24.10.1967
Efri deild: 7. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í C-deild Alþingistíðinda. (2540)

15. mál, Búnaðarbanki Íslands

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv þetta um breyt. á l. um Búnaðarbanka Íslands er borið fram af þm. Framsfl., þeim, er sæti eiga í þessari hv. d.

Frv. miðar að því að efla að miklum mun veðdeild Búnaðarbankans og styrkja með því veikan hlekk, sem nú er í bankakerfinu. Hlutverk veðdeildar Búnaðarbankans skv. gildandi l. er það fyrst og fremst að veita lán vegna jarðakaupa og greiða þannig fyrir eðlilegum viðskiptum á því sviði. En um langt skeið hefur veðdeildina skort tilfinnanlega fjármagn til þess að gegna þessu hlutverki svo vel sem þörf er á og löggjafinn hefur væntanlega ætlazt til að auðið væri.

Þeir, sem vilja efla aðstöðu atvinnurekstrar í sveitum, telja að vísu mikilvægt, að sem mest festa sé í sveitabyggðinni og að jarðir gangi ekki kaupum og sölum, nema fullkomin ástæða sé til. En það er eins í þeim atvinnurekstri og á öðrum sviðum, að ekki er hægt að líta fram hjá því, að óhjákvæmileg er breyting á þessu sviði þannig, að yngri kynslóðin taki við starfi af hinum eldri og geti þá fengið viðhlítandi aðstöðu til að hefja atvinnurekstur. Þróunin hefur verið sú, að búin hafa yfirleitt stækkað og mannvirki á hverju sveitabýli aukizt, en um leið og þróunin stefnir í þessa átt er að miklum mun meira verðmæti bundið í fasteignum í sveitum en áður var. Þessi þróun hefur orðið vegna framkvæmda þeirra, sem atvinnureksturinn stunda, og ríkisvaldið hefur vissulega á margan hátt örvað þessa þróun og stutt að því, að framkvæmdir gætu aukizt í sveitum landsins. Framleiðslan er yfirleitt rekin með vélaafli, svo að afköst við vinnuna verða meiri en áður var, á meðan verkfæri voru frumstæðari. Verðlagsþróunin í landinu veldur því einnig, að miklu fleiri krónur þarf fyrir hverja fasteign nú en var fyrir tiltölulega skömmum tíma. Allt þetta kallar á það, að sæmilega sé séð fyrir lánastarfsemi í sambandi við eigendaskipti á bújörðum, og ef ekki er séð fyrir því og sæmilega búið um hnútana á þessu sviði, verður það æ vaxandi vandamál, eftir því sem meira fjármagn er bundið í fasteignum í sveitum, hvernig á að búa svo í haginn, að unga kynslóðin geti tekið við af þeirri eldri, sem verður að hætta störfum fyrir aldurs sakir eða af öðrum ástæðum, og þarf að skila af sér til hinna yngri. En fari svo, að ekki sé gert kleift að styðja hina ungu til atvinnurekstrar í sveitum, virðist ekki annað liggja fyrir en sveitabýli, fleiri eða færri fari í eyði m.a. af þessum sökum. Og ef þróunin verður á þá lund, skapast ný og vaxandi vandamál í sveitum.

Það hefur verið mjög á dagskrá hér undanfarið hvaða ráðum eigi að beita til þess að viðhalda og auka jafnvægi í byggð landsins, og nokkur viðleitni hefur verið sýnd í þá átt af hálfu löggjafans að veita stuðning í því skyni, að jafnvægisleysið aukist ekki, að minnsta kosti ekki ört frá því, sem nú er. Ég minni á atvinnujöfnunarsjóð í þessu sambandi. En hægara er að styðja en reisa, segir máltækið, og það væri vissulega spor í þessa átt að efla veðdeildina og greiða þannig fyrir eðlilegum og óhjákvæmilegum eigendaskiptum á jörðum og styðja þannig hina ungu til þess að geta hafið sjálfstæðan atvinnurekstur í sveitum landsins. Það mundi jafnvel spara ýmis önnur útgjöld t.d. á vegum atvinnujöfnunarsjóðs og spara ríkisframlög á öðrum sviðum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sökum fjárskorts hefur veðdeild Búnaðarbankans á undanförnum árum ekki getað veitt lán, nema mjög takmarkað, vegna þeirra viðskipta, sem hér um ræðir. Það eru ekki mjög mörg ár, síðan hámark veðdeildarláns vegna kaupa á jarðeign var 35 þús. kr. Fyrir nokkru var þetta mark fært upp í 100 þús. kr., og mér er það kunnugt, að Stéttarsamband bænda taldi þessa aðstoð vera alls kostar ófullnægjandi og lagði áherzlu á það í sambandi við samninga á afurðaverði, að á þessu yrði ráðin nokkur bót. Þetta leiddi til þess, að ríkisstj. beitti sér fyrir því, að þetta hámark yrði fært upp í 200 þús. kr., og mun það hafa komið til framkvæmda á þessu ári. Þetta sýnir, að forstöðumönnum bændasamtakanna er það vel ljóst, hvar skórinn kreppir í þessu efni, og að þeir hafa fyrir sitt leyti lagt ríka áherzlu á að fá nokkrar breytingar til bóta á þessu í samningum við hæstv. ríkisstj., og þetta sýnir enn fremur, að ríkisstj. sjálf viðurkennir þörfina í þessu efni. En þó nú sé svo komið, að hámark þessara lána er 200 þús. kr., sem út af fyrir sig er spor í rétta átt, er það að dómi okkar flm. engan veginn fullnægjandi lausn á þessu vandamáli. Það verður ljóst m.a., ef gerður er nokkur samanburður á lánum, sem veitt eru til ýmissa annarra framkvæmda og á öðrum viðskiptasviðum. Lán til íbúða í þéttbýli eru nú komin yfir 300 þús. kr., og þykir það þó naumast fullnægjandi, og lán til íbúða í sveitum munu vera lítið eitt lægri. L. mæla svo fyrir, að stofnlán til fiskiskipa, sem keypt eru til landsins, megi nema 2/3 kaupverðs, en til fiskiskipa, sem smíðuð eru innanlands allt að 75% kostnaðarverðs, og þetta mun vera þannig í framkvæmd, að lán út á eitt einstakt fiskiskip nemi oft svo millj. kr. skipti. Þess eru einnig dæmi, að veitt er lán út á eina stórvirka vél, sem nemur hærri upphæð en auðið er að fá úr veðdeild Búnaðarbankans til kaupa á jarðeign uppi í sveit. Þessi samanburður sýnir það ljóst, að það er ekki ofmælt, sem ég sagði í upphafi þessara orða, að hér er um að ræða mjög veikan hlekk í bankakerfinu, og þennan hlekk þarf vissulega að styrkja, og við, sem erum flm. að þessu frv., erum að gera tilraun til þess að fá því framgengt með flutningi þessa máls.

