17.04.1968
Sameinað þing: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (2673)

47. mál, undirbúningur þess að gera akfært umhverfis landið

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Mér finnst, eins og fram kom við fyrri umr. þessa máls, aðstandendur þessara tillagna vera of jarðbundnir, og það sama finnst mér koma fram bæði í umsögn vegamálastjóra og í nál. Þó er ég þakklátur fyrir, að það er orðað þannig, að það gefur minni brtt. möguleika til að verða athuguð — að menn megi svífa yfir þessum lausa sandi og þeirri botnleysu, sem er þarna á suðaustanverðu landinu, í staðinn fyrir að eiga við hugsanlega gagnslausa vegagerð.

Ég er sammála þeim röksemdum, sem vegamálastjóri færir fram fyrir því, að það sé ekki unnt að koma samgöngubótum á yfirborði jarðar inn í næstu vegáætlun, en ég sé enga ástæðu til þess, að ekki væri hægt fyrir þann tíma að koma fram þeirri till., sem felst í brtt. minni, sem ég bar hér fram við fyrri umr. málsins, um að athuga möguleikana á því að leysa vandamálið með flugferju yfir vatnasvæðið. Nú sé ég, að hæstv. samgmrh. er hvergi nærri, en forsrh. er hér staddur, og vil ég biðja hann að vera svo vinsamlegan að skila til hæstv, samgmrh., að ég treysti honum manna bezt til að láta athuganir fara fram einmitt um þetta atriði, og þegar hann hefur sannfærzt um réttmæti tillagna minna, treysti ég honum einnig til að koma þeim í framkvæmd, jafnvei fyrr en till. gerir ráð fyrir. Og út frá því sjónarmiði mun ég greiða þáltill. atkv.