26.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í C-deild Alþingistíðinda. (2511)

166. mál, sjúkrahúsalög

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti.

Við 3 alþm. höfum leyft okkur að flytja hér frv. á þskj. 390 um breyt. á sjúkrahúsalögum.

Það eru víst flestir samála um það, að aðall menningar- og lýðræðisþjóðfélags sé það að búa vel að þeim þegnum þjóðfélagsins, sem af einhverjum ástæðum eru ekki sjálfbjarga, hvort sem það er vegna sjúkdóma eða fátæktar eða fyrir aldurs sakir. Hér í okkar landi hafa verið unnin stórvirki á ýmsum sviðum og í ýmsum þáttum þessara mála. Ríkið og raunar fleiri aðilar hafa staðið að því að koma upp mjög myndarlegum sjúkrahúsum. Við búum við víðtækt tryggingakerfi, þar sem m.a. er mjög vel séð fjárhagslega fyrir þeim, sem sjúkir verða og þurfa á læknishjálp að halda, að minnsta kosti svo lengi, sem hægt er að veita hana innanlands. Tryggingakerfi okkar er víðtækt og að mörgu leyti ágætt, og við megum vera stoltir af því og raunar einnig af því, sem ríkið hefur unnið og aðrir opinberir aðilar í uppbyggingu stofnana fyrir þá, sem miður mega sín í þjóðfélaginu. En þó megum við sennilega vera allra stoltastir af þeim afrekum, sem unnin hafa verið í þessum efnum á vegum einstaklinga eða félagasamtaka. Þar er eitt með öðru og eitthvert stærsta átakið það, sem Samband ísl. berklasjúklinga hefur gert. En fleiri félög og einstaklingar hafa lagt þar mjög mikið af mörkum í ýmsum greinum.

Lög um sjúkrahús eru gömul. Árið 1964 var gerð á þeim breyt. og breyt. felld inn í meginmál, en upphaflegu l. eru miklu eldri. Í þessum l. um sjúkrahús segir svo í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Enginn má setja á stofn eða starfrækja undir neinu nafni sjúkrahús, sjúkraskýli, geðveikrahæli, heilsuhæli, hjúkrunar- eða hressingarheimili, baðstaði, nuddstofur, ljóslækningastofnanir, fæðingarheimili, elliheimili, barnahæli eða aðrar tilsvarandi heilbrigðisstofnanir, nema með leyfi ráðh. Sama gildir um breytingar á húsakynnum og starfrækslu slíkra stofnana, enda skipti breytingarnar einhverju máli.“ Þannig hljóðar 1. gr. sjúkrahúsalaganna. Síðar eru í þessum l. skýr ákvæði um það, hver sé hlutur ríkissjóðs í byggingu og rekstri sjúkrahúsa og læknisbústaða o.s.frv. Hins vegar eru ekki í lögunum nein ákvæði um beina þátttöku í kostnaði við byggingu né heldur rekstur dvalarheimila eða elliheimila. Það, sem felst í því frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., er það, að hér verði breytt um og tekið í l. ákvæði um vissa þátttöku ríkissjóðs einnig varðandi elliheimili.

Ég vil aðeins skýra með örfáum orðum, hvernig þetta er formað af hálfu okkar flm. Í 1. og 2. gr. frv. felst breyt. á 6. og 7. gr., sem fjalla um form samtaka um byggingu elliheimila, hvernig þau skuli byggð upp. Okkur virðist, að um það geti eftir atvikum gilt alveg sömu ákvæði og nú eru í sjúkrahúsalögunum varðandi sjúkrahús og læknisbústaði. Í 3. gr. frv. er tilsvarandi breyting á 8. gr. laganna, sem fjallar um það, hvernig með skuli fara, ef slíkar stofnanir eru lagðar niður. Í 4. gr. frv. er svo vikið að 10. gr. l., þar sem fjallað er um þátttöku ríkissjóðs í stofnkostnaði. Er lagt til að bæta við hana sérstakri mgr. um þátttöku í kostnaði við byggingu dvalar- og elliheimila. Og í 5. gr. frv. felst breyting á 12. gr. l., en þar er fjallað um þátttöku ríkissjóðs í rekstrarkostnaði. Og það er einnig hafður þar sami háttur um rekstrarkostnaðinn, eins og nú er í l. varðandi sjúkrahúsin, að það er lagt í vald ráðh. að ákveða hann í reglugerð. 6. og síðasta efnisgrein frv. okkar er um breyt. á 13. gr. l., og þar er nú nánast um eðlilegar formsbreytingar að ræða, sem leiða af því, sem áður hefði, þá verið breytt.

