30.01.1968
Sameinað þing: 31. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (2666)

47. mál, undirbúningur þess að gera akfært umhverfis landið

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti Það er rétt, sem hv. 1. flm. þessarar till. sagði hér áðan, að þetta væri mikilsvert mál, sem mun áreiðanlega hafa almenningsfylgi í landinu. Og það má segja, að þegar langt er kormið að brúa vatnsföllin sitt hvorum megin við Skeiðará, hafi landsmenn færzt nær því marki að fá hringveg en menn hafði dreymt um fyrir nokkrum árum eða áratugum. Það er því engin spurning um það, að þessi hringvegur kemur. Skeiðará mun verða brúuð. Þetta mun verða gert akfært. Spurningin er hins vegar um það, hvenær þetta verður gert kostnaðarins vegna og af tæknilegum ástæðum.

Nú ber verkfræðingum saman um það yfirleitt, að þetta sé vel mögulegt að gera, en þeim ber ekki saman um, hversu kostnaðurinn muni verða mikill, einfaldlega vegna þess, að þeir hafa ekki enn komið sér niður á það, hvernig hagkvæmast muni vera að leysa málið.

Það er rétt, sem hér var minnzt á áðan, að á undanförnum árum hefur farið fram talsverð athugun á þessum málum, og sérstaklega síðan 1964 hefur verið fylgzt með jökulhlaupum í ánni og ýmsar athuganir gerðar til undirbúnings þessu máli, og um þetta hef ég iðulega rætt við vegamálastjóra og fleiri verkfræðinga hjá vegagerðinni. Og á sl. hausti, ég held, að það hafi verið í septembermánuði, skrifaði ég vegamálastjóra bréf til frekari áréttingar á þessu, þar sem lagt var fyrir hann að hraða athugunum og undirbúningi á þessu máli, eftir því, sem mögulegt væri, til þess að það gæti legið sem fyrst fyrir, á hvern hátt væri heppilegast að leysa þetta mál, sem vænta mætti, að flestir eða allir þm. mundu vilja sameinast um og landsmenn allir vilja, að kæmist í framkvæmd sem fyrst. Vegamálastjóri tók við þessu bréfi, en ég man, að hann sagði: Það tekur áreiðanlega nokkurn tíma að athuga þetta, og það tekur meiri tíma en eitt ár, man ég, að hann sagði Ég veit ekki, hvort hægt er að ljúka því á tveimur árum, sagði hann, eða hvort það tekur 3 ár. En þetta tekur ekki stuttan tíma, og í tilefni af því, að í þál. er gert ráð fyrir, að athuguninni verði lokið, þegar næsta vegáætlun verður gerð, vil ég aðeins vekja athygli á þessu, að sá maður, vegamálastjóri, sem á að stjórna athugunum á þessu og sem hefur fyrirmæli um að flýta því eins og mögulegt er, telur að þetta sé of skammur tími og hann hefur sagt það í minni áheyrn, eftir að þessi till. var komin fram. En ég get huggað hv. 1. flm. og aðra flm. að þessari till. og alla alþm. með því, að það verður ekkert dregið af með það að hraða athugunum í þessu máli.

Það verður að flýta sér mátulega í athugununum. Það verður að gera sér grein fyrir því, á hvern hátt sé heppilegast að leysa málin. Hér eru margar kvíslar, sem verður að brúa, og það er vitað, að áin breytir sér og getur breytt sér. Hvað er til ráða til þess að fyrirbyggja það, að vatnsflaumurinn fari utan við brýrnar og að hlaupinu loknu standi brýrnar á þurru? Þetta er vandinn, og það verður að finna ráð til þess að leysa vandann. Það ráð verður ekki fyrir hendi nema það fari fram ýtarlegar rannsóknir og athuganir þeirra manna, sem bezt verður til þess trúað. Ég tel, að þetta þurfi að koma hér fram, og ég er hræddur um það, að við getum ekki, þegar næsta vegáætlun verður samin, væntanlega næsta haust eða næsta vetur, haft fyrir okkur áætlanir í þessu máli, sem við getum byggt nægilega mikið á, því miður.

Það má segja, að til viðbótar því, sem lagt hefur verið fyrir vegamálastjóra að framkvæma, sé í þessari till. áskorun um fengna leið til fjáröflunar. Það er sem sagt algerlega ógert, enda þótt kannske hugurinn hafi eitthvað reikað í þá átt, hvernig það mætti verða. Það er bezt að viðurkenna það, að það er alveg óleyst mál, og ég er ekki í dag tilbúinn til þess að benda á það, með hverjum hætti það megi verða, en það held ég, að við hljótum allir að verða sammála um, að það verður að afla sérstaklega fjár í þessu skyni til viðbótar því, sem fer til venjulegra framkvæmda á vegum vegasjóðs, það er enginn vafi, það þarf að gera. En ég geri ráð fyrir því, að áður en menn telja tímabært að gera beinar till. til fjáröflunar, verði talið eðlilegt, að það liggi fyrir áætlun um kostnað, enda þótt við vitum í dag, að kostnaðurinn hlýtur að verða mikill, áreiðanlega margir tugir millj. Ég geri ráð fyrir því, að mönnum finnist eðlilegt, að það liggi fyrir heildaráætlun um gerð verksins og kostnað áður en farið er að gera till. um fjáröflunina.

Í rauninni hef ég ekki meira um þetta að segja á þessu stigi málsins. Þetta er stórmál, sem vissulega væri gaman að kæmist í framkvæmd sem allra fyrst. Það hefur þjóðhagslega þýðingu að tengja landshlutana saman, og vissulega er það hollara fyrir ýmsa, sem fara í ferðalög og láta það eftir sér að kynna sér fyrst sitt eigið land, fegurð þess og tilbreytni, frekar en að eyða mestu af sínum frítíma erlendis, og eyða þannig erlendum gjaldeyri að óþörfu.

Í sambandi við þá brtt., sem hér hefur verið flutt, vil ég segja það, að ég tel sjálfsagt, að hún verði samþ. og að athugun fari fram á því, sem í henni felst, enda þótt ég búist ekki við því, að það verði talin nægileg lausn á þessu máli að framkvæma það, sem ætlazt er til með henni, auk þess sem þessi farartæki eru ákaflega dýr í rekstri En það er bezt að fullyrða ekkert um þetta fyrr en athugun hefur farið fram. Það mætti segja, að í 2 ár eða svo eða í 3 ár, á meðan verið er að vinna að því, sem á að koma, mætti leysa eitthvað með þessu, ef það kostar ekki allt of mikið, en athugun ætti að leiða það í ljós.