30.01.1968
Sameinað þing: 31. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (2649)

50. mál, stöðlun fiskiskipa

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, er tvíþætt, annars vegar ályktun um nákvæma rannsókn á því, hvort ekki sé hagkvæmt að staðla veiðiskip landsmanna í ákveðnar stærðir og gerðir með það fyrir augum, að þau verði ódýrari í smíðum fyrir innlendar skipasmíðastöðvar, hins vegar ákveðin ósk um, að einskis verði látið ófreistað til að auðvelda þegar reistum innlendum skipasmíðastöðvum samkeppni um smíði veiðiskipa okkar við erlendar skipasmíðastöðvar, svo að ekki komi til verkefnaskorts hjá þeim, en hann er nú einmitt fyrir hendi. M.a. verði athugað, hvort ekki sé hagfellt fyrir þjóðarbúið að hækka enn stofnlán til veiðiskipa, sem smíðuð eru innanlands, og auka þannig enn mun á lánum á skip smiðuð hér á landi og erlendis.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að á síðustu árum hafa risið upp hér á landi stálskipasmíðastöðvar, sem vel hafa verið gerðar úr garði og reynzt samkeppnisfærar um smíðagæði við erlendar skipasmíðastöðvar, sem útvegsmenn okkar hafa aðallega skipt við undanfarin ár. Hið opinbera, ríkisvald og bankar, hafa stuðlað að uppbyggingu þessara skipasmíðastöðva, enda ekki vansalaust jafnmikilli fiskveiðiþjóð og Íslendingar eru að smíða ekki sjálfir veiðiskip sín að meginhluta. Þar sem skipasmíðastöðvar okkar eru enn lítt tækni- og iðnþjálfaðar, svo nýjar sem þær eru, og nú hefur bætzt við, að útvegsmenn láta sér hægt um öflun nýrra skipa vegna erfiðleika í útgerðinni, hafa þær ekki reynzt samkeppnisfærar í harðnandi baráttu um fækkandi pantanir í smíði skipa við erlendar skipasmiðastöðvar og horfa því fram á algert verkefnaleysi, ef ekki er brugðið við til úrbóta og það tafarlaust. Trúlega gæti hið opinbera hjálpað innlendum skipasmíðastöðvum til að lækka skipasmíðakostnað sinn verulega, ef það hafði hönd í bagga með stærð og gerð við smíði skipa, þannig að stöðlun mætti koma við. Virðist það og óeðlilegt, svo mikla fyrirgreiðslu, sem hið opinbera veitir þeim, er ný skip fá smíðuð, að þeir geti valið sér hver og einn aðhaldslaust skipagerð að eigin geðþótta, svo að varla nokkur tvö skip séu smíðuð eins. Hlýtur slíkt að hækka smíðakostnað verulega.

Varðandi síðara atriðið, að auka lánsbilið milli skipa smíðaðra innanlands og utan innlendu smíðinni í hag, skal bent á, að það virðist fráleit stefna að eyða fyrst stórfé til að koma skipasmíðaiðnaði á fót í landinu, en gera síðan ekkert til að auðvelda honum fyrstu og erfiðustu sporin. Verður og að minna á, að það getur aldrei orðið nema tímaspursmál hjá fiskveiðiþjóð sem okkur, að endurnýja þurfi mörg skip í veiðiflotanum og þá skynsamlegt að greiða úr tímabundnum verkefnaskorti með aukinni fyrirgreiðslu við skipasmíðastöðvar og skipakaupendur, svo að eftirspurnin jafnist meira og atvinna, sem skipasmíðin skapar. Þarf ekki að benda á hve slíkt er nauðsynlegt atvinnulífi á þeim stöðum, þar sem skipasmíðin er.