Það má vissulega segja, að það hafi verið eðlilegar og skiljanlegar ástæður, sem til þess lágu, þegar gildandi lagaákvæði um þátttöku ríkisins í byggingu og rekstri sjúkrahúsa og læknisbústaða voru sett, að ekki var gengið lengra í að ákveða þátttöku ríkissjóðs. Þá hefur vafalaust mátt segja, að þörfin væri enn brýnni á þessum sviðum. Síðan hefur margt breytzt. Það er ekki einasta, að síðan þessi lagaákvæði voru upphaflega sett, hafi verið byggð sjúkrahús og sjúkrarúmum í landinu fjölgað mjög, heldur hefur einnig á hinn bóginn varðandi gamla fólkið orðið mjög mikil breyting. Það hafa að vísu verið gerð þar einnig mikil átök, og þau hafa leyst vandann í vissum landshlutum og á vissum stöðum, en þróunin almennt varðandi eldra fólkið hefur orðið sú, bæði vegna breyttra lífsvenja á heimilum og eins vegna bættra heilbrigðisástæðna með þjóðinni, að það eru sífellt fleiri og fleiri af hinni elztu kynslóð, sem þurfa á þeirri fyrirgreiðslu að halda, sem veitt er á dvalar- og hjúkrunarheimilum aldraðs fólks. Það held ég, að fari ekki á milli mála, að slík hefur þróunin orðið, og ég held líka, að það geti allir verið sammála um það, að þeirri þróun verður varla snúið við, hvorki með löggjöf eða á annan hátt.

Ef við virðum fyrir okkur og þó aðeins lauslega ástandið í þessum málum, málefnum aldraða fólksins, eins og þau eru núna í dag, má segja, að það blasi við þrenns konar myndir.

Á einu leitinu eru þau stórvirki, sem unnin hafa verið annars vegar af hálfu einstaklings, þar sem er uppbygging Elliheimilisins Grundar og útibús þess í Hveragerði, sem er orðið mjög myndarlegt og hefur stöðugt verið að færa út kvíarnar, og svo Dvalarheimili aldraðra sjómanna á Hrafnistu, þar sem til hafa komið voldug almannasamtök, þ.e.a.s. samtök sjómannanna, sem einnig hafa notið þeirra réttinda að reka mjög myndarlegt og ábatavænlegt landshappdrætti. Þetta er á einu leitinu. Og það er eftirtektarvert og um leið eðlilegt, að þessar stóru framkvæmdir eru einmitt hér í höfuðstaðnum og næsta nágrenni hans.

Á hinu leitinu er svo það ástand, sem er nú víðast í kaupstöðum og e.t.v. í stærri kauptúnum, að þar hafa menn komið upp nokkurri aðstöðu til þess að leysa allra mesta vandann. Þetta hefur oft verið gert af vanefnum og víða verið mjög hart á dalnum varðandi þessar framkvæmdir og varðandi rekstur þessara stofnana. Sums staðar hafa menn notið nokkurs stuðnings af því að hafa þessar stofnanir í tengslum við sjúkrahús viðkomandi staða. Annars staðar er um hrein dvalarheimili aldraðra að ræða.

Í þriðja lagi eru svo þau svæði, þar sem alger vöntun er á aðstöðu fyrir eldra fólkið, þegar veru þess á heimilum sleppir. Þannig er þetta víðast á strjálbýlli svæðunum, í sveitum og í kauptúnum, a.m.k. hinum minni. Og þetta, að þannig er ástatt, er ekki eingöngu af því, að fjárhagsleg aðstaða til framkvæmda hafi verið þetta miklu verri á hinum fámennari stöðum. Þetta stafar einnig af því, að þar segir þörfin miklu seinna til sín heldur en í kaupstöðunum. Þar er þjóðlífsbreytingin, breytingin á aðstöðu heimilanna og uppbyggingu þeirra, seinni á ferðinni en í kaupstöðunum og þar hafa menn þess vegna verið þess lengur umkomnir að leysa að verulegu leyti þetta vandamál sjálfir heima á heimilunum. Nú hins vegar standa menn á þessum slóðum og við þessar aðstæður frammi fyrir því í æ ríkara mæli, að menn verða að fara að leysa þetta mál á annan hátt. Og menn sjá fram á mjög mikla erfiðleika, eru nærri ráðþrota.

