17.01.1968
Efri deild: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í C-deild Alþingistíðinda. (2549)

84. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það eru nokkur orð, sem ég vildi leggja í belg á þessu stigi málsins.

Í sjálfu sér er náttúrlega minnstur vandinn að ákveða að hækka lánsmarkið úr Fiskveiðasjóði úr 75% í 85%, og eins væri það lítill vandi að segja, að Iðnlánasjóður skyldi lána 10% viðbótarlán. Vandinn er að hafa fjármunina til þessara hluta, og það er það, sem við þurfum að gera okkur grein fyrir. Auk þess kom nokkuð fram í framsöguræðu 1. flm., sem er ástæða til að leiða hugann svolítið betur að. Hann sagði t.d., að skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar á Ísafirði hafi verið verkefnalaus, frá því að hún var tilbúin til að taka við verkefnum. Það er rétt, að þessi skipasmíðastöð hefur ekki tekið að sér neitt verkefni. En ég tel, samkvæmt þeirri þekkingu, sem ég hef á þessu máli, að það sé ofmælt, að hún hafi verið verkefnalaus, fyrr en þá kannske alveg upp á síðkastið. Spurningin var um það, hvort Marsellíus Bernharðsson teldi sig hafa aðstöðu til þess að gera föst tilboð eins og aðrar skipasmíðastöðvar, sem hafið hafa göngu sína hér, en vegna ýmiss konar fjárhagslegra örðugleika og við skulum segja eðlilegs hiks í upphafi í svona rekstri, mun hann ekki hafa talið sig reiðubúinn til þess að skapa sér verkefni með því að gera föst tilboð um ákveðna smíði tiltekinna gerða skipa. Þó er þetta einn af mestu framtaksmönnum, sem ég þekki hér í þessari grein, og hefur komið upp þessari stórmyndarlegu skipasmíðastöð með ágætistækjum, eins og réttilega var vikið að af framúrskarandi dugnaði, en líka með ákaflega góðri aðstoð peningastofnana í landinu og þá fyrst og fremst Útvegsbanka Íslands.

Ég held, að menn verði að gera sér grein fyrir því, að það fær ekki staðizt, að það hafi verið sýnt of mikið tómlæti af opinberri hálfu til þess að afla skipasmíðastöðvunum verkefna nema síður sé. Það fær engan veginn staðizt. Það hafa verið, eins og kunnugt er, byggð mjög mörg fiskiskip erlendis á undanförnum árum. Þau skip voru byggð erlendis á þeim tíma, þegar ekki var aðstaða til þess að byggja stálskip hér innanlands, og ríkisstj. eða bankarnir, fyrst og fremst Seðlabankinn, stuðluðu þá að því að útvega lán til þessara erlendu skipasmíða, meðan engir möguleikar voru til að byggja hér innanlands til þess að fullnægja eftirspurninni hjá útvegsmönnum og sjómönnum á þessu sviði.

Nú sé ég það sums staðar, að það er farið að ásaka stjórnarvöldin fyrir að hafa hjálpað of mikið til þess að láta byggja skip erlendis. Eftir að skipasmíðastöðvar fóru að rísa hér upp á allrasíðustu árum og með þeim hætti, að þeim var kleift að byggja stálskip, var hert á öllum reglum og gert örðugra um vik viðkomandi aðilum að byggja skip erlendis miðað við það, sem áður var. Það voru gerðar strangari kröfur til þess að stuðla að skipasmiðinni hér innanlands. Samtímis áttum við sjútvmrh. hlut að máli um það í viðræðum við viðskiptabankana, að jafnframt því sem innlenda smíðin gæti notið 75% lána á móti 67% lánum erlendis, væri tekið linara á því, að sá, sem smíðaði innanlands eða léti smíða fyrir sig innanlands, væri í upphafi tilbúinn að leggja fram 25% eða sinn hluta, eins og skilyrðislaust var krafizt af þeim, sem létu smíða fyrir sig erlendis, að þeir hefðu „deponerað“ hér sinum hluta, þ.e.a.s. 33% af væntanlegu verði. Þetta átti einnig að stuðla að því að gera samkeppnisaðstöðu íslenzku skipasmíðastöðvanna betri.

