12.02.1968
Neðri deild: 60. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í C-deild Alþingistíðinda. (2479)

126. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er rétt, að ég flyt hér frv. um allvíðtækar heimildir til að skjóta málum undir þjóðardóm. Það er einnig rétt, að ég greiddi hér fyrr í dag atkv. gegn því, að ákveðnu máli væri skotið undir þjóðardóm. En ég tók það líka skýrt fram við atkvgr., að ég teldi, að það hefði verið rétt að skjóta málinu undir þjóðaratkv., ef málið væri ekki svo seint fram komið, og ég hefði hiklaust greitt því atkv., ef það hefði verið fyrr. Ég vildi benda hv. 1. þm. Norðurl. e. á það, að í þessu frv, er gert ráð fyrir því, að ef fram fer þjóðaratkvgr. um frv., skuli krafa um slíka atkvgr. hafa borizt innan 8 vikna frá samþykkt frv., og nú var hægri handar umferð ákveðin með l., og þá hefði það auðvitað verið sjálfsagt og eðlilegt á sínum tíma fyrir tveimur árum síðan, að það hefði verið krafizt þjóðaratkv., en það hefði orðið að gera innan 8 vikna. Þá hefði farið fram þjóðaratkv., og það hefði verið sjálfsagt og eðlilegt og ekkert við það að athuga. En þá hefði auðvitað aldrei komið til þess, að tveimur árum seinna eða fáeinum vikum eða mánuðum áður en á að fara að framkvæma breytinguna, þá væri allt í einu farið að leggja til að skjóta málinu undir þjóðardóm.

Að öðru leyti vil ég taka það fram, að það kom margt athyglisvert fram í þeim till., sem hv. 1. þm. Norðurl.e. rakti hér og þeir framsóknarmenn hafa undirbúið og flutt. Hann minntist aðeins á forsetaembættið, og ég er honum sammála um það, að út af fyrir sig kæmi það til greina að athuga þar, hvort ekki væri rétt að breyta eitthvað tilhögun þess. Þær raddir hafa heyrzt og jafnvel komið fram í blöðum núna að undanförnu, hvort ekki væri rétt, að forsetaembættið væri lagt niður, hvort ekki væri rétt að fela t.d. forseta Hæstaréttar eða forseta sameinaðs Alþingis núverandi forsetavald. Ég vil nú taka það fram, að ég er persónulega algerlega ósammála þessu, en ég tel, að það mætti gera forsetaembættið jafnvel virðingarmeira með því að fela forseta meiri völd heldur en hann hefur í dag, og ég mundi vilja vekja athygli á því, að hv. þm. Framsfl. hafa stundum flutt hér till. um lögsögumann, og mér hefur nú aðeins komið til hugar, þó að ég hafi ekki skoðað það vandlega, hvort ekki væri einmitt rétt, að forseti Íslands hefði yfirumsjón með slíku starfi, sem lagt er til, að felist í þessu lögsögumannsstarfi.

Að öðru leyti vil ég taka það fram, að ég er honum sammála um það, að mest er um það vert, að það verði skipuð stjórnarskrárnefnd hið fyrsta til þess að taka þessi mál til endurskoðunar aftur, enda þótt ég taki enga afstöðu til þess, með hvaða hætti skuli skipað í n.