11.03.1968
Neðri deild: 72. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í C-deild Alþingistíðinda. (2505)

145. mál, áburðarverksmiðja ríkisins

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Frv. þetta um Áburðarverksmiðju ríkisins á þskj. 306, sem hér er nú til umr., flyt ég ásamt nokkrum öðrum þm. úr Framsfl. Frv. um sama efni var flutt af okkur flestum hinum sömu mönnum og nú á þinginu 1965—66. Það var flutt þá nokkuð síðla á því þingi og hlaut ekki afgreiðslu. En þá í þinglokin átti hæstv. landbrh. tal við mig um það, að hann vildi eiga þátt í því, að reynt yrði að ná samstöðu um þá grundvallarstefnu, sem það frv. hafði að geyma og það yrði reynt á næsta þingi.

Þegar næsta þing kom saman, áttum við hv. 3. þm. Austf. (JP) að frumkvæði hæstv, landbrh. alllangt samstarf um það að semja nýtt frv., sem hafði að geyma sömu grundvallarstefnu og þá, sem mörkuð var í frv. okkar framsóknarmanna frá árinu áður, sem sé þá að breyta Áburðarverksmiðjunni úr hlutafélagi í hreina ríkiseign með því að taka hlutabréfin, sem aðrir en ríkið áttu í fyrirtækinu, eignarnámi og láta meta þau til verðs, er eigendur þeirra fengju síðan greitt. Landbrh. hafði látið í ljós þá skoðun sina, að hann vildi fara þá leið, áður en eignarnámsheimild yrði notuð, að eigendum hlutabréfanna yrði boðið fyrir þau fimmfalt nafnverð. Staðfesti ráðh. þessa skoðun sína í verki með því að skrifa hluthöfum og spyrjast fyrir um það, hvort þeir vildu selja hlutabréf sín á fimmföldu nafnverði, eins og ráðh. sjálfur upplýsti, að hann hefði gert nú fyrir nokkrum dögum í umr. hér á Alþ. Flestir hluthafanna munu hafa svarað þessu jákvætt að því tilskildu, að salan færi fram á því ári, en þetta var á árinu 1966. Í samræmi við þetta var sett í frv. það, er við Jónas Pétursson, hv. 3. þm. Austf., sömdum, ákvæði um heimild fyrir ríkisstj. til þess að kaupa hlutabréfin á fimmföldu nafnverði. Frv. okkar Jónasar var sýnt landbn. Nd. og mun hafa eitthvað verið athugað þar, en ekkert varð þó úr því, að það yrði flutt. Þá, þ.e.a.s. í fyrra á síðasta þingi, mun ekki hafa verið til staðar full samstaða hjá stjórnarliðum um málið. Var meðal annars í mín eyru borið við, að kosningar væru fram undan og erfitt að eiga við þetta fyrir kosningar: Í vetur hafa svo ég og fleiri þm. alltaf verið að búast við því, að hæstv. landbrh. mundi beita sér fyrir flutningi þessa máls hér á Alþ., annað hvort með samstarfi við þá menn í stjórnarandstöðunni, sem áhuga hefðu á málinu og vildu leysa það á þann hátt, sem ráð var fyrir gert í þeim frv., sem ég hef hér getið, eða þá á vegum stuðningsflokka stjórnarinnar einnar. En hvorugt hefur orðið, og er ég ekki að tala um þetta til þess að sakast hvorki við hæstv. landbrh. eða neinn annan út af þessu. Hins vegar fannst okkur, sem flytjum þetta frv., að við gætum ekki látið málið liggja niðri, því að vitað er, að bændur og fjöldi annarra manna í landinu líta svo á, að ekki megi lengi úr þessu dragast að gera þá breytingu á Áburðarverksmiðjunni, sem hér í þessu frv. er ráðgerð, nefnilega þá að breyta Áburðarverksmiðjunni úr hlutafélagseign í hreina ríkiseign.

