05.03.1968
Neðri deild: 69. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í C-deild Alþingistíðinda. (2470)

122. mál, áburðarverksmiðja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti.

Mér finnst hv. fyrri flm. þessa frv. tala svona óþarflega kalt um þessa hluthafa í Áburðarverksmiðjunni, gera þeim upp sakir, sem ekki er sanngjarnt. Þetta frv., sem hér er um að ræða, er gamall kunningi hér í þingsölunum og hefur oft verið flutt áður, þótt það hafi ekki náð fram að ganga, ekki haft fylgi meirihl. hv. þm. Þess vegna finnst mér sú fullyrðing hv. þm., að meirihl. hv. þm. sé í rauninni þessu frv. fylgjandi staðhæfing, sem ekki sé hægt að halda fram, þar sem það hefur aldrei sýnt sig að vera svo, heldur jafnvel öfugt.

Ég ætla ekki að fara að ræða ástæðuna fyrir því, af hverju Áburðarverksmiðjan var gerð að hlutafélagi í seinni d., þegar lög um Áburðarverksmiðjuna voru sett. Og það má vel vera, að það hafi alls ekki verið nauðsynlegt að gera það.

En ég vil þá um leið fullyrða, að það hefur enginn skaði skeð, þótt þetta rekstrarform hafi verið á verksmiðjunni fram að þessu. Íslenzka þjóðin hefur engu á því tapað. Rekstur Áburðarverksmiðjunnar hefði ekki á neinn hátt verið betri þessi ár, sem hún hefur starfað, þótt þar hefði verið ríkisform á rekstrinum. Hv. Alþ. hefur kosið hverju sinni þrjá stjórnarnefndarmenn af 5 og hefur þess vegna getað ráðið algerlega í stjórninni, þar sem alþingiskosnir fulltrúar voru í meirihl.

Þegar Áburðarverksmiðjan var stofnuð, voru menn sammála um það, að hér væri ráðizt í mikilvægt fyrirtæki, sem gæti orðið og ætti að verða þjóðinni til góðs. Og ég held, að það sé enginn vafi á því, að svo hefur orðið, enda þótt deila megi um, hvort rétt hafi verið af stað farið með þá áburðartegund, sem framleidd hefur verið. Út í það ætla ég ekki að fara. Það má vitanlega deila um það, hvort það hefði verið mögulegt að stjórna fyrirtækinu betur en gert hefur verið, og kannske deila þeir nú helzt um það, sem minnsta reynslu eða þekkingu hafa á því, hvernig þetta hefur farið fram. En það vil ég fullyrða, að stjórnarnm. í verksmiðjunni hafa hverju sinni lagt sig fram og viljað gera sitt bezta. Þetta get ég fullyrt, vegna þess að ég átti þarna sæti í nokkur ár sem stjórnarmaður, og ég varð aldrei var við annað hjá neinum, sem í stjórn verksmiðjunnar var, en það, að þeir vildu gera allt það bezta. Og ég leyfi mér að endurtaka það, að stjórn verksmiðjunnar hefði ekki orðið betri, þótt allir 5 þm. hefðu verið kosnir hér á hv. Alþ. Hluthafarnir, sem lögðu fram 4 millj. af 10, þegar verksmiðjan var stofnuð, gerðu það ekki í þeim tilgangi að græða á því stórfé. Þeir gerðu það til þess að hjálpa til að koma þessu fyrirtæki á fót. Það er sagt nú og hefur verið sagt oft áður, að ríkissjóður hefði alveg eins getað lagt fram 10 millj. eins og 6 millj., þegar verksmiðjan var stofnuð. Þetta er vitanlega hægt að segja. En 10 millj. 1951, þegar þetta var ákveðið, voru talsverður peningur þá og ríkissjóð vantaði peninga á þessum tímum. Það höfðu ekki verið neinir uppgangstímar árin næst á undan og ríkissjóð vantaði þetta fé. Og það kom sér þess vegna vel fyrir ríkisstj., að hinir einstöku hluthafar lögðu fram 4 millj. af 10. Það gerði allt hægara um stofnun fyrirtækisins, því að þótt Marshall-aðstoðin legði fram fé til verksmiðjunnar, var það þó áskilið, að Íslendingar legðu eitthvað fram sjálfir þegar í stað. Og enginn vafi er á því, að það hefði orðið mjög erfitt fyrir Íslendinga að koma þessari verksmiðju á fót, ef Marshall-aðstoðin hefði ekki komið til. Og ég held, að við Íslendingar megum vera þakklátir fyrir það að hafa notið þessarar mikilvægu aðstoðar, eins og flest önnur Evrópulönd, a.m.k. í Vestur-Evrópu. En þetta er saga, sem er þarft að vera að rekja. Hluthafarnir, sem lögðu fram 4 millj., hafa unað sinum hlut sæmilega, þótt þeir hafi flest árin orðið að vera án þess að fá vexti af hlutafénu. Þeir lögðu hlutaféð fram, þótt það væri ákveðið í l., að það mætti aldrei borga þeim meiri arð en 6%. Og þegar l. voru nú þannig gerð, held ég, að það sé nú alveg rangt að halda því fram, að hluthafarnir hafi gert þetta í eigin hagsmunaskyni og hafi ekki haft annað sjónarmið en það að hagnast á fyrirtækinu.

