ríkissjóðs. Og í næstu gr. l., þeirri 3., segir svo:

„Verksmiðjuna má hvorki selja né veðsetja, nema heimild sé veitt til þess á Alþ.“

Það er þannig ótvírætt í l., að fyrirtækið er ríkisfyrirtæki með sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagi, og viðbótarákvæðið um rekstrarhlutafélagið getur ekki haggað þeim undirstöðustaðreyndum. Engu að síður hefur það verið nauðsynlegt frá upphafi, að þessi skilningur væri staðfestur á óvefengjanlegan hátt, og því hafa hliðstæð frv. og það, sem hér er fjallað um, verið lögð fyrir Alþ. 10—20 sinnum á tæpum tveimur áratugum. Þau hafa hins vegar aldrei náð fram að ganga af annarlegum ástæðum, jafnvel þótt oft hafi verið kunnugt, að meirihl. alþm. taldi verksmiðjuna hreina ríkiseign, en þetta fálæti Alþ. hefur orðið til þess að ýta undir þá túlkun einstakra hluthafa, að þeir eigi verksmiðjuna, og raunar hefur rekstrarfélagið sjálft talið verksmiðjuna eign sína í ársreikningum. Einnig hafa verið gerðar ítarlegar tilraunir til þess að sölsa verksmiðjuna að fullu undan ríkinu vegna þessarar óskýru lagasetningar. Má t.d. minna á, að þegar Framkvæmdabankinn var stofnaður, var í upphafi lagt til, að ríkið afhenti honum til eignar og umráða hlutabréf sín í Áburðarverksmiðjunni. Bankastjóri Framkvæmdabankans var þá spurður, hvað hann hygðist gera við hlutabréfin og hann kvaðst mundu selja þau einstaklingum á sanngjörnu verði. Með slíkum aðferðum hefði verið unnt að koma rekstrarhlutafélaginu að fullu undir yfirráð einkaaðila, og þá hefði kenningin um eignarréttinn hlotið mikla staðfestingu í verki. Það tókst að hindra þessa ráðagerð, en hættan á hliðstæðum brögðum vofir ævinlega yfir, á meðan Alþingi sker ekki á skýlausan hátt úr deilumálum um eignaraðildina.

Og nú er af enn einni ástæðu óhjákvæmilegt, að þetta mál verði endanlega útkljáð. Í stefnuyfirlýsingu sinni í upphafi þings greindi hæstv. forsrh. frá því, að stjórnarflokkarnir hefðu í hyggju að stækka Áburðarverksmiðjuna. Þar er um mikið nauðsynjamál að ræða, og jafnhliða stækkuninni er óhjákvæmilegt að breyta vélakosti og framleiðsluaðferðum verksmiðjunnar. Svo sem kunnugt er, tókst svo illa til í upphafi, að aðalvaldamaður verksmiðjunnar, Vilhjálmur Þór, fékk því ráðið, að valdar voru framleiðsluaðferðir, sem engin reynsla var af. Aðeins ein verksmiðja af hliðstæðu tagi var þá til í veröldinni, og henni hefur síðan verið breytt. Við höfum hins vegar setið uppi með framleiðslu, sem sætt hefur sívaxandi gagnrýni vegna slæmrar reynslu. Verksmiðjunni hefur ekki tekizt að framleiða áburð af þeirri kornastærð, sem hentar, og af þeirri ástæðu eru mikil brögð að því, að áburðurinn brenni gras til stórtjóns. Ekki hefur heldur tekizt að blanda áburðinn kalki og margt fleira nefna bændur í réttmætri gagnrýni sinni. Virðist það nú vera orðin almenn niðurstaða, að ekki verði hjá því komizt að leiðrétta þau alvarlegu mistök, sem gerð voru í upphafi fyrir tilverknað þess manns, sem mestu réð einnig um hlutafélagsákvæðið. En slík breyting á verksmiðjunni, ásamt stækkun hennar, mun kosta mikið fé. Í einkar fróðlegri grein, sem birtist í Morgunblaðinu 27. jan. s.l. eftir Jóhannes Bjarnason verkfræðing, er talið, að endurbót Áburðarverksmiðjunnar muni kosta um 300 millj. kr. Og Jóhannes heldur áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Það fjármagn hlýtur ríkið á einn eða annan hátt að þurfa að útvega, því að lítið mun verksmiðjan sjálf hafa handbært til þeirra hluta. Eða skyldu hluthafar, sem eitt sinn lögðu fram 4 millj. kr., nú vilja eða geta lagt fram 40% þess fjár, sem vantar til þessara framkvæmda, þ.e. um 120 millj. kr.? Ætlar ríkið nú aftur að stuðla að því, að þessum „heppnu“ hluthöfum verði færðar yfir 100 millj. kr. að gjöf í sambandi við þessar stækkunarframkvæmdir Áburðarverksmiðjunnar? Ríkið útvegi fjármagnið að láni, bændur borgi lánið með viðskiptum sínum, hlutafélagið eignist stækkunina. Er ekki orðið tímabært, áður en hinar fyrirhuguðu stækkunarframkvæmdir verða endanlega ákveðnar, að breyta l. verksmiðjunnar í skynsamlegra horf?“

Ástæða er til að taka undir þessa skýru niðurstöðu í Morgunblaðsgrein Jóhannesar Bjarnasonar verkfræðings. Að öðrum kosti munu hluthafarnir í rekstrarfélaginu halda því fram, eftir að umbótunum á Áburðarverksmiðjunni er lokið, að 4 millj. þeirra hafi nú allt í einu breytzt í 400 millj.

Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. hafi fjallað um þessa hlið málsins, þegar hún tók atriðið um stækkun verksmiðjunnar upp í stefnuyfirlýsingu sina. Það er kunnugt, að áhrifamenn í báðum stjórnarflokkunum telja eignarrétt ríkisins ótvíræðan og ákvæðið um rekstrarhlutafélagið mjög óeðlilegt. Þeirra á meðal er hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, en hann komst, með leyfi hæstv. forseta, svo að orði, þegar fjallað var um hliðstætt frv. hér á þingi 1953, í upphafi ræðu sinnar:

„Þegar Áburðarverksmiðjuna hefur borið á góma hér á Alþ. undanfarin ár, hef ég jafnan látið þess getið, að ég tel lagasetningunni um hana vera mjög ábótavant og hér er í raun og veru á ferðinni mál, sem algerlega vansæmandi er fyrir Alþ. að taka ekki til gagngerðrar endurskoðunar. Frá l. var upphaflega illa gengið. Sú breyting, sem gerð var á frv. við síðustu umr. í Ed. var mjög til hins verra og opnaði leið til mikillar misnotkunar á því skipulagi, sem byggt var upp í l. Þetta hefði þó getað orðið skaðlítið, ef ekki hefði svo farið, að öll skilyrði til misnotkunar á l. hefðu verið hagnýtt út í yztu æsar, þannig að nú hefur skapazt hér í áburðarverksmiðjumálinu þvílíkt ófremdarástand, að alls ekki má við svo búið standa.“

Síðan rekur núv. hæstv. viðskmrh. ýmsar röksemdir, sem ég hef m.a. vikið að hér að framan, og segir svo í lok ræðu sinnar:

„Þessi lagasetning, eins og hún hefur verið framkvæmd, er því þvílíkt hneyksli, að taka verður hana til gagngerðrar endurskoðunar. Þess vegna er ég algerlega fylgjandi því frv., sem hér hefur komið fram svo langt, sem það nær, en teldi raunar æskilegra, að l. öll væru tekin til endurskoðunar. En þetta, sem hér er gert ráð fyrir að gera í þessu frv., er alveg sjálfsagt.“

Og lokasetning hæstv. núv. viðskmrh. var þessi :

„Þess vegna vil ég, þegar við þessa 1. umr., taka undir þau orð, sem þegar hafa verið sögð, að hér er réttlætismál á ferðinni, sem Alþ. verður sóma síns vegna og vegna hagsmuna þjóðarinnar að taka til meðferðar.“

Ég þykist mega gera ráð fyrir, að hæstv. ráðh. sé enn sömu skoðunar, og væri raunar mjög æskilegt að fá það staðfest við þessa umr. og fá um leið að heyra um afstöðu ríkisstj. í heild. Af öllum þeim ástæðum, sem ég hef rakið hér, er nauðsynlegt, að á þessu þingi verði loksins skorið úr um það, að Áburðarverksmiðjan hefur verið, er og verður í almenningseign. Til þess að svo megi verða, þarf að takast samstaða þm. úr öllum flokkum, og ég vil taka það skýrt fram, að við flm. þessa frv. erum ekki að bíta okkur fasta í neitt form eða fyrirkomulag. Við leggjum t.d. til í frv. að þegar ákvæðin um rekstrarfélagið verða numin úr l., skuli innleysa hlutabréf félaga og einstaklinga á nafnverði að viðbættum sparifjárvöxtum. Þar er sem sé lagt til, að ávöxtun hlutafjárins skuli metin samkv. þeim skilmálum, sem allur almenningur hefur orðið að sæta á þessum verðbólguárum. Ýmsir kunna hins vegar að vilja gera betur við hluthafana og láta þá njóta einhverrar verðtryggingar. Við flm. frv. erum fúsir til að ræða hverjar slíkar hugmyndir. Þær eru litilvægar í samanburði við þá meginnauðsyn, að endanlega sé komið í veg fyrir öll áform um að ræna þessari stóreign frá íslenzku þjóðinni. Á hitt vil ég hins vegar leggja þunga áherzlu, í tilefni af öðru frv. um Áburðarverksmiðjuna, sem lagt hefur verið fram af 7 þm. Framsfl., að á það munum við ekki fallast, að Áburðarverksmiðjan sé talin eign rekstrarfélagsins og að taka verði verksmiðjuna eignarnámi í einni eða annarri mynd til þess að koma henni í eigu almennings.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.