Fyrstu árin eftir stríð voru smíðuð hér þó nokkur veiðiskip úr tré, allstór eftir því, sem þá gerðist, og reyndust þau sum hver hin ágætustu skip. þannig höfðu árin 1946–1947 um 425–450 manns í landinu atvinnu af skipasmíði og skipaviðgerðum, en næstu ár fækkaði verulega í þessum iðnaði, þar sem skipasmíði hérlendis dróst saman, unz öll smíði stærri skipa mátti heita úr sögunni árin 1950–1960. Enda komst tala þeirra, er skipasmíði og skipaviðgerðir stunduðu þessi árin, niður fyrir 300 manns. Með tilkomu viðreisnarstjórnarinnar tók skipaiðnaðurinn á ný að hugsa meir til nýsmíði skipa og þá eingöngu stálskipa, sem var ný iðngrein í landinu, og jafnframt tók bygging dráttarbrauta nýjan fjörkipp með viðgerðarþjónustu fyrir augum, en sívaxandi veiðiskipafloti landsmanna kallaði á hana í auknum mæli. Ríkisvaldið mun hafa miðað leyfi sín og fyrirgreiðslu við dráttarbrautir fyrst og fremst við það, að í hverjum landsfjórðungi kæmist upp viðhlítandi viðgerðarstöð fyrir veiðiskip af algengustu stærðum, en mun ekki hafa haft bein afskipti af byggingu skipasmiðastöðva. Þó vil ég álíta, að skipasmíðastöðin á Akureyri, sem ég þekki bezt til og er hið myndarlegasta fyrirtæki, hafi notið a.m.k. verulegrar hvatningar til uppbyggingar sinnar af hálfu hins opinbera og verið hugsuð sem einn þáttur í aukningu byggðajafnvægis. Á árunum 1962–1966 hefur þannig verið fjárfest í skipasmíðastöðvum, húsum þeirra og vélum um 76 millj. kr., en í dráttarbrautum á 5 stöðum 110 millj. kr. Til að fullgera 3 dráttarbrautanna þarf enn um 60 millj. kr. og til að fullbúa skipasmíðastöðina á Akureyri og Ytri-Njarðvíkum um 50 millj. kr. Það gefur að sjálfsögðu auga leið, að þegar fjárfest hefur verið svo mikið í nefndum mannvirkjum, er ekki hagkvæmt að láta þau ófullgerð og ónotuð, en að gagni fyrir þjóðarbúið kemst þessi fjárfesting ekki, ef skipasmíðastöðvarnar fá svo ekkert verkefni, vegna þess að snögglega tekur fyrir alla eftirspurn skipa eða skip innlendu skipasmíðastöðvanna reynast ekki samkeppnisfær að verði við skip smíðuð erlendis. Hér verður hið opinbera þá að koma til sögunnar með ráðstafanir, sem auðvelda hinum nýja skipasmíðaiðnaði okkar samkeppnina, svo sem að fyrirskipa stöðlun skipanna, glæða smíði þeirra innanlands með hagkvæmari lánum o.s.frv.

Síðan till. sú, sem hér um ræðir, var flutt, hafa þeir atburðir gerzt, sem ugglaust auðvelda innlendu skipasmíðastöðvunum eitthvað samkeppni við hinar erlendu, og á ég þá við gengisbreytinguna. En þó tel ég sjálfsagt, að ríkisvaldið gæti hér vel að og greiði fyrir hagsemi skipasmíða okkar með hvers konar tiltækum ráðstöfunum, svo að sem flest veiðiskipa okkar og a.m.k. smærri kaupskip verði einmitt smíðuð hérlendis. Er augljóst, að skilningur ríkisvaldsins á þessu er fyrir hendi, því að rétt fyrir jólin ákvað ríkisstj. að semja við Slippstöðina á Akureyri um smíði tveggja strandferðaskipa, og vil ég nota tækifærið og þakka þá ákvörðun fyrir hönd Akureyrar og Akureyrarbúa. Betri jólagjöf, ef svo má að orði komast, varð þeim varla færð. En þá eru eftir aðrar skipasmíðastöðvar, sem skortir verkefni. Eftir er að hugsa fyrir því, að þeim sé gert kleift að annast eðlilega endurnýjun veiðiskipaflota okkar. Það er vel, að þessi mál virðast nú almennt mjög hugleidd. Þannig liggur fyrir Ed. þmfrv. um aukna fyrirgreiðslu Fiskveiðasjóðs við innlenda skipasmíði, og nýverið hefur komið fram og verið birt opinberlega áskorun Málm- og skipasmíðasambands Íslands þess efnis, að Alþ. semji áætlun um smíði 50 skipa innanlands á næstu 4 árum, og er tilgangurinn að sjálfsögðu tvíþættur, að sjá fyrir eðlilegri endurnýjun og aukningu veiðiskipaflotans og veita skipasmiðaiðnaðinum næg verkefni, að nýta sem bezt þau veiðiskip, sem við þegar eigum og falla ekki í þá freistni að kasta þeim of fljótt frá sér sem úreltum og ónothæfum. Mér er að sjálfsögðu ljóst, að þáltill. sú, sem ég fylgi hér úr hlaði, er engin úrlausnartill., heldur aðeins vísun til hugsanlegrar leiðar eða ábending um úrræði. Mér er ljóst, að ríkisstj. hefur mikið hugleitt þessi mál og látið gera ýmislegar athuganir varðandi þau, en samþykkt þessarar till. mundi undirstrika hug Alþ. til þessara mála og vonandi hraða því, að þau yrðu tekin afgerandi úrlausnartökum, t.d. með hliðsjón af till. eða áskorun Málm- og skipasmíðasambandsins og þeirri athugun, sem ríkisstj. hefur þegar látið gera. Slíkt teldi ég mikilsvert.

Ég vil svo leyfa mér að loknum þessum umr. að óska þess, að þeim yrði frestað og málinu vísað til allshn.