05.03.1968
Neðri deild: 69. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í C-deild Alþingistíðinda. (2474)

122. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þessi saga, sem hv. 3. þm. Austf. var að segja hér áðan um einhver annarleg áhrif frá flokksbræðrum mínum, hlýtur að vera eitthvað einkennilega til kominn, því að það er alkunna, að sú áburðartegund, sem nú er framleidd í Áburðarverksmiðjunni, er einnig þess eðlis, að það er mjög auðvelt að hagnýta hana sem sprengiefni. Það mál var mikið rætt í sambandi við staðsetningu verksmiðjunnar, og gagnrýni, sem fram kom, m.a. frá flokksbræðrum mínum, á því, að velja verksmiðjunni stað nálægt Reykjavík, varð einmitt til þess, að verksmiðjan var flutt fjær höfuðborginni, þannig að þetta hefur örugglega eitthvað skolazt til í höfðinu á hv. þm.

Annars er ég hingað kominn til þess að lýsa ánægju mínni yfir þeim undirtektum, sem þetta frv. hefur fengið hér, ekki sízt hjá hv. 5. þm. Vesturl., sem lýsti algerum efnislegum stuðningi Alþfl. við þetta frv., og það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt, að annar þeirra flokka, sem stendur að hæstv. ríkisstj., skuli taka þessa afstöðu til málsins. Ég tel einnig ástæðu til þess að fagna því sérstaklega, að hæstv. landbrh. lýsti því yfir, að hann teldi sjálfsagt og eðlilegt, að ríkið eigi Áburðarverksmiðjuna, og hann teldi eðlilegt, að hlutabréf einkaaðila í Áburðarverksmiðjunni verði innleyst. Þetta er ákaflega mikilvæg yfirlýsing, og í henni felst það, að hæstv. ráðh. viðurkennir hér úr ræðustóli í Alþ., að það fyrirkomulag, sem verið hefur á rekstri verksmiðjunnar að undanförnu, hafi verið ákaflega óeðlilegt og megi ekki standa áfram. Hitt vantar á, eins og hv. 4. þm. Austf. benti á áðan, að hæstv. ráðh. skýri frá því, hvernig hann lítur á hlutabréfin í rekstrarfélaginu, og í seinni ræðunni, sem hæstv. ráðh. hélt hér áðan, kom þetta ekki fram. Hann fór í kringum vandamálið, eins og köttur í kringum heitan graut, og fékkst ekki til að segja, hvaða skoðun hann sem ráðherra og einstaklingur hefði á þessu máli. Og þetta er að sjálfsögðu ákaflega veigamikið atriði. Það er auðvitað hægt að skýra hér frá því, að fyrir tveimur árum hafi einstakir stórhluthafar sagt eitt og annað, en um leið og það liggur fyrir sem yfirlýsing frá hæstv. ráðh., væntanlega fyrir hönd ríkisstj., að ætlunin sé að innleysa hlutabréfin, kann svo að fara, að ýmsir hluthafar fari að íhuga það, hvort þeir geti ekki gert margfalt stærri kröfur. Ég held, að það sé alger forsenda þess, að ráðizt sé í það að innleysa hlutabréfin, að Alþ. skeri úr um þetta sjálft með lagasetningu, lýsi sínum skilningi á þeim l., sem sett hafa verið hér á Alþ.

Eins og ég rakti hér áðan í framsöguræðu minni, sýnist mér, að ákvæði þessara l. verði ekki samræmd með nokkru öðru móti en því, að líta á verksmiðjuna sem eign ríkisins, sem sé falin hlutafélagi til rekstrar. Þar er ekki um neitt óvenjulegt fyrirkomulag að ræða. Það er algengt, að eitt sé signaraðildin og rekstrarformið annað. En þetta atriði er þess eðlis, að Alþ. þarf sjálft að lýsa yfir dómi sínum um það, alveg nauðsynlega.

Það var í sjálfu sér næsta spaugilegt að heyra hæstv. ráðh. flytja hér lofræðu um fórnfýsi hluthafanna, sem hefðu hlaupið undir bagga í þrengingum ríkissjóðs á erfiðum tímum, til þess að auðvelda þessa þjóðþrifaframkvæmd. Eins og ég rakti hér í framsöguræðu minni, lögðu hluthafarnir fram 4 millj., en ríkið lagði fram eða útvegaði 126 millj., þannig að þarna var að sjálfsögðu ekki um neitt úrslitaatriði að ræða, enda hygg ég, að allir hér inni viti, að það voru allt aðrar hvatir, sem þarna voru að baki. Þarna var verið að leika einhvern ósæmilegasta leik, sem reynt hefur verið að leika hér á Íslandi. Það voru sérstakir valdaaðilar í þjóðfélaginu, sem voru með áform um að sölsa þetta fyrirtæki hreinlega undir sig. Ég hygg, að hæstv. landbrh. muni það ákaflega vel, þegar Sjálfstfl. óttaðist það mjög, að ákveðnir aðilar í Framsfl. ætluðu að tryggja sér meirihl. einkahlutafjárins og hagnýta þá aðstöðu til þess að eignast þannig tvo stjórnarmenn, en síðan kæmi sá þriðji héðan frá Alþ., þannig að verksmiðjan yrði hreint fyrirtæki Framsfl. Af þessum ástæðum fór sjálfur þáv. form. Sjálfstfl. af .stað til þess að eggja kaupsýslumenn og iðnrekendur til þess að kaupa hlutabréf, og að lokum varð Reykjavíkurborg að hlaupa undir bagga og leggja fram hálfa millj., til þess að næðust þau helmingaskipti, sem urðu útkoman að lokum. Þarna var verið að reyna að hagnýta pólitíska valdaaðstöðu til þess að sölsa undir sig stóreign almennings. Ég það gerðist margt annað í þessu máli á árunum þar á eftir, sem mjög auðvelt væri að rifja upp. Ég minntist hér áðan á það atriði, þegar ætlunin var að afhenda Framkvæmdabankanum hlutabréf ríkissjóðs, en siðan var ætlunin að selja þau áfram einkaaðilum.

En sem sagt, af yfirlýsingum þeim, sem hér komu fram áðan, bæði hjá hæstv. ráðh. og hjá hv. 5. þm. Vesturl., er það ljóst, að það virðist vera svo komið, að ekki verður haldið áfram þeim gráa leik, sem reynt var að leika í sambandi við þetta mál í nokkur ár. Það er ætlunin, að þetta fyrirtæki verði alger ríkiseign í sambandi við þá stækkun og þá óhjákvæmilegu breytingu á framleiðsluaðferðum, sem nú er í undirbúningi. En til þess að undirbúa það mál sýnist mér algerlega óhjákvæmilegt, að Alþ. lýsi sjálft yfir skilningi sínum á eignaraðildinni.