Þó að við, sem flytjum þetta frv., séum ekki neinir sérstakir boðberar ríkisrekstrar og viljum láta einstaklinga ýmist eina eða með félagsrekstri annast sem mest framleiðslu og atvinnurekstur í landinu, þá lítum við samt þannig á, að þar sem Áburðarverksmiðjan í Gufunesi framleiðir og flytur inn allan þann áburð, sem notaður er í landinu og hefur þannig algera einkaaðstöðu á þessu sviði, þá sé mjög óeðlilegt, að slíkur rekstur og eign slíks fyrirtækis sé að einhverju leyti í höndum annarra en ríkisins sjálfs. Hér er í raun og veru um einokunaraðstöðu að ræða, sem ekki er rétt að okkar dómi að sé í höndum annarra en ríkisheildarinnar. Þannig mun líka almennt vera litið á af hálfu þeirra, sem viðskipti eiga við Áburðarverksmiðjuna, bændur landsins.

Ég held, að ekki sé of mikið sagt, að bændur séu allverulega tortryggnir í garð Áburðarverksmiðjunnar. Þeir vita, að í öllum þeim umr., sem fóru fram á Alþ. um stofnun Áburðarverksmiðjunnar, og í hinu upphaflega frv., sem Alþ. fjallaði um, var gert ráð fyrir, að Áburðarverksmiðjan yrði sjálfseignarstofnun, en ríkið eitt legði fram eða útvegaði eitt allt það fjármagn, er þyrfti til að koma henni í gagnið. En af einhverjum ástæðum, sem aldrei hafa að fullu verið skýrðar, var á síðasta stigi málsins og öllum að óvörum lögð fram till. á Alþ. um að ríkisstj. fengi heimild til þess að leita eftir hlutafjárframlögum félaga og einstaklinga, og eins og var frá l. að síðustu gengið, var ríkissjóður skyldaður til þess að leggja fram fé, þ.e.a.s. það, sem á vantaði að hlutaféð yrði 10 millj. kr., ef framlög annarra væru ekki lægri upphæð en 4 millj. kr. Rökin fyrir þessari ráðabreytni voru þau aðallega, að fyrirtækinu mundi verða betur stjórnað, ef þeir kæmu þar til, sem ættu einkahagsmuna að gæta. og enn fremur var það á oddi haft, að verulegum fjárhagsbyrðum væri af ríkissjóði létt með þátttöku einkafjármagns, en stofnkostnaðurinn var áætlaður 40 millj. kr.

Þegar til framkvæmdanna kom, varð reynslan sú, að litlu munaði þetta fyrir ríkið, því að stofnkostnaðurinn varð, eins og kunnugt er, 130 millj. kr. Og með ýmsum síðari viðbótum, sem þarna hefur verið lagt í, mun stofnkostnaðurinn vera kominn yfir 200 millj. kr. Sér því hver maður, að litlu máli skiptu þær 4 millj., sem aðrir en ríkið lögðu fram, og með öllu er það óeðlilegt, að verksmiðjan sé hlutafélag, þar sem þeir, er aðeins lögðu fram 4 millj. af þeim rúmlega 200 millj. kr., sem verksmiðjan kostaði, séu taldir eigendur að 2/5 hlutum hennar og hafi íhlutunarrétt um stjórn hennar að 2/5 hlutum, eins og verið hefur. Af þessum ástæðum og fleirum telja flm. þessa frv. tímabært og þó að fyrr hefði verið, að ríkið leysi til sín hlutabréf annarra hluthafa í verksmiðjunni og taki rekstur hennar að öllu leyti í sínar hendur.

Flm. telja skynsamlegt það sjónarmið, sem landbrh. hæstv. setti fram á sínum tíma, að reynt yrði að semja við eigendur hlutabréfanna um, að þeir selji þau á fimmföldu nafnverði, og hafa þess vegna gert ráð fyrir, að sú leið verði reynd, áður en til eignarnáms verður gripið.

