31.01.1968
Sameinað þing: 32. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (2586)

78. mál, utanríkisráðuneyti Íslands

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti.

Ég hef hér ásamt 4. þm. Reykv. leyft mér að flytja á þskj. 148 svo hljóðandi till. til þingsályktunar:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta endurskoða löggjöfina um utanrrn. Íslands og fulltrúa þess erlendis. Með þeirri endurskoðun skal einkum stefnt að því að gera utanríkisþjónustuna hagkvæmari og ódýrari en nú. Endurskoðunin skal gerð í samráði við þingflokkana, og skulu niðurstöður hennar lagðar fyrir næsta þing.“

Ég tel mig ekki þurfa að rökstyðja þessa till. með mörgum orðum. Þau l., sem hér er um að tefla, lög nr. 31 1941, hafa staðið óbreytt að kalla í nær 30 ár. Á því tímabili hafa orðið stórkostlegar breytingar, ekki aðeins hér hjá okkur, heldur og í þeim skiptum, sem hér er um að tefla, skiptum milli ríkja almennt. Þar við bætist einnig, að þessi l. voru í öndverðu sett af nokkurri skyndingu og við óvenjulegar aðstæður. Það bar að með bráðum hætti, að við Íslendingar tækjum meðferð utanríkismálanna í okkar eigin hendur og af þeim atvikum, sem hér þarf ekki að rekja. Þá voru upphaflega sett brbl. um utanríkisþjónustu, af því að ekki varð hjá því komist að skipa þessum málum með l. Síðan voru þau brbl. lögð fyrir næsta Alþ., og þá voru í meðferð þ. gerðar á þeim nokkrar en þó ekki stórvægilegar breyt., og það er sú löggjöf í þessum efnum, sem við búum við enn þann dag í dag. Það er þess vegna sízt að undra þó í þessum l. skorti ýmis ákvæði, sem ástæða hefði verið til að taka í þau, og það er eðlilegt, að reynslan hafi sýnt það, að það vantaði í þau l. ýmis ákvæði, sem þörf hefði verið að hafa þar. Þess vegna er af þeirri ástæðu einnig brýn þörf á að endurskoða. þessa löggjöf og breyta henni í samræmi við það, sem áunnin reynsla sýnir að þörf er á.

En hér kemur annað til, sem hnígur í sömu átt og styður að því, að endurskoðun á þessum málum sé nauðsynleg. Og það er sú ástæða, að nú er varið til utanríkisþjónustunnar mjög háum fjárhæðum. Það er mikið þörf á því fyrir jafnfámenna þjóð og Íslendinga að stilla kostnaði við utanríkisþjónustuna í hóf. Að sjálfsögðu verður ísl. ríkið að rækja utanríkisþjónustu með þeim hætti, að við sé unandi, og búa sæmilega að þeim, sem við þau mál fást, en fram hjá því verður aldrei gengið, að þar verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti. En ýmsum þykir, að þar skorti nokkuð á, og að minnsta kosti er full þörf á, að fram fari rækileg athugun á því, hvort ekki sé hægt að spara nokkuð í utanríkisþjónustunni. Ég skal ekki tefja tímann með því að fara að tala hér langt mál um það eða rekja einstök atriði í því sambandi, en þess má þó geta, að á síðari árum hafa verið sett upp ný sendiráð, t.d. sendiráð í New York hjá Sameinuðu þjóðunum og sendiráðið hjá NATO. Þessi störf gátu áður annazt sendiherrar á nálægum stöðum, það er þess vegna eðlilegt, að það komi fram sú spurning í huga margra, hvort ekki væri hægt að spara á þessum liðum Og það eru ekki aðeins við Íslendingar, sem þurfum að gæta að því að spara í utanríkisþjónustunni. Það hafa t.d. í Norðurlandaráði verið uppi raddir um það, að Norðurlöndin gætu kannske haft sameiginlega utanríkisþjónustu á vissum stöðum og sparað með því fé. Af því hefur nú ekki orðið til þessa, og á því kunna að vera ýmsir agnúar. En vissulega er það atriði, sem ástæða er til fyrir okkur að gefa gaum.

