20.02.1968
Efri deild: 60. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (2619)

136. mál, fræðsla í fiskirækt og fiskeldi

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég get nú sagt eitthvað svipað og síðasti hv. ræðumaður. Ég er ekki kominn hér til þess að andmæla þessari till., sem hér er til umr., eða því, sem sagt hefur verið í sambandi við hana, og ekki heldur varðandi brtt. sem hér var verið að lýsa. En ég vildi eigi að síður leyfa mér við þetta tækifæri að segja nokkur orð, þegar rætt er um þetta merkilega mál, þ.e. fiskeldi og fiskirækt á Íslandi. Þetta er ung atvinnugrein, sem við erum aðeins nýbyrjaðir á. Það er ekki langt síðan við komum auga á það verulega, að hér gæti verið um stórmerkilegt mál að ræða Að vísu er veiðimálastofnunin eða veiðimálastjóraembættið. Það mun vera nærri 25 ára gamalt. En það er ekki fyrr en fyrir örfáum árum, að veiðimálaembættið fékk í rauninni starfsfé og hefur vitanlega enn þá of lítið starfsfé. Til veiðimála er nú varið nærri 9 millj. kr. Það hefur vantað starfskrafta, en á sl. ári var ráðinn ungur og efnilegur sérfræðingur nýkominn frá námi í þessari grein, og starfar hann nú með veiðimálastjóra, og getur stofnunin því nú lagt meiri fræðslu af mörkum en áður. Nokkrir ungir menn munu vera við nám erlendis í þessari fræðigrein, þannig að vonir standa til, að úr þessu rætist, þegar frá líður, að við fáum menn í landinu, sem kunna með þessi mál að fara. Og það er það, sem skiptir vitanlega mestu máli, að við fáum menn í landinu, sem hafa fullkomna þekkingu á þessu sviði.

Till. sú, sem hér er um að ræða, fjallar um það að skora á landbrh. að hlutast til um, að nú þegar eða svo fljótt sem verða má verði tekin upp við bændaskólana í landinu fræðsla um ræktun og eldi vatnafiska Ég býst ekki við, að þetta sé nú auðvelt að framkvæma að svo stöddu, m.a. vegna þess, að það mundi vanta kennslukrafta, ef það ætti að taka nú þegar upp fasta kennslu við bændaskólana í þessari grein. Hitt er annað mál, að það mætti stuðla að því, að það yrði fljótt, að vísindamenn í þessari grein héldu fræðsluerindi við bændaskólana og vektu áhuga manna á, hversu þýðingarmikil þessi grein er. Og ég tel, að þessir menn ættu jafnvel að koma víðar en í bændaskólana. Það þyrfti að vekja áhuga á þessari hagnýtu grein, ekki aðeins í bændaskólunum, heldur og í fleiri skólum Og það er enginn vafi á því, að það er of lítið af því gert að vekja áhuga ungmenna í skólum landsins á hagnýtum greinum, til þess að þau, þegar fram í sækir, kynni sér þessar greinar og kannske helgi sig þeim, þegar út í lífið kemur. En hvað verða má síðar meir, er svo annað mál.

Eins og fram hefur komið í annarri till., sem hefur verið flutt í Sþ. og lítillega var minnt á hér áðan, er þar talað um að hefja kennslu eða fræðslu um það að koma upp eldisstöðvum á heimilum. Þetta út af fyrir sig er ágætt og verður vonandi í framtíðinni. En nauðsynlegt er, að bændur, áður en þeir byrja á þessu, fái fullkomna fræðslu um þetta efni. Við skulum ekki líkja þessu saman við kornrækt, vegna þess að kornrækt á Íslandi á miklu erfiðara uppdráttar en t.d. í Danmörku. En fiskirækt á Íslandi ætti kannske miklu hægara uppdráttar en í Danmörku. Ég man nú eftir því, að einu sinni hneykslaði ég menn ákaflega mikið með því að vara við því, að bændur færu að rækta korn heima hjá sér, án þess að það væri vísindalega undirbúið. En enda þótt við stöndum vel að vígi með fiskirækt frá náttúrunnar hendi, verðum við að fara rétt að öllu og við megum ekki flýta okkur of mikið í þessum efnum. En það er að því leyti sérstaklega gott, að þessi till. er fram komin og aðrar till. um þetta efni, að það verður til þess, að það verður farið að ræða málið. Það getur orðið til þess að skapa aukinn áhuga, og það verður vitanlega til þess, að það verður hafizt handa um framkvæmdir, eins og ætlazt er til, um leið og fært þykir. Áhugamenn í fiskirækt eru margir í landinu og Landssamband stangveiðimanna hefur eðlilega mikinn áhuga á þessu og allt þetta er lofsvert. Þegar talað er um það, að Háskóli Íslands útskrifi sérfræðinga í þessu efni, er ég hræddur um, að það eigi nokkuð langt í land, en líklegt þykir mér, að við Háskóla Íslands verði tekin upp föst kennsla í þessum greinum og öðrum búgreinum á Íslandi og Háskóli Íslands útskrifi menn í hvers konar búrvísindum í framtíðinni.

Það er í rauninni ekki ástæða til að fjölyrða öllu meira um þessa till., en ég vil aðeins vekja athygli á því, að ég get ekki búizt við því, að það verði á næstunni, að ráðnir verði kennarar við bændaskólana til þess að taka þessa grein alveg sérstaklega m.a. vegna þess, að það vantar til þess menn, eins og sakir standa, en bændaskólarnir geta eigi að síður mjög fljótt tekið þetta mál upp á arma sína, og það má hefja fræðslu utan við bændaskólana í þessum efnum. Einu vísindamennirnir, sem við höfum í fiskirækt, eru veiðimálastjóri og aðrir fiskifræðingar, sem við getum náð til hér, og það ber vitanlega að leggja sérstaka áherzlu á það, að gefin verði út fræðslurit, að þeir flytji fyrirlestra við skóla og við ýmis tækifæri til þess að útbreiða þekkingu og áhuga í þessu efni.

Ég tel svo, herra forseti, að það sé eðlileg málsmeðferð á þessari till., eins og lagt hefur verið til, og tel þá ekki ástæðu til að segja meira að sinni.