Eins og öllum er kunnugt, hefur frá byrjun verið allmenn óánægja meðal bænda yfir því formi, sem áburðurinn er í frá verksmiðjunni, en hann er í formi mjög smárra kristalla, en ekki kornaður, eins og algengast er og þykir langhagfelldasta formið. Vill Kjarninn mjög renna saman í harða kekki við geymslu og við dreifingu vill áburðurinn allmikið rjúka og dreifast nokkuð ójafnt af þeim sökum. Það er svo enn annað, sem Kjarnanum er fundið til foráttu, að hann vilji sýra jarðveg og af þeim ástæðum rýra frjómagn jarðvegsins. Þess vegna eru bændur yfirleitt þeirrar skoðunar, að köfnunarefnisáburður þurfi yfirleitt að vera blandaður kalkefnum. Þeir eru því almennt á þeirri skoðun, að Áburðarverksmiðjunni þurfi hið fyrsta að breyta í það horf, að hún geti framleitt kornaðan og algildan áburð fyrir íslenzkan jarðveg. Sem bóndi verð ég að segja það, að ég hef allmikla áburðar notkun, kaupi mikinn áburð og hef því talsverða reynslu af Kjarnanum. Ég verð að játa það, að ég hef ekki verulega ástæðu til þess að kvarta yfir þessum áburði. Ég hef alltaf fengið mjög mikla uppskeru, eftir að ég fór að bera kjarna á mitt tún, enda hef ég alla tíð notað mjög mikið af steinefnum með áburðinum og það tel ég, að íslenzkir bændur eigi og þurfi að gera, hvaða köfnunarefnisáburð, sem þeir nota, og er ákaflega hræddur um, að það skorti mjög á, að bændur almennt hafi enn þá meðhöndlað þennan tilbúna áburð réttilega í sambandi við þörf þess jarðvegs, sem þeir hafa ræktað. Ég verð að segja það, að ég hef ekki við annað að styðjast í þessu en reynslu mína, ég hef enga lærða þekkingu til þess að tala út frá í þessu máli og ætla mér þess vegna ekki að gerast neinn dómari um framleiðslu Áburðarverksmiðjunnar, en veit, eins og ég sagði áðan, að fjöldi bænda er óánægður með kjarnaáburðinn.

Ég tel vafalaust, að það þurfi að vinda bráðan bug að því að breyta og stækka Áburðarverksmiðjuna. Mér er kunnugt um, að nú er að ryðja sér til rúms ný tækni erlendis við framleiðslu áburðarefna, og ég hygg, að sú aðferð, sem hér er notuð, sé að verða eða þegar orðin á eftir tímanum. Ekki þykir mér líklegt, að hér séu neinir þeir einstaklingar eða félög nú, hvorki þeir, sem fjórar milljónirnar lögðu fram í Áburðarverksmiðjuna á sínum tíma, né aðrir, sem nú mundu vilja eða geta lagt fram fé í þær endurbætur á Áburðarverksmiðjunni, sem nauðsynlegar eru, eða til að reisa nýja verksmiðju með nýrri og viðeigandi tækni til framleiðslu áburðarefna, sem nú er orðið aðkallandi að koma í framkvæmd, eins og ég hef lítillega vikið að. Þetta atriði út af fyrir sig knýr á um það, að ríkið taki í sínar hendur alla forustu í þessu máli, verði eitt eigandi Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi og hefji síðan hið bráðasta forgöngu um þá þróun áburðarefnaframleiðslu, sem færustu sérfræðingar í þeirri grein ráðleggja. Það er talið af kunnugustu mönnum, að nauðsynleg breyting á verksmiðjunni og sú stækkun, sem talið er að hæfa muni, muni kosta með núverandi gengi íslenzkrar krónu um 290—300 millj. kr. Er það um þriðjungi hærri krónutala en allur stafnkostnaður verksmiðjunnar var á sínum tíma. Fróðir menn telja, að endurnýjunarverð Áburðarverksmiðjunnar, eins og hún er nú, hafi fyrir síðustu gengisfellingu verið um 450 millj. kr., og mun nú mega bæta við þá upphæð um 100 millj., síðan gengisfellingin var gerð. Verksmiðjan er búin að starfa síðan 1954 eða í 14 ár. Hún átti starfsafmæli núna fyrir fáum dögum. Það var 7. marz 1954, sem hún hóf framleiðslu. Mér er sagt, að fyrningarsjóðir hennar séu ekki nema 170 millj. kr., svo að skammt mundi það fé duga henni til endurnýjunar, en nú fer óðum að nálgast endurnýjunarstig margra véla og tækja í verksmiðjunni, eins og eðlilegt er eftir svo langan starfstíma, sem kominn er.

