17.04.1968
Sameinað þing: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (2672)

47. mál, undirbúningur þess að gera akfært umhverfis landið

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti Ég vil þakka n. fyrir þá vinnu, sem hún hefur lagt í þetta mál. Ég hef ekki getað haft samband við flm. alla, þeir eru svo margir, en ég dreg það ekki í efa, að þeir fallast á þá brtt., sem hv. n. hefur flutt, og eru henni þakklátir fyrir þá afgreiðslu, sem fyrirhuguð er á málinu. Mér finnst ástæða til að telja, að það muni verða töluvert merkur áfangi í þessu mikla máli, að Alþ. ályktar nú vonandi þá stefnu, sem þál. gerir ráð fyrir.

Ég vil leggja áherzlu á það í þessu sambandi, sem segir í umsögn vegamálastjóra, að strax næsta sumar verður að gera vissar athuganir og rannsóknir, en það mundi tefja málið mjög, ef þeim yrði ekki komið í framkvæmd. Það eru þær rannsóknir, sem gerð er grein fyrir og kallaðar eru fyrsti rannsóknarkostnaður. Ég vil líta svo á — ég veit, að hv. fjvn. lítur þannig líka á málið — að samþykkt þessarar till. sé einmitt m.a. til að leggja áherzlu á að tafarlaust verði lagt í þessar undirbúningsathuganir, og fjármagn í þær er ekki svo mikið, að það þurfi á nokkurn hátt í vegi að standa, að slíkt geti orðið framkvæmt. Þetta er aðalatriðið í bili, því þessar athuganir verður að gera fyrst án tafar og síðan, eins og segir í umsögn vegamálastjóra, á grundvelli þess, sem þá kemur í ljós, að athuga framhald rannsóknanna.

Hér er mikið í húfi, að þetta verði gert í sumar, áður en næsta vegáætlun verður samin, því það hlýtur að fara nokkuð eftir niðurstöðunum, sem verða í sumar, hvað sett verður í næstu vegáætlun um þetta mál varðandi frekari rannsóknir og undirbúning.

Svo vil ég segja að lokum, að þó að vegamálastjóri telji ekki hægt að gera ráð fyrir því, að þetta lán komi inn á vegáætlun, þ.e.a.s. sjálfar framkvæmdirnar, fyrr en 1972 til 1976, þ.e.a.s. ekki á næstu vegáætlun heldur þar næstu, þá hef ég samt sem áður ekki sleppt þeirri von, að þetta geti orðið framkvæmt fyrir 1100 ára afmæli byggðar í landinu. Sannast að segja er þessu þannig varið, eins og kom raunar fram í viðtali, sem hæstv. samgmrh. átti í sjónvarpinu um þetta mál, og sumir hv. alþm. hafa máske heyrt, að þegar á annað borð er búið að gera sér grein fyrir því, hvernig á að standa að þessu máli. þyrftu framkvæmdir ekki að standa mjög lengi yfir, alls ekki mörg ár.

Ég endurtek svo þakkir mínar til n. og vil mæla með afgreiðslu hennar, og ég veit, að ég geri það fyrir munn okkar allra, sem að þessu stöndum.