Nú er því ekki að neita, að ýmsum þykir það ofrausn, að við höfum á Norðurlöndum 3 sendiráð. Að sjálfsögðu ber okkur að ástunda sem bezt samband við Norðurlöndin, en ýmsum virðist, að það mundi vera hægt að komast af með færri sendiráð þar. Og má í því sambandi benda á, að einn sendiherra kemst yfir að vera bæði sendiherra í Svíþjóð og Finnlandi, og gæti maður látið sér detta í hug, að slík tilhögun hentaði víðar að því er Norðurlöndin varðar. Á þetta bendi ég aðeins, að það er einmitt sérstök þörf á því að endurskoða öll þessi mál með tilliti til þess að reyna að koma við auknum sparnaði á þessum sviðum.

Ég hef nýlega lesið það eftir hæstv. fjmrh., að nú yrðum við að fara að spara og m.a. mundi nú þurfa að spara kostnað við utanferðir og ráðstefnuhald. Um það er ekki nema gott eitt að segja, og mætti kannske hafa verið gert fyrr, en sé það rétt, þá er líka hitt víst, að ástæða er til að gefa gaum að öllum þeim sendiráðum, sem nú er haldið uppi, og athuga, hvort ekki sé þar hægt að spara.

Það er margt fleira í þessum l., sem þörf er á að athuga. Í þessum l. eru ríkisstj. t.d. gefnar mjög frjálsar hendur um það, hvar hún skipar sendiherra og hvar hún skipar ræðismenn, og það er að dómi okkar flm. ástæða til þess að festa ákvæði um þetta efni í l. Lágmarkskrafa í því efni er auðvitað sú, að utanríkismálanefnd sé látin fylgjast með í þessum efnum, bæði þegar um það er að tefla að setja upp ný sendiráð og eins þegar um hitt er að ræða, að skipa sendiherra og ræðismenn.

Það má aðeins nefna í þessu sambandi, að það hefur komið deila upp nýlega um skipun eins ræðismanns, skipun ræðismanns í Jóhannesarborg í S.-Afríku, sem átti sér stað fyrir áramótin, eða að ég ætla 29. des., en 12. des. hafði verið birt viðtal við þennan mann, sem var þess háttar, að mörgum virtist það nokkuð einkennilegt að skipa hann ræðismann ísl. ríkisins svo skömmu eftir að það blaðaviðtal birtist. Hæstv. utanrrh. hefur lýst því yfir, að ég ætla í blaðaviðtali, að sér hafi ekki verið kunnugt um það blaðaviðtal, þegar skipunin fór fram 29. des. Ef nú sá háttur hefði verið hafður á um afgreiðslu þessara mála, sem vitaskuld er sjálfsagður, að þessi mál hefðu verið rædd í utanrrn., þá efast ég ekki um, að hæstv. utanrrh. hefði þar verið bent á þetta blaðaviðtal og honum þess vegna orðið kunnugt um það, áður en hann gekk frá þessari skipun. En um þessa einstöku skipun ætla ég hér ekki frekar að ræða. En þetta m.a. er líka ein röksemd fyrir því, að þörf sé á að endurskoða þessi l.

Að sjálfsögðu mætti margt fleira taka hér fram til rökstuðnings því, að þörf sé á að endurskoða þessa löggjöf, sem sett var, eins og ég áður hef sagt, af nokkurri skyndingu og áður en við Íslendingar höfðum í raun og veru við nokkra reynslu að styðjast í þeim efnum. En ég sé, að fundartíminn er búinn og læt þessi orð nægja að þessu sinni, en legg til, að þessari till. verði, eftir að umr. hefur verið frestað, en ég legg til, að umr. sé frestað vísað til utanrmn.