Hlutafé einstaklinga og félaga í verksmiðjunni var, eins og ég gat um áður og fram hefur komið fyrr hér, 4 millj., eða um 2% af stofnkostnaði, sem var með viðbótum um 200 millj. kr. Nú er ráðgerð stækkun upp á 300 millj. Það auðvitað eykur verðmæti verksmiðjunnar um þá upphæð. Ef slík framkvæmd verður gerð þannig, að ríkið leggi fram eða ábyrgist þetta fé, þá er verið að stórauka verðmæti hlutafélagsins öðrum hluthöfum að kostnaðarlausu, nema þeir leggi fram nýtt hlutafé. Jafnvel þótt þeir gerðu það, sem þó er ekki líklegt, yrði það varla stærri hundraðshluti nú en þegar verksmiðjan var reist. Allir hljóta að sjá, að slíkur félagsskapur ríkis og einstaklinga, þar sem ríkið leggur fram 98% af stofnkostnaði, en á aðeins 60% af fyrirtækinu, en einstaklingar og félög leggja fram 2% af stofnkostnaði, en eru talin eiga 40% í fyrirtækinu, það er í fyllsta máta óeðlilegt og líklega einsdæmi, ég vil segja í allri veraldarsögunni, að til stórfyrirtækis hafi verið stofnað með þeim hætti. Þessu álitum við flm. þessa frv., að þurfi að breyta hið allra fyrsta á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Áburðarnotkunin hefur aukizt mjög mikið á þeim 14 árum, sem verksmiðjan hefur starfað, var á s.l. ári 56 þús. tonn, en er áætluð núna á þessu ári 64 þús. tonn. Þar af er áætlað að flytja inn um 40 þús. tonn af áburði. Stækkun og endurbót er því bráðnauðsynleg og þyrfti að vera komin í gagnið, þegar Búrfellsvirkjunin er fullgerð, því að það má gera ráð fyrir, að næg raforka verði fyrir hendi um nokkurt skeið fyrir verksmiðjuna, en nú og að undanförnu hefur verksmiðjan, eins og allir vita, gengið á afgangsorku, og hefur orkuskortur tafið rekstur hennar og minnkað framleiðsluna.

Fyrir nokkrum árum fékk hæstv. landbrh. Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi einkasölu á öllum áburði og lagði niður þá stofnun, áburðareinkasölu ríkisins, er þetta hlutverk hafði haft. Voru eignir þessa fyrirtækis látnar renna, — ef ég man rétt, — til rannsókna í þágu landbúnaðarins. Þetta sætti nokkurri gagnrýni ýmissa á sínum tíma, og skal það ekki rifjað upp eða rakið hér. En hvort sem sú tilskipun var rétt eða ekki rétt, hefur hún nú staðið í nokkur ár, og það er ekki líklegt, að frá henni verði horfið að sinni, enda hefur framkvæmdin í höndum Áburðarverksmiðjunnar ekki sætt neinum verulegum aðfinnslum, svo að ég viti til.

