17.01.1968
Efri deild: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í C-deild Alþingistíðinda. (2548)

84. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hér gaf í sambandi við það, að fyrirhugað er að auka lánveitingar út 9 fiskiskip, enda þótt ekki sé ráðið, í hvaða formi þessi lán verða veitt. Ég er þeirrar skoðunar, eins og raunar ætti að vera óþarfi að taka fram og kemur fram í frv., að æskilegast væri, að Fiskveiðasjóður veitti þessi lán, en ekki aðrir sjóðir, vegna þess að ég tel, að það þurfi að koma þessu í það fast form, að þetta verði til frambúðar, að stofnlán séu veitt úr einum og sama sjóði allt að 85% af kostnaðareða matsverði bátanna, og þá eins og ég segi eðlilegt, að það yrði gert af hálfu Fiskveiðasjóðs. Ég hef aðeins heyrt á það minnzt, að hugsanlegt væri, að Iðnlánasjóður eða einhverjir slíkir veittu þetta. Það er auðvitað góðra gjalda vert, ef Iðnlánasjóður er þess umkominn að veita lán, en svo að maður drepi nú á atriði, sem kom fram í framsögu hjá mér um skipasmíðastöðvarnar, að Iðnlánasjóður þarf að sinna þeim, þá væri mjög æskilegt, að hægt væri. T.d. hafa skipasmíðastöðvarnar enga möguleika á að fá lán út á hráefni til skipasmiðanna. M.a. þess vegna teldi ég æskilegra, að Fiskveiðasjóður veitti þetta, þannig að það yrði ekki minnkaður möguleiki Iðnlánasjóðs á að veita lán til þessa iðnaðar, sem er allfjárfrekur og þarf á miklu að halda. Hann hefur þegar veitt fyrirgreiðslu á undanförnum árum, og það ber að þakka og meta, en eigi að síður býr þessi iðnaður, sem er eins og ég segi allfjárfrekur, við nokkuð nauman fjárhag og hefur verið í nokkrum þrengingum.