20.02.1968
Efri deild: 60. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (2617)

136. mál, fræðsla í fiskirækt og fiskeldi

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég stend hér ekki upp til að andmæla neinu af þeim rökum, sam fram hafa komið í grg. með þessari till., né heldur í ræðu hv. frsm. n., heldur miklu fremur til að lýsa ánægju minni yfir því, að þessi till. skuli vera hér komin fram, og þakka hv. landbn. fyrir það frumkvæði, sem hún hefur átt hér að því að reyna að leysa einn þátt af því stórmáli, sem margir telja, að sé, þ.e.a.s. gera Ísland að fiskiræktarlandi í verulegum mæli. En gild rök hafa verið færð fyrir því víða, að til þess séu miklir möguleikar, ef rétt er á haldið.

Ég hef flutt nú á hv. Alþ. ásamt þremur öðrum hv. þm. till. skylda þessu máli, sem hér er um að ræða, og hún er nú til athugunar hjá n., í Sþ. till. fjallaði um sérfræðilega athugun á hentugri gerð fiskeldisstöðva fyrir íslenzka bændur og um athugun á því, hvaða fjárhagsaðstoð væri nauðsynleg, til þess að fiskirækt gæti eflzt með eðlilegum hætti sem búgrein.

Það er staðreynd, að við Íslendingar erum langt á eftir öðrum þjóðum, sem svipaða möguleika hafa hvað fiskiræktina snertir, þrátt fyrir það þó að möguleikar okkar séu jafnvel meiri en flestra annarra. Það hefur t.d. verið bent á Dani í þessu sambandi, sem hafa þó að sjálfsögðu miklu minna og takmarkaðra vatnasvæði og minni möguleika. Þeir framleiða nú magn af laxfiskum upp á 11 þús. tonn á ári, og bjartsýnir kunnáttumenn meðal okkar, sem um þetta mál hafa lengi hugsað og fjallað, hafa staðhæft, að við gætum, ef myndarlega væri staðið að verki, aukið okkar framleiðslu í þessari grein upp í 20–25 þús. tonn á ári á næsta áratug eða jafnvel enn skemmri tíma og hefðum við þá samt ekki nýtt okkar möguleika nema til hálfs við það, sem Danir hafa gert. En þó að um miklu minni framkvæmdir væri að ræða og þróunin ekki eins ör og þessir bjartsýnu menn gera ráð fyrir, gæti þó fyrr munað, bæði fyrir þjóðarbúið í heild og fyrir íslenzka bændur, sem að sjálfsögðu verða stærsti aðilinn að því máli, sem hér ræðir um. En það er öllum kunnara en frá þurfi að segja, að okkar framleiðsla á laxfiskum er hverfandi lítil og raunar ekki svo, að hennar gæti að nokkru marki í þjóðarbúskap okkar. En ástæðurnar til þess álít ég, að séu fyrst og fremst tvær. Í fyrsta lagi skortur á þekkingu á þessari atvinnugrein. Sérfræðingar okkar í þessum málum eru færri en fingur annarrar handar enn þá sem komið er, og mjög fáir hafa á valdi sínu þá verkkunnáttu, sem til þarf, en auk sérfræðinga í þessari grein, ef hún á að geta þróazt eðlilega, þurfa einnig að koma menn með verkkunnáttu, sem mundi svara til í þessari grein iðnmenntaðra manna meðal okkar, talið hliðstætt nám að öðlast verkkunnáttu í þessu eins og í iðngreinum. En þessir menn eru enn þá sárafáir, þó að áhugamenn hafi komizt talsvert langt í þessum greinum, nokkrir áhugamenn, og raunar svo langt, að furða getur talizt, hvað þeim hefur tekizt að viða að sér af þekkingu og verkkunnáttu á þessu sviði. Að öðru leyti hefur svo fjárskortur að sjálfsögðu hamlað, en ég tel hann sem annað atriði í þessu. En að sjálfsögðu, ef þessi atvinnugrein á að geta þrifizt, þarf að sjá henni fyrir stofnlánum, þegar um skynsamlegar framkvæmdir er að ræða. Það mun að vísu vera lögmætt að veita lán til fiskræktarstöðva úr stofnlánadeild landbúnaðarins, en það hefur, eftir því sem ég bezt veit, mjög lítið komið til greina enn þá sem komið er. En slíkt þarf auðvitað að tryggja, jafnframt því sem þekking á þessum málum er aukin, því að hún er, eins og fram kom hjá hv. frsm. n., auðvitað algert grundvallaratriði.

