26.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í C-deild Alþingistíðinda. (2522)

169. mál, áfengislög

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Alþingi kaus í maímánuði 1964 n. til þess að athuga um áfengisvarnamálin, og sú n. skilaði áliti sínu til dómsmrn. ásamt frv., sem hún samdi um breyt. á áfengisl., og það frv. lagði ríkisstj. fram á síðasta þingi, og því var vísað til allshn., sem afgreiddi þetta frv., en það var ekki útrætt á því þingi. Allshn. eða meiri hl. hennar gerði nokkrar breyt. á þessu frv. og í sínum till., og nú hefur það skeð, sem fram kemur í grg., að dómsmrn. hefur með bréfi dags. 27. nóv. s.l. óskað þess, að allshn. flytti þetta frv. að nýju og hefur n. orðið við þeirri beiðni og flutt það frv., sem hér liggur fyrir. N. var á því við samningu á þessu frv., sem hér liggur fyrir, að gera þær breytingar frá upprunalega frv., sem áfengismálan. samdi, að lækka aldursmark áfengisl. úr 21 ári í 20 ár, en það er í samræmi við breyt. á aldursmörkum, sem þegar hafa komið til framkvæmda, svo sem lögræðisaldur, hjúskaparaldur og kosningarréttur til sveitarstjórna, eða eru til meðferðar hér á Alþ. eins og stjórnarskrárbreytingin um kosningarrétt við alþingiskosningar. Hins vegar er fellt niður úr þessu frv. frá frv. því, sem áfengismálan. samdi, það skilyrði, sem var í því frv., að skylda vinveitingahús til að hafa opið án vínveitinga eitt laugardagskvöld af hverjum 4. Meiri hl. allshn. féllst ekki á þetta ákvæði og taldi það ekki vera til neinna bóta við afgreiðslu málsins í n. á s.l. ári, og n. er enn á þeirri skoðun að halda sér við það ákvæði, en þetta eru tvær meginbreytingarnar og eiginlega einu breytingarnar, sem einhverju máli skipta frá frv., sem áfengismálan. samdi á sínum tíma. Loks er tekið upp í frv. að ósk borgarstjórnar Reykjavíkur breytt fyrirkomulag áfengisvarna í Reykjavík í samræmi við samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur frá 20. júlí s.l. árs um nýskipan félagsmála í Reykjavík, og er samþykkt borgarstjórnar prentuð sem fskj. með þessu frv. Fyrst um sinn er ætlunin, að áfengisvarnan. annist bindindis- og fræðslustarfsemi hér í höfuðborginni, en félagsmálaráð mun annast aðstoð við drykkjumenn og fjölskyldur þeirra. Þá er gert ráð fyrir því, að nánari ákvæði um verkaskiptingu milli félagsmálaráðs og áfengisvarnan. verði sett í reglugerð. Í sambandi við þessa beiðni. borgarstjórnar Reykjavíkur hafa þó ekki verið gerðar hér á Alþ., sem nú stendur, aðrar breytingar til samræmis við þessa breyttu skipan með stofnun félagsmálaráðs borgarstjórnar Reykjavíkur. Ég vil taka það fram að beiðni einstakra nefndarmanna í allshn., að þó að allshn. flytji þetta frv. að beiðni dómsmrn., er það ósk n., að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hennar að nýju, því að einstakir nm. vilja frekar fara yfir frv. og áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma undir meðferð málsins hér í hv. þd. Ég legg því til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til allshn.