Í byrjun s.l. árs eða fyrri hluta þessa árs var töluvert álitamál, hvort íslenzku skipasmíðastöðvarnar væru samkeppnishæfar við erlenda skipasmíði að gæðum og verði, og það hefur alltaf verið mjög mikil viðkvæmni að ætla útveginum að kaupa innanlands frá vörur, a.m.k. ef þær væru ekki algerlega samkeppnishæfar að verði og gæðum, og á ég þar ekki sízt við íslenzka veiðarfæraiðnaðinn. Á þessum tíma hófu fyrirsvarsmenn skipasmíðastöðvanna viðræður við iðnmrn. um svokallaðar seríubyggingar á skipum, þ.e.a.s., að þeir fengju aðstoð til þess eða stuðlað væri að því, að skipasmíðastöðvarnar gætu byggt svo og svo mörg skip af sömu stærð og gerð. En það hefur alltaf þótt við brenna í sambandi við þau skipakaup, sem gerð hafa verið erlendis, að næstum því hver einasti maður hefur viljað hafa sitt eigið lag á þeim skipum eða það lag, sem skipstjórarnir hafa kosið að hafa. Auðvitað hefur þetta ódrýgt alla þá fjármuni, sem hafa farið til kaupa á þessum skipum. Í sumum tilfellum hefur það að vísu orðið til góðs, því að það hefur laðað fram nýjungar í skipasmíðinni og nýjar gerðir, sem síðan aðrir hafa farið eftir í stórum dráttum.

Þetta mál var rætt, eftir að skipasmíðastöðvarnar áttu viðræður um þetta eða fyrirsvarsmenn þeirra við iðnmrn. Það var auðvitað þá þegar augljóst mál, að ef átti að koma af stað seríubyggingum skipa hér, varð að gera sérstakar ráðstafanir til þess að afla Fiskveiðasjóði meira fjármagns en hann hafði þá yfir að ráða, ef hleypt yrði af stokkunum 6—7 eða jafnvel 8 skipum öllum smíðuðum hér innanlands, sem öll áttu þá, eins og var verið að tala um, að fá 75% af kostnaðarverði að láni eða þeir, sem keyptu þau. Þess vegna var það svo, að í viðræðum við rn. og innan iðnþróunarráðs, tók seðlabankastjóri, dr. Jóhannes Nordal, að sér að athuga þau viðhorf fjárhagslega, sem skapast mundu af því, að slíkum seríubyggingum yrði komið í gang, en fyrirsvarsmenn skipasmiðastöðvanna tóku að sér að eiga viðræður við útgerðarmenn til þess að laða þeirra hugi saman um það að vilja kaupa skip af vissum stærðum. Það mun svo hafa verið, að fyrirsvarsmenn skipasmíðastöðvanna leituðu töluvert viðræðna og samtals um þessi mál við útgerðarmenn, en í júlímánuði á s.l. ári voru komin nokkuð ný viðhorf á þessu sviði; vegna þess að það var ekki aðeins um að ræða samkeppnina við erlenda smiði, heldur horfði þá svo vegna þess, hversu höllum fæti útvegurinn var farinn að standa, að það mundi hvorki verða eftirspurn eftir smíðum skipa erlendis né innanlands. M.ö.o., eins og oft hefur verið áður, að í bili mundu menn halda að sér höndum við kaup á fiskiskipum, meðan þeir sæju, hvernig rættist fram úr bæði í sambandi við verðlag á erlendum mörkuðum, veiðar og annað slíkt.

Og þá var það, sem fyrirsvarsmenn skipasmíðastöðvanna leituðu enn til ríkisstj. um að aðstoða við verkefnasköpun, beinlínis við verkefnasköpun í bili, meðan svo stæði sem þá stóð. Og við sjútvmrh. áttum þá viðræður um þetta mál við stjórn Fiskveiðasjóðs, og þegar við ræddum þá um þann hugsanlega möguleika að auka lánveitingarnar upp í 85%, var tvennt, sem kom til athugunar í því sambandi. Í fyrsta lagi efuðust menn um, að það mundi nægja til þess, að eftirspurn skapaðist eftir skipunum, og í öðru lagi voru þá horfur á stöðu Fiskveiðasjóðs orðnar þær, að það voru engar líkur til þess, nema með einhverjum sérstökum ráðstöfunum, að hann hefði nokkra fjárhagslega möguleika til þess. Og nú, þegar flutt er þetta frv. hér, sem við erum að ræða um, er aðstaða Fiskveiðasjóðs svo, að honum liggur við gjaldþroti, vegna þess að það greiðast hvorki afborganir né vextir af þeim lánum, sem fyrir eru í íslenzka fiskiskipaflotanum. Það er þess vegna algerlega útilokað að gera ráðstafanir með löggjöf eða á annan hátt, nema gera sérstakar ráðstafanir í leiðinni, til þess að Fiskveiðasjóður hafi fjármagn til þess að mæta þeim viðbótarálögum, sem þarna er um að ræða, þar sem hann stendur í dag engan veginn undir þeim álögum og kröfum, sem gerðar eru til hans, fyrst og fremst vegna þess, að útgerðin hefur ekki bolmagn til þess að greiða sjóðnum. Ég skal ekki fara út í þá sálma. Það er því miður svo hryggileg mynd, að hún hefur ekki í annan tíma verri verið, en hún endurspeglar þá miklu erfiðleika. sem útgerðin hefur haft, fyrst og fremst á árinu 1967 og síðari hluta ársins 1966.

