13.12.1967
Efri deild: 32. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í C-deild Alþingistíðinda. (2543)

70. mál, síldarútvegsnefnd

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frá því að síldarútvegsnefnd var sett á stofn í árslok 1934, hefur aðalskrifstofa nefndarinnar verið á Siglufirði, enda segir svo í hinum fyrstu l. um síldarútvegsnefnd frá 29. des 1934, að nm. eða varamenn þeirra skuli allir dvelja á Siglufirði yfir síldveiðitímann. Í reglugerð útgefinni 8. apríl 1935, sem byggð er á þessum l., er skýrt fram tekið, að sölustarfsemi n., sem þá var rekin undir sérstöku nafni, hafi heimili og varnarþing á Siglufirði. Þessi reglugerð er felld úr gildi með nýrri reglugerð útgefinni 23. júní 1952, en í hinni nýju reglugerð stendur berum orðum, að síldarútvegsnefnd skuli eiga heimili og varnarþing á Siglufirði.

Árið 1962 eru svo sett ný l. um síldarútvegsnefnd og l. frá 1934 afnumin. Í 6. mgr. 1. gr. þessara l. segir, að n. skuli hafa aðsetur sitt á Siglufirði á síldarvertíð norðanlands og nm. eða varamenn þeirra dveljast þar þann tíma, eftir því sem n. sjálf ákveður. Á síldarvertíð sunnanlands skuli n. með sama hætti hafa aðsetur í Reykjavík. Ný reglugerð hefur ekki verið sett eftir gildistöku l. frá 1962, og hefur því verið litið svo á, að reglugerðin frá 1952 væri enn í gildi og þar með talið ákvæði um heimilisfestu síldarútvegsnefndar á Siglufirði, enda hefur n. sjálf staðfest þann skilning. En hvað felst í því, að heimili opinberrar stofnunar skuli vera á tilteknum stað? Eðlilegast er að skilja það svo, að þar skuli vera meginstarfsemi stofnunarinnar, aðalbækistöð hennar og aðalskrifstofa.

Nú hafa þau tíðindi gerzt, að síldarútvegsnefnd hefur ákveðið að flytja aðalskrifstofu sína frá Siglufirði til Reykjavíkur. Hefur n. þegar sagt upp öllu starfsfólki sínu til þess að undirbúa þessa breytingu, sem ætlunin er að hrinda í framkvæmd að vori. Það liggur nærri að álykta, að ákvörðun síldarútvegsnefndar sé brot á ákvæðum reglugerðarinnar frá 1952 um heimilisfang á Siglufirði. En hvað sem lagalegum sjónarmiðum líður, er hitt alveg augljóst, að brottflutningurinn yrði mikið áfall fyrir Siglufjörð, og á ég þar ekki einungis við hagsmuni þeirra manna, sem misstu atvinnu sína af þessum sökum, heldur einnig við dvínandi trú fólksins á Siglufirði á gildi staðarins og framtíð hans, ef fyrirætlan þessi næði fram að ganga. Ákvörðunin um flutning aðalskrifstofunnar til Reykjavíkur er nýjasta dæmið um hina ríku tilhneigingu til þess að flytja allt til Reykjavíkur, hafa allt á sama stað, þannig að landsmenn geti ekki ráðið ráðum sínum eða fengið úrlausn mála sinna nema með því að sækja til höfuðborgarinnar.

Ég vil þó taka fram, að forráðamenn Reykjavíkurborgar hafa ekki verið hvatamenn þessarar þróunar. Aðstreymi til Reykjavíkur veldur þeim margvíslegum erfiðleikum, og þeir skilja vel, að efling landsbyggðarinnar er styrkur höfuðborgarinnar.

Fyrirætlan síldarútvegsnefndar um brottflutning aðalskrifstofunnar frá Siglufirði til Reykjavíkur er í algerri mótsögn við þá stefnu, sem felst í eflingu landsbyggðarinnar og þá einkum þeirra byggðarlaga, sem eiga í vök að verjast. Skýtur nokkuð skökku við, að á sama tíma og Efnahagsstofnunin er að semja Norðurlandsáætlun til að rétta hlut byggðarlaganna í þessum landsfjórðungi og leggja drög að stofnun nýrra atvinnufyrirtækja á þessu svæði, skuli opinber stofnun ákveða án gildra ástæðna að leggja starfsemi sína að mestu niður norðanlands og flytja hana í fjölbýlið við Faxaflóa. Sérfræðingar í vandamálum dreifbýlisins, bæði innlendir og erlendir, eru yfirleitt sammála um það, að eitt öflugasta ráðið til þess að styrkja byggðarlög, har sem fólksfækkun og samdráttur á sér stað, sé að efla opinberar stofnanir í þessum byggðarlögum og vinna að því að dreifa starfsemi ríkisstofnana út um landið.