Ég ætla ekki að eyða tíma hv. þd. í það að útlista, hversu eðlilegt það sé, að aldrað fólk fái þá fyrirgreiðslu, sem það þarf. Það er svo oft í það vitnað, að það eigi ekki aðrir þegnar þjóðfélagsins meiri rétt á því að njóta fyrirgreiðslu af hálfu ríkisvaldsins heldur en þeir elztu, sem búnir eru að vinna sinn langa starfsdag í þjóðfélaginu og á þann hátt að leggja sitt af mörkum til uppbyggingar þess. Ég ætla ekki að fara að eyða orðum að því að rökstyðja það.

En það er vissulega margs að gæta, þegar um þessi mál er fjallað. Mönnum er að verða það æ betur og betur ljóst, að það er ekki einhlítt og raunar ekki það æskilega að safna aldraða fólkinu saman í mjög stórar byggingar á tiltölulega fáum stöðum á landinu. Þvert á móti gera menn sér áreiðanlega æ betur grein fyrir því, að það æskilega er að stefna að því öllu í senn, að sem flestir eigi þess kost að eyða ævidögunum nálægt sínum ættmennum og helzt í átthögum sínum, að aldraða fólkið eigi þess kost eftir getu og vilja að hafa einhverja vinnuaðstöðu, sinna einhverri vinnu, og í þriðja lagi er það auðvitað æskilegt og að því hefur verið unnið og á mjög myndarlegan hátt í Hveragerði t.d., að gefa þessu fólki kost á misstórum íbúðum, þ. e. vistarverum við hæfi. Sumum hentar bezt að búa í einu herbergi einir saman, öðrum hentar vel að vera á tveggja manna stofum. Í mörgum tilfellum er um að ræða hjón, sem hentar bezt að geta búið saman, en haft alla aðhlynningu, mat og annað frá stofnuninni. Og í enn öðrum tilfellum getur það verið æskilegt, að aldraða fólkið geti um eitthvert árabil búið alveg út af fyrir sig og séð um sig sjálft. Ég held, að um þetta séu raunar allir á einu máli, og menn geri sér glögga grein fyrir þessu, eins og nú er komið. Ég held líka, að það hljóti allir að vera ásáttir um það, að þessi mál eru mjög illa á vegi stödd víða, og menn sjá fram á vaxandi þarfir í þessu efni af þeim ástæðum, sem ég vék að áðan. Langlífi fer vaxandi með þjóðinni með bættri heilbrigðisþjónustu, þjóðfélagsaðstæður varðandi uppbyggingu heimila eru breyttar og æ fleiri búa nú í þéttbýli.

Hér í d. er frv. um byggingarsjóð aldraðra, sem hv. 10. þm. Reykv. er 1. flm. að. Það er gott, að því frv. er vel tekið, og það er vonandi, að það fái afgreiðslu á þessu þingi, því að það mundi mjög greiða fyrir lausn þessara mála. Ég vil einnig leyfa mér að vænta þess, að þetta frv. verði skoðað vandlega.

Eins og komið hefur fram í umr. um það mál, sem ég vék að núna, þá starfar n. að undirbúningi heildarlöggjafar um þessi mál. Eftir því, sem ég hef komizt næst, á málið töluvert langt í land hjá þeirri n. Málið í heild er auðvitað umfangsmikið, og mér skilst, að hún ætli sér að vinna mjög ítarlega, safna gögnum og vinna úr þeim mjög ítarlega. Það virðist því eiga langt í land, bæði að n. ljúki störfum og síðan er þá eftir að setja löggjöf í samræmi við niðurstöður hennar. En hins vegar er skjótra aðgerða þörf í þessum málum, mismunandi að vísu eftir landshlutum og stöðum. Það er hins vegar svo, eins og ég minntist á í upphafi, að sjúkrahúsalöggjöfin skapar ramma til þess að fella inn í ákvæði um beinan fjárstuðning ríkisvaldsins við dvalar- og hjúkrunarheimili aldraðs fólks. Og með þessu frv. er stefnt að því, að fella slík ákvæði inn í þennan ramma og að víkka út svið þessarar löggjafar, þannig að hún nái einnig til þessara atriða. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram, að þó að þetta yrði gert, er eftir að ákveða fjárveitingar, og það verður auðvitað ekki gert nema í sambandi við afgreiðslu fjárl. á hinn venjulega hátt. Og ég vil vekja athygli á því aftur, að einmitt sjúkrahúsal. fela það í sér, að stjórnarvöld hafa allan rétt til að fylgjast með og leggja endanlega samþykki sitt á allar ákvarðanir varðandi staðsetningu og fyrirkomulag dvalar- og hjúkrunarheimilanna, eftir að þeim hefur verið breytt á þann hátt, sem við leggjum til, alveg á sama hátt og þau nú hafa varðandi sjúkrahús og læknisbústaði.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.