Ég vil segja það, að bæði þessi till. og eins sú till., sem ég hef átt þátt í að flytja og er til umr. hér á Alþ. núna varðandi þessi mál, stefna báðar í sömu átt, þ.e.a.s. leysa þá tvíþættu byrjunarörðugleika, sem um er að ræða í þessari atvinnugrein, annars vegar þekkingaratriðið og hins vegar fjármálahliðina. Ég held, að þessar till. séu þess vegna fullkomlega samrýmanlegar, og bæri að vona, að þær verði báðar samþ. á þessu þingi.

Ég vil lýsa fullkomnu samþykki mínu við þessa till. svo langt sem hún nær, en ég tel þó, að hún hefði mátt vera ofurlítið víðtækari, og mundi því leyfa mér ásamt hv. 11. þm. Reykv. að flytja við hana brtt. eða öllu heldur viðbótartill. þess efnis, að stutt væri að því að gera svo fljótt sem við yrði komið ráðstafanir til þess, að ráðunautar í fiskirækt og fiskeldi yrðu starfandi t.d. í hverjum landsfjórðungi. Það er enginn vafi á því, að sé þessi grein tekin upp sem námsgrein í bændaskólunum eða á námskeiðum í tengslum við þá, mundi það auðvitað verða mikilsvert spor í þá átt að útbreiða smám saman undirstöðuþekkingu meðal bænda um þessa atvinnugrein. En það væri þó ekki hægt e.t.v. að gera ráð fyrir því, að þetta hefði nein risaskref í för með sér til þess að skapa þann þekkingargrundvöll, sem hér verður að byggja á og þyrfti að gera fleiri ráðstafanir í því sambandi. Ég álít, að það sé alveg hliðstæð nauðsyn á því, að ráðunautar væru starfandi í þessari atvinnugrein, eins og t.d. í jarðrækt eða búfjárrækt, eða það a m. k. hljóti innan tíðar að skapast þörf fyrir það, að slíkir ráðunautar væru starfandi, og væri létt fyrir þeirri þróun af opinberri hálfu, væri það vafalaust líka nokkur hvatning fyrir unga menn, sem hafa áhuga, að leita sér sérfræðilegrar þekkingar, sem ég er sammála hv. frsm. landbn. um, að við þurfum að öllum líkindum að sækja út fyrir landsteinana að svo komnu máli. En það væri í raun og veru alveg rökrétt framhald af því, að slík kennsla væri tekin upp við bændaskólana, sem þessi till. gerir ráð fyrir, að efnt væri til sérstakra starfa, efnt væri til starfa, sérstakra ráðunauta, sem gætu orðið bændum almennt, ekki aðeins þeim, sem héðan í frá ganga í bændaskólana, heldur öðrum bændum og öðrum, sem áhuga hafa á þessum málum og vilja að þeim vinna, að gagni og orðið þeim til halds og trausts varðandi skynsamlegar framkvæmdir í fiskiræktarmálum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa orð mín fleiri um þessa brtt., sem við flytjum hér, ég og hv. 11. þm. Reykv. Hún er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

Við tillgr. bætist nýr málsl., svofelldur: „Einnig að gera svo fljótt sem við verður komið ráðstafanir til, að ráðunautar í fiskirækt og fiskeldi verði starfandi í hverjum landsfjórðungi.“

Ég tók eftir því, að hv. frsm. n. gerði ráð fyrir því, að málinu yrði frestað, þótt það sé flutt af n., og get ég að sjálfsögðu mjög vel fellt mig við það, að n. athugi þessa till. milli funda. En hér er aðeins um eina umr. að ræða, svo að ég tel við hæfi, að ég biðji hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir till., að hún megi koma fyrir.