Þetta frv., sem hér er til umr., er flutt af 4 þm. Norðurlands úr öllum stjórnmálaflokkum. Meginmarkmið frv. er að hnekkja ákvörðun síldarútvegsnefndar með því að lögfesta það ótvírætt, að aðalskrifstofa n. skuli vera á Siglufirði. Með frv. er einnig að því stefnt að ákveða það í l. í stað reglugerðar, að heimili og varnarþing síldarútvegsnefndar sé á Siglufirði. Jafnframt er í frv. fólgin niðurfelling þess ákvæðis gildandi l., að síldarútvegsnefnd hafi aðsetur á Siglufirði á síldarvertið norðanlands, en í Reykjavík á síldarvertið sunnanlands. Svo sem síldargöngum og veiðitímabilum hefur verið háttað síðustu árin, er hæpið að kenna síldarvertíð við tiltekinn landsfjórðung nema þá helzt Austurland. En í ákvæðum frv. um aðalskrifstofu og heimilisfang á Siglufirði felst það vitanlega, að þar verður síldarútvegsnefnd að koma saman við og við.

Frv. er að hálfu okkar flm. byggt á þeirri lágmarkskröfu, að hlutur landsbyggðarinnar haldist óskertur. Þegar dýpra er skyggnzt, er hér ekki um sérhagsmunamál Siglfirðinga eða Norðlendinga að ræða, heldur þá grundvallarhagsmuni landsbyggðarinnar að standa saman og spyrna fast gegn ásóknaröflum höfuðborgarvaldsins. Menn, sem telja það að öðru jöfnu lítt ákjósanlegt, að opinberar stofnanir flytji starfsemi sína utan af landsbyggðinni til Reykjavíkur, kynnu að spyrja, hvort í þessu sérstaka tilfelli sé ekki um einhverjar veigamiklar ástæður að tefla, sem réttlæti þennan brottflutning. Þessa spurningu er rétt að athuga og kryfja til mergjar þau rök, sem síldarútvegsnefnd og málsvarar hennar hafa fram að færa málstað sínum til framdráttar. Á fundi síldarútvegsnefndar 10. ágúst s.l. var gerð svofelld samþykkt:

„Síldarútvegsnefnd samþykkir að flytja aðalskrifstofu n. frá Siglufirði til Reykjavíkur eigi síðar en í lok núverandi reikningsárs 30. apríi 1968.“

Með þessari samþykkt telur n. sig verða við óskum frá Félagi síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi, en aðalfundur þess félagsskapar hafði nú í ár gert svofellda fundarsamþykkt með samhljóða atkv.:

„Aðalfundur Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi telur nauðsynlegt, að skrifstofu síldarútvegsnefndar í Reykjavík verði falin yfirumsjón með söltun Norður- og Austurlandssíldar, en skrifstofur verði þó áfram á Siglufirði og Austurlandi.“

Í þessari samþykkt felst beiðni um að svipta Siglfirðinga aðalskrifstofunni og flytja hana suður. Mér er ekki kunnugt um, hvar eða hvenær þessi aðalfundur Félags síldarsaltenda á Norður og Austurlandi var haldinn né heldur, hversu margir síldarsaltendur voru þar mættir og hvaðan þeir voru, sem fundinn sátu. Hitt er alveg augljóst, að Reykvíkingar eiga mikil ítök í þessum félagsskap, og í ljósi þess verður að skoða fundarsamþykktina. En frómum óskum frá þessum félagsskap er ekki unnt að sinna nema þær séu á gildum rökum reistar og skaði ekki hagsmuni annarra. Enn síður er hægt að taka til greina það sjónarmið, sem formaður þessa félagsskapar hefur boðað opinherlega, að Alþ. komi þetta mál ekkert við.

