10.04.1968
Sameinað þing: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (2642)

24. mál, listasöfn og listsýningar utan Reykjavíkur

Jónas Árnason:

Herra forseti. Þegar till. þessi á þskj. 24 kom hér fyrst til umr. snemma á þingtímanum, lét ég í Ijós ánægju mína með það, að hún væri fram komin, en lagði jafnframt áherzlu á það viðhorf mitt, að hv. flm. væru að mínum dómi ekki nógu kröfuharðir fyrir hönd landsbyggðarinnar, ef svo mætti segja. Þörfin til úrbóta í félags- og menningarmálum landsbyggðarinnar væri það mikil, að með till. þeirra væri aðeins stefnt að einum þætti í því máli, lausn á aðeins einu tiltölulega veigalitlu atriði Ég þykist raunar vita, að hv. flm., sem báðir eru fulltrúar landsbyggðarinnar hér á Alþ., hafi ekki síður en ég gert sér ljósa þessa þörf, og ég get verið sammála þeim um það, að úrbætur á einu sviði séu þó skárri en alls engar úrbætur. Með listkynningu úti á landsbyggðinni sé stigið spor í rétta átt, þó að það sé sannarlega ekki stórt spor svona með tilliti til alls þess, sem skortir í opinberum stuðningi við félagslíf og menningarstarfsemi yfirleitt úti á landsbyggðinni. En samkv. þessu viðhorfi mínu legg ég ásamt öðrum þeim mönnum, sem sæti eiga í allshn., eindregið til, að till. þessi verði samþ. með þeim breytingum, sem gert er ráð fyrir á þskj. 498.

En í þessu sambandi væri ekki úr vegi að víkja enn að því vandamáli, sem er stærst og helzt þörf að leysa, ef félags- og menningarlíf úti á landsbyggðinni á að komast í sæmilegt horf, en það er rekstur félagsheimilanna. Það er einkennileg og þversagnakennd staðreynd, að þessi glæsilegu félagsheimili, sem risið hafa víðs vegar á landinu, hafa víða orðið til þess, því miður, frekar en hitt að draga úr heilbrigðu félagslífi og menningarstarfsemi. Ég veit, að slík starfsemi er víða með blóma, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á t.d. á Austurlandi, og ég vil nú svona fyrir hönd okkar Vestlendinga líka halda því fram, að hún sé með töluverðum blóma, t.d. í Borgarfjarðarhéraði En ég þykist þó mega fullyrða, að viða eða sums staðar a.m.k. hafi dregið úr heilbrigðri félags- og menningar­ starfsemi með tilkomu þessara glæsilegu félagsheimila, vegna þess að stjórn þessara félagsheimila og stjórnendur þeirra og aðrir þeir menn í viðkomandi byggðarlögum, sem helzt eru til forystu fallnir í félagsmálum og menningarmálum, mega aldrei um frjálst höfuð strjúka í basli sínu — oft og tíðum næsta árangurslitlu basli — við það að tryggja fjárhagsafkomu félagsheimilanna og standa í skilum vegna skulda, sem á þeim hvíla. Ég ræddi þetta mál allnokkuð, þegar till. þessi var hér fyrst til umr. núna í okt. eða nóv. og við ræddum það einnig í allshn., er við athuguðum till., og þá upplýstist það, að fyrir 4 árum var málið mjög ýtarlega rætt hér á Alþ. í sambandi við till. frá hv. 2. þm. Vestf. og þrem öðrum þm. — Er ekki hæstv. menntmrh. í salnum? Ég hafði nú gert honum viðvart um það, að ég ætlaði að beina til hans fsp. og vildi þess vegna vinsamlegast mælast til þess, að hann yrði beðinn að koma í salinn, ef hann sér sér það fært, ella mun botninn detta úr þessari ræðu minni Og það má helzt ekki koma fyrir.

Ég bið hæstv. forseta afsökunar á þessari töf, en ég tel, að hún sé ekki mér að kenna. Síðast þegar ég vissi, var hæstv. menntmrh. í símanum.

Hæstv. menntmrh. er kominn í salinn, og ég get haldið áfram. Ég hafði nefnt það, að það upplýstist í allshn., þegar þessi till. var þar til athugunar, að fyrir 4 árum var flutt hér á Alþ. till. frá hv. 2. þm. Vestf. og þremur öðrum þm., sem síðan var samþ. sem ályktun, og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram endurskoðun á gildandi l. um félagsheimili með það fyrir augum, að félagsheimilasjóður verði efldur og að eðlileg skilyrði heilbrigðs félags- og menningarlífs verði sköpuð í sem flestum byggðarlögum landsins. Jafnframt verði athugaðir möguleikar til að ráða fram úr þeim vandræðum, sem fjárskortur félagsheimilasjóðs hefur valdið einstökum félögum. Stefnt verði að því í hinni fyrirhuguðu löggjöf um félagsheimili, að forráðamönnum þeirra verði framvegis gert kleift að efla menningarlega fræðslu- og skammtistarfsemi í ríkara mæli en unnt hefur verið fram að þessu. Endurskoðuninni skal lokið fyrir samkomudag næsta reglulegs Alþ.“

Þetta var samþykkt á Alþ. 13. maí 1964. Og nú vil ég leyfa mér að beina til hæstv. menntmrh. þeirri fsp., hvað gert hafi verið til þess að framfylgja þessari 4 ára gömlu þál. um að efla félagsheimilasjóð og þar með heilbrigt félags- og menningarlíf úti á landsbyggðinni.