05.03.1968
Neðri deild: 69. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í C-deild Alþingistíðinda. (2471)

122. mál, áburðarverksmiðja

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í þessum umr., hefur frv. svipað því, sem hér liggur fyrir, verið flutt hér margsinnis áður á Alþ., og allmiklar umræður hafa farið hér fram um þetta mál. Ég veit því, að allir alþm. gera sér fulla grein fyrir því að það; sem hér er um að ræða fyrst og fremst, er spurningin um það, hver er raunverulegur eigandi Áburðarverksmiðjunnar sem stofnunar. Er það hlutafélagið, sem annazt hefur rekstur verksmiðjunnar á undanförnum árum, það hlutafélag, sem stofnað var með 10 millj. kr. hlutafé með þeim hætti, að ríkið lagði fram 6 millj. kr. og nokkrir aðrir aðilar 4 millj. kr.? Eða er þessi verksmiðja raunverulega ríkiseign? Það frv., sem nú liggur fyrir hér til umr., fer í þá átt að slá því föstu alveg undanbragðalaust, að þessi stofnun sé ríkiseign.

Það hefur oft verið bent á það í þessum umræðum, að hinar ýmsu greinar l. um Áburðarverksmiðjuna séu ekki í fullu samræmi hver við aðra, og það er rétt. Í l. segir alveg skýrt og greinilega, að Áburðarverksmiðjan skuli vera sjálfseignarstofnun. Er það eitthvað venjulegt um hlutafélag? Slíkt vitanlega þekkist ekki í sambandi við hlutafélög. Sjálfseignarstofnun er hins vegar mjög þekkt fyrirbæri í sambandi við bein ríkisfyrirtæki eða fyrirtæki, sem stofnuð eru af hálfu opinberra aðila, enda er þetta fyrirtæki stofnað með sérstökum l. frá Alþ., þar sem segir í upphafi l.: „Ríkisstjórninni er heimilt að láta reisa og reka verksmiðju með fullkomnum vélum og öðrum nauðsynlegum útbúnaði“ o.s.frv. til þeirra starfa, sem þar eru tekin fram. Síðan fylgja á eftir ýmis önnur ákvæði, sem auðvitað eru öll í þá átt, að hér sé um að ræða fyrirtæki, sem ríkið er að reisa. Og þessu er svo slegið föstu í l., að þetta skuli vera sjálfseignarstofnun.

Eins og bent hefur verið hér á slæddist hins vegar inn, að vísu ekkert af óvilja, en það var sett inn í l. við síðustu umr. í síðari d. ákvæði um það, að þrátt fyrir það, sem segir í meginmáli 1, megi stofna hlutafélag á þann hátt, sem gert hefur verið, sem annist rekstur fyrirtækisins. Það er það, sem er skilgreint sem verkefni hlutafélagsins. Og það hefur enginn ágreiningur verið um það allan þennan tíma, að rekstur Áburðarverksmiðjunnar hefur verið í formi hlutafélags. Það er hlutafélagið, sem hefur annazt reksturinn.

Nú liggur það fyrir, að Áburðarverksmiðjan kostaði á sínum tíma um 130 millj. kr. Það sjá því allir, að þær 4 millj., sem komu frá öðrum en ríkinu í sambandi við stofnkostnað fyrirtækisins, réðu engum úrslitum um það. hvort þessi stofnun kæmist upp eða ekki — engum. Það er því alveg óþarfi fyrir hæstv. landbrh. að flytja þessum hluthöfum hér einhverja þakkarræðu fyrir það, að þeir hafi gert það kleift, að fyrirtækið komst upp á sínum tíma. Hann veit miklu betur en svo, að slíku var ekki til að dreifa. Þessar 4 millj. réðu hér engum úrslitum. Og það hefði eflaust verið létt fyrir ríkið að leggja einnig fram þessar 4 millj., sem sennilega hafa verið fengnar að láni úr bönkum landsins, þegar þær voru lagðar fram af þeim hluthöfum, sem þarna áttu hlut að máli. En aðalatriði þessa máls er það að fá úrskurð alveg ótvíræðan um það, hver sé eigandi þessa fyrirtækis.