Staðsetning opinberra stofnana er löggjafaratriði, sem Alþ. hefur ávallt látið til sín taka, og ég vænti þess, að á því verði engin breyting.

Síldarútvegsnefnd hefur sent frá sér grg. um þetta mál, og fulltrúi Félags síldarsaltenda á Norður- og Austurlandi í n., Sveinn Benediktsson, hefur að undanförnu ritað greinar um málið í Morgunblaðið. Helztu rökin fyrir brottflutningi aðalskrifstofunnar, sem fram komu í grg. síldarútvegsnefndar og blaðagreinum Sveins Benediktssonar eru þessi:

1. Meiri hl. nm. í síldarútvegsnefnd er búsettur í Reykjavík eða nágrenni. 2. Margir síldarsaltendur á Norður- og Austurlandi eru búsettir á Reykjavíkursvæðinu. 3. Greiðari samgöngur og betra símasamband er við Reykjavík en Siglufjörð. 4. Sölustarfsemi n. sé undirbúin í Reykjavík, og þar fari fram samningaviðræður við erlenda síldarkaupendur. 5. Skrifstofan á Siglufirði eigi erfitt með afgreiðslu mála vegna fjarveru nm. Aðalskrifstofan þurfi að vera, þar sem n. hafi aðsetur, en það sé í Reykjavík.

Þessar röksemdir hafa ekki mikið gildi, þegar betur er að gáð. Það er breytingum undirorpið, hvar einstakir nm. eru búsettir og aðsetur stjórnarnefnda getur ekki miðazt við það, hvar meiri hl. mn. er búsettur hverju sinni. Síldarsöltun hér á landi fer aðallega fram norðanlands og austan. Því er það eðlilegt, að sú stofnun, sem hefur yfirumsjón með þessari atvinnugrein, sé í alvöru en ekki upp á punt staðsett á þessu landssvæði. Eigendur fjármagnsins í þessari atvinnugrein eru að vísu margir búsettir í Reykjavík og nágrenni, en það skiptir miklu minna máli. Aðstaða Siglufjarðar til að vera miðstöð síldarútvegsnefndar hefur stórbatnað á undanförnum árum. Þar er sjálfvirkur sími, sem er opinn allan sólarhringinn. Flugvöllur hefur verið gerður þar, og kaupstaðurinn er kominn í varanlegt vegasamband við þjóðvegakerfi landsins. Að vísu hefur Siglufirði hnignað sem síldarútvegsbæ að undanförnu vegna breytinga á síldargöngum, en þrátt fyrir það eru hvergi jafn margar síldarsöltunarstöðvar eins og á Siglufirði. Hluti Siglufjarðar í síldarsöltun mundi fljótlega vaxa á ný, ef síldin gengur norður fyrir land auk þess, sem uppi eru ráðagerðir á Siglufirði um kaup á skipi til flutninga á síld til söltunar af fjarlægum miðum.

Þá er á það að líta, hvort nauðsynlegt sé að hafa aðalskrifstofuna í Reykjavík, því að þar fari fram undirbúningur sölustarfsemi n. og viðræður við erlenda síldarkaupendur. Í þessu sambandi er rétt að rifja upp ákvæði reglugerðarinnar frá 1935, en þar segir í 1. gr., að síldarútvegsnefnd hafi með höndum sölu til útlanda og útflutning allrar léttverkaðrar saltsíldar, en í 2. gr. reglugerðarinnar segir, að þessi starfsemi n. skuli rekin undir sérstöku nafni og hafa heimili og varnarþing á Siglufirði. M.ö.o. sagt er Siglufjörður þegar á árinu 1935 gerður að sölumiðstöð fyrir útflutta saltsíld. Hvað er því til fyrirstöðu, að Siglufjörður geti gegnt þessu hlutverki enn í dag? Ég kem ekki auga á neinar gildar ástæður. Á það má t.d. benda, að sölufélag Kísiliðjunnar við Mývatn verður staðsett á Húsavík, og þaðan verður að annast sölu á framleiðsluvörum verksmiðjunnar út um allan heim. Sú villukenning má ekki festa rætur, að eigi sé unnt að selja héðan vörur til útlanda nema í gegnum Reykjavík.