Í Gufunesi hefur verið lagt í verulegar framkvæmdir vegna löndunar á innfluttum áburði og áburðarefnum og blöndunar á áburðartegundum, sem því aðeins notast, að þar verði áfram þessi starfsemi. Með því að gera Áburðarverksmiðjuna að hreinu ríkisfyrirtæki, eins og lagt er til með þessu frv., hefur okkur flm. einnig þótt rétt að fela henni með lögum allan innflutning og einkasölu áburðar, enda höfum við ekki komið auga á annan aðila, sem fremur ætti að hafa slíkt með höndum. Heyrzt hafa þær raddir, að gefa ætti innflutning áburðar frjálsan. Það lætur vel í eyrum. En er þá nú fyrir hendi nokkur sá aðili í landinu, sem mundi vilja taka þá skyldu að sér að sjá bændum fyrir áburði og koma honum á hafnir í tæka tíð og tryggja sanngjörn viðskiptakjör? Ég fyrir mitt leyti teldi ekki vogandi fyrir bændurna að minnsta kosti að hætta á slíkt, en skal ekki ræða um það frekar. Frjáls verzlun er að vísu æskileg. En ég hygg, að hún geti varla náð til þessarar vörutegundar, áburðarins, nú í næstu framtíð, enda yrði slíkur innflutningur að takmarkast við það magn, sem Áburðarverksmiðjan getur ekki framleitt ein. Með þessu frv, er því lagt til, að lög nr. 51 28. jan. 1935, um verzlun með tilbúinn áburð, séu felld úr gildi, en meginefni þeirra er fellt inn í frv. í 9. og 10. gr. þess.

Um allmörg ár hefur það mál verið til umræðu meðal bænda og búvísindamanna, að hér þurfi víðtækar jarðvegsrannsóknir að fara fram til könnunar á því, hvaða áburðarefni jarðveginn skorti helzt og hvað stóra skammta af hverju efni fyrir sig hver flatareining ræktaðs lands þurfi að fá, svo að hún geti skilað eðlilegu uppskerumagni. Dálítið hefur verið unnið að þessum rannsóknum á síðustu árum, en það hefur skort fé til þess, að fullnægjandi hafi verið til að sinna verkefninu. Þetta starf er, eins og öll önnur vísindastörf, mjög þýðingarmikið, ekki aðeins fyrir bændurna eina, heldur þjóðina í heild og getur áreiðanlega skilað aftur margfaldlega því fé, sem til þess er kostað.

Okkur flm. þótti rétt að leggja til í frv., að litlum hluta af heildarsölu Áburðarverksmiðjunnar, 1/2 %, yrði safnað í sjóð, er hefði það hlutverk að styrkja jarðvegsrannsóknir. Miðað við sölu áburðar og verð undanfarinna ára gætu þannig safnazt ein til ein og hálf millj. króna á ári. Þetta er að vísu ekki mikið fé, en það má þó dálítið gera fyrir þetta og vinna að þessu verkefni á næstu árum, ef þessi fjárupphæð væri fyrir hendi. Um þetta yrði auðvitað að setja reglugerð og við höfum gert ráð fyrir, að landbrh. setji hana að fengnum tillögum verksmiðjustjórnarinnar, sem hefði sjóðinn undir höndum, en Rannsóknastofnun landbúnaðarins fengi féð til jarðvegsrannsóknanna eins og hún ákvæði og skipulegði þau verkefni hverju sinni. Í samb. við þetta leggjum við til, að fulltrúar bænda fái aðild að stjórn Áburðarverksmiðjunnar. Áburðarverksmiðjan verður að vera að okkar dómi í augum bænda það, sem hún á að vera, eins konar þjónustustofnun við landbúnaðinn. Bændurnir verða að líta þannig á hana og mega ekki horfa til þessarar þýðingarmiklu stofnunar með tortryggni. Slíkt þarf að útiloka. Það er mikilvægt til að efla tengsli bændanna við þessa stofnun, að þeir eigi þar fulltrúa í stjórn. Þessir fulltrúar þeirra ættu að geta fylgzt með því og haft áhrif á það, að verksmiðjan á hverjum tíma þjóni hagsmunum bændanna sem bezt.