Á það hefur verið bent, að nú megi telja, að Áburðarverksmiðjan yrði metin á um það bil 700 millj. kr. Eigi hlutafélagið, sem hefur 10 millj. kr. hlutafé, verksmiðjuna, hafa þessar 4 millj., sem nokkrir einstaklingar lögðu fram sem hlutafé á sinum tíma, hækkað í verði upp í 280 millj. kr. Spurningin er sú, hvort Alþ. ætlar að leggja á einn eða annan hátt blessun sína yfir það að túlka þessi lög á þann veg, að þeir, sem lögðu fram 4 millj. kr. á sínum tíma í hlutafé í rekstrarfélag Áburðarverksmiðjunnar, eigi nú 40% af eignarverði Áburðarverksmiðjunnar eða nú t.d. í kringum 280 millj. kr. Um það er spurningin, og um það fjallar í raun og veru það frv., sem hér liggur fyrir. En hæstv. landbrh., sem þetta mál vitanlega fellur mjög undir, fékkst ekki til að segja neitt um skoðun sína á þessu efni — ekki neitt. Hann sér hins vegar og veit það manna bezt, að nú eru þessi mál komin í þann vanda að það liggur fyrir, að það þurfi í rauninni að byggja hér nýja Áburðarverksmiðju eða gerbreyta þeirri, sem fyrir er, stækka hana til mikilla muna. Það þarf sennilega að útvega nýtt fjarmagn upp á 300 millj. kr., og auðvitað geta hluthafarnir ekki aflað þessa fjár. Ríkið þarf að leggja fram allt stofnfé, eins og í fyrra tilfellinu. Og þá er auðvitað ágætt út af fyrir sig að eiga í gegnum 4 millj., sem voru lagðar fram á sínum tíma, þá 40% af öllu saman, og hafa um leið í rauninni einkaaðstöðu til þessa reksturs, sem þetta fyrirtæki hefur með höndum. Ég vil segja það alveg skýrt og ákveðið sem mína skoðun, að ef meirihl. Alþ. er á þeirri skoðun, að hlutafélagið, sem stofnað var á sínum tíma um rekstur Á!burðarverksmiðjunnar, eigi fyrirtækið, þá vil ég, að það eigi þessa verksmiðju áfram og sitji uppi með hana, og hér verði byggð ný verksmiðja á vegum ríkisins, því að sannleikur málsins er sá, það vita allir, sem til þekkja, að ef Áburðarverksmiðjan, eins og hún er, hefði ekki þá séraðstöðu, sem hún hefur með einkastarfsemi í landinu og hér yrði byggð við hliðina á henni Áburðarverksmiðja af þeirri gerð, sem bændur landsins óska eftir og sem helztu sérfræðingar í framleiðslu áburðar leggja til. yrði núv. Áburðarverksmiðja ekki mikils virði. Ég álít því, að það væri í rauninni kóróna á þá skömm, sem raunverulega hefur þegar orðið í þessu máli, ef það ætti að fara að leysa út þessa rekstrarhluthafa á þann hátt nú, þegar málin hafa þróazt eins og þau hafa þróazt, með því að leysa út á einn eða annan hátt hluti þeirra, sem gildandi ávísun á eignina, sem er í Áburðarverksmiðjunni. Það er hins vegar skoðun okkar Alþb.-manna og hefur komið hér fram á mörgum undanförnum árum, að það sé ríkið, sem sé eigandi að Áburðarverksmiðjunni, þrátt fyrir ákvæðin um rekstrarhlutafélagið. Og það sé Alþ. eitt, sem eigi að gera l. ótvíræð og taka af allan vafa um það, hvað er hið rétta í þessu máli.

Hæstv. landbrh. minntist hér á það, að það mætti eflaust finna einhverja tvo eða fleiri lögfræðinga, sem gætu skipzt í mismunandi hópa, sumir segðu, að hluthafar rekstrarfélagsins væru eigendur að verksmiðjunni, en aðrir væru á annarri skoðun. Það má vel vera, og það er mjög sennilegt, að þá yrðu lögfræðingar ekki sammála um það, hvernig túlka beri l., vegna þess að l. eru í sjálfu sér mjög ónákvæm í þessum efnum. En þegar svo er, er það enginn annar aðili en Alþ. sjálft, sem á að skera úr um það með því að gera ákvæði l. ótvíræð, og segja, hvað Alþ. hafi meint á sínum tíma og hvernig Alþ. líti á þennan lagabókstaf. Það er þannig, sem á að gera upp þetta mál. og það á ekkert að víkja sér undan þessum vanda.

Þegar hv. l. flm. þessa frv. sagði hér í framsöguræðu sinni, að af hálfu okkar flm. gæti vissulega komið til greina að leysa út andvirði hlutabréfa einstaklinganna í Áburðarverksmiðjunni h.f. með öðrum hætti en þeim, sem segir í okkar frv., þar sem við gerum ráð fyrir, að þeir fái upphaflegt stofnverð hlutabréfanna til baka að viðbættum sparifjárvöxtum, þá er það út af fyrir sig rétt. Við getum vel hugsað okkur það, að þessi hlutabréf verði greidd á eitthvað hærra verði. En það á að leysa þau út sem hlutabréf í rekstrarhlutafélagi Áburðarverksmiðjunnar h.f., en ekki að meta þau á einn eða neinn hátt sem ávísun á eignina Áburðarverksmiðjuna, því að Áburðarverksmiðja ríkisins sem eign er að okkar dómi eign ríkisins, og þessi hlutabréf eiga enga ávísun á þá eign út af fyrir sig. Það er sá mikli munur, sem hér er á milli. og auðvitað er kominn tími til þess, að hæstv. landbrh. og aðrir þeir hér á Alþ., sem hafa með þessi mál að gera, láti alveg ótvírætt uppi sína skoðun á því, hvort þeir séu á því, að hluthafarnir í Áburðarverksmiðjunni h.f. séu eigendur að verksmiðjunni eða ekki. Hvaða skoðun hafa þeir á málinu? Hvað meina þeir, þegar þeir tala um það að leysa út þessi hlutabréf? Ef það er meining þeirra, að þessir hluthafar eigi 40% í verksmiðjunni sjálfri, er bezt, að það komi fram. Þá er bezt, að það komi hér alveg skýrt fram. hvort það er meining manna, að það eigi að færa þessum hluthöfum hér nokkur hundruð millj. kr. raunverulega gjöf. Verði það skoðun meirihl. Alþ., að þeir séu eigendur að verksmiðjunni út á þessar 4 millj. kr., sem þeir lögðu fram á sínum tíma, munum við Alþb.-menn greiða atkv. á móti því, að þessi hlutabréf þeirra verði af þeim keypt sem eignarhluti í verksmiðjunni. Þá er bezt að þeir eigi sína verksmiðju. Og þá verður vitanlega Alþ. að taka afstöðu til þess, hvort það á að veita þessu hlutafélagi þann einkarétt, sem það hefur nú í dag bæði til áburðarframleiðslu og einnig til áburðarsölu í landinu, sem það hefur.