Sú röksemd brottflutningsmanna, sem fljótt á litið virðist veigamest, er, að yfirstjórn verði ekki nógu samhent, nema aðalskrifstofan og n. hafi aðsetur á sama stað, þ.e.a.s. í Reykjavík. En mætti þá ekki alveg eins snúa dæminu við og flytja n. norður? Af hverju eru ekki fyrir hendi nægjanleg tengsl milli n. og aðalskrifstofunnar á Siglufirði? Það stafar einfaldlega af því, að síldarútveganefnd hefur árum saman ekki haldið neina fundi á Siglufirði og þar með brotið fyrirmæli l. um aðsetur á Siglufirði yfir síldveiðitímann norðanlands. Þessi vanræksla n. á síðan að verða grundvöllur þeirra ákvörðunar að flytja suður. Þessi grundvöllur er vægast sagt veikur. Talsmenn síldarútveganefndar gera þó sennilega of mikið úr nauðsyn þess, að n. haldi að jafnaði fundi sína á þeim stað, þar sem aðalskrifstofan er. Til er önnur hliðstæð ríkisstofnun, þar sem þetta virðist ekki koma svo mjög að sök, en það eru Síldarverksmiðjur ríkisins, sem hafa aðalskrifstofu á Siglufirði, þótt stjórn verksmiðjanna komi yfirleitt saman til funda í Reykjavík. Engar kröfur hafa komið fram um að flytja aðalskrifstofu Síldarverksmiðja ríkisins suður og vonandi eru þær ekki á döfinni.

Síldarútvegsnefnd segir, að þótt flytja eigi aðalskrifstofuna til Reykjavíkur, eigi eftir sem áður að reka skrifstofu á Siglufirði. Ekkert hefur komið fram um það opinberlega, hvernig sá skrifstofurekstur sé fyrirhugaður. Undanfarin ár hafa unnið á skrifstofu n. á Siglufirði 6—8 starfsmenn, en starfsmenn skrifstofunnar í Reykjavík hafa verið litlu færri. Menn, sem eru kunnugir þessum málum, hafa látið það álit í ljós við mig, að meiningin sé að fækka starfsmönnum skrifstofunnar á Siglufirði niður í 1—2 og fjölga starfsliðinu í Reykjavík að sama skapi. Ekki mundi slík breyting horfa til sparnaðar, því að síldarútvegsnefnd á stórt skrifstofuhúsnæði á Siglufirði auk framkvæmdastjórabústaðar, en þessar eignir yrðu ekki nýttar til fulls, ef aðalskrifstofan yrði flutt á brott.

Þá er á Siglufirði tunnuverksmiðja, sem síldarútvegsnefnd sér um rekstur á, eins og kunnugt er, og kemur þar fram enn ein ástæða til að breyta ekki staðsetningu aðalskrifstofunnar.

Ég leyfi mér að vitna til eindreginna og vel rökstuddra mótmæla gegn tilfærslu aðalskrifstofunnar frá fjórðungsráði Norðlendinga og bæjarstjórn Siglufjarðar, sem tekin er upp í grg. með frv, þessu. Enn fremur vil ég vitna til mótmælasamþykktar 10. þings Alþýðusambands Norðurlands, sem haldið var í októbermánuði s.l., en þingið telur það háskalega öfugþróun, að þær fáu stjórnarstofnanir atvinnulífsins, sem staðsettar eru úti á landsbyggðinni, séu fluttar til Reykjavíkur.

Við flm. þessa frv. álítum það eðlilegt, að síldarútvegsnefnd hafi auk aðalskrifstofunnar á Siglufirði skrifstofu í Reykjavík og á Austurlandi, en við mótmælum fyrirhuguðum brottflutningi sem tilræði við byggðajafnvægi í landinu og sem þarflausri tilfærslu að því, er hagsmuni síldarsaltenda varðar.

Á Siglufirði ríkir nú mikill samdráttur í atvinnulífinu, og þar er margt fólk atvinnulaust. Hér er því verið að ráðast á garðinn, þar sem hann er lægstur. Þessi áhlaupi verður að hrinda, en það verður einungis gert með því að tryggja það, að aðalskrifstofa síldarútveganefndar verði áfram á Siglufirði með óbreyttum verkefnum.

Herra forseti. Ég legg til, að frv, verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.