26.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í C-deild Alþingistíðinda. (2529)

169. mál, áfengislög

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Því miður þurfti ég nú að fara frá á annan fund, svo að ég gat ekki hlustað á þessar umr., en mér skilst, að það hafi orðið einhverjar deilur um það, hver það væri, sem hafi samið þetta frv. Ég heyrði, að hv. 1. þm. Vestf. sagði í upphafi sinnar ræðu, að hér væri um stjórnarfrv. að ræða. Mér finnst alveg sjálfsagt, að það verði hver að kannast við sitt barn, og ég skal fúslega játa það, að ég samdi þetta frv., en ekki ríkisstj., hún er alsaklaus af því að hafa samið þetta frv. Ég hygg, að það, sem liggi til grundvallar því, að dómsmrn. óskaði eftir því, að n. flytti frv., sé það, að ríkisstj. lagði fram frv. á síðasta þingi, sem áfengismálanefnd samdi, og hún lagði það fram alveg óbreytt. Meiri hl. allshn. breytti því frv., og það varð ekki útrætt á síðasta þingi, og þá hygg ég, að dómsmrh. hafi hugsað sem svo, að það væri rétt, að þessi n., sem hafi breytt þessu frv., flytti þá frv. á yfirstandandi þingi. Ég skal taka á mig þá sök, sem orðið hefur á þeim drætti að flytja frv. frá því að beiðni dómsmrn. barst mér í hendur í lok nóvembermánaðar, og ég hygg, að ef áhugamenn fyrir málinu vilja fá frv. afgreitt hér á Alþ., hafi nú mörg frv., sem eru viðameiri og efnismeiri en jafnvel frv., sem áfengismálan. samdi, verið afgreidd á skemmri tíma heldur en eftir er til þingloka.

Þau nýju ákvæði, sem komu hér inn í frv. og flutt eru að beiðni borgarstjórnar Reykavíkur, eru auðvitað einnig okkar mál í allshn. Ég lagði þetta frv. fyrir allshn. og skýrði frá ósk dómsmrh. um það, að n. flytti frv. og skýrði það fyrir nm., hverjar breyt. væru í þessu frv. frá upprunalegu frv. áfengismálan., sem ríkisstj. lagði fram. Hv. 1. þm. Norðurl. e. tók það fram, að hann hefði ekki kynnt sér til hlítar það frv., enda átti hann ekki sæti í allshn. í fyrra, en hann vildi veita sitt samþykki fyrir því, að frv. væri flutt af allshn. með þeim fyrirvara, að því yrði vísað til n. aftur, vegna þess að hann og fleiri nm. í allshn. eru nýir í þeirri n. og höfðu ekki fjallað um frv. á síðasta þingi. Ég vona, að þessi orð séu þó hér til skýringar og sannfæri minn ágæta vin, 1. þm. Vestf., um það, að ríkisstj. eigi þetta barn ekki, heldur við í allshn.