Á sama tíma, sem við ræddum þetta, var það atriði einnig rætt að skapa aðstöðu til þess, að allar stærri viðgerðir færu ekki út úr landinu, en á því vildi mjög bera og var veigamikið atriði. Enn fremur, að grandskoðaðir yrðu möguleikarnir á byggingu íslenzku strandferðaskipanna, sem þá var byrjað að tala um og voru ráðagerðir um að byggja og verið að undirbúa útboð fyrir. Ræti var um að gera sérstakar ráðstafanir, ef þyrfti, til þess að þau yrðu byggð hérlendis, og einnig þyrfti að athuga, ef við eða Alþ. og ríkisstj. ætluðu að hlutast til um byggingu skuttogara, en að athugun þess máls hefur verið unnið, eins og kunnugt er, af sérstakri n., hvort það væri þá ekki þar verkefni, sem hægt væri með jafngóðum hætti, að inna af höndum hér á landi eins að annars staðar.

Ég er að rekja þetta í framhaldi af því, sem ég sagði áðan. Það fær engan veginn staðizt, að það hafi verið sýnt tómlæti í verkefnasköpun fyrir íslenzkar fiskiskipasmíðar og nú upp á síðkastið, bæði fyrir jól, milli jóla og nýárs og upp úr áramótum, hefur ríkisstj. eða fulltrúar hennar verið á sífelldum fundum með þeim aðilum, sem helzt gætu lagt hér hönd á plóginn að styðja íslenzku skipasmíðarnar. Og þó að ekki hafi verið veitt nema 75% lán út á íslenzku skipin. verða menn einnig að hafa það í huga, að langflestir hafa fengið sér viðbótarlán einhvers staðar annars staðar, og í því sambandi legg ég einnig áherzlu á, að viðskiptabankarnir hafa bundið stórkostlega mikið fé í þessum íslenzku skipasmiðum, þó að það hafi ekki verið þeirra verkefni. En vegna þess að bæði hafa nú smíðarnar farið fram úr áætluðu verði eins og vera vill og útgerðarmennirnir ekki haft eins mikið bolmagn eins og þeir reiknuðu með, hefur þannig festst verulega mikið fjármagn hjá viðskiptabönkunum. sem raunverulega ættu ekki að lána til skipabygginganna, heldur fjárfestingarsjóðirnir,annaðhvort einn eða fleiri. Hér hefur þess vegna, held ég, af öllum aðilum, sem aðstoð gátu veitt, síður en svo verið sýnt tómlæti, heldur hefur verulega verið unnið að því að skapa skipasmíðastöðvunum verkefni og stuðla að því, að fiskiskip væru smíðuð hér innanlands og við værum sem allra fyrst sjálfum okkur nógir á þessu sviði. Mér er heldur ekki kunnugt um, að nú upp á síðkastið hafi verið gengið frá neinum skipakaupum erlendis. Það getur verið, að menn hafi fest kaup á einu eða tveimur skipum á þessum ári, ég skal ekki segja um það, en það er eins og menn sjá alveg gagngerð breyting frá því, sem áður var.

Nú er það svo, eins og hæstv. sjútvmrh. gerði grein fyrir, að til athugunar er hjá ríkisstj. að gera ráðstafanir til aðstoðar útveginum, sem m.a. mundi felast í verulegri aðstoð við Fiskveiðasjóð til þess að mæta þeim skakkaföllum, sem hann hefur orðið fyrir. Viðfangsefnið verður að afla fjár til að greiða svo og svo mikið af opinberri hálfu og leggja það þá á allan almenning með hverjum hætti, sem það kynni að verða, til þess að útvegsmenn geti staðið undir afborgunum og vöxtum af lánum sinum, og þessi stóri sjóður, sem hefur verið einn af okkar öflugustu stofnlánasjóðum, komist hreint og beint ekki í greiðsluþrot. Honum verði sköpuð aðstaða til þess að sinna áfram verkefnum sínum, a.m.k. að því marki, er tekur til skipasmiðastöðvanna.