Um leið og ég fullyrði það, að þetta rekstrarform hefur ekki orðið fyrirtækinu til trafala og hefur ekki hindrað það, að þjóðin nyti verksmiðjunnar, eins og ætlað var, get ég endurtekið það, sem ég hef sagt hér áður í hv. Alþ.; að ég tel eðlilegast, að ríkið eigi verksmiðjuna. Ég tel eðlilegast, að hlutabréfin verði innleyst. Þetta hef ég sagt hér áður. Og ég geri ráð fyrir því, að meirihl. hv. þm. vilji það í einhverju formi. Nú er það kunnugt, að það er ákveðið að stækka Áburðarverksmiðjuna, og þá liggur í augum uppi, að til þess þarf mikið fé. Það er alveg öruggt, að þótt hluthafarnir vildu sýna fórnarlund áfram, eins og þeir hafa gert, og leggja fram aukið hlutafé um leið og Áburðarverksmiðjan er stækkuð, geri ég ekki ráð fyrir því, að þeir geti það. Þess vegna er það, að það er ekki um annað að ræða nú en að breyta l. Og það liggur fyrir vilji ábyggilega meiri hl. hluthafanna, og ég ætla allra þeirra stærstu, um, að þeir vilji láta hlutabréfin af hendi með skikkanlegum kjörum. Um hina smærri get ég ekki neitt fullyrt um, en ég tel ekki ástæðu til annars en þeirra vilji sé hinn sami. Þess vegna er það, að það er trúlegt, að hv. Alþ. geti nú sameinazt um það að breyta löggjöfinni með það fyrir augum að innleysa hlutabréfin. Og hv. fyrri flm. þessa frv. lýsti því hér áðan, að hann og hans félagar væru ekki endilega bundnir við þetta form, eða það, sem sagt væri í þessu frv. Þeir væru til viðtals um það að fara aðra leið, samningaleiðina, til þess að hægt væri að sameinast um það bezta, sem út úr því mætti fást. Og einmitt vegna þess að fyrir tveimur árum var það raunverulega ákveðið að stækka Áburðarverksmiðjuna, og ég gerði mér ljóst, að það var tilgangslaust að ætlast til þess, að hinir frjálsu hluthafar legðu fram fé til fyrirtækisins, var það ljóst, að það þurfti að breyta l., og ég átti þátt í því, að samið var frv. til breytingar á l. um Áburðarverksmiðjuna, og þetta frv. var sent, að ég held, öllum hv. nm. í landbn., a.m.k. landbn. Nd., ég ætla einnig í hv. landbn. Ed. Og ástæðan til þess, að þessi leið var farin, var sú, að það átti að gera tilraun til þess að fá landbn. til þess að sameinast um eitthvert form, og mér er kunnugt um það, að sumir hv. þm. hafa reynt þetta. Þeir voru beinlínis beðnir um að kanna það hver í sínum þingflokki, hvort þeir gætu fallizt á þetta frv., sem ég sendi þeim, eða hvaða breytingar þeir vildu á því gera, til þess að það væri hægt að sameinast. Það má segja, að þetta hafi nú dregizt nokkuð lengi, og ég, sem hefði nú átt að hafa forystu í þessu, hafi horft óþarflega lengi á það, að lítið gerðist hjá hv. landbn. En ég hugsaði sem svo: Á meðan verið er að undirbúa stækkunina og ekki er byrjað á framkvæmdum, er lítill skaði skeður, þótt l. hafi ekki verið breytt, en lagabreytingin verður að koma um það leyti eða áður en hafizt verður handa með framkvæmdir. Og satt að segja hef ég nú oft verið að tala við ýmsa hv. þm. um það, hvað liði samkomulagsumleitunum um þetta frv.

