30.01.1968
Sameinað þing: 31. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (2665)

47. mál, undirbúningur þess að gera akfært umhverfis landið

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Mig langaði til þess að standa upp og lýsa stuðningi mínum við þetta þarfa mál, sem hér hefur verið reifað stuttlega, en ég hef leyft mér að leggja fram brtt. um að gera þá rannsókn, sem fara á fram, ofurlítið víðtækari en gert er ráð fyrir í sjálfri tillgr., sem sagt að bæta við athugun á því, hvort mögulegt væri að leysa þetta vandamál með flugferju yfir vatnasvæðið. Með þessu á ég við, að unnt gæti verið að láta annað hvort þyrilvængju eða svifnökkva taka við farartækjum þeim, sem kæmu að vatnasvæðinu að austan eða vestan, og flytja yfir þær torfærur, sem enn eru óbrúaðar. Ég tel rétt, að athugaður sé kostnaðurinn við þessa leið og hef þá sérstaklega í huga, að e.t.v. mætti nota þessa aðferð þangað til varanlegum brúm og vegum hefur verið komið yfir sandinn. Það, sem ég hef í huga í þessu efni er, að þarna þyrfti að vera hægt að lyfta annars vegar stærstu venjulegum fólksbílum og hins vegar nokkru hlassi af flutningavögnum. Þar væri þó sjálfur vagninn skilinn eftir, en aðeins tekinn pallurinn með þeim flutningi, sem þyrfti að koma áfram yfir svæðið. Ég hef gizkað á að þarna þyrfti að vera hægt að flytja segjum 3–4 smál. Þetta mundi strax bæta úr töluvert brýnni þörf. Það mætti hugsa sér, að þeir, sem kæmu þarna akandi í eigin vögnum, ækju inn í eins konar gagnsætt búr, þannig að farþegar nytu útsýnisins yfir jökulinn og sjóinn meðan þeir væru á ferðalaginu. Þetta held ég, að yrði nýlunda í flutningamálum, sem gæti dregið marga menn að þessari leið yfir sumarmánuðina.

Á þessu stigi málsins eru það aðeins tilmæli mín, að n. sú, sem kemur til með að fjalla um málið líti jafnframt á brtt. mína, og ég vonast til þess, að athugun á þessari hlið málsins megi einnig fara fram, þegar málið verður tekið til þeirrar athugunar, sem þátill. gerir ráð fyrir.