Eftir gengisbreytinguna reyndust alveg sambærileg tilboð frá íslenzkum skipasmiðastöðvum í ríkisskipin í öllum aðalatriðum, og þá var það ákveðið að taka upp samninga við skipasmíðastöðina á Akureyri, Slippstöðina, að smíða bæði skipin. Sáralítill mismunur var á tilboði Slippstöðvarinnar og t.d. Stálvíkur hér fyrir sunnan, við Arnarvog, og gat vel komið til álita að smíða annað skipið fyrir norðan og hitt skipið fyrir sunnan, en menn voru þó sammála um bað að ákveða smíði beggja skipanna fyrir norðan. Það væri hagkvæmara að smíða bæði skipin á sama stað og sérstaklega hagkvæmara fyrir skipasmíðastöðina þar að geta fengið þannig verkefni í hendur að smíða tvö skip, og þar með væri séð fyrir verkefnum í þeirri stöð um tveggja ára skeið eða eitthvað þar um bil. Í þessu fólst auð vitað, að ríkisstj. mundi vilja beita sér fyrir því við banka og aðra aðila, að stutt væri við bakið á skipasmíðastöðvunum hinum um verkefnasköpun. Ég er nokkuð bjartsýnn um það, að fram úr því rætist, og ég hygg, að Fiskveiðasjóður hafi t.d. í gær ákveðið lánveitingu til eins fiskiskips. smíði á einu fiskiskipi í Stálvík, ekki mjög stóru, 130 tonna skipi. Mér er kunnugt um, að meira er í uppsiglingu. Mér er líka kunnugt um, að það þarf fljótlega að skapa áframhaldandi verkefni hjá skipasmíðastöðinni á Akranesi, og loksins vil ég taka það fram, að ég tel alveg höfuðnauðsyn að hefja skipasmíði í skipasmíðastöðinni á Ísafirði og mundi fyrir mitt leyti mjög vilja styðja að því og leggja hönd á plóginn, að þessum ágæta forstöðumanni og eiganda þessarar skipasmíðastöðvar, Marsellíusi Bernharðssyni, með aðstoð peningastofnana og annarra, yrði gert það kleift að hefja sína fyrstu stálskipasmíði.

Ég hef oft orðað það við Fiskveiðasjóð og bankastjóra þeirra banka, sem standa að þessum málum, hvort það mætti ekki skapa þá frumreglu, að þegar ný skipasmíðastöð er að byrja fyrstu smíðina, fengi hún einhverjar meiri og sérstakar fyrirgreiðslur fram yfir það, sem ella mundi verða, eftir að hún væri komin á fót, og þarna yrði fyrir höndum aðstaða. Það dregur auðvitað svolítið úr, að það er ekki mikil eftirspurn í bili. eins og ég þarf ekki að fara fleiri orðum um. En ég tel það eitt af viðamestu verkefnunum, og ég er sannfærður um það, að í bili dugar það ekki, þó að þarna væri boðið 85% lán. Það þarf meira að koma til, og ég held, að það mál yrði að takast upp á þeim vettvangi, eins og maður segir, að koma þeirri skipasmíðastöð af stað með sitt fyrsta verkefni, og þar eru auðvitað alltaf nokkrir örðugleikar, en í sambandi við smíði fyrsta skips skapast strax töluverð reynsla og það skapast æfing við stálskipasmíði hjá iðnverkamönnum á Ísafirði eða iðnverkamönnum, sem þangað mundu leita og gæfi slíkri skipasmíðastöð betri aðstöðu um framhaldið. En þarna er gömul og gróin skipasmíðastöð, sem áður fékkst við smíði tréskipa eins og kunnugt er, og hefur getið sér mikinn heiður og sóma í sínu starfi um langan aldur.

Ég skal nú ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég hef ekkert út af fyrir sig nema gott um þetta frv. að segja. Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að við erum því miður í mjög miklum erfiðleikum um þá fjáröflun, sem til þess þarf að byggja skipin hér innanlands, fjáröflun til skipasmíðastöðvanna. Eins og horfir í útveginum núna, óska fáir eftir byggingu fiskiskipa, en það eru líka aðrir möguleikar, sem ég hef vikið að, sem gætu skapað verkefni fyrir þessar stöðvar, en á öllum þessum sviðum held ég, að hafi verið haft vakandi auga og verði fylgt á eftir, a.m.k. af hálfu ríkisstj., með því afli, sem hún telur sér tiltækt í þessu sambandi.