Nú hefur verið flutt hér annað frv. til breyt. á 1. um Áburðarverksmiðjuna, og ætla ég ekki að ræða það, meðan það er ekki tekið til umr. a.m.k., en sumt í því frv. er svipað því, sem var í frv., sem ég lét semja. Ég veit ekki, hvort það frv. hefur verið flutt af því, að það hefur verið talið vonlaust, að það næðist samkomulag í hv. landbn. Ég tel það þó tæplega. Ég tel, að það sé alls ekki vonlaust, að slíkt samkomulag náist. Og ég segi það, að þó að þessi tvö frv. liggi hér fyrir nú, á það alls ekkert að spilla fyrir að ná því samkomulagi.

Það má segja, að það séu þá þrjú frv. nú, sem hv. landbn. getur tekið til athugunar og brætt þá upp úr því nýtt frv. Það er í fyrsta lagi það frv., sem við nú erum að ræða. Það er í öðru lagi það frv., sem er hér á dagskránni á eftir, og í þriðja lagi það frv., sem ég lét semja. Og e.t.v. fæst þá, þegar hv. landbn. hefur fengið þetta mál til meðferðar, samkomulag um það að sjóða nýtt frv. upp úr þessum þremur frv. Það teldi ég vera mjög æskilegt. En það er rétt, að hv. alþm. viti það, að stjórn Áburðarverksmiðjunnar hefur látið fara fram undirbúning að stækkun verksmiðjunnar, og það er allumfangsmikið starf. Það er komið vel á leið þannig, að það er ekki ólíklegt, að það mætti hefjast handa að einhverju leyti á þessu ári með framkvæmdir, a.m.k. á árinu 1969. Það hefur orðið samkomulag um það, hvað væri eðlilegast að framleiða í verksmiðjunni, eftir að hún hefur stækkað. Þar hefur Rannsóknastofnun landbúnaðarins sagt sitt álit um, Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda. Auk þess hafa þar komið verkfræðingar við sögu. En Norsk Hydro hefur aðallega starfað að áætlunum og undirbúningi, sem er, eins og ég sagði áðan, langt á veg kominn. Með því að stækka verksmiðjuna þannig, að hún geti framleitt helmingi meira en hún gerir nú og blandaðan áburð, var fyrir gengisbreytinguna gert ráð fyrir, að sú stækkun mundi kosta um 250 millj. kr. Hvort það eru 300 millj. núna eftir gengisbreytinguna, vil ég ekkert fullyrða um, en það er vitað, að þessi áætlun hlýtur að hækka vegna gengisbreytingarinnar talsvert. Ég geri ráð fyrir því, að með því að láta fara fram alþjóðlegt útboð á stækkun verksmiðjunnar, verði margir, sem vilji bjóða í verksmiðjuna, bygginguna, og það megi með því fá lán til þess að koma henni upp að verulegu leyti. Og það hefur verið látið berast frá fleiri en einum aðila, að þeir mundu bjóða í þessa stækkun og þeir væru tilbúnir til þess að lána talsvert af kostnaðinum. Það léttir vitanlega mikið undir í sambandi við það að útvega fjármagnið. Og við skulum vona, að það strandi ekki á því, þegar til kastanna kemur. Það er gert ráð fyrir því, að virkjunin við Búrfell geti byrjað að láta frá sér orku seinni hluta ársins 1969 og þessum fyrsta áfanga við þá virkjun verði lokið á árinu 1970. Það má þess vegna ætla, að Áburðarverksmiðjan geti fengið orku frá Þjórsárvirkjun á árinu 1970. Þá þarf stækkuninni að vera lokið, og að því hefur stjórn Áburðarverksmiðjunnar stefnt. Og það er mikið atriði, ekki aðeins fyrir landbúnaðinn, heldur fyrir þjóðina alla, að að þessu verði unnið og að þessu marki verði náð. Með því að framleiða blandaðan áburð, a.m.k. þrjár mismunandi blöndur ásamt köfnunarefnisáburði, á íslenzkur landbúnaður kost á því að fá þær áburðartegundir, sem nauðsynlegastar eru.