Það er gert ráð fyrir í frv. 7 manna stjórn og 5 þeirra séu kosnir hlutfallskosningu hér í Sþ. til 4 ára í senn og að einn verði kosinn af búnaðarþingi og einn á aðalfund Stéttarsambands bænda, en að landbrh. skipi formann verksmiðjustjórnarinnar úr hópi hinna þingkjörnu stjórnarmanna. Með þátttöku bændafulltrúa í stjórninni er farið inn á sams konar aðild að stjórn fyrirtækisins og gert var með breyt. á l. um Síldarverksmiðjur ríkisins á síðasta þingi, þar sem tveir af sjö stjórnarmönnum eru annar frá útvegsmannasambandinu, en hinn frá félögum eða samböndum fiskimanna og sjómanna og Alþýðusambandi Íslands.

Með þessum fáu orðum þykist ég hafa gert nokkra grein fyrir efni frv. í heild, en ég hef ekki rakið og skýrt einstakar greinar þess, enda held ég, að þær skýri sig allar mjög einfaldlega sjálfar. Ég vil vona, að mál þetta fái vandlega athugun í nefnd og afgreiðslu á þessu þingi. Ég hygg, að flestir, sem hugsa um þetta mál, finni, að það er ekki lengur hægt fyrir Alþ. að koma sér hjá því að taka ákvörðun í þessu máli.

Í þeim umr., er fóru fram hér í þessari hv. d. nú fyrir nokkrum dögum, þegar rætt var frv. það um Áburðarverksmiðjuna, sem þeir flytja hér hv. 6. þm. Reykv. (MK) og hv. 4. þm. Austf. (LJós), gat ég ekki betur heyrt en hæstv. landbrh. lýsti áhuga sínum fyrir því, að l. um Áburðarverksmiðju ríkisins yrði breytt á þann hátt, að hún yrði gerð að ótvíræðri ríkiseign, og hann vildi láta landbn. d. vinna upp úr þeim þremur frv., sem nú eru til um þetta, svo vel útbúið lagafrv., að þm. yfirleitt gætu sameinazt um það, og hann bauðst til þess að veita sína aðstoð að þessu leyti. Mér finnst þetta fyrir mitt leyti hyggileg afstaða af hendi ráðh., og ég fagna henni. Ég held, að það beri ekki svo mikið á milli manna í þessu máli, að það bil verði ekki brúað. Það mun ekki standa á okkur flm. þessa frv. til samvinnu í málinu, ef eftir því verður leitað, og fyrir okkur er það fyrst og fremst aðalatriðið, að Áburðarverksmiðjan verði gerð að ótvíræðri ríkiseign. Með hvaða hætti því takmarki verður náð, er ekkert aðalatriði fyrir okkur, að því þó tilskildu, að ekki verði náðzt á þeim aðilum, sem hlutabréf eiga í fyrirtækinu. Það vil ég taka fram. Ég tel, að þessir hluthafar verði að fá sitt fé endurgreitt á einhvern þann hátt, að þeir verði skaðlausir af því að hafa átt það þar bundið, síðan verksmiðjan var reist. Ég tel, að með því að þeir fái fimmfalt nafnverð bréfanna, muni þeir e.t.v. verða skaðlausir, en fullyrði þó ekkert um það. Ég hef ekki gert neina útreikninga eða látið gera neina útreikninga á því, hvað þeir þurfa að fá raunverulega fyrir sín bréf til þess að verða raunverulega skaðlausir miðað við það, að þeir hefðu átt féð annaðhvort á venjulegum vöxtum eða þá í einhverjum arðbæram rekstri eða fyrirtækjum, svoleiðis að um þetta fullyrði ég ekkert, þó að við hins vegar höfum sett í frv. ákvæði um það, að reynt verði að fá hlutabréfin keypt á fimmföldu nafnverði. Hugmyndin um þá leið í þessu máli, að það verði samið um fimmfalt verð bréfanna, er frá hæstv. landbnh. komin, og eins og hann upplýsti hér, var því ekki illa tekið af eigendum þessara bréfa að láta þau af hendi á því verði. Ég vona, að það geti allir orðið sammála, bæði eigendur bréfanna og þm., um þá leið, og þá ættu önnur atriði í þessu máli að mér sýnist ekki að verða erfið í meðförum hv. Alþ.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að gera. till. um það, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. landbn.