02.04.1968
Efri deild: 80. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (2622)

136. mál, fræðsla í fiskirækt og fiskeldi

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Þegar þáltill. frá landbn., sem er á þskj. 288, var til umræðu í þessari hv. d. fyrr í vetur, lá hér einnig fyrir til umræðu brtt. á þskj. 309 frá Birni Jónssyni og Einari Ágústssyni.

Þegar umræðunni var frestað, átti landbn. kost á að leita umsagnar nokkurra aðila, sem þessi mál varða sérstaklega, og ræða og skoða þessar till. báðar. Þær voru sendar til umsagnar Búnaðarþingi, til Félags áhugamanna um fiskirækt og til veiðimálastjóra Búnaðarþing lagði til, að till. yrðu samþ. á Alþ., og sama álit kom frá Félagi áhugamanna um fiskirækt. Hins vegar taldi veiðimálastjóri þörf á nokkrum orðalagsbreyt., en till. taldi hann báðar tímabærar og mikilsvert að fá viljayfirlýsingu Alþ. um þessi efni.

Landbn. hefur að athuguðu máli valið þann kostinn að orða till. um og hefur með samþykki flm. brtt. fellt saman efni þeirra, og er niðurstöðum okkar nm. að finna á þskj. 378.

Við þá athugun, sem n. gerði um þessi fræðslumál, kom í ljós, að við bændaskólann á Hvanneyri hafa um nokkurt árabil verið flutt erindi um fiskirækt, og þótt sú fræðsla hafi verið í smærri stíl en skólastjórinn, Guðmundur Jónsson, hefði óskað, þótti landbn. þessarar hv. d. rétt og skylt að láta þess getið hér í umræðunum, sem vel hafði verið gert í þessu efni, og vildi láta það koma fram, að hér hefði þó verið unnið að þessu, þótt í smáum stíl væri.

Í þeirri till., sem hér var fyrr lögð fram og er að finna, eins og ég sagði áðan, á þskj. 288, er gert ráð fyrir því að taka upp fræðslu við bændaskólana, en eins og till. er nú orðuð á þskj. 378, er gert ráð fyrir því að orða þetta á þann hátt, „að fræðsla verði efld við bændaskólana,“ og er það í samræmi við það, sem ég áðan lýsti um starfsemi skólans á Hvanneyri.

Þá er í síðari hluta þáltill. á þskj. 378 skorað á. landbrh. að gera svo fljótt sem verða má ráðstafanir til, að ráðunautaþjónusta verði fyrir hendi, þjónusta, er stuðli að þekkingu almennings um það mikilsverða málefni, sem fiskirækt vissulega er. Hins vegar gat n. ekki fallizt á að kveða á um það í þessari till., á hvern hátt þeirri ráðunautaþjónustu yrði hagað í einstökum atriðum, eins og flm. till. á þskj. 309 gerðu þó ráð fyrir. Þessi starfsemi er ný af nálinni og því eðlilegt, að ráðh. leiti þeirrar tilhögunar, sem bezt er við hæfi hverju sinni. Eigi að síður taldi n. rétt, að viljayfirlýsing Alþ. lægi hér ljóslega fyrir. Hæstv. landbrh. hefur svo borið fram viðaukatill. við till. n., og er hana að finna á þskj. 408. Sú till. er í fullu samræmi við sjónarmið landbn. þessarar hv. d og veiðimálastofnunarinnar. Ég vil því, herra forseti, leggja til, að ályktunin á þskj. 378 ásamt brtt. á þskj. 408 verði samþykkt.