Ég veit ekki, hvort það er ástæða til að segja meira um þetta mál að sinni. Um eignarrétt hluthafanna í verksmiðjunni var talað hér áðan og fullyrt, að þessir hluthafar, sem eiga 4 millj., ættu ekkert í verksmiðjunni. Það væri alveg öruggt. En það er nú áreiðanlegt, að það væri hægt að finna tvo lögfræðinga og þyrfti ekki að fara langt, sem væru algerlega ósammála um þessa fullyrðingu. Ég efast ekkert um, að hv. fyrri flm. frv. lítur svo á, að þetta sé þannig, og vitanlega getur hann metið þetta, þó að hann sé ekki löglærður maður. Ég efast ekki heldur um, að hann hafi heyrt einhvern lögfræðing staðhæfa þetta líka. En ég hef heyrt marga lögfræðinga fullyrða, að þetta sé hlutafélag og hluthafarnir eiga 2/5 í verksmiðjunni. Ég ætla ekkert að fullyrða um þetta. En málið er ábyggilega ekki svona einfalt, eins og hv. fyrri flm. fullyrti hér áðan. Og satt að segja, þegar hluthafarnir fá ekki vexti af hlutafénu og það er með l. bannað, að þeir, sem eru taldir eigendur, megi þéna á fyrirtækinu, veit ég nú ekki, hvers virði eignarrétturinn er. Væri hugsanlegt, að þessi minnihl. í verksmiðjunni gæti farið að okra á þessum hlutabréfum? Við skulum hugsa núna, að það verði ekki samkomulag um það að innleysa hlutabréfin frá hluthöfunum. Hefur þá ekki ríkisvaldið allt í sinni hendi, hvernig farið verður með þennan minnihl.? Við gætum hugsað okkur það, að l. yrði breytt þannig, að hlutaféð yrði aukið svo og svo mikið, úr 10 millj. í 100 millj. Þetta væri boðið út, og einstaklingar og fyrirtæki byðu ekki í það vegna undangenginnar reynslu, að það leyfist ekki að borga arð af bréfunum. En hver væri það þá, sem tæki bréfin annar en ríkið? Þá væri það ríkið, sem ætti 106 millj. í verksmiðjunni, en núverandi aðrir hluthafar 4 millj. Þá færu nú hlutföllin að skekkjast. Og þá held ég, að hvorki hv. 6. þm. Reykv. eða aðrir færu að tala um heppna hluthafa.

Ég held, að við getum í sambandi við umr. um Áburðarverksmiðjuna og stækkun hennar og breyting á l. um hana látið það vera að lasta þessa hluthafa, sem sumir vilja kalla heppna hluthafa. Þeir hafa ekki verið heppnir, þeir lögðu hlutaféð ekki fram í þeim tilgangi að verða sjálfir heppnir. Þeir lögðu hlutaféð fram, af því að það vantaði fé í nauðsynlegt þjóðþrifafyrirtæki, og fyrir það eiga þeir ekki að fá skammir hér á hv. Alþingi.

Ég held, að við getum svo, ég og hv. fyrri flm. þessa frv., verið sammála um það, að það sé eðlilegt, að Áburðarverksmiðjan verði ríkiseign, og það sé rétt að vinna að því á hv. Alþ. að sameina hv. þm. um frv. til l. um breyt. á l. Og mér finnst það boða gott, að hv. þm. lýsti því yfir, að hann væri ekki bundinn við þetta frv., heldur gæti hugsað sér annað fyrirkomulag.