Ég skal taka undir þá skoðun, sem hér kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, að ég tel að vísu alveg sjálfsagt, eins og þetta mál hefur gengið fyrir sig, að það sé leitað eftir samkomulagi við hluthafana í Áburðarverksmiðjunni h.f. um það, hvað þeir vilji fá fyrir sín bréf. Ef hér er aðeins deilt um tiltölulega litla upphæð, er alveg ástæðulaust að þræta lengi um það, en standi hluthafarnir á því, að þeir vilji fá þá fjármuni fyrir sín hlutabréf, sem eru í einhverju samræmi við það, að þeir eigi 40% í eigum verksmiðjunnar, tel ég, að það sé enginn grundvöllur til neins samkomulags við þá. Auðvitað hefði hæstv. landbrh. átt að vera búinn að því fyrir löngu að kanna það, hvort það var einhver grundvöllur til þess að gera samkomulag við þessa hluthafa, og ég tel alveg fráleit vinnubrögð að halda þannig á þessu máli, eins og kom hér fram hjá hæstv. landbrh., að unnið hefur verið að því að undanförnu að gjörbreyta þessu fyrirtæki, stækka það um allan helming, leggja þar í stórkostlegan nýjan stofnkostnað, sem auðvitað verður að hvíla á ríkinu, áður en þetta stóra vandamál er gert upp á hreinum grundvelli, hver sé eigandi þessa fyrirtækis.

Það er auðvitað algert aukaatriði í þessu máli að ræða um það, hvernig rekstur þessa fyrirtækis hefur gengið fyrir sig á undanförnum árum. Það má auðvitað mikið um það ræða. Eflaust hefur þar ýmislegt verið gert sæmilega miðað við allar aðstæður og annað farið á hinn verra veg, a.m.k. hefur verið höfð uppi hörð gagnrýni á ýmislegt í sambandi við rekstur þessa fyrirtækis, en það er ekki það, sem er hér til umr. Það, sem er hér til umr. í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, er, að það á að skera úr því á ótvíræðan hátt, hver sé eigandinn að Áburðarverksmiðjunni sem slíkri. Er það hlutafélagið eða er það ríkið? Og það á ekkert að vera að vefja þetta inn í neinar dulur eða gera það neitt óljóst, tala aðeins um það, að það sé rétt að meta þessi hlutabréf. Hér skiptir það auðvitað öllu máli, hvort Alþ, lítur svo á, að þessi hlutabréf séu fyrst og fremst hlutabréf í rekstrarfélagi Áburðarverksmiðjunnar eða hvort þetta rekstrarhlutafélag eigi verksmiðjuna. Um það snýst málið, og það er ástæðan til þess, sem á að koma hér skýrt fram.

Það hefur nú komið hér enn einu sinni mjög skýrt fram, að Alþfl. hefur sömu afstöðu, að ég ætla, til þessa máls eins og við Alþb.-menn. Hann hefur litið svo á, að þetta fyrirtæki væri í eigu ríkisins, þrátt fyrir ákvæðin um rekstrarhlutafélag. Hitt er hins vegar ekki jafnljóst, hver er yfirleitt afstaða þm. Sjálfstfl. og þm. Framsfl. Það virðist vera mjög á huldu, hvað þeir meina í þessu máli. Og ég fyrir mitt leyti óska eindregið eftir því, eins og þessum málum er nú komið, þar sem við erum komnir að því, að það á að fara hér að hefja nýjar stórframkvæmdir í sambandi við þessa verksmiðju, að afstaða þessara fulltrúa komi hér alveg skýrt fram. Þetta mál verður ekki leyst á þann hátt, að Alþ. varpi því frá sér án þess að skýra l. og óski eftir úrskurði lögfræðinga. L. eru þannig úr garði gerð, að það verður að vera Alþ., sem tekur af allan vafa um það, hvað í l. á að felast. Lögfræðingar eiga ekki að túlka málið þannig fyrir hönd Alþ. Á þetta vildi ég fyrir mitt leyti leggja hér aðaláherzlu, því að það er um þetta, sem ég tel, að þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., fyrst og fremst snúist.