29.02.1968
Neðri deild: 68. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í C-deild Alþingistíðinda. (2489)

130. mál, þingsköp Alþingis

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Í lok framsöguræðu l. flm. þessa frv. var gerð till. um, að þessu máli verði vísað til n., sem ég á sæti í. Þess vegna ætla ég ekki að ræða frv. að neinu ráði nú við 1. umr., heldur aðallega drepa á eitt atriði og þá í raun og veru til þess að beina spurningu til þeirrar n., sem fjallað hefur um þetta mál milli þinga og koma fram með ábendingu í því sambandi til umhugsunar. En spurningin er varðandi 16. gr. þingskapanna. Ég vildi spyrjast fyrir um það, hvort n. hefði ekki tekið til athugunar að bæta þyrfti við nefnd eða nefndum í sameinuðu Alþ. til viðbótar við þær fastanefndir, sem nú eru starfandi. Samkv. þessari gr. þingskapanna, 16. gr., er gert ráð fyrir, að slíkar fastanefndir séu þrjár, fjvn. skipuð 9 mönnum, utanrmn. skipuð 7 mönnum og 7 til vara og allshn. skipuð 7 mönnum. Þetta síðasta, sem ég las um allshn., er fremur nýlega ákveðið í þingsköpunum.

Nú veit ég, að mönnum er það kunnugt, að þegar fjárlög eru afgreidd í þingi, er fjárlagafrv. vísað til hv. fjvn. og frá henni kemur svo nál. og till. En ekki frá henni einni. Það kemur líka ævinlega í meðferð fjárl. álit frá þingsamkomu, sem nefnd er samvn. samgm. En þetta er ekki nein af n. Sþ. Það eru engin ákvæði í þingsköpum um neina slíka n., engir, sem slíka nefnd skipa þar, heldur er þessi samvn. samgm. samgmn. d., og það hefur orðið siður, að þessi háttur væri hafður á, að við meðferð máls í Sþ. kæmu saman þessar tvær n., sem eru kosnar í d. til að fjalla um deildamál,til þess að vinna nefndarstarf fyrir Sþ. Ég er nú búinn að eiga nokkurn tíma sæti hér á þingi, og ég þykist muna það, hvenær þessi siður var upp tekinn. Það mun hafa verið á þingi 1934, eftir að stjórnarskrá hafði verið breytt og þingsköpum. Það hefur tíðkazt í d., en fjárl. voru þá til meðferðar í d., að samgmn. í hvorri d. gerðu till. um vissan þátt fjárl. En með breytingunni var meðferð fjárl. færð yfir í Sþ. Og þá var þar engin samgmn. til til þess að fjalla um þennan þátt. En mönnum virtist, að þetta þyrfti að gerast á einhvern hliðstæðan hátt, eins og gert hafði verið áður í d. Síðan hefur þetta haldist, en ekki svo að ég muni neitt verið gert ráð fyrir því í þingsköpum. Nú vildi ég spyrja hv. n., sem hefur fjallað um þetta mál milli þinga, hvort þetta hafi nokkuð komið til umr. þar, en vil jafnframt láta í ljós þá skoðun, að mér virðist, að þessari vinnutilhögun ætti að breyta á þá lund, að það ætti að bæta við einni n. í Sþ., sem kosin væri þar og starfaði þar, samgmn. Sþ. Yrði þá að sjálfsögðu að tiltaka nánar verksvið hennar. En eins og kunnugt er, eru margar af þeim till. til þál., sem bornar eru fram í Sþ., einmitt um samgöngumál, og væri þá eðlilegt, að þeim væri vísað til hennar, en einnig væri hugsanlegt, að þessi ný ja samgn. Sþ. fjallaði þá um þann þátt, sem þessi samvn. samgm. hefur verið látin fjalla um, þ.e.a.s. fjárveitingar til flóabáta, eða þá um strandferðakaflann í heild eða samgöngumál í fjárl., hvernig svo sem komið væri fyrir samstarfi á milli fjvn. og hinnar nýju samgmn. Um þetta vildi ég spyrja, hvort það hafi ekki komið til umr. í n. og jafnframt benda á, að mér finnst þetta vera eðlileg breyting og eiginlega dálítið einkennilegt, að því skuli ekki hafa verið breytt fyrr eða þetta ákvæði sett, úr því að á annað borð er verið að setja ákvæði um þingsköp.

Ég vil svo aðeins segja tvennt út af þeim umr., sem hér hafa fram farið. Í fyrsta lagi vil ég staðfesta það fyrir mitt leyti, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði hér, að þar sem ég þekki til, virðist enn vera mikill áhugi fyrir þessu, sem hæstv. forsh. kallaði úrelta kappræðufundi. Mér virðist vera mikill áhugi fyrir þeim. Og það hefur oft verið fundið okkur til foráttu í mínu kjördæmi, að okkur hefur ekki tekizt að koma á slíkum fundum, og okkur hafa oft borizt áskoranir um að reyna að koma því til vegar, að þeir yrðu haldnir, og má vera, að okkur lánist það áður en lýkur. Þannig er nú þetta. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. forsrh. muni einkum hafa sjónarmið síns kjördæmis í huga, þ.e.a.s. höfuðborgarinnar, en það er orðið þannig fyrir löngu vegna skorts á nægilega stóru húsnæði til fundahalda, að þessir sameiginlegu fundir hafa lagzt niður. Um skeið var það til siðs að hafa fundi úti undir beru lofti í svokölluðu barnaskólaporti hér við Miðbæjarskólann. En frá því var horfið, og sem sagt, það hefur verið skortur á húsnæði til þess að geta haldið kappræðufundi, húsnæði, sem rúmar hlutfallslega álíka mannfjölda eins og oft kemur saman af slíkum tilefnum annars staðar á landinu. Þannig hafa menn vanizt af því hér í Reykjavík að sækja slíka fundi. En í öðru lagi vil ég taka undir það, sem hæstv. forsrh. sagði eða minntist á einhvern tíma í ræðu sinni, að það útvarp, sem færi fram frá þingsölum, yrði að vera undir eftirliti Alþ. Ég vil taka undir það. Ég álít, að það eigi ekki að fara fram neitt útvarp frá ræðuhöldum í þingsölum, hvorki lengra eða skemmra, hvorki í beinni né óbeinni ræðu öðruvísi en það sé undir eftirliti Alþ. og að um það eftirlit sé samkomulag milli þeirra, sem talast við hér í þessum sölum.