Með þessu frv. er kveðið svo á, að lán vegna jarðakaupa megi nema allt að 70% virðingarverðs þeirrar fasteignar, sem um er að ræða. En þá er gert ráð fyrir því, að í framkvæmd verði þessu hagað þannig, að lán, sem hvíla á hlutaðeigandi fasteign og veitt hafa verið úr Búnaðarbankanum vegna bygginga og ræktunar, séu tekin til greina í þessu sambandi, þannig að lán úr veðdeild megi lækka miðað við þetta hlutfall virðingarverðs, sem áhvílandi stofnlánadeildarlánum nemur. Höfum við flm. þá það í huga, að venjulega mun kaupandi eða viðtakandi fasteignarinnar taka að sér greiðslur þeirra lána, sem á fasteigninni hvíla.

Þá eru ákvæði í frv. um það, að lánstími þessara lána skuli vera 40 ár, lánin afborgunarlaus fyrstu 2 árin, og vextir af lánum vegna jarðakaupa skulu eigi vera hærri en 4%.

Til þess að gera veðdeildinni kleift að veita þessi lánakjör er hér lagt til, að tekjur veðdeildarinnar verði auknar að miklum mun frá því, sem nú er. Þær verði, árlegt framlag ríkissjóðs 20 millj. kr., framlag frá Stofnlánadeild landbúnaðarins, eins og nú er heimilað í stofnlánadeildarlögunum, 10 millj. kr., framlag skv. l. um skatt á stóreignir og svo vaxtatekjur. Enn fremur er mælt svo fyrir í frv., að til viðbótar þessu skuli Seðlabankanum skylt, ef ríkisstj. óskar þess, að lána veðdeild Búnaðarbankans nauðsynlega fjárupphæð vegna starfsemi hennar allt að 100 millj. kr. gegn 5% vöxtum, og veðdeildin endurgreiði Seðlabankanum þetta lán með jöfnum afborgunum á 20 árum.

Til viðbótar þessu er svo veðdeild Búnaðarbankans heimilað skv. frv. að gefa út nýjan flokk bankavaxtabréfa í því skyni, að þessi bankavaxtabréf verði hagnýtt, eftir því sem þörf krefur, til þess að greiða fyrir viðskiptum á því sviði, sem hér um ræðir.

Frv. nálega samhljóða því, sem hér er borið fram, hafa áður verið flutt í þessari hv. d., og munu ýmsir hv. þm. segja, að hér sé á ferðinni gamall kunningi. Afdrif þeirra frv. hafa orðið þannig, að þau hafa ekki sætt andmælum hér á þingi. Það virðist vera, að menn hafi viðurkennt gildi þessa máls. Þeim hefur verið vísað til n. með shlj. atkv., en nál. hafa síðan ekki borizt, þó að nægur tími hafi gefizt til að athuga málið.

Við viljum nú vænta þess, að betur takist til í þessu efni nú en verið hefur að minnsta kosti á 2 undanförnum þingum. Og við flytjum þetta mál nú enn í trausti þess, að því verði gaumur gefinn í þn., og að hún skili áliti um málið svo tímanlega, að það af þeim sökum geti orðið lögfest á þessu þingi.

Við flytjum þetta, af því að það er sannfæring okkar, að hér sé um nauðsynjamál að ræða, sem eigi megi draga lengur en orðið er að setja fullnægjandi löggjöf um. Við höfum það enn fremur í huga, að þetta þing er hið fyrsta eftir almennar kosningar, og svo hefur skipazt, að nokkuð margir menn, sem ekki áttu sæti á þingi á síðasta kjörtímabili, eru hér nú, og viljum við þá gefa þeim tækifæri til þess að athuga þetta mál og standa að framgangi þess. Og enn má minnazt þess, að aldrei er örvænt um, að það vaxi skilningur hjá þeim, sem áður hafa fjallað um þetta mál, og því sé nú tryggður greiðari gangur í gegnum þingið en reynzt hefur að undanförnu.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.