05.04.1968
Sameinað þing: 48. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (2629)

178. mál, ráðstafanir vegna hafíshættu

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., er 178. mál á þskj. 473, till. til þál. um ráðstafanir vegna hafíshættu. Flm. eru hv. alþm., sem til náðist úr eftirtöldum kjördæmum: Norðurl. e., Norðurl. v., Austurl. og Vestf. Ég vil sérstaklega taka það fram, að þeir 4 hv. alþm. úr þessum kjördæmum, sem mér tókst ekki að hafa samband við þegar frá till. var gengið, hefðu allir orðið meðflm., það hef ég athugað síðan ég lagði þessa till. fram. En þessir menn eru hv. 5. þm. Vestf., Birgir Finnsson, hv. 9. landsk. þm., Bragi Sigurjónsson, hv. 1. þm. Norðurl. v., Jón Kjartansson, og hv. 8. landsk. þm., Steingrímur Pálsson.

Till. er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að kjósa 5 manna n. til að athuga, hvaða ráðstafanir séu nauðsynlegar til að koma í veg fyrir, að skortur verði á olíu, kjarnfóðri og öðrum brýnum nauðsynjavörum, þegar ís leggst að landi og siglingar teppast með ströndum fram af þeim sökum. N. velur sér formann.“

Þessari till. fylgir svo stutt grg., sem ég ætla að leyfa mér einnig að lesa:

Flm. þessarar till. líta svo á að óhjákvæmilegt sé, að athugað verði, hvaða ráðstafanir þurfi að gera til að koma í veg fyrir, að á verzlunarstöðum í þeim landshlutum, þar sem hafíshætta er mest, verði skortur á brýnustu nauðsynjavörum, ef ís leggst að landi og siglingar teppast með ströndum fram, og er þá einkum átt við kjarnfóður og olíu. Benda má á, að sums staðar þyrftu olíugeymar að vera stærri en þeir nú eru, ef þar á að vera hægt að safna nauðsynlegum olíubirgðum.“

Á tveimur fyrstu áratugum þessarar aldar var hafís ekki sjaldséður hér við land, en frá 1918–1965 eða í 47 ár var hafís aldrei landfastur hér við land. Þó að 47 ár séu ekki langur tími af sögu landsins, sem við byggjum, er það nógu langt til þess, að sú kynslóð, sem landið byggir nú, man ekki ísavetra og það kalda veðurfar, sem þeim að jafnaði fylgir, nema þeir, sem eru komnir fast að sextugu og þar yfir. Af þessu leiðir, að þjóðin hefur verið um árabil og er enn því óviðbúin að mæta því ástandi, þeim erfiðleikum, sem mundu skapast, ef hafís fyllti firði og flóa á öllu Norðurlandi, mestan hluta Austfjarða og Vestfjarða um eða fyrir miðjan vetur og stæði fram á sumar, eins og mörg dæmi eru um á liðnum öldum.

Þess munu mörg dæmi, að hafís lægi hér við land hálft árið, og hann mun hafa verið við landið alla mánuði ársins nema októbermánuð. Árið 1902 var hafís landfastur í rúma 5 mánuði, árið 1876 71/2 mánuð, 1802 8 mánuði. Ég hef hér kort, sem sýnir hafís, hvernig hann hefur verið allt frá 1780 og fram til 1915. Hefur komið í ljós, að á þessum tíma hefur verið nítján sinnum hafís í ágústmánuði, í septembermánuði fimm sinnum, í nóvembermánuði sjö sinnum, en í maí og apríl hefur hann verið hér oftast, og er það á milli 70 og 80 sinnum eða annað hvert ár að meðaltali á þessum 145 árum. Hlýjasta tímabilið, sem vitað er, að komið hafi yfir landið, er tímabilið 1919–1965, en um þetta er vitað allt frá árinu 1600. 1930–1960 var meðalhitinn 4.2 stig, árið 1906 og 1907 3 stig eða rúmu einu stigi lægri, en á árunum 1865–1868 var meðalhitinn ekki nema 2.4 stig eða fast að því tveimur stigum lægri en á árunum 1930–1960. Á kaldari áratugum liðinna alda hefur hafís verið hér við land að meðaltali 3 mánuði á ári, og á árunum 1865–1874 var hafís landfastur öll árin. En frá 1873–1922 var hafís við landið að meðaltali tvo mánuði hvert ár.

Eins og áður segir, hefur sú kynslóð, sem nú byggir landið, ekki haft mikið af hafís að segja. Við höfum notið þess að lifa hlýjasta tímabil, sem yfir landið hefur komið um margra alda skeið. En höfum við ekki líka miðað við, að góðærið héldi áfram? Eru byggingar okkar miðaðar við 30–38 stiga frost langtímum saman? Höfum við olíugeyma á hafíshættusvæðinu, sem nægja mundu til 5 mánaða notkunar á ísavetri, og hefur verið séð til þess að fylla á þá olíu fyrir áramót hvern vetur? Hefur verið hugsað fyrir því á liðnum árum, að kjarnfóður og aðalnauðsynjar almennings, sem nægja mundu fram á sumar, væru komnar fyrir sama tíma á allar hafnir á hafíshættusvæðinu? Þessum spurningum verður að svara öllum neitandi því miður. Þess vegna er mikil hætta á því, að þjóðin geti goldið þess á eftirminnilegan hátt að hafa fengið svona langt góðæristímabil, ef hún hefur orðið andvaralaus að þessu leyti og fær svo á sig óviðbúin harðan og langan ísavetur, þegar siglingar teppast langtímum saman. Hvernig hefði farið nú í ársbyrjun, þegar hafísinn kom upp að landinu, hefði hann lokað öllu þá og setið fram á vor? Olíulaust og olíulítið var á flestum stöðum og kjarnfóður víðast hvar af mjög skornum skammti. Það hefði skapazt hreint neyðarástand. T.d. eru engin tæki til í landinu til að flytja alla þá olíu, sem Norður- og Austurland og Vestfirðir þurfa, jafnvel þó að reynzt hefði fært að halda vegum opnum.

Ísavetrum fylgja að jafnaði miklar frosthörkur. Norðanbeljandinn fer þá ekki yfir auðan sjó, heldur samfelldan ís, en eins og allir vita, er það sjórinn, sem dregur mjög úr kulda hans. Ef olíulaust yrði, mundi skapast mikil hætta á að stórtjón yrði á íbúðarhúsum, þar sem hætt er við, að vatns og hitalagnir mundu springa Hvernig fór hér í Reykjavík í 12–14 stiga frosti nú í vetur? En 1918 komst frostið hér í Reykjavík upp í 24 stig a.m.k., en fyrir norðan frá 30 og upp í 38 stig á Grímsstöðum á Fjöllum. Sums staðar á hafíshættusvæðinu eru olíugeymar aðeins fyrir mánaðarnotkun, á öðrum stöðum til tveggja til þriggja mánaða, og allir geta séð, að við svo búið má ekki standa Hér þarf að gera umbætur á áður en stórslys hlýzt af.

Eitt af þeim vandamálum, sem upp kunna að koma í hörðum ísavetri, ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir í tíma, er að koma í gang þeim tækjum og bifreiðum, sem ganga fyrir hráolíu. Öll okkar snjóruðningstæki ganga fyrir hráolíu að ég ætla og flestar stærri vöruflutningabifreiðar okkar. Það er talið, að dísilvélar þoli að jafnaði ekki nema 17–20 stiga frost nema á þeim sé sérstakur rafhitari til gangsetningar. En mér er sagt, að fæstar þessar vélar séu þannig búnar hér á landi. Stórt atriði í þessu máli er, hvernig olían er, sem á vélarnar er notuð í slíkum frosthörkum, en mikið mun vanta á að sú olía, sem nú er til sölu hér, sé nógu góð hvað þetta snertir. Þennan þátt málsins þarf sérstaklega að athuga og gera þær ráðstafanir, sem duga til að mæta miklum frosthörkum, því að allir geta séð, hvernig ástandið yrði í landinu, ef miklir erfiðleikar kæmu upp að þessu leyti með snjóruðningstæki og vöruflutningabifreiðar.

Árið 1965 varð hafís landfastur eftir 47 ára hlé. Það hefði átt að minna þjóðina á það að við getum alltaf átt von á hafís að landinu, og við megum aldrei vera ísavetri óviðbúin. Þessa tvo síðustu vetur hefur ísinn minnt á sig hvað eftir annað, svo að við höfum ekki heldur átt að gleyma honum. En þó fór svo, að þegar hafísinn kom nú í byrjun ársins, voru engar eða litlar birgðir af nauðsynjum á hafíshættusvæðinu. Nú er hafís búinn að loka siglingaleiðum fyrir norðan, austan og vestan, og þrátt fyrir það hlé, sem gafst, er langt frá því, að nægar birgðir séu nú til á þessu svæði, ef ísinn liggur fram á sumar, sem enginn getur sagt fyrir um. En við því má alltaf búast eftir fyrri ára reynslu.

Nú hefur það gerzt, að allir hv. alþm. í 4 kjördæmum flytja í sameiningu till. um það, að nú sé athugað, hvað gera þurfi til að við séum aldrei óviðbúin ísavetri. Það, sem ég tel, að fyrst og fremst þurfi að athuga, er þetta:

1. Að byggðir verði olíugeymar á öllum verzlunarstöðum á hafíshættusvæðinu, sem taki a.m.k. 5 mánaða birgðir.

2. Að búið sé að koma öllum nauðsynjum á þessa staði fyrir einhvern ákveðinn tíma, sem er talið öruggt, að ekki lokist fyrir af hafís.

3. Koma á fóðurbirgðastöðvum og þá fyrst og fremst með innlendu fóðri.

4. Að athuga, hvað þurfi að gera til þess, að gangsetning dísilvéla verði öruggari en nú er í miklum frosthörkum.

Mér er það ljóst, að þetta verður ekki gert án þess að það kosti töluvert, en ég vil benda á það, að það getur kostað þjóðina enn meira að gera